02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3538 í B-deild Alþingistíðinda. (3088)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég kom fyrst inn á Alþingi haustið 1959 og nú á síðustu dögum og vikum hef ég, að mér finnst, lifað mestu niðurlægingu Alþingis sem átt hefur sér stað allt þetta tímabil. Ég vil reyndar fullyrða að svo sé allt frá því að lýðveldi okkar var stofnað. Það er illa farið þegar til þess er hugsað að efalaust hafa margir haft trú á að stjórnarmyndunin 1980 yrði til að efla veg Alþingis og auka virðingu almennings fyrir störfum þingsins svo og þeirra sem þar starfa, hv. alþm. Síðustu atburðir á stjórnmálahimninum hafa þó ekki orðið til þess.

Hæstv. utanrrh. felur sérfróðum aðilum að kanna það verk sem Alþingi fól honum að leysa af hendi, þ.e. byggingu olíugeyma í Helguvík, með það fyrir augum að framkvæmdir gætu hafist þar í ársbyrjun 1983. Þessi undirbúningsverk höfðu ekki komist í gang þegar hæstv. félmrh., formaður Alþb., sá sig neyddan til að bregða fæti fyrir þær rannsóknir sem áttu að hefjast, og undir þetta tók að sjálfsögðu hæstv. iðnrh. Utanrrh. lét hafa það eftir sér, að ákvörðun iðnrh. varðandi Orkustofnun í þessu sambandi væri á þann veg að hann væri að beita valdi sínu í annarlegum tilgangi, hefði framið valdníðslu.

Þessu var vart lokið þegar næsti þáttur í þessum pólitíska farsa hófst.

Blönduvirkjunarsamningur kemur til umr. á Alþingi og einn þingflokksformanna, hv. þm. Páll Pétursson, hefur þau orð um að þessum samningum sé böðlað áfram með óeðlilegum hætti, bændum sé hótað, hreppsnefndarmenn hundeltir og leiguliðum hins opinbera sagt hvernig þeir eigi að haga sér. Í Morgunblaðinu í dag er vegna þessa máls vitnað til Egils sögu Skallagrímssonar. Hann ætlaði að ríða til þings með kistur sínar tvær fullar af ensku silfri. Hann ætlaði að bera kisturnar til Lögbergs þegar þar væri fjölmennast og sá síðan silfrinu yfir og meðal þingheims. Taldi gamli maðurinn að þá mundu nokkrar hrindingar og pústrar verða sem líklega mundu enda á að allur þingheimur berðist. Þetta ástand minnir vissulega á það sem er að gerast á Alþingi þessa daga, því að í kjölfar ákvörðunar um Blönduvirkjun og steinullarverksmiðju hefur hæstv. ríkisstj. borið á borð þm. sitt silfur. Það eru hin ýmsu lagafrumvörp sem eiga að vera dúsur ráðvilltra þm. sem hafa ofar í sínum huga og í sinni stefnu hina staðbundnu föðurlandsást en hag þjóðarinnar í heild. Þegar einnig er haft í huga að til viðbótar því, sem ég hef þegar sagt, hefur verið borið á borð fyrir okkur hér á hv. Alþingi að mútum hafi verið beitt norðanlands í formi heykögglaverksmiðju og spennistöðvar, tekur maður óneitanlega minna mark á stórum orðum hv. þm. Páls Péturssonar, enda er framhaldið eftir því, þegar hann lætur þau orð út úr sér hér að það sé alveg sama um arðsemi fyrirhugaðra fyrirtækja, og á ég þá að sjálfsögðu við staðsetningu umræddrar steinullarverksmiðju. Það er eitt sem hv. stjórnarþm. og ráðh. eru sammála um, að til Reykjavíkur skuli ekkert fyrirtæki fara, en hins vegar skuli slegist um staðsetningu þeirra á hinum óarðbærari stöðum með það hugfast að það sé silfur Egils, silfur ríkisstj., sem verið sé að útdeila. Og steinullarverksmiðja, ylræktarver og kóróna þessa alls, sykurverksmiðja, sem öllum ber saman um að sé svo fjarri allri skynsemi að engu tali tekur, slíkt er ekki traustvekjandi fyrir Alþingi og alþm. Um traust á hæstv. ríkisstj. ætla ég að segja sem minnst.

Í raun er þetta inngangur að mínu máli, sem ég hef hér utan dagskrár, því að mér virðist svo sem enn eitt málið sé nú komið upp á yfirborðið sem lykli heldur sterkt af silfri Egils. Ég á hér við síðustu skipakaupin til landsins, þegar keypt er um það bil 10 ára gamalt skip frá Englandi, skuttogari, sem kemur með furðulegum forsendum til landsins svo að ekki sé meira sagt.

Í málgagni hæstv. sjútvrh. og viðskrh. í dag, Tímanum, gefur sjútvrh. þá yfirlýsingu að hann hafi verið plataður í þessu máli, en viðskrh. segir að hann telji ekki ástæðu til að gera neitt frekar í þessu máli, jafnvel þótt þessi yfirlýsing liggi fyrir frá formanni flokksins, hæstv. sjútvrh. Nú verða sjálfsagt aðrir hv. þm. til að ræða þessi skipakaup frekar frá þessu sjónarhorni, enda ekki mitt meginmál í ræðustól að þessu sinni þótt ég fari hins vegar örfáum orðum þar um, sérstaklega þó þessa yfirlýsingu hæstv. sjútvrh.

Það kom fram á Alþingi í gær hjá hv. 1. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, að hann talaði um framsóknarlag á gömlu skipi sem nýkomið er til landsins. Það hefði verið soðið framan af stefni þess svo að mál stæðust og skipið teldist eftir það bátur, en ekki togari. Með ekki mjög miklu ímyndunarafli má álíta að stefnt skuli að því að skip, sem er skuttogskip, yrði eins bæði framan og aftan. Virðist því ekki fjarri lagi hjá hv. 1. þm. Vestf. að tala um framsóknarlag á slíku skipi sem yrði þá eins til beggja enda, opið í báða enda í sjó niður, en óneitanlega læðist sá grunur að manni þegar umrætt skip, sem ber nafnið Einar Benediktsson, kemur til landsins með sínu sérstaka framsóknarlagi, enda ber hofmóður yfirlýsingar hæstv. viðskrh. því best vitni.

Það er tvennt sem ég vil ræða um sérstaklega. Það hefur verið mín skoðun og ég veit að svo er um framámenn í röðum sjómannasamtakanna og útgerðarmanna líka og sú skoðun talin réttmæt, að Aldurslagasjóður fiskiskipa, sem er aldurstrygging fiskiskipa, sé sjóður sem eigandi getur sótt bætur í þegar hann vill hætta rekstri skips, enda hefur hann greitt iðgjald af þessari tryggingu. Það má því telja eðlilegt að eiganda skips sé frjálst að ráðstafa tryggingabótum til að kaupa nýtt skip ef bæturnar koma úr þessum sjóð.

Úreldingarsjóður fiskiskipa er hins vegar fjármagnaður með hluta af útflutningsgjaldi og má því líta á þá fjármögnun sem framlag sjávarútvegsins, þ.e. útvegsmanna, sjómanna og fiskverkenda. Tilgangur þessa sjóðs er að auðvelda útvegsmönnum að hætta rekstri úreltra skipa með styrk til viðbótar styrk úr Aldurslagasjóði í þeim tilgangi að minnka fiskveiðiflota okkar. Úreldingarsjóði er í sjálfu sér ekki ætlað að örva innflutning skipa eða stuðla að endurnýjun fiskiskipa nema að hluta. Ég vil benda á að sú stefna hefur verið viðurkennd sem eðlileg að í stað skipa, sem farast, skuli smíða ný skip eða afla nýrra skipa, og sú stefna er viðurkennd meðal hv. þm. að þetta eigi helst að gerast hér heima til að styrkja íslenskan iðnað. Nú hefur hins vegar brugðið svo við í tíð núv. hæstv. sjútvrh., að allt virðist eiga að koma tvöfalt ef skip farast eða úreldast, bæði nýbygging og einnig innflutningur- og þá á gömlu skipi í nær öllum tilfellum. Verður að álita að þegar hæstv. sjútvrh. gefur slíkt leyfi beri honum skylda til að láta skoða hvers konar skip er um að ræða, hvort það uppfylli íslenskar kröfur o.s.frv., hvernig búnaði þess sé háttað. En þegar þetta umrædda skip kemur hingað heim kemur í ljós að það getur í hæsta lagi haft 9 eða 10 manna áhöfn. Samningar milli sjómanna og útvegsmanna hljóða hins vegar á þann veg, að á þessu skipi eigi að vera 14 manna áhöfn.

Það hefur enginn dregið í efa að á okkar minni togskipum, sem hafa fram til þessa með vitorði hæstv. sjútvrh. og hæstv. dómsmrh. brotið vökulögin svokölluðu, er ærin vinna þegar unnin og æðilangur vinnutími hjá áhöfn þótt um 14 manna áhöfn sé að ræða. Nú er hins vegar stefnt með leyfinu til kaupa á þessu skipi í skjóli hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. að enn frekari vinnuþrælkun en fyrir er og þekkist þegar. Það kemur auðvitað ekki þessu máli við þótt útgerðarmaður umrædds skips hafi hugsað sér að kaupa sér frið með einhverjum yfirborgunum þeirrar áhafnar sem hann hefur í huga að ráða á þetta skip. Þetta gerist á sama tíma og kvartanir berast til viðkomandi yfirvalda dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár í sambandi við brot sem eiga sér stað á vökulögunum og um þá óhemjuvinnu sem hvíli á þeim mönnum sem á okkar skuttogurum vinna.

Ég veit að hv. þm. þykir sumum hverjum nokkuð leiðigjarnt hjá mér að vera sífellt að minnast á þessi mái. Ég minni þó enn á að um leið og pólitískir stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. í verkalýðshreyfingunni hafa átt margs konar kaupskap við suma hæstv. ráðh. um svokallaða félagsmálapakka hafa sjómenn verið skildir eftir að mestu leyti í þeirri gjafakeppni viðkomandi ráðh. Vinnuvernd og hollusta á vinnustað og annað þess háttar hvílir ekki þungt á hæstv. sjútvrh. þegar um íslenska sjómenn og vinnuaðstöðu þeirra er að ræða.

Í síðustu kjarasamningum unnu einstakir ráðherrar markvisst að því að brjóta lögmæta vinnustöðvun sjómanna á bak aftur, og í skjóli ríkisstj. eru hálaunaðir embættismenn fengnir til að sanna þá hættu sem þjóðfélaginu sé búin af nokkrum skattfríðindum sjómanna, þeirra sem helst mega ekki á blað þegar um félagslegar framfarir er að ræða hjá landverkafólki, þeirrar stéttar sem skilað hefur í hafið árlega um margra áratuga skeið að meðaltali 20 mannslífum vegna slysa í starfi.

Ég skal ekki þreyta hv. þm. með því að benda á allar þær yfirlýsingar sem hæstv. sjútvrh. og reyndar fleiri hæstv. ráðh. hafa haft um stofnstærð okkar fisktegunda, um hættuna af offjölgun skipa, um fjölgun skrapdaganna, um fjölgun þeirra daga, sem skipin verða að bíða í höfn eftir því fá að hefja veiðar að nýju, og um leið minnkandi framleiðni þessa atvinnuvegar og um leið stórminnkandi tekjur sjómanna og minnkandi tekjur útgerðarmanna. Samfara þessu leyfi ég mér að benda á ítrekaðar yfirlýsingar í svokölluðum stjórnarsáttmála, þar sem má heita að á annarri hverri síðu sé vitnað til nauðsynjar á aukinni framleiðni í hinum ýmsu atvinnuvegum. Bendi ég þá hv. þm. aftur á þau frumvörp sem liggja nú á borðum okkar og hafa verið kölluð dúsur til ákveðinna þm., til ákveðinna kjördæma í sambandi við þau átakamál sem eiga sér stað innan hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkanna.

Ég vil leyfa mér í tilefni af þessum skipakaupum að óska eftir því bæði við hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh., að þeir gefi Alþingi skýrslu um aðdraganda þessara kaupa. Ég skal ekki fara frekar út í það hér sem hefur þegar komið fram í blöðum í dag og öðrum fréttum. Það hefur verið dregið mjög í efa að þeir, sem flytja skipið inn, eigendur skipsins, séu lögmætir eigendur þeirra réttinda sem kölluð hafa verið svo í sambandi við að fá skip í stað eldri skipa. Skal ég ekki fara nánar út í það vegna þess að ég vonast til að það komi fram hjá hæstv. ráðh. En það er ljóst, að hæstv. viðskrh. hefur gefið leyfi til þess að eigendur skipsins tækju 67% af kaupverði þess að láni í erlendri mynt. Spurning mín til hans er til viðbótar, vegna þess að því hefur ekki verið mótmælt hér á Alþingi sem komið hefur fram, að hann hafi útvegað erlend lán til að flytja skip á milli staða hér á Íslandi, hvort þessir sömu aðilar hafi fengið frekari fyrirgreiðslu um erlend lán til að fjármagna þau 33% sem á vantar. Mínar spurningar til hæstv. sjútvrh. eru þessar: Sendi hann lýsingu á þessu skipi til Siglingamálastofnunarinnar og fékk hann álit Siglingamálastofnunar á því, hvort skipið væri búið til að sigla hér á Íslandsmiðum að vetrarlagi og í ís, hvort það væri búið til að veita áhöfn þau hlunnindi um borð, getum við kallað það, sem ber samkv. samningum sem í gildi eru á milli samtaka útgerðarmanna og sjómanna? Ég vil jafnframt spyrja hæstv. sjútvrh. hver svör siglingamálastjóra hafi verið þegar leitað var til hans. Ef ekki hefur verið leitað til hans vil ég gjarnan fá að heyra það frá sjútvrh., hver það sé í hans rn. eða utan þess sem ráðleggur honum slík kaup.