04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

6. mál, olíuleitarmál og hafsbotnsrannsóknir

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skipan olíuleitarmála og hagnýtra hafsbotnsrannsókna á íslensku yfirráðasvæði var flutt á síðasta þingi og er endurflutt nú. Það fékk góðar undirtektir hjá hv. deildarmönnum, m. a. hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., en var flutt seint á þingi í fyrra og varð ekki útrætt.

Megintilgangur frv. er að fella olíuleit og hagnýtar hafsbotnsrannsóknir að ákveðnu skipulagi, efla rannsóknir á þessu sviði og undirbúa hugsanlega olíuleit og olíuvinnslu á íslensku yfirráðasvæði. Frv. gerir ráð fyrir að Alþingi hafi aukin áhrif á gang þessara mikilvægu mála og að kosin verði sjö manna þingkjörin nefnd sem annist þau víðtæku verkefni á sviði hagnýtra hafsbotnsrannsókna og olíuleitar sem í frv. eru tilgreind. Hér er um hliðstætt form að ræða og á kosningu orkuráðs og kosningu stóriðjunefndar sem við nokkrir þm. Sjálfstfl. höfum flutt frv. um á Alþingi bæði í fyrra og nú.

Íslendingar hafa í raun eignast mikil yfirráðasvæði á hafsbotni utan og innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Því miður eru grundvallarrannsóknir og hagnýtar rannsóknir á hafsbotni þessa svæðis mjög skammt komnar. Þetta hefur þegar valdið erfiðleikum í viðræðum um yfirráðarétt okkar á hafsbotninum utan 200 mílna lögsögunnar. Í viðræðum við Norðmenn um hafsbotninn milli Íslands og Jan Mayen, þar sem til voru kvaddir sérfræðingar frá nokkrum löndum, voru Íslendingar þeir einu sem ekki gátu lagt fram niðurstöður rannsókna á þessu umdeilda svæði máli sínu til stuðnings þótt þeir gerðu kröfur til yfirráða á þessum stöðum. Sama máli gegnir um hagsmuni Íslendinga á svæðinu milli Íslands og Bretlandseyja, þ. e. svonefndu Hatton-Rockallsvæði.

Ljóst er að tími er kominn til að efla og auka rannsóknir á jarðlögum hafsbotnsins innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu. Á árinu 1978 veitti þáv. iðnrh. bandaríska fyrirtækinu Western Geophysical Co. of America leyfi til mælinga setlaga norðan Íslands. Leyfið var bundið ýmsum skilyrðum um eftirlit og afhendingu rannsóknargagna. Um þessar rannsóknir ásamt fleirum gaf iðnrh. Alþingi skýrslu hinn 10. jan. 1980 og fylgir sú skýrsla frv. sem fskj. Fyrir nokkrum dögum lagði svo hæstv. núv. iðnrh. fram hér á Alþingi skýrslu um það sem gerst hefur á þessum sviðum síðar.

Þá hefur jarðfræðingurinn Karl Gunnarsson tekið saman skýrslu á vegum Orkustofnunar um vitneskju og stöðu þekkingar á hafsbotninum umhverfis Ísland og fylgir hluti hennar einnig sem fskj. með þessu frv.

Allar þessar skýrslur sýna, svo ekki verður um villst, að brýn nauðsyn er að efla þessar rannsóknir og taka í alvöru á þeim möguleika að olía og önnur hagnýt efni kunna að finnast á íslensku landgrunni. Engum blöðum er um það að fletta, að niðurstöður rannsókna, þar sem setlög hafa fundist á svæði úti fyrir Eyjafirði og Skjálfanda, hafa varpað nýju ljósi á þekkingu sérfræðinga á jarðfræði hafsbotnsins umhverfis Ísland. Þó er ekki hægt á grundvelli þessara athugana einvörðungu að fullyrða um tilvist olíu á þessum slóðum, en líkurnar hafa stóraukist fyrir því, að um slíkt geti verið að ræða.

Brýna nauðsyn ber til að halda þessum rannsóknum áfram. Líkast til þarf að setja út nýjar mælilinur á þessum svæðum og gera frekari seflagakönnun á þar til búnum skipum eða flugvélum áður en hafist verði handa um boranir. Þess má geta, að 100 km mælilína, sem talin er lágmarksverkefni ef skip er fengið til slíkra mælinga, er talin kosta rúmlega 700 þús. dollara eða 400–500 millj. gamalla króna. Á Eyjafjarðar — Skjálfandasvæðinu er talið nauðsynlegt að gera mælingar á linu sem er tæplega 500 km, þannig að hér er ekki verið að tala um stórfelldar fjárhæðir.

Á þessu Eyjafjarðar-Skjálfandasvæði, þar sem setlög hafa fundist, er Flatey á Skjálfanda. Þegar nægilegum yfirborðsmælingum er lokið er mjög auðvelt að fá nauðsynlega vitneskju um jarðlög á þessu svæði og ganga úr skugga um tilvist olíu með tilraunaborun í Flatey. Slík borun hefur mikla kosti fram yfir borun á palli í hafsbotninum. Borun á landi er margfalt ódýrari og mengunarhætta er hverfandi miðað við borun á sjó. Að þessum rannsóknum á því að vinda bráðan bug næstu árin.

Íslendingar verða mjög háðir olíuinnflutningi á næstu árum þrátt fyrir auðlindir vatns- og hitaorku í landinu. Orkuspárnefnd hefur lagt fram grg. um að olíunotkunin minnki nokkuð fram til aldamóta vegna hagnýtingar innlendra orkugjafa og sparnaðarráðstafana, en samt sem áður er innflutningsþörfin talin vera 558 þús. tonn um aldamót í samanburði við 570 þús. tonn 1980. Þetta er miðað við ýtrasta sparnað og að allir kostir á hagnýtingu vatns- og varmaorku hafi verið nýttir. Reynslan sýnir hvað það kostar að vera eins háður innflutningi olíuvara og verið hefur. Það hlýtur því að vera algjör nauðsyn að ganga úr skugga um hugsanlega olíuvinnslu umhverfis Ísland, einkum ef svo vildi til að unnt væri að vinna olíu með fast land undir fótum, eins og í Flatey á Skjálfanda, þar sem mengunarhætta í sjó er nánast engin.

Þótt hér hafi verið lögð áhersla á olíuleit fjallar frv. um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir almennt. Einsýnt virðist að allar hagnýtar hafsbotnsrannsóknir séu á könnu sama aðila í stjórnkerfinu. Verkefnin á þessu sviði eru gífurleg, eins og ég hef bent á að framan, og er það eitt út af fyrir sig nægur rökstuðningur fyrir því skipulagi og eflingu þeirra rannsókna sem frv. gerir ráð fyrir.

Eins og ég sagði áðan var frv. þetta flutt í fyrra. Hæstv. iðnrh. hefur skipað nefnd til að fjalla um þessi mál og sú nefnd hefur þegar unnið merkilegt undirbúningsstarf í því skyni að koma þeim verkefnum áfram sem frv. fjallar um. Hæstv. ráðh. birti Alþingi á mánudaginn var skýrslu nefndarinnar um störf hennar, ýmsar upplýsingar um stöðu olíuleitar og hagnýtra hafsbotnsrannsókna á íslensku yfirráðasvæði. Ég sé sérstaklega ástæðu til að þakka hæstv. ráðh. og nefndinni þessa skýrslu og þann áhuga sem hún lýsir á þessum málum.

Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — vitna orðrétt í örstuttan kafla skýrslunnar. Þar segir:

„Áform til þriggja ára:

Næsti áfangi setlagarannsókna á yfirráðasvæði Íslendinga er hér lagður fram í formi þriggja ára áætlunar. Lögð verður áhersla á könnun þeirra svæða þar sem helst er að vænta að veruleg setlög finnist samkv. núverandi þekkingu. Hér er um að ræða tvö meginsvæði undan mið-Norðurlandi og á syðsta hluta Jan Mayen-hryggjar. Líklega verður nyrðri hluti Jan Mayen-hryggjar kannaður í samvinnu við Norðmenn.

Markmið rannsóknaráfangans er að fá heildaryfirlit um útbreiðslu og innri lagaskipan setlaga á fyrrgreindum svæðum og afmarka þannig vænlega staði til frekari rannsókna og olíuleitar. Á áætlun fyrsta árs, 1982, er framkvæmd flugsegulmælingar yfir landgrunni Norðurlands ásamt borun grunnra hola í Flatey á Skjálfanda. Meginhluti rannsókna áranna 1983 og 1984 verður endurkastsmælingar undan Norðurlandi og á suðurhluta Jan Mayen-hryggjar ásamt nokkrum flugsegulmælingum. Þá er einnig áformuð djúpborun í Flatey á árinu 1984, að því tilskildu að fyrri rannsóknir réttlæti það verk.“

Ég vildi aðeins drepa á þetta atriði úr skýrslunni, sem mér þykir hin merkilegasta eins og ég sagði áðan. Nefndin hefur gert kostnaðaráætlanir fyrir þessar rannsóknir á árinu 1982, og kemur fram í skýrslunni að frumrannsóknir á þessum sviðum mundu kosta 2.5 millj. nýkr. En ég vek athygli á því, að því miður er engin tillaga um framlag í frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 frá hæstv. ríkisstj. til að standa straum af kostnaði við slíkar grundvallarathuganir. Ég er þeirrar skoðunar, að það mál þurfi að taka upp fyrir áramót við afgreiðslu fjárlaga, og ég vænti þess, að þetta frv. geti orðið samferða þeim tillögum í gegnum Alþingi, því hér er, eins og ég sagði áðan, verið að fara þess á leit, að þessari skipan, sem hæstv. ráðh. hefur í raun beitt sér fyrir, verði komið í fastara form og hafi ákveðinn lagaramma.

Ég vil að lokum þakka þann áhuga sem skýrslan sýnir að hæstv. ráðh. hefur á þessum málum.