02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3577 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

266. mál, sykurverksmiðja í Hveragerði

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er ofurlítið í sambandi við það sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sagði.

Ég vil taka það fram, að það er mjög nauðsynlegt að gefa gaum öllum nýjum atvinnugreinum sem hugsanlega gætu orðið til þess bæði að auka atvinnu í landinu og spara gjaldeyri, eins og þessi atvinnugrein gefur tilefni til að ætta að muni vera hægt. Það er þó hægt að segja að það sé tilhneiging til að fegra hlutina, en ég held að það sé búið að athuga þetta mál mjög vel af mjög gætnum mönnum, eftir því sem ég þekki best til. Þó vil ég eindregið taka undir það sem hv. þm. sagði, að við athugum þetta mál mjög vel og látum það ekki fara öðruvísi frá okkur en að það sé fullkomlega athugað um hagkvæmni þess að gera þetta. Ég stend í þeirri meiningu eftir þá vinnu sem við höfum lagt í þetta, að hér sé um verulega gott mál að ræða.

Í sambandi við það, sem hv. þm. vitnaði til greinar sem birtist í amerísku blaði, Beverage World, um þessi mál, vil ég lesa hér upp bréf sem ég fékk í hendurnar viðvíkjandi því. Greinin heitir “State of the Botfling Market“ og birtist í Beverage World í nóv. 1981. Það er Hinrik Guðmundsson verkfræðingur sem skrifaði bréfið. Þar segir með leyfi hæstv. forseta:

„Í greininni reynir Thompson að spá fyrir um þróun í framleiðslu gosdrykkja og hráefna til þeirra í Bandaríkjunum á næstu árum og ráðleggur um fjárfestingar í því sambandi. Hann hugsar að sjálfsögðu í samræmi við stærð og gerð bandaríska samfélagsins, sem er öðruvísi að gerð en hið íslenska og auk þess þúsundfalt mannfleira. Greinin er vissulega fróðleg fyrir þá sem vilja eða þurfa að fylgjast með þróun gosdrykkjaframleiðslu þar í landi, en hefur ekki beina þýðingu fyrir okkur Íslendinga.

Thompson víkur að því, að meira en 30% af sykurframleiðslunni (væntanlega í Bandaríkjunum) fari til gosdrykkjagerðar og því sé líklegt að maíssíróp verði að einhverju leyti tekið til gosdrykkjagerðar í stað sykurs, ef verulegur verðmunur er á sykri og maíssírópi, og muni það valda verðlækkun á sykri. Það er vissulega hægt að nota maíssíróp í staðinn fyrir sykur að hluta til við gosdrykkjaframleiðslu og það var gert um tíma í Ölgerðinni Egill Skallagrímsson hf. eftir stríðið, þegar sykurskortur var í heiminum. En þetta var neyðarúrræði og því hætt þegar sykur var aftur fáanlegur á viðhlítandi verði, enda voru gosdrykkir gerðir úr maíssírópi ekki eins góðir og úr sykri. Maíssíróp er framleitt úr maíssterkju með því að brjóta hana með sýru og hvötum niður í dextrósu, maltósu og glúkósu, sem er langtum minna sæt en venjulegur sykur, enda þótt sykurmagnið sé það sama, sykurtegundin er önnur. Thompson gerir ekki grein fyrir efnasamsetningum HFCS, en nafnið bendir til að í maíssírópi sé bætt frúktósu eða sætefnum til bragðbætis, en sætefnin hafa lengi legið undir grun um að vera krabbameinsvaldar og því verið bönnuð í matvælaiðnaði, m.a. hér á Íslandi.

Sé gert ráð fyrir því, að stórframleiðsla á maíssírópi fari í hönd, jafnvel svo milljónum eða tugmilljónum tonna skipti á ári, þá fer ekki hjá því að eftirspurn eftir maís vex að sama skapi stórlega og verð hans hækkar. Verðmunurinn, sem Thompson telur vera 15%, er þá fljótur að fara. Verðsveiflur á maís og sykri vegna veðurfars og mismunandi uppskeru halda auðvitað áfram eftir sem áður.

Í þessu sambandi má geta þess, að í hverri 0.25 lítra flösku af sætum gosdrykk eru um 25 grömm af sykri, sem kostar 1/40 af verði 1 kg af strásykri eða 10–15 aura ef strásykursverðið er 4–6 kr. kg. Þá skal þess einnig getið, að fyrirhuguð sykurverksmiðja í Hveragerði gæti selt gosdrykkjaframleiðendum fljótandi sykur á lægra verði en sykur í sekkjum. Fljótandi sykur yrði fluttur eftir þörfum með tankbílum til gosdrykkjaframleiðenda og dælt þar í geymslutank, sem síðan mætti dæla úr til safagerðar eftir hentugleika. Framleiðendur mundu þá losna við allar sekkjatilfærslur, geymslupláss mundi nýtast betur og ekki þyrfti að hafa fyrir því að leysa sykurinn upp í vatni fyrir notkun í safagerð. Þannig mundi tilkostnaðurinn lækka.

Af fyrrgreindum ástæðum og með hliðsjón af því sykurverði, sem áætlanir ÁS eða (Áhugamannafélags um sykuriðnað) og FS (Finska Socker) hafa leitt í ljós, tel ég ekki ástæðu til að hafa áhyggjur af verðfalli á sykri vegna samkeppni af hálfu maíssírópsframleiðenda“.

Ég hef svo ekki fleiru við þetta að bæta, en af því að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vitnaði til greinar Thompsons hér áðan fannst mér eðlilegt að þetta kæmi fram.