02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3590 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

257. mál, málefni aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður um þetta frv., enda hef ég tekið þátt, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., í samningu þess. En hins vegar, og kannske svarar það nokkrum þeim spurningum sem komu fram hjá hv. síðasta ræðumanni, voru nokkrar breytingar, þótt hæstv. ráðh. færi ekki mörgum orðum um þær breytingar, gerðar á frv. frá því að það kom frá þeirri starfsnefnd sem skilaði frv. um 20. jan. Hafa orðið nokkrar breytingar á vegum þingflokka stjórnarliðsins og hæstv. ríkisstj. síðan, þ. á m. er sú breyting á 27. gr., sem hér hefur verið vitnað til, að þar hefur verið skotið inn í því ákvæði, að sveitarfélögin eigi að greiða 65% kostnaðar, en ríkið 35% kostnaðar. Samkv. tillögum nefndarinnar átti þetta að vera alfarið í höndum sjúkrasamlaganna.

Aðrar breytingar, sem hafa verið gerðar, eru að vísu, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., ekki stórvægilegar. Þó eru ákvæði um að ákvæði 26. gr. komi til framkvæmda í áföngum og einnig um að umrædda samstarfsnefnd eigi að setja strax á stofn sem sérstaka deild í heilbr.- og trmrn.

Ég vil þegar taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að mér finnst mjög vel koma til athugunar að samstarfsnefndinni svokölluðu samkv. frv verði líka falið það verkefni sem stjórn Framkvæmdasjóðsins hefur. Í sjálfu sér hefur fyrirkomulagið í frv. ekkert upp á sig, en eru sjálfsagt leifar af því að hv. Alþingi tók þetta atriði út úr ríkisstj.-frv. í fyrra til að flýta fyrir söfnun fjármuna til brýnustu verkefnanna sem þá var verið að vinna að og er verið að vinna að enn þá. Mér finnst sjálfsagt að nefndin, sem fær málið til athugunar, skoði þetta.

Aðrar breytingar, sem gerðar voru, eru ekki mikilvægar. Ég vil þó leyfa mér vegna þeirra orða, sem féllu áðan um aukinn kostnað sveitarfélaganna og þá bent á Reykjavík sérstaklega, að geta um að í nefndinni átti sæti einn borgarfulltrúa Reykjavíkurborgar sem ég veit persónulega að er ekki mjög ánægður með frá breytingu á 27. gr. sem ég var að minnast á, en allir féllust á hana vegna áhuga viðkomandi aðila á að koma málinu inn í þingið og fá það til umr. og helst til afgreiðslu sem fyrst. Ég bendi á að á móti útlögðum kostnaði sveitarfélaga kemur mikill sparnaður fyrir sveitarfélögin sem felst í ákvæðum 1. mgr. 26. gr. og reyndar í ákvæðum þeirrar greinar allrar. Þetta mun létta mikið á sveitarfélögunum og ríkinu reyndar líka, þótt ég geri mér fulla grein fyrir að það muni taka nokkurn tíma að svo verði, m.a. vegna þess að þótt við séum sjálfsagt öll hér á hv. Alþingi samþykk því og stefnum að því að koma lífeyrismálum alls almennings í það horf að hann geti orðið sæmilegur til framfærslu, þá vantar enn nokkuð á að svo sé. En það er stefnt að því með frv. vegna þess að hér er um að ræða heimili fyrir aldraða, að þeir, sem hafi tekjur til þess, taki þátt í sínum framfærslukostnaði. Aðilar, sem nú eru t.d. á hjúkrunarheimilum og sjúkratryggingarnar borga fyrir alfarið, fá tekjur frá tveimur eða jafnvel þremur lífeyrissjóðum og það góðum lífeyrissjóðum. Þetta fé kemur hvergi fram annars staðar en hjá aðstandendum, börnum eða öðru skyldfólki þessara aðila, en það fer ekki neitt af því til að greiða fyrir framfærslu viðkomandi einstaklings. Nú er samkv. frv. lagt til að breyta þessu, en samt sem áður í heiðri höfðu gamla kenningin, sem ég geri einnig ráð fyrir að allir þm. séu sammála um, að það verði enginn látinn gjalda þess þótt hann hafi ekki tekjur til að standa undir þessum kostnaði, heldur komi, eins og hingað til hefur verið, sá skerfur sem þarf frá tryggingunum.

Ég hef minnst á það hér, að þetta frv. var tilbúið hjá nefndinni og sent hæstv. ráðh. síðari hluta janúarmánaðar. Það er verið að taka það til umr. 2. apríl. Allir, sem tjáð hafa sig um málið, bæði úr röðum stjórnarliða og reyndar hæstv. ráðherrar líka, hafa verið sammála um og látið það koma fram í orðum sínum, að þeir væru áhugamenn um að flýta þessu máli og fá það samþykkt. Nú vildi það til að þetta frv. stöðvaðist á leið sinni til þingsins nokkuð lengi og hefur ekki fengist nægileg skýring á því enn, af hverju svo var. Þó þykist ég nokkuð renna grun í af hverju það hafi verið. Þóttist ég a.m.k. geta það þegar ég las grein eftir hv. þm. Alexander Stefánsson, sem ég hef vitnað til undir öðrum umr. hér í dag. Þessi grein heitir Ár aldraðra og birtist föstudaginn 19. mars í Dagblaðinu og Vísi. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta, m.a.: „Ríkisstj. hefur gengið frá nýju frv. til laga um málefni aldraðra, sem þingflokkar fjalla nú um þessa dagana.“ Ég vitnaði m.a. til síðari hluta þessarar setningar í dag og sagði að þarna hefði hv. þm. farið með óstatt mál. Nú skal ég viðurkenna það og bið hann afsökunar á því, að að sjálfsögðu getur verið að hann beri svo mikið traust til hæstv. ráðh. að hann hafi staðið í þeirri meiningu, að hæstv. ráðh. hefði sent öllum þingflokkum Alþingis málið til skoðunar. En svo var ekki. Það var aðeins sent þingflokkum stjórnarliðsins. Áhuginn var ekki meiri en það h já hæstv. ráðh. á því að láta þm. kynna sér málið til að flýta fyrir afgreiðslu þess. Hitt er misskilningur hjá hv. þm., sem ég hef vitnað hér til, að ríkisstj. hafi gengið frá nýju frv. Það var að sjálfsögðu sú nefnd, sem skipuð var, sem samdi frv., og það voru aðeins lítils háttar breytingar gerðar á því hjá ríkisstj., eins og þegar hefur komið fram hjá hæstv. ráðh. og reyndar í orðum mínum líka.

Ég vil taka það fram að lokum, að ég undraðist nokkuð skipan þessarar nefndar í byrjun. Þegar Vinnuveitendasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands var falið að skipa fulltrúa í þessa nefnd, þeim tveim landssamtökum sem hvað minnst hafa komið um dagana að þessum málum, brá mér óneitanlega, en að sjálfsögðu bjargaðist það mjög vel vegna þess að frá þessum samtökum komu hinir ágætustu einstaklingar sem hafa sýnt málinu mikinn áhuga og þekkja það mjög vel og hafa unnið mjög vel í nefndinni, eins og raunar öll nefndin. Ég vil nota þetta tækifæri til að láta það koma fram hér, vegna þess að hæstv. ráðh. skipaði nefndina, að það var mikil samstaða og einhugur í nefndinni um að reyna að leggja fyrir ráðh. heillegt frv. sem tæki mið af þeim skoðunum, sem komu fram á síðasta þingi, með það í huga að okkur takist, ef ekki á þessu þingi, þá a.m.k. fyrir lok þessa árs, að ná þessu frv. fram og þá með þeim breytingum sem þingið telur sig þurfa að gera á því.

Ég sé ekki, herra forseti., að ég hafi ástæðu til að ræða þetta frekar efnislega núna. Þetta frv. mun koma til þeirrar nefndar sem ég starfa í. En ég fagna því að það skuli vera komið fram.