02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3597 í B-deild Alþingistíðinda. (3135)

257. mál, málefni aldraðra

Pétur Sigurðsson:

Aðeins örstutt, herra forseti, af því að ég var búinn að kveðja mér hljóðs. Hv. síðasti ræðumaður tók að vísu ómakið af mér.

Mér fannst í byrjun og fram eftir ræðu hans að það væri ómaklegt í sambandi við þessi mál að minnast ekki einmitt á það sem hann gerði síðast í ræðu sinni, þ.e. þann þátt sem Elliheimilið Grund og forsvarsmenn Grundar og reyndar Áss líka hafa átt í öldrunarþjónustu í Reykjavíkurborg.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. ræðumanni, að samþykkt þeirrar tillögu, sem kom fram í borgarstjórn 1972, skipti sköpum og kjör byggingarnefndarinnar sem tók til starfa næsta ár á eftir. Má segja að 10 ára afmæli þessarar starfsemi hjá Reykjavíkurborg sé á þessu ári.

Hins vegar á Elliheimilið Grund 60 ára afmæli á þessu ári, en Hrafnista í Reykjavík verður 25 ára á þessu ári.

Sú stefna, sem kemur fram í þessu frv., var mótuð 1968, 1969 og 1970 í Sjómannadagssamtökunum og þá á grundvelli þess sem hafði verið unnið á vegum milliþinganefndar í Stórþinginu norska og mér sýnist hafa rutt sér til rúms á Norðurlöndum á seinni árum og er kannske hvað hagkvæmast og heppilegast hjá þeim þjóðum sem ekki fóru of geyst af stað í byrjun í skjóli þess mikla fjármagns sem þær þó höfðu. Ég held að með þessu frv. og þeirri stefnu, sem nú er mörkuð í sambandi við t.d. þær tegundir húsnæðis sem við erum að taka upp og veitum ákveðinn lagalegan rétt, séum við að draga lærdóm af því, sem okkar nágrannar hafa verið að glíma við, og getum dregið lærdóma af ýmsum vandamálum sem hafa komið fram hjá þeim.