02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

262. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er leitað eftir heimild til að auka hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum úr 26.8 millj. dollara í 82 millj. dollara. Er þetta í samræmi við samþykktir stjórnar bankans um aukningu hlutafjár.

Hlutafjáraukningin er í tvennu lagi: annars vegar almenn aukning í hlutfalli við núverandi hlutafjáreign. Hluti Íslands er þar 25.1 millj. dollara. Af þeirri fjárhæð þarf að yfirfæra strax 314% eða 188 þús. dollara. En 614%, jafnvirði 1 694 þús. dollara, þarf að greiða inn á reikning Alþjóðabankans í Seðlabankanum á nokkrum árum. Miðað er við að það gerist á sjö árum og yrði þá árleg greiðsla jafnvirði um 270 þús. dollara á því gengi sem gildir á greiðsludegi. Það er samkomulag í ríkisstj. milli stjórnarflokkanna að afla nauðsynlegs fjár á fjárlögum í samræmi við þetta. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að þessi háa fjárhæð, sem hér er leitað heimilda fyrir, er ekki raunveruleg hvað snertir öflun fjár á fjárlögum, nema 63/4% og svo 3/4% sem ég lýsti hér áður. Það er um sérstaka aukningu hlutafjár að ræða þar sem hverju ríki er heimilt að gerast áskrifandi að 250 hlutabréfum sem nú eru að nafnverði 30.2 millj. dollara samtals. Engar greiðslur eru samfara þessum hluta aukningarinnar. Þótt hlutafjáraukning sé 55.2 millj. dollara þarf ekki að greiða nema jafnvirði 1 882 þús. dollara, sem dreifist á mörg ár, eins og ég tók fram áður. Meginhluti hlutafjárins, sem ekki er greiddur, stendur til tryggingar skuldbindingum bankans í framtíðinni, en í því felst í reynd engin áhætta.

Þess gerist varla þörf að gera Alþingi grein fyrir starfsemi Alþjóðabankans og gildi hennar fyrir Íslendinga. Íslendingar hafa verið aðilar að Alþjóðabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum frá stofnun þeirra rétt eftir seinustu heimsstyrjöld. Hlutverk þessara stofnana er að efla framfarir og bæta lífskjör í aðildarríkjunum og auka alþjóðaviðskipti og samstarf í peningamálum. Hafa Íslendingar tvímælalaust haft mikið gagn af þátttöku í þessu alþjóðasamstarfi.

Fram til ársins 1973 tóku Íslendingar 10 lán hjá Alþjóðabankanum með hagstæðum kjörum. Heildarupphæð lánanna var 47 millj. dollara og var lánsfénu varið til ýmissa orkuframkvæmda, vegagerðar, hafnarframkvæmda og landbúnaðar. Síðustu lánin voru veitt árið 1973 vegna Sigölduvirkjunar og síðar hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn eftir eldsumbrotin í Vestmannaeyjum.

Síðan 1973 hafa Íslendingar ekki fengið nein lán hjá bankanum, enda hefur bankinn takmarkað lánveitingar sínar eingöngu við þau lönd sem búa við bág kjör. Alþjóðabankinn og systurstofnun hans, Alþjóðaframfarastofnunin, veita nú aðeins lán til þróunarlandanna og eru þessar stofnanir langþýðingarmestu alþjóðastofnanir sem vinna á sviði þróunaraðstoðar. Fjármagn Alþjóðabankans hefur verið lánað til ýmiss konar framkvæmda, svo sem orkuvera, járnbrautarlagna, vegaframkvæmda og hafnargerða. En á undanförnum árum hefur Alþjóðabankinn aukið útlán til landbúnaðar, húsnæðismála, menntamála og ýmiss konar félagslegra framkvæmda sem mikil þörf er fyrir í þróunarlöndunum.

Aukning á hlutafé Alþjóðabankans er nauðsynleg til þess að bankinn geti sinnt hinni sífellt vaxandi fjármagnsþörf þróunarlandanna. Má því líta á fyrirliggjandi frv. sem stuðning Íslands við þróunarlöndin, en á því er nú vaxandi skilningur, að okkur beri að auka framlög okkar á því sviði. Um frekari upplýsingar vísa ég til aths. við frv. og til þeirrar skýrslu sem þar kemur fram um lánveitingar sem við höfum notið frá Alþjóðabankanum á sínum tíma. Ég vil einnig undirstrika það, að Alþjóðabankinn er rekinn, eins og kunnugt er, í mjög nánum tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og við Íslendingar eigum mikið undir því, eins og önnur aðildarríki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að hafa náin og traust samskipti við þessar stofnanir ef nauðsyn ber til, af ástæðum sem allajafna geta orðið eins og okkar atvinnulífi og efnahagslífi er háttað. Það geta t.d. orðið sveiflur í okkar sjávarafla, eins og kunnugt er, það geta orðið miklar verðsveiflur á erlendum mörkuðum og þetta getur orðið til þess, að við þurfum að grípa til þeirra heimilda og þeirra réttinda sem við eigum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til þess að fá það skyndilán meðan illa árar hjá okkur. Þetta var gert á árunum fyrir 1970. Þá voru tekin stór gjaldeyrislán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, eins og kunnugt er, til þess að við gætum haldið hér uppi frjálsum gjaldeyrisviðskiptum.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til að málinu verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.