02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

Umræður utan dagskrár

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki níðast á velvilja forseta í því að leyfa mér að vekja athygli á þessu máli utan dagskrár í dag, hafandi í huga hvað mikið er hér á dagskrá. Mér finnst þó að fsp. mín. og svör ráðh. og þær umr., sem á eftir hafa farið, sýni fram á að hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa misnotað ráðherravald sitt til þess að hygla pólitískum flokksgæðingum og veitt þeim leyfi, eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. sjútvrh., sem virðist ákaflega dýrmætt hjá íslenskum útgerðarmönnum og öðrum, bæði sjómönnum og öðrum sem vilja fara í útgerð í dag, og sú fsp., sem kom áðan fram frá hv. 1. þm. Vestf., er auðvitað þannig að hæstv. viðskrh. þarf að svara henni.

Ég skal ekki fara frekar út í að eltast við svör hæstv. sjútvrh., en bendi hins vegar á að samkv. svari hans kemur í ljós að umrætt leyfi hefur ekki getað fengist út á 57 tonna bátinn sem fórst, vegna þess að þessir menn gátu alls ekki talist eigendur hans. Samkv. kenningu hans átti ekki og var ekki hægt að veita leyfi til skipakaupa út á það úreldingarfé sem fékkst út á 59 tonna bátinn. Það dugði mjög skammt til þess, enda mennirnir ekki eigendur að því skipi heldur. En allt í einu tromma þessir menn upp með leyfi fyrir 312 tonna skipi, 10 ára gömlu.

Eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Vestf. þurfa þessir menn ekki að gangast undir þær kvaðir að fara til Fiskveiðasjóðs til þess að fá þar endurlánað fyrir 17% erlenda láninu. Af hverju skyldi það vera? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að umræddir menn eru framsóknarmenn?