02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef ekki orðið til að flytja hér ræðu áður við þessa umr. og tel að það sé sanngjarnt að ég segi hér örfá orð vegna þeirrar fullyrðingar, sem fram kom hjá hv. 1. landsk. þm., að staðbundin ættjarðarást réði gjörðum manna frekar en ást til þjóðarinnar allrar. Það er nefnilega svo að vissulega hafá menn misjafnar tilfinningar til svæða eftir því, hvernig þeir þekkja þetta land. Þetta var einu sinni af góðu skáldi orðað á þann veg:

Hún elskaði ekki landið, en aðeins þennan blett, af ánni nokkra faðma og hraunið svart og grett. Það getur vel verið að þetta sé orðin óeðlileg ættjarðarást. Ég hef hlustað hér á það jafnframt í sömu ræðu að látið er að því liggja, að þm. telji að innlend skipasmiði eigi alfarið að ganga fyrir. Mér sýnist nefnilega að ef svo yrði, þá væri um ansi staðbundna ættjarðarást að ræða, svo að ekki sé meira sagt. Hvað skyldi sá skattur vera mikill á fámenn byggðarlög sem lagður er á með því að þvinga þau til að gera viðskipti við innlendar skipasmíðastöðvar á miklu hærra verði en hægt er að fá skip erlendis frá? (MB: Hver þvingar hvern?) Hver þvingar hvern? spurði 1. þm. Vestf. Hann ætti að lesa sína ræðu frá því í gær og átta sig á því sem hann sagði þá um innlenda skipasmíði. Hvað er það sem hefur orðið til þess að Íslendingar hafa sótt sjóinn í kringum landið? Það er þörfin fyrir skip sem þvingar staði úti á landi til að leita eftir því að fá skip.

En víkjum þá aftur að innlendu skipasmíðinni. Því er haldið fram hér og það mál sótt fast, að aðföng til iðnaðar eigi að fást á heimsmarkaðsverði. Ég er hlynntur því, að sú stefna sé ríkjandi. En á hvaða verði eiga þá aðföngin, sem útgerðarmenn og sjómenn þurfa að nota, að fást? Á að selja þau eftir einokunarreglum sem banna viðskipti við erlendar skipasmíðastöðvar ef þær bjóða miklu hagstæðari kjör? Hvar er samræmið í þessum málflutningi? Ég fyrir mína parta mótmæli þeim mikla skatti, sem lagður hefur verið á fátæk byggðarlög hér á landi, með því að koma í veg fyrir að þeir aðilar fengju að kaupa skip þar sem hagstæðast væri að kaupa þau. Og ég kalla það þvinganir, hvað sem hv. 1. þm. Vestf. segir um það mál. Ég veit ekki betur en með fullri sanngirni sé hægt að líta svo á, að landshlutarnir eigi réttinn til veiðanna í sjónum út af sinni strönd. Var það ekki sú regla sem gerði það að verkum að við Íslendingar fengum veiðileyfið hringinn í kringum landið? (Gripið fram í: Búum við Íslendingar ekki í sama landi?) Þarf formaður þingflokks Sjálfstfl. að spyrja slíkrar spurningar? Er hann ekki vitandi um það sjálfur? Við höfum um langan tíma haft þá reglu, að það er viss nethelgi út af ströndinni í þessu landi, það vita menn. Við höfum sett reglur sem hafa bannað heimabátum að stunda hefðbundin mið. Þetta veit hv. þm. Matthías Bjarnason. Spurningin er hvort við getum sett reglur, sem banna mönnum að sækja hefðbundin mið á litlum bátum, og sagt svo: Þið fáið engin skip. — þetta er það réttlæti sem mér sýnist að talsmennirnir, sem nú hafa verið að gjamma fram í hér hver eftir annan, telji sanngjarnt. Það væri sanngjarnt að samræma stefnuna í aðföngum gagnvart sjávarútvegi og íslenskum iðnaði og ætla báðum sama hlut.