02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (3131)

257. mál, málefni aldraðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar frv. um málefni aldraðra var lagt fram á síðasta þingi höfðum við Alþfl.-menn einkum við það frv. að athuga að ekki væri nægilega vel séð fyrir félagslega þættinum í þjónustu fyrir aldraða, svo sem heimilisþjónusta og heimahjúkrun. Á því þingi lögðu því Alþfl.-menn fram fjölmargar brtt. við það frv., einkum að því er snertir félagslega þáttinn og uppbyggingu á heimilisþjónustu fyrir aldraða. Ég vil fagna því, að þetta frv. er fram komið, og kannske sérstaklega því, að auðsætt er að í þessu frv., sem hér er til umr., hefur verið tekið tillit til sjónarmiða okkar Alþfl.manna, eins og fram kemur í grg. frv., en til ríkisstj. var vísað á síðasta þingi till. til þál. frá Alþfl.-mönnum um samræmingu á heilbrigðis- og félagslegri þjónustu fyrir aldraða. Fram kom í nál. að það var gert í trausti þess, að við samningu á nýju frv. um málefni aldraðra yrðu þeir þættir, sem þáltill. fól í sér, teknir til greina.

Í 1. gr. frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, kom fram, að markmiðið væri að stuðla að samræmingu heilbrigðisog vistunarþjónustu fyrir aldraða. Í því frv., sem við nú fjöllum um, kemur fram að markmiðið sé að aldraðir fái þá heilbrigðis- og félagslegu þjónustu, sem þeir þurfa á að halda, og hún sé veitt á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand hins aldraða, einnig að lögin miði að því að aldraðir geti svo lengi sem verða má búið við eðlilegt heimilislíf, en að jafnframt sé séð fyrir nauðsynlegri stofnanaþjónustu þegar hennar er þörf. Hér er því um grundvallarmismun á markmiðum í þessum tveim frumvörpum að ræða. Því vil ég sérstaklega fagna, því að ég er þeirrar skoðunar, að þjónustukeðju fyrir aldraða eigi að byggja upp með þeim hætti að hún gefi hinum aldraða valkosti, t.d. á þann hátt að aldraðir eigi þess kost að dvelja í átthögum sínum og umhverfi svo lengi sem þeim er mögulegt ef þeir svo óska.

Við þessa umr. ætla ég ekki að fara efnislega ofan í einstaka þætti eða greinar þessa frv. Frv. var lagt fram fyrir tveimur eða þrem dögum svo að mér hefur ekki gefist tími til að skoða það eins og ég hefði óskað fyrir þessa umr. eða gera samanburð á því og þeim fjölmörgu brtt. sem við Alþfl.-menn lögðum fram á síðasta þingi. Ég yil því aðeins við þessa umr. beina einni eða tveimur spurningum til ráðh. varðandi III. kafla frv., um heimilisþjónustu, sem ég tel að frekari skýringa þurfi við, svo og varðandi 26. gr. frv.

Í 27. gr. grv. kemur fram að kostnaður af rekstri heimaþjónustunnar skuli greiddur af sveitarfélögunum 65% og af ríki 35% kostnaðar. — Herra forseti. Ég talaði um að ég vildi beina nokkrum spurningum til ráðh. Ég sé að hann er ekki viðstaddur. (Forseti: Gerið svo vel að athuga um heilbr.- og trmrh. Svavar Gestsson. Það er óskað eftir að hann sé við.) Já, ég talaði um, hæstv. félmrh., að ég vildi beina til þín einni eða tveimur spurningum, þannig að ég óskaði eftir nærveru þinni hér í þingsalnum. Þær eru varðandi III. kafla frv., um heimilisþjónustu, og einnig varðandi 26. gr. frv.

Í 27. gr. kemur fram að kostnaður af rekstri heimaþjónustunnar skuli greiddur af sveitarfélögum 65% og af ríki 35% kostnaðar. Ég skil það svo að með heimaþjónustu sé hér átt við bæði heilbrigðisþáttinn, þ.e. heimilislækningar, heimahjúkrun og endurhæfingu í heimahúsum, og hins vegar félagslega þáttinn, þ.e. heimilishjálp, félagsráðgjöf og heimsendingu matar. Fyrirkomulagið nú er að heimilisþjónustu er á vegum sveitarfélaganna og hefur kostnaður vegna hennar verið töluvert þungur baggi á sveitarfélögunum. Heimahjúkrun hefur aftur á móti verið á vegum heilsugæslustöðvanna og kostnaðarskipting nálægt 85% í hlut ríkisins og 15% í hlut sveitarfélaganna. Ef skilningur minn á þessu ákvæði frv. nú er réttur er þar gert ráð fyrir að kostnaður vegna heimilisþjónustu og heimahjúkrunar verði borinn uppi þannig að sveitarfélögin greiði 65% en ríkið 35. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða er kostnaðarskiptinguna varðar, bæði að því er snertir heimilisþjónustuna og heimahjúkrunina, sem felst í því, að hlutur sveitarfélaganna í heimahjúkrun verður nú 65 í stað 15, en á móti kemur að ríkið taki nú þátt í kostnaði við heimilisþjónustu og greiði 35% kostnaðar. Erfitt er að átta sig á því nákvæmlega hvernig þessa breytta kostnaðarskipting kemur niður á hinum ýmsu sveitarfélögum. Því tel ég nauðsynlegt, að þingnefnd sú, er málið fær til umfjöllunar, fái samanburð, t.d. hjá stærstu sveitarfélögunum, á hvernig þessi kostnaðarskipting kemur út: annars vegar greiðslubyrði sveitarfélaganna í dag, bæði miðað við heimilishjálp og heimahjúkrun, miðað við núgildandi kostnaðarskiptingu, og hins vegar að fram komi samanburður á því, hvernig greiðslubyrðin verði hjá sveitarfélögunum miðað við ákvæði frv. Þó ég vilji ekki fullyrða neitt fyrr en sá samanburður liggur fyrir, sem ég hef hér minnst á, sýnist mér þó á töflum á bls. 32 og 33 í frv., þar sem fram kemur kostnaður Reykjavíkur við heimilishjálp og heimahjúkrun fyrir árið 1980, að ef þau ákvæði um kostnaðarskiptingu, sem fram koma í frv., hefðu þá verið í gildi hefði Reykjavíkurborg þurft að greiða árið 1980 um 800 þús. kr. meira fyrir heimahjúkrun og heimilishjálp. Samkv. frv. á að stórauka þessa þjónustu t.d. sem kvöld-, nætur- og helgidagaþjónustu. (Félmrh.: Má ég aðeins grípa inn í hjá hv. þm. Hér er eingöngu verið að tala um heimilisþjónustu, en hún breytir engu um þann kostnað sem uppi hefur verið um heimahjúkrun.) Ég vil benda hæstv. ráðh. á að í 15. gr. er skilgreint hvað sé heimaþjónusta og það er talað um að hún sé tvíþætt; annars vegar heilbrigðisþátturinn, þ.e. heimilislækningar, heimahjúkrun og endurhæfing í heimahúsum, stendur í frv., og hins vegar félagslegi þátturinn, þ.e. heimilishjálp, félagsráðgjöf og heimsending matar. Ef við lítum svo á 27. gr. er talað um kostnað af rekstri heimaþjónustu. Ef þetta er skilgreining á heimaþjónustunni, sem fram kemur í 15. gr., get ég ekki skilið betur en þetta sé kostnaðarskiptingin varðandi heimaþjónustuna, bæði heimahjúkrun og heimilisþjónustuna.

Það er nokkuð ljóst að sá hópur, sem mun njóta heimilisþjónustunnar, mun stórlega aukast verði frv. samþykkt og komist það í fulla framkvæmd. Í því sambandi vil ég benda á 8. gr. frv., en þjónustuhópur við heilsugæslustöðvar hefur það hlutverk að sjá til þess, að aldraðir á svæðinu fái þá þjónustu sem þeir þarfnast. Í aths. með þessu ákvæði stendur að með ákveðnu millibili, t.d. einu sinni eða tvisvar á ári, yrði athugað hverjir úr hópi aldraðra hefðu ekki sótt þjónustu heilsugæslustöðvarinnar, og mundi þá þjónustuhópurinn kannske sérstaklega með símtali eða heimilisvitjun athuga hagi þeirra sem ekki koma, en nákvæma spjaldskrá á að halda yfir alla aldraða og búsetta á svæðinu. Ef við tökum aldraða 70 ára og eldri eru þeir um 15 þús. samkv. töflu í grg. frv., sem fram kemur í grg. með frv. að 543 fengu heimahjúkrun í Reykjavík á árinu 1980, og samkv. upplýsingum frá Heimilishjálpinni í Reykjavík fengu um 1000–1100 manns heimilisþjónustu á árinu 1980 og í dag eru um 100 manns á biðlista eftir heimilishjálp. Það segir sig sjálft, að ef 70 ára og eldri eru um 15 þús. og reglulega á að fylgjast með þeim, sem ekki hafa sótt þjónustu heilsugæslustöðvarinnar, má örugglega gera ráð fyrir að í ljós kæmi verulega aukinn fjöldi sem þyrfti á einhvers konar heimilisþjónustu að halda. Ef þessi breyting á kostnaðarskiptingu á sér stað á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, sýnist mér að Reykjavíkurborg, eins og sagði, þurfi um 800 þús. kr. viðbótarfjármagn til að halda uppi þeirri þjónustu sem er í dag. Síðan kæmi öll viðbótarþjónusta samkv. frv., bæði aukning á fjölda þeirra, sem þjónustuna þurfa, og aukin þjónusta, svo sem með kvöld-, nætur- og helgidagaþjónustu. Ef þetta er misskilningur hjá mér þarf það að koma mjög skýrt fram hjá ráðh. og jafnvel gera breytingar á þessum ákvæðum til þess að ekki þurfi að vera misskilningur í framkvæmd þessara laga.

En við komum þá að forsendunum fyrir því, að sveitarfélögin geti haldið uppi þeirri þjónustu sem frv. gerir ráð fyrir, en það er hvernig það sé hægt.miðað við núgildandi tekjustofna sveitarfélaganna. Það er sú mynd sem blasir við okkur, og mér sýnist í fljótu bragði að ekki einasta komi ríkið ekki til móts við aukinn heildarkostnað í heimahjúkrun og heimilisþjónustu samkv. frv., heldur að á sveitarfélögin séu lagðar auknar byrðar miðað við þá þjónustu sem veitt er samkv. núgildandi fyrirkomulagi á kostnaðarskiptingu. Vera má að skilningur minn á þessu sé ekki réttur, eitthvað sé í þessu frv. sem breyti þessari mynd, en þá hlýtur það að koma fram hjá hæstv. félmrh. í þessari umr. Auðvitað gæti breytt eitthvað þessari mynd heimild sem fyrir hendi er í 27. gr. um þátttöku einstaklinga í kostnaði samkv. gjaldskrá sem ráðh. setur, en á það ber þá að líta, að undanþegnir kostnaði samkv. gjaldskrá eru þeir sem hafa ekki aðrar tekjur en ellilífeyri og tekjutryggingu, og ugglaust má ganga út frá því að þeir séu stærsti hópurinn sem á heimilisþjónustu þurfi að halda.

Það er því mikilvægt að þm. geri sér vel ljóst hvaða áhrif þessi breytta kostnaðarskipting hefur, vegna þess að enn hefur ekki verið hægt að halda uppi fullnægjandi heimilisþjónustu hjá mörgum sveitarfélögum vegna þess kostnaðar sem henni fylgir. Ef í ljóst kemur að sveitarfélögin standa jafnvel að vígi hvað fjármögnun varðar til að geta haldið upp þessari þjónustu eftir að frv. þetta hefur verið samþykkt og hvergi er gert ráð fyrir auknum tekjustofnum í þessu skyni, þá er auðvitað ljóst að við aukum ekki svo sem nauðsynlega þarf félagslega þjónustu við aldraða í heimahúsum. Frá þessu þarf að ganga tryggilega í þessu frv. því að með aukinni félagslegri þjónustu er ekki einasta hægt að gera öldruðum kleift að dveljast lengur í heimahúsum, ef þeir svo óska, heldur getur hér einnig verið um sparnað að ræða fyrir ríkissjóð sem fram kemur í minni þörf fyrir rými á stofnunum. Eins vil ég benda á að athuga þarf vel þá skipulagningu sem hér er lögð til varðandi stjórnun þessa þáttar. Í dag hafa félagsmálaráð og félagsmálastjóri þessa skipulagningu á hendi, en í frv. er gert ráð fyrir skipulagningu af hálfu stjórnar heilsugæslustöðvanna að fengnum tillögum þjónustuhóps aldraðra og í samvinnu við félagsmálaráð. Hér þarf auðvitað að huga vel að kostum og göllum við slíka skipulagsbreytingu, hvaða ávinning við höfum af þeirri breytingu og hvort heilsugæslustöðvarnar eru í stakk búnar til að bæta við sig þessari þjónustu. Eins þarf að huga vel að verkefnaskiptingu sem fram kemur í 2.–8. gr. frv., milli hópa og samstarfsnefnda, hvort um skörun sé að ræða og hvort við séum að set ja af stað svifaseint og kannske kostnaðarsamt bákn sem hægt væri að komast h já. Því miður hef ég ekki haft tækifæri til að skoða vel þessar greinar eða meta þessa skipulagningu á þjónustukeðjunni, en því er ekki að neita, að ég hef vissar efasemdir og óttast að við séum með þessu að setja af stað kerfi sem þungt geti reynst í allri framkvæmd.

Samkv. frv. á að setja á stofn deild öldrunarmála. Síðan skal setja á stofn samstarfsnefnd um málefni aldraðra. Í hverju heilsugæsluumdæmi skal stjórn heilsugæslustöðvar hafa ýmis viðamikil verkefni með höndum. Síðan skal skipa þjónustuhóp við hverja heilsugæslustöð sem einnig hefur mörg viðamikil verkefni á sinni könnu varðandi ýmsa uppbyggingu. Þá kemur sérstök sjóðsstjórn, sem sér um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sem að mestu er tilnefnd af sömu aðilum og fimm manna samstarfsnefnd um málefni aldraðra samkv. 3. gr. Tel ég t.d. að athuga mætti hvort ekki mætti sameina verkefni sjóðsstjórnar verkum samstarfsnefndarinnar svo um væri að ræða eina stjórnarnefnd sem hefði á hendi verkefni samstarfsnefndarinnar og úthlutun úr sjóðnum, en samstarfsnefndin á að annast áætlanagerð um málefni aldraðra og hlýtur því að hafa góða yfirsýn yfir þörf á uppbyggingu á hverjum stað.

Ein spurning að lokum til hæstv. félmrh.: Samkv. 26. gr. er lögð til grundvallarbreyting á greiðslu kostnaðar vegna vistunar á dvalarstofnunum, eins og ráðh. hefur lýst. Samkv. þessu ákvæði á vistmaður á stofnun að greiða allt að fullu vistgjaldi, en halda þó eftir til eigin þarfa 25% tekna sinna og aldrei lægri fjárhæð en 1500 kr. á mánuði. Á hjúkrunardeildum skal vistmaður halda eftir til eigin þarfa 15% tekna sinna og aldrei lægri fjárhæð en 1000 kr. Síðan segir að við ákvörðun tekna vistmanna gildi ákvæði 19. gr. laga um almannatryggingar. Mér sýnist á þessu að skilgreining á hverjar séu tekjur vistmanna sé viðmiðun við greiðslu ellilífeyris og tekjutryggingar samkv. 19. gr. almannatryggingalaga. Ef við tökum t.d. vistmann á dvalarstofnun sem heldur eftir 15% af þessum tekjum er spurning mín til ráðh. hvað verði um tekjur hans t.d. úr lífeyrissjóði. Er meiningin, ef samanlagðar tekjur vistmanns, þ.e. ellilífeyrir, tekjutrygging og greiðslur úr lífeyrissjóði, eru innan við vistgjald á dvalarheimilinu, að þá renni þær til greiðslu á því, en hann haldi eftir 15% af hluta ellilífeyrisgreiðslna úr Tryggingastofnuninni og lífeyrissjóðsgreiðslur hans renni alfarið til greiðslu vistgjalds, eða mun hann einnig njóta greiðslna sinna úr lífeyrissjóðnum að 15% hluta. Ég vil að lokum ítreka sérstaklega ósk mína til ráðh. um að hann beiti sér fyrir að samanburður liggi fyrir um greiðslubyrði sveitarfélaganna miðað við núgildandi kostnaðarskiptingu af heimilishjálp og heimahjúkrun annars vegar og hins vegar hver greiðslubyrði sveitarfélaganna verður miðað við ákvæði frv., þannig að öllum megi ljóst vera hvort með samþykkt þessa frv. megi vænta þess, að við náum m.a. þeim markmiðum sem að er stefnt með þessu frv., þ.e. að auka félagslega þjónustu við aldraða.