02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3562 í B-deild Alþingistíðinda. (3114)

244. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú verið hér á dagskrá nokkuð á aðra viku, en það er mikið að snúast og varla við nokkurn að sakast í þeim efnum.

Hér er um að ræða breytingu á lögum um útflutningsgjald af sjávarafurðum. Í fyrsta lagi fjallar frv. um að lækka skal útflutningsgjald af söltuðum matarhrognum og frystum þorskhrognum úr 5.5% í 2.5%. Ástæðan fyrir þessari lækkun er sú, að á þessar afurðir leggst 3% fullvinnslugjald og með því að hafa útflutningsgjaldið óbreytt bera þessar afurðir samtals 8.5% gjald, sem er auðvitað ósanngjarnt miðað við aðrar. Er þetta þá aðeins fært til samræmis við aðra útflutningsvöru sjávarútvegsins.

Í öðru lagi er breytt 1. gr. laga nr. 84 frá 1981 þannig að sjútvrh. er heimilt að ákveða, að áður en útflutningsgjald er lagt á söltuð matarhrogn megi draga frá fob verði samanlagt verð umbúða og sérstakra hjálparefna. Þetta er einnig til samræmingar því að þetta má gera við saltsíld og eins varðandi umbúðir um ediksöltuð síldarflök.

Þetta mál er samkomulagsmál og er eiginlega ekki um annað en réttláta samræmingu að ræða, enda leggur nefndin til að frv. verði samþykkt óbreytt.