02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3579 í B-deild Alþingistíðinda. (3130)

257. mál, málefni aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Málefni aldraðra hafa verið mjög í sviðsljósinu í hinum vestræna heimi, en einkum þó á Norðurlöndum um þessar mundir. Ástæða þess er sú þjóðfélagsþróun sem leiðir til þess, að hlutfall aldraðra meðal þjóðfélagsþegnanna fer hækkandi og þeim fer fjölgandi sem eru í elstu aldurshópunum. Þetta vil ég ekki kalla vandamál, eins og heyrist stundum. Ég tel að hér sé um að ræða vísbendingu um verkefni sem við verðum að fást við og leysa.

Hvergi hafa umskipti orðið eins glögg og hér á landi á þessu sviði því að fyrir aðeins einni öld, eða á árunum 1860–1870, voru meðalævilíkur kvenna á Íslandi 37.9 ár, en karla 31.9 ár. Okkur finnst þessar tölur ótrúlegar, en við megum ekki gleyma því að um miðja síðustu öld gengu farsóttir yfir þetta land nær árvisst, en viðnámsþróttur þjóðarinnar var lítill, matarskortur verulegur og húsakostur lélegur. Manndauði var því mikill. Á það má minna, að á 10 ára bilinu frá 1841–1850 dóu að meðaltali 343 af hverjum 1000 lifandi fæddum börnum áður en þau náðu eins árs aldri. Á þeim tíma var þetta tvisvar til þrisvar sinnum hærri tala en t.d. í Danmörku. Mislingaárið 1846 komst ungbarnadauði hér á landi upp í 644 börn af hverjum 1000 lifandi fæddum börnum. Ísland er því eitt gleggsta dæmið um hvernig þjóð vinnur sig upp frá því að vera vanþróað land til þess ástands sem við nú höfum og kennum við velmegun eða velferð.

Í dag eru Íslendingar í þeim hóp þ jóða sem getur stært sig af því að hafa lægstan ungbarnadauða. Á árinu 1980 dóu 7.7 af hverjum 1000 lifandi fæddum, og það er hvergi vitað um lægri tölu í heiminum. Jafnframt getum við greint frá því, að Íslendingar ná hærri meðalaldri en þekkist með öðrum þjóðum: konur 79.7 árum og karlar 73.7 árum. Almenn dánartala hér er 6.7–6.9 af hverjum 1000 íbúum og er óvíða lægri í heiminum. Allt eru þetta taldir góðir mælikvarðar á heilbrigðisástand þjóðanna.

Á þetta vil ég minna þar sem við erum að leggja fram frv. til l. um málefni aldraðra, en eins og ég sagði í upphafi hlýtur þjóðin að eignast vaxandi hóp aldraðra með batnandi heilsufari og það verður að taka sérstakt tillit til þessa hóps.

Í fyrra lagði ég fram stjfrv. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða og á sama þingi var lagt fram þmfrv. um sérhannað húsnæði fyrir aldraða og öryrkja. Hvorugt þessara frv. náði fram að ganga, en samkomulag var um að ákvæði stjfrv. um Framkvæmdasjóð aldraðra yrðu að lögum og var stofnun þess sjóðs staðfest með lögum nr. 49/1981. Í nál. heilbr.-og trn. Nd., sem fjallaði um það frv., var lagt til að skipuð yrði nefnd til að endurskoða stjfrv. ásamt þeim brtt. og aths. sem fram höfðu komið, og jafnframt var vísað til ríkisstj. þáltill. þm. Alþfl. um heilbrigðis- og félagslega þjónustu við aldraða.

Í framhaldi af þessu skipaði ég 24. júlí s.l. nefnd sjö manna, sem fékk það hlutverk að gera tillögur um samræmingu á skipulagi í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða með tilliti til félagslegra og heilsufarslegra sjónarmiða, og vitnaði þá til þáltill. sem fyrr var greind. Í þessari nefnd eiga sæti Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir formaður starfsmannafélagsins Sóknar, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson lögfræðingur, tilnefndur af Vinnuveitendasambandi Íslands, Gunnhildur Sigurðardóttir hjúkrunarforstjóri, tilnefnd af Öldrunarfræðafélagi Íslands, og Adda Bára Sigfúsdóttir, tilnefnd af Sambandi ísl. sveitarfélaga. Án tilnefningar skipaði ég Pétur Sigurðsson alþm., Hrafn Sæmundsson prentara og Pál Sigurðsson ráðuneytisstjóra í nefndina og var hann jafnframt skipaður formaður nefndarinnar. Dögg Pálsdóttir lögfræðingur hefur unnið með nefndinni sem starfsmaður og ritari. Þessi nefnd tók til starfa í byrjun sept. s.l. og hefur hún samið það lagafrv. sem hér hefur verið lagt fram. Nefndin varð sammála um upphaflega gerð frv., en lítillegar breytingar hafa verið gerðar á því við meðferð málsins í ríkisstj. og mun ég gera grein fyrir þeim hér síðar.

Aðaltilgangurinn með því að semja sérstakt frv. um málefni aldraðra er sá, að það verði komið á samræmdu skipulagi á allri þjónustu við aldraða og þar verði tekið tillit til heilsufarslegra jafnt sem félagslegra sjónarmiða. Þá hefur það verið markmið nefndarinnar að tengja öldrunarþjónustu við þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi þannig að ekki verði byggt upp nýtt bákn þjónustustarfsemi í þessu skyni. Hefur því niðurstaðan orðið sú að tengja þessa starfsemi við heilsugæslustöðvar, þar sem þær eru í hraðri uppbyggingu og munu verða um landið allt, og tengja hana síðan við félagslega þjónustu sveitarfélaga þegar hún kemur og þar sem hún er þegar komin.

Áður en ég greini frá efni þessa frv. vil ég benda á mjög gagnleg fskj., sem frv. fylgja, sem geta orðið þm. til leiðbeiningar þegar þeir taka efnislega afstöðu til þessara mála. Sérstaklega vil ég benda á að í þessum gögnum er að finna mannfjöldaspá fyrir Ísland árabilið 1980– 2000. Í þessari spá kemur fram að gert er ráð fyrir að almenn mannfjölgun verði á bilinu 19.4–23.3% á þessum tíma, en gert ráð fyrir að þeim, sem eru 70 ára og eldri, fjölgi um 39.7% á sama tíma eða næstum tvisvar sinnum hraðar en heildarmannfjöldinn eykst. Það er því gert ráð fyrir að aldraðir, þ.e. þeir sem eru 70 ára og eldri, verði nálægt því 6200 fleiri um næstu aldamót en þeir eru í dag. Þetta rennir að sjálfsögðu sterkum stoðum undir þá fullyrðingu hér að framan, að málefni aldraðra séu verkefni sem við verðum að líta á sérstaklega til þess að þeim verði sinnt svo viðunandi sé.

Nú má enginn skilja orð mín svo, að ég telji að þessu máli hafi ekki verið sinnt til þessa. Margt hefur verið vel gert í þeim efnum, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga og einstakra áhugaaðila á þessu sviði undanfarin ár og áratugi. Í þessu sambandi vil ég t.d. nefna að tala rúma og vistmannafjöldi á dvalarheimilum aldraðra jókst um tæplega 500 á tímabilinu 1972–1981. Þar að auki hafa mörg sveitarfélög tekið þessi mál til sérstakrar meðferðar, einkum stærri sveitarfélög, og er þar Reykjavík að sjálfsögðu mjög í fararbroddi, en borgin hefur sinnt þessum málefnum í vaxandi mæli á síðustu árum. En til þess að starfið verði hnitmiðað tel ég að löggjöf eins og sú, sem hér hefur verið lýst, sé nauðsynleg, a.m.k. um einhvern tíma meðan ríki, sveitarfélög og aðrir, sem að þessum málum vinna, eru að aðlaga sig þeim breytingum sem í vændum eru.

Ég vík þá að helstu nýmælum þess frv. sem ég legg hér fram. Þau eru:

1. Sett er fram það markmið, að aldraðir eigi völ á þeirri heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu, sem þeir þurfa, og að þessi þjónusta sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við ástand og þörf hins aldraða.

2. Lagt er til að yfirstjórn öldrunarmála sé í höndum eins rn., heilbr.- og trmrn., og að þar verði sett á stofn sérstök deild til að annast þennan málaflokk.

3. Lagt er til að sett verði á stofn samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Hlutverk þessarar nefndar yrði allvíðtækt; annars vegar stefnumótun og hins vegar er henni ætlað að vera ráðgefandi aðili.

4. Lagt er til að stjórnum heilsugæslustöðva, í samvinnu við félagsmálaráð þar sem þau starfa, verði falin stjórn öldunarmála á sínu svæði.

5. Lagt er til að við hverja heilsugæslustöð starfi þjónustuhópur aldraðra. Þessi þjónustuhópur yrði samstarfshópur starfsfólks heilsugæslustöðvar, starfsfólks félagslegrar þjónustu svo og þeirra stofnana sem vinna að öldrunarþjónustu á starfssvæði þjónustuhópsins.

6. Lagt er til að komið verði á fót heimaþjónustu fyrir aldraða. Með heimaþjónustu er átt við þá aðstoð sem veitt er á heimili aldraðs einstaklings. Þessi þjónusta er tvíþætt, annars vegar heilbrigðisþjónusta og hins vegar félagsleg þjónusta.

7. Sett er fram tillaga um skilgreiningu á því, hvaða stofnanir teljist dvalarstofnanir fyrir aldraða.

8. Lagt er til að vistunarmat fari fram áður en menn verði vistaðir á dvalarstofnunum fyrir aldraða.

9. Lagt er til að kostnaður af vistun á dvalarstofnunum fyrir aldraða verði greiddur af sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins eða með beinum framlögum úr ríkissjóði. Þó er gert ráð fyrir að vistmenn taki þátt í greiðslu dvalarkostnaðar eftir ákveðnum reglum í samræmi við tekjur.

Frv. skiptist í fimm kafla, en auk þess eru þar ákvæði til bráðabirgða. Í l. kafla frv. er rætt um skiplag öldrunarþjónustunnar og það markmið sem miða skuli að. Þar er gert ráð fyrir að yfirstjórn öldrunarmála sé í heilbr.- og trmrn., og til þess að undirstrika mikilvægi málsins er gert ráð fyrir að sett verði á stofn sérstök deild innan rn. sem annist þessi mál. Þá er gert ráð fyrir að stofnaður verði samstarfshópur um málefni aldraðra, sem í eigi sæti fulltrúar frá Öldrunarráði Íslands; frá félagsmálaráðuneyti og Sambandi ísi. sveitarfélaga, og sé þessi samstarfsnefnd tengd rn. þannig að deildarstjórinn sé ritari ráðsins og ráðh. skipi tvo menn án tilnefningar.

Í 4. gr. eru verkefni þessarar samstarfsnefndar tilgreind, en þau eru fyrst og fremst að hafa frumkvæði að stefnumótun um málefni aldraðra og að annast áætlanagerð um málefni þeirra fyrir landið í heild. Þá er gert ráð fyrir að nefndin verði tengiliður milli ráðuneyta og stofnana um starfsemi að málefnum aldraðra og sé ráðh. og ríkisstj. til ráðuneytis um hvaðeina sem snertir þessi málefni. Þá er gert ráð fyrir að samstarfsnefndin skeri úr ágreiningsmálum sem upp kunna að koma, og að lokum er gert ráð fyrir að samstarfsnefndin geri tillögu til ráðh. um reglur um vistunarmat aldraðra, sem gert er ráð fyrir að fari jafnan fram þegar aldraðir þurfa að vistast á stofnunum til langs tíma.

Frv. gerir, svo sem ég áður sagði, ráð fyrir að starfsemi fyrir aldraða sé tengd við heilsugæslustöðvar, og er gert ráð fyrir að stjórn heilsugæslustöðvar, í samráði við félagsmálaráð þar sem þau eru starfandi, fái tiltekin verkefni á sviði öldrunarmála. Þessi verkefni eru talin upp í 5. gr. frv. og er þar fyrst og fremst um að ræða skipulagningu á öldrunarþjónustu í umdæmum, að kveðja menn til starfa í þjónustuhóp aldraðra, að gera tillögur til sveitarstjórna um starfslið í heimaþjónustu umdæmis og að sjá um að ákvæðum og reglugerðum, sem lúta að málefnum aldraðra, sé framfylgt.

Þá er gert ráð fyrir að á hverri heilsugæslustöð sé til kallaður sérstakur starfshópur innan stöðvarinnar sem hefur þessi mál með höndum, svokallaður þjónustuhópur aldraðra, en þar sem það á við getur þessi þjónustuhópur starfað við aðra heilbrigðisstofnun en heilsugæslustöð, allt eftir ákvörðun sveitarstjórnar. — Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram, að þjónustuhópur við aldraða er samstarfshópur starfsfólks í heilsugæslustöð eða félagslegri þjónustu viðkomandi sveitarfélags, en hér er ekki verið að byggja upp starfsemi sem krefst aukins starfsliðs. Hlutverk þjónustuhóps aldraðra er fyrst og fremst að fylgjast með heilsufarslegri og félagslegri velferð aldraðra í umdæminu, að meta vistunarþörf, eins og áður var á minnst, og sjá til þess, að aldraðir á heilsugæslusvæðinu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast. Þá á ávallt að hafa það markmið fyrir augum að aldraðir geti sem allra lengst búið eðlilegu heimilislífi.

Í II. kafla frv. er rætt um Framkvæmdasjóð aldraðra og má segja að þessi kafli sé að mestu leyti óbreyttur frá gildandi lögum um þetta efni sem gildi tóku í lok s.l. árs. Þó vil ég geta eftirfarandi breytinga:

Í fyrsta lagi er frv. gert ráð fyrir sérstöku gjaldi sem innheimt verði í þennan sjóð í fimm ár.

2. Þar er gert ráð fyrir að skipaðir séu varamenn sjóðsstjórnarmanna og að deildarstjóri öldrunarmála í heilbr.- og trmrn. sé ritari sjóðsstjórnar. Þá er lagt til að kostnaður við vörslu og stjórn sjóðsins verði greiddur af honum sjálfum.

3. Í sambandi við hlutverk sjóðsins er lögð til sú breyting frá gildandi lögum, að heimilt sé að veita framlög til að standa straum af breytingum og endurbótum á dvalarstofnunum aldraðra sem nauðsynlegar eru og leiðir af ákvæðum laganna.

4. Þá er og gert ráð fyrir að sjóðurinn geti fjármagnað önnur verkefni sem sjóðsstjórnin telur brýn og ráðh. samþykkir og tengd eru öldrunarmálum, svo sem kannanir á málefnum aldraðra og því um líkt.

Í III. kafla frv., sem ber heitið Heimaþjónusta, er rætt um þá aðstoð á heimili aldraðs einstaklings sem lögin gera ráð fyrir. Hér er um að ræða tvíþætta þjónustu: Annars vegar heilbrigðisþjónustu, þ.e. heimilislækningar, heimahjúkrun og endurhæfingu sem fram getur farið þar. Hins vegar er um að ræða félagslega þjónustu, svo sem heimilishjálp, félagsráðgjöf, heimsendingu matar og annað því um líkt. Þá er gert ráð fyrir að ráðh. geti með reglugerð ákveðið að fleiri þjónustuþættir heyri til þessari þjónustu og að hún taki til fleiri en aldraðra þyki það henta.

Hinir ýmsu þættir heimaþjónustunnar eru skipulagðir af stjórn heilsugæslustöðvarinnar, svo sem fram kemur í 5. gr. frv., þegar stjórnin hefur fengið tillögur þjónustuhóps aldraðra. Er þetta gert í samvinnu við félagsmálaráð þar sem þau eru starfandi. Frv. gerir ráð fyrir að þessi þjónusta sé sem víðtækust og ekki einvörðungu veitt að degi til, heldur einnig sem kvöld-, nætur- og helgardagaþjónusta ef aðstæður eru þannig að skynsamlegt sé að reyna að koma slíku við.

Í IV. kafla frv. er rætt um dvalarstofnanir fyrir aldraða. Í þessum kafla er gert ráð fyrir dvalarstofnunum aldraðra á fimm mismunandi vegu.

Í fyrsta lagi er þar um að ræða sérhannaðar íbúðir þar sem sérstaklega er tekið tillit til þarfa aldraðra. Er gert ráð fyrir að þessar íbúðir geti verið tvenns konar hvað þjónustustig snertir, þ.e. annars vegar þjónustuíbúðir þar sem bæði er húsvarsla og afnot af sameiginlegu rými, en hins vegar verndaðar þjónustuíbúðir búnar kallkerfi með vörslu allan sólarhringinn þar sem fólk getur fengið ýmsa sameignlega þjónustu, svo sem máltíðir, ræstingu og því um líkt.

2. Dvalarheimili fyrir aldraða eru ætluð öldruðu fólki sem ekki er fært um að annast eigið heimilishald með aðstoð. Þar er gert ráð fyrir einstaklingsherbergjum og fjölbýliseiningum. Gert er ráð fyrir að dvalarheimili aldraðra veiti þjónustu í ríkum mæli og að þar séu sameiginlegar vistarverur til vinnu, tómstundastarfa og þjálfunar.

3. Hjúkrunarheimili eða hjúkrunardeildir eru ætluð öldruðum sem eru svo lasburða að þeir geta ekki notfært sér þá þjónustu sem veitt er í dvalarheimilum fyrir aldraða eða í íbúðum af neinu tagi. Hjúkrunarheimili og hjúkrunardeildir eru því hönnuð með það í huga að hægt sé að veita þar góða hjúkrunar- og læknisþjónustu. Þá er það nýmæli í frv., að gert er ráð fyrir að á slíkum heimilum sé a.m.k. helmingur vistrýmis í einstaklingsherbergjum. Frv. gerir ráð fyrir að hjúkrunarheimili séu tvískipt eftir vandamálum sjúklinga þannig að sjúklingar með sérstök geðræn vandamál geti verið á sérstökum deildum.

4. Sjúkradeildir fyrir aldraða er gert ráð fyrir að séu hannaðar á svipaðan hátt og spítaladeildir eru nú. Þessar deildir eru fyrst og fremst ætlaðar langlegufólki því sem þarfnast mjög mikils eftirlits og hjúkrunar. Frv. gerir ráð fyrir að slíkar deildir séu í starfstengslum við öldrunarlækningadeildir sjúkrahúsa, lyflækningadeildir eða almenn sjúkrahús og þau séu nánast hluti af almenna sjúkrahúsakerfinu.

5. Dagvist fyrir aldraða er talin upp í frv. þessu sem sjálfstæð starfsemi, en þó er gert ráð fyrir að hún gæti ýmist verið sjálfstæð eða hluti stofnunar, hvort heldur er dvalarheimilis, íbúðar eða hjúkrunarheimilis. Þá er gert ráð fyrir að vistmenn í dagvist geti sótt hana daglangt daglega eða tímabundið.

Nokkur umræða varð um það, þegar rætt var um frv. um öldrunarmál á síðasta þingi, hvernig haga skyldi ákvörðun um innlögn á þessar stofnanir. Í 18. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að stjórn dvalarstofnunar ákveði vistun, en áður en stjórnin ákveður vistun þarf hún bæði að fá tillögur forstöðumanns stofnunar og mat þjónustuhóps aldraðra á þjónustuþörfinni. Þó er gert ráð fyrir að vistmenn á dvalarstofnun eigi forgang að vistun á hjúkrunardeild á sömu stofnun án þess að sérstaki mat þurfi að fara fram og að stjórnir dvalarstofnana og daglegir stjórnendur ráði flutningi vistmanna innan dvalarstofnunar þannig að ekki sé verið að gera kerfið allt of flókið.

Í frv. eru tekin upp ákvæði gildandi laga um dvalarheimili fyrir aldraða og er þau að finna í 19.–22. gr. í frv.

Þá er gert ráð fyrir að þær dvalarstofnanir fyrir aldraða, sem starfandi eru við gildistöku laganna, verði að lúta ákvæðum þeirra. Er stefnt að þriggja ára umþóttunartíma til að uppfylla skilyrði um búnað sem leiðir af ákvæðum 17. gr. Er þá sérstaklega minnt á ákvæði sem bætt er inn í reglur um Framkvæmdasjóð aldraðra til að stuðla að því, að þær stofnanir, sem nú eru starfandi, geti haft fjárhagslegt bolmagn til þessara nauðsynlegu breytinga.

V. kafli frv. fjallar um ýmis ákvæði og er þar fyrst til að taka, að í 24. gr. eru ákvæði um að vistmenn í þjónustuíbúðum greiði húsaleigu samkv. ákvörðun rekstraraðila, en vistmenn í vernduðum þjónustuíbúðum greiði bæði húsaleigu og sérstakt þjónustugjald samkv. ákvæðum sömu aðila. Er gert ráð fyrir að daggjaldanefnd ákveði að öðru leyti daggjöld á dvalarstofnunum fyrir aldraða, þ.e. dvalarheimilum aldraðra, hjúkrunarheimilum, hjúkrunardeildum og sjúkradeildum. Hins vegar er gert ráð fyrir í 27. gr. að ráðh. setji gjaldskrá um dagvist fyrir aldraða og fari þar að ráðum samstarfsnefndar um málefni aldraðra samkv. 3. gr.

Í 26. gr. er það nýmæli í frv. þessu, að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins greiði dvalarkostnað á þjónustustofnunum aldraðra öðrum en íbúðum og dagvistun. Greinin gerir ráð fyrir að vistmenn sjálfir taki þátt í þessum kostnaði þannig að lífeyrir þeirra hjá lífeyristryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins renni til sjúkratryggingadeildar. Þá er gert ráð fyrir að eigi vistmaður rétt í lífeyrissjóði renni hluti þess lífeyris til sjúkratryggingadeildar til að greiða kostnað. Þó gerir greinin ráð fyrir að vistmaður á dvalarheimili fyrir aldraða haldi eftir til eigin þarfa 25% tekna sinna og aldrei lægri fjárhæð en 1500 kr. á mánuði, en vistmaður á hjúkrunarheimili, hjúkrunardeild eða sjúkradeild haldi eftir til eigin þarfa 15% tekna sinna og ekki lægri upphæð en 1000 kr. á mánuði, og er gert ráð fyrir að þessar upphæðir breytist í samræmi við breytingar á upphæðum bóta almannatrygginga.

Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að ákvæði þessarar greinar, 26. gr., geti komið til framkvæmda í áföngum því að augljóst er að hér er um að ræða mjög mikla breytingu á gildandi greiðslufyrirkomulagi og getur þurft aðlögunartíma bæði fyrir Tryggingastofnun og lífeyrissjóði að koma greininni til framkvæmda svo sem frv. gerir ráð fyrir.

Í 27. gr. er gert ráð fyrir að kostnaður af rekstri heimaþjónustu sé greiddur af sjúkrasamlögum, en þó þannig að kostnaðarþátttaka ríkis og sveitarfélaga í þessari þjónustu sé önnur en gildir um aðra þjónustu, þannig að sveitarfélög greiði 65% og ríkissjóður 35%, og verður annaðhvort að gera þennan kostnaðarþátt upp sérstaklega milli ríkis og sveitarfélaga eða reikna þennan kostnaðarþátt inn í heildarkostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í sjúkratryggingum og breyta þannig hlutfallstölu þeirri sem nú gildir.

Gert er ráð fyrir, verði frv. þetta samþykkt, að lögin öðlist gildi 1. jan. n.k., en í ákvæðum til bráðabirgða er gert ráð fyrir að undirbúningur að framkvæmdinni verði þegar hafinn; annars vegar með því að setja á stofn samstarfsnefnd um málefni aldraðra og hins vegar að koma á hinni sérstöku deild í heilbr.- og trmrn. sem á að sjá um framkvæmd þessa málaflokks. Þá er í bráðabrigðaákvæði einnig gert ráð fyrir að lögin skuli endurskoðuð innan fimm ára með sérstöku tilliti til Framkvæmdasjóðs aldraðra. Þá er í bráðabirgðaákvæði einnig gert ráð fyrir að 26. gr. komi til framkvæmda í áföngum, svo sem ég hef þegar lýst.

Herra forseti. Ég hef rakið ákvæði frv. í allstuttu máli. Þm. hafa eflaust veitt því athygli, að með þessu frv. fylgja mjög ítarleg fskj. um ýmis atriði sem þessu máli eru viðkomandi. Það vinnst ekki tími til að gera grein fyrir þessum fskj., en ég vil ítreka að í þeim er að finna mjög mikilvægar upplýsingar um ástand þessara mála hér á landi í dag. Í fyrsta lagi er að finna upplýsingar um vistrými fyrir aldraða eins og það var 1. nóv. s.l. Í öðru lagi eru þar ítarlegar upplýsingar um hvern þátt Tryggingastofnun ríkisins á nú í greiðslu fyrir vistun á dvalarheimilum fyrir aldraða. Í þriðja lagi eru verulegar upplýsingar um ákvæði dönsku félagsmálalaganna hvað snertir aldraða svo og um stofnanir á vegum sveitarfélaga þar í landi. Í fjórða lagi er þar að finna yfirlit yfir ýmsa þætti tryggingamála er snerta aldraða. Í fimmta lagi eru upplýsingar frá heilbrigðismálaráði Reykjavíkur um heimahjúkrun í Reykjavík, en eins og ég sagði áður er Reykjavík að mörgu leyti til fyrirmyndar í sambandi við starfsemi að málefnum aldraðra. Í sjötta lagi er yfirlit yfir kostnað kaupstaðanna allra á árinu 1980 vegna rekstrar heimilishjálpar, og kemur það sama fram og áður, að Reykjavík er þar í nokkurri forustu, en mjög mörg sveitarfélög, jafnvel kaupstaðir, sinna þessu verkefni lítið sem ekki. Að lokum eru í fskj. ýmis sýnishorn af því, hvernig lífeyrisrétti, þar með töldum lífeyrisjóðsrétti, er háttað hjá einstaklingum sem fæddir eru á árabilinu 1901—1905, eftir því í hvaða lífeyrissjóði þeir eiga rétt og eftir því hvernig fjölskylduaðstæðum þeirra er háttað.

Í þessari framsöguræðu ætla ég ekki að fara fleiri orðum um það frv. sem hér er lagt fram. Ég vil hins vegar minna á það, að Alþingi hefur áður með sérstakri þál. gert árið 1982 að ári aldraðra. Í tilefni af því eru starfandi tvær nefndir; annars vegar nefnd, sem Alþingi kaus sérstaklega af því tilefni, og hins vegar nefnd sú sem fyrr greinir og annaðist samningu þessa frv. Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að halda á þessu ári heimsráðstefnu um öldrun og verður hún haldin í Austurríki í sumar. Þar að auki hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ákveðið að árið 1982 verði helgað málefnum aldraðra og alþjóðaheilbrigðisdagurinn 7. apríl er valinn til að koma þessum málefnum á framfæri og kynna þau fyrir þjóðum heims. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin velur hverjum heilbrigðisdegi sérstakt kjörorð og kjörorð Alþjóðaheilbrigðisdagsins í ár er „a life to years“, sem við höfum snúið á íslensku þannig að við segjum: gæðum ellina lífi. Með þessu viljum við minna á að ellin er ekki sjúkdómur í sjálfu sér og ellin veldur ekki sjúkdómum. Þeir, sem aldraðir eru, eru hins vegar móttækilegri fyrir sjúkdóma á því aldursskeiði en sumir aðrir. En menn eldast misvel og margt fólk, sem náð hefur háum aldri, er líkamlega og andlega hraust. Líklega eru þó elliárin um margt viðkvæmasti hluti ævinnar næst á eftir ungbarnaaldrinum. Fram hjá því verður þó ekki litið, að ellinni fylgir fyrr eða síðar hrörnun af einhverjum toga sem getur rutt sjúkdómum braut, og að því þarf að hyggja í tíma. Verði menn aldraðir kemur að því að þeir, sem næstir standa, geta ekki lengur veitt nauðsynlega aðstoð og þá verða aðrir aðilar að koma til: fyrst vinir, kunningjar og nágrannar, síðan opinberir aðilar, sveitarfélög, ríki og áhugamannasamtök.

Það er hlutverk þess frv., sem ég hef lýst hér, að reyna að koma skipulagi á málefni aldraðra fyrir þjóðfélagið í heild, að hætta að líta á málefni aldraðra sem vandamál, en líta í staðinn á það sem eitt af þeim verkefnum sem við verðum að vinna saman að. Markmið þess verkefnis er það sem segir í kjörorði ársins: að gæða ellina lífi.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.