02.04.1982
Neðri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3598 í B-deild Alþingistíðinda. (3136)

257. mál, málefni aldraðra

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Nú er svo mjög liðið á fundartímann að það er ekki við hæfi að setja á langar ræður. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa okkur að ljúka þessari umr. núna, því að það er mikið atriði að málið komist til nefndar og meðferðar hið fyrsta. Ég vil einnig þakka þeim hv. þm., sem hér hafa talað, fyrir þann áhuga, sem þeir hafa sýnt, og velvilja í garð málsins. Ég vil þá svara þeim fsp. sem til mín hefur verið beint.

Í fyrsta lagi var vegna 26. gr. spurt um næstsíðustu mgr. hennar, hvort þar væri átt við tekjur vistmanna frá lífeyrisdeild almannatrygginganna þegar hlutfall lágmarkstekna er reiknað út. Svarið er já. Það er átt við tekjur sem menn hafa úr lífeyrisdeildinni. Ég vek athygli á að í 3. mgr. er í raun og veru gert ráð fyrir mjög verulegri hækkun á svokölluðum vasapeningum. Samkvæmt mínu minni eru vasapeningar, sem menn hafa á stofnunum núna, einhvers staðar á milli 600 og 650 kr. á mánuði. Hér er gert ráð fyrir að verulegri hækkun að því er varðar á dvalarheimilum og dvalarstofnunum og einnig gert ráð fyrir að menn haldi eftir minnst 1000 kr. þegar þeir eru á hjúkrunarstofnun. Hér er um að ræða mjög verulega breytingu, og er gert ráð fyrir að þetta ásamt öðrum ákvæðum greinarinnar komi til framkvæmda í áföngum.

Meginbreyting greinarinnar er hins vegar sú, að sjúkratryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins á að greiða fyrir vistun á dvalarstofnun samkv. 2.–4. tölul., 17. gr., en upp í það eiga síðan að ganga tekjur manna frá lífeyristryggingadeild, sem falla niður eins og kunnugt er, og úr lífeyrissjóðum, en þó skulu menn aldrei hafa minna eftir en þessum 1000 kr. eða 1500 kr. Hér er sem sagt um að ræða mikla breytingu frá núgildandi kerfi, og þessi breyting byggist á þeirri hugsun, að það skuli vera sama aðferð við fjármögnun á vistun manna hvort sem þeir eru á dvalarstofnun eða hjúkrunarstofnun, en að þeir skuli þó hafa heldur meira fé handa á milli þegar þeir eru á dvalarstofnun en eftir að þeir hafa lagst inn á hjúkrunarstofnun. (AG: Er ekki alveg öruggt að þessir 1000 kr. vasapeningar séu þá tryggðir?) Jú, að sjálfsögðu. Þetta tekur sömu breytingum og aðrar bætur almannatrygginga. Það kemur fram í síðustu mgr. greinarinnar.

Talið er að þessi breyting ein, að hækka vasapeninga upp í 1500 kr. á mánuði á dvalarstofnunum, kosti kringum 10 millj. kr. á ári ef hún kæmi til framkvæmda að fullu. Ekki hefur fengist áætlun um hvaða áhrif breytingum á vasapeningum á hjúkrunarstofnun hefði í för með sér. Það er flókið dæmi að reikna út þannig að niðurstaða af því liggur ekki fyrir.

Í öðru lagi spurði hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um heimaþjónustu. Það, sem átt er við, er einfaldlega að ríkið greiðir nú 35% í kostnað við heimilisþjónustu við aldraða. Það er það sem verið er að tala um. Það eru sem sagt ný útgjöld fyrir ríkið. Er talið að á árinu 1981 hefði þetta þýtt 5 millj. kr. í aukaútgjöldum fyrir ríkissjóð. Hér er því ekki verið að ganga á sveitarfélagið, heldur er verið að auka það fé, sem gengur til sveitarfélaganna í þessum efnum, og ýta undir heimilisþjónustu á þeirra vegum, vegna þess að við teljum að það því sé hugsanlegt að spara sjúkravistun og þar með útgjöld ríkisins á öðrum sviðum.

Af hverju dróst að leggja málið fram? Það var einfaldlega vegna þess að þegar frv. var lagt fyrir upphaflega frá nefndinni, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson sat í og gat um hér áðan, var ljóst að kostnaðurinn af samþykkt frv. varð mjög verulegur eða í kringum 30 millj. kr., eins og það lá upphaflega fyrir, og menn voru nokkurn tíma að meðtaka þann boðskap. Þess vegna dróst málið svo. Það er ástæðan og ekkert annað. Það eru mín mistök að þingflokkarnir fengu málið ekki til meðferðar. Ég hefði gjarnan viljað að þingflokkarnir hefðu fengið frv. strax. En þingflokkar stjórnarandstöðunnar fengu það strax og þeir óskuðu eftir því. A.m.k. gekk ég frá því við ráðuneytisstjóra minn fyrir tveimur vikum eða svo, að þingflokkar stjórnarandstöðunnar gætu fengið málið líka, og ég vona að þeir hafi fengið það.

Auðvitað horfa menn á þær upphæðir sem þarna er verið að leggja á ríkið. Þá vil ég geta þess á móti, að í gangi hafa verið samningar á milli heimilislæknafélagsins og ríkisins og Reykjavíkurborgar um heilsugæslukerfi í Reykjavík. Þetta nýja heilsugæslukerfi fyrir Reykjavík hefur í för með sér útgjaldaauka fyrir Reykjavíkurborg sem nemur á verðlagi ársins 1982 10–12 millj. kr. Var talið útilokað af borgarstjórn Reykjavíkur að samþykkja þessa breytingu á heilsugæslu í borginni öðruvísi en eitthvað kæmi þarna á móti af hálfu ríkisins. Mér er kunnugt um að forráðamenn borgarinnar telja að það framlag, sem með þessu frv. kæmi til heimilisþjónustu, sé talið nægilegt af hálfu ríkisins til þess að borgin geti fallist á hið breytta fyrirkomulag. Ég vona að borgarstjórn Reykjavíkur geti í framhaldi af þessu gengið frá þeim málum sem að henni snúa varðandi heilsugæslu í Reykjavík, en gert var ráð fyrir að breytt fyrirkomulag í þeim efnum tæki gildi síðast á þessu ári.

Ég endurtek þakkir mínar til hv. þm., sem hér hafa talað, og sérstaklega til hæstv. forseta og vona að þingnefnd og þingheimur taki þessu máli jafnvel og hv. þm. hafa gert á þessum fundi. — Ég vona að ég hafi svarað öllum fsp. sem til mín var beint.