04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég hef í sakleysi mínu verið að halda því fram við nemendur og kennara þarna suður frá, að það gæti ekki verið, að fjmrh. vissi af þessu, og það gæti ekki verið, að hann hugsaði í þessum farvegi. Nú virðist komið í (jós að ég hef haft á röngu að standa.

Ef það er ekki ljóst vil ég segja frá því, að tvöfaldur námshraði er í öllum greinum hjá öldungardeildum, jafnvel getur það verið í vélritun, þó að það sé undantekningartilvik sem ráðh. tilgreindi áðan, því að kennarar þurfa að anna þessu á helmingi styttri tíma en ella, –ég tala nú ekki um aðrar greinar, eins og sögu og tungumál og annað, — en þeir fá ekki annað greitt en 20%álag, þ. e. 1.2% af mánaðarlaunum í stað 1.6%.

Hann talaði um að það væri ekki til neitt samkomulag, það hefði aldrei verið til samkomulag eða samningur. Það má vera að ekki hafi verið til samningur, en það var gert samkomulag við aðila. Þegar öldungadeildin á Suðurnesjum var leyfð barst bréf frá ráðuneytinu, sem er dagsett 13. mars 1979, þar sem ráðuneytið heimilar starfrækslu deildarinnar og að launagreiðslur verði í samræmi við það er gildi hjá Menntaskólanum við Hamrahlið. Eftir þessu hefur verið farið þar til ráðuneytið hefur nú einhliða tekið að sér að ákvarða þessi kjör. Einhverjir fundir hafa átt sér stað, en svo þegar ráðuneytinu varð ljóst, að það væri erfitt að ná samkomulagi, sýndi það þann hroka að neita viðræðum fyrr en 12. nóv. Það varð breyting á því í framhaldi af þessari vinnustöðvun og ég vona að það séu komnar viðræður aftur.

Það er nauðsynlegt að leysa þetta mál vegna þess að þolendurnir eru nemendurnir og þeir mega ekki við því að missa af þessu námi. Það yrði mikill skaði ef ekki verður hægt að ná samkomulagi um þessi mál.

Ég hallast nú að því, að það sé eðlilegt að eins sé greitt í fjölbrautaskólum, þ. e. á Suðurnesjum, Ísafirði, Sauðárkróki og Akranesi, og gert er í Hamrahlíð. Ég vil geta þess, að meðalhópur í öldungadeildinni í Hamrahlíð er 20, en í Fjölbrautaskólanum á Suðurnesjum er 17.2. Í mörgum hópunum í Hamrahlið hljóta því að vera afar fáir. Kennarar þar fá samt greitt 1.6, en hinir ekki. Það er kjarni málsins og verður til þess að menn ókyrrast.

Reyndar var fleira sem olli þessari ókyrrð. Það var líka það, að launagreiðslur bárust seint og bárust stundum ekki og reikningar týndust í ráðuneytinu og hvað eina. Ráðuneytið hefur að vísu beðist afsökunar á þessu og lofað bót og betrun. Ég vil ekki alfarið kenna fjmrn. um þetta, heldur á menntmrn. þarna hlut að máli líka. Það virðist vera sem þessi mál þurfi ætíð að renna um tvo farvegi og hlýtur það að vera mjög bagalegt.

Ég ítreka að það verður að finna lausn á þessu og það verður að hefja viðræður á ný, sem reyndar hefur verið lofað. Ég minntist á það áðan, að þetta á sér ekki stað aðeins varðandi fjölbrautaskólana, heldur líka Iðnskólann í Reykjavík. Ef kennarar þaðan koma til að kenna sömu fög í Fjölbrautaskóla Suðurnesja er þeim greitt eftir lægri taxta. Það er ekki heldur viðunandi.

Ég vil að lokum taka undir það, sem hv. þm. Helgi Seljan gat um áðan, að það þyrfti að koma framhaldsskólalögunum í gegn. Þessi mál öll hljóta að vera í mikilli óvissu á meðan svo er ekki gert.