04.11.1981
Efri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

6. mál, olíuleitarmál og hafsbotnsrannsóknir

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vil af tilefni flutnings þessa frv. til laga um skipan olíuleitarmála og hagnýtra hafsbotnsrannsókna á íslensku yfirráðasvæði, sem hv. 3. þm. Norðurt. e. er fyrri flm. að, segja nokkur orð.

Hliðstætt frv. var lagt fram hér í hv. deild í fyrra og fyrir því mælt í marsmánuði. Á þeim tíma var ég staddur á ráðstefnu erlendis þannig að mér gafst ekki kostur á að taka þátt í umr. um málið og koma á framfæri upplýsingum um það starf sem í gangi var á þeim tíma innan iðnrn. og á þess vegum í þessu efni. Þegar ég fór yfir umr. í hv. deild frá þessum tíma nú um daginn sá ég að ekki höfðu komið fram neinar upplýsingar í þeirri umr. um skipan þeirrar nefndar sem hv. frummælandi hefur hér vitnað til og iðnrn. setti á fót 4. sept. 1980.

Verkefni þessarar nefndar var og er að vinna að athugunum í sambandi við setlög og þá jafnframt vísindalega möguleika á kolvetnum á íslenska landgrunninu í samræmi við það sem segir í stjórnarsáttmálanum um þessi efni, en þar stendur:

„Haldið verði áfram rannsóknum vegna hugsanlegra olíulinda á íslenska landgrunninu undir forustu íslenskra stofnana og stjórnvalda og í því sambandi gætt fyllstu varúðar með tilliti til umhverfissjónarmiða.“

Í þessari nefnd eiga sæti átta aðilar, sem til voru kvaddir, og með skipun nefndarinnar tryggð tengsl við ýmsa aðila sem eðlilegt er að komi að þessu máli, þ. á m. Rannsóknaráð, utanrrn., Orkustofnun og Náttúruverndarráð. Þessi nefnd hefur starfað ötullega síðan. Hún skilaði fyrstu tillögum, að mig minnir, í nóvembermánuði 1980, sem iðnrn. kom á framfæri við hv. fjvn. með ósk um að hún tæki málið upp til athugunar með tilliti til fjárveitinga í samræmi við þær tillögur sem þessi nefnd hafði lagt fram. Hv. 1. flm., sem sæti á í fjvn., hafði að sjálfsögðu vitneskju um þetta mál og undirbúning þess úr þeim gögnum sem fram voru lögð á þeim tíma.

Það fór svo, að ekki fékkst nema takmörkuð fjárveiting fyrir yfirstandandi ár samkv. fjárlögum, en þó bar þessi umsókn nokkurn árangur þar eð veittar voru 20 millj. gkr. til setlagarannsókna. Það fjármagn hefur verið hagnýtt á þessu ári til ákveðinna athugana svo og til að standa straum af starfi þessarar nefndar.

Ég mun víkja nokkrum orðum að því sem hefur verið unnið fyrir þessa fjárveitingu, en vil þó áður víkja aðeins að efni frv. og lýsa viðhorfi mínu til þess.

Ég get ekki tekið undir það sjónarmið, að það sé skynsamlegt á þessu stigi mála að fara að lögfesta skipun sérstakrar olíuleitarnefndar með kosningu í slíka nefnd hér á Alþingi. Ég met þó mikils áhuga hv. 1. flm. að þessu frv. á málefninu sem slíku, en tel að það sé ekki ráðlegt af löggjafanum að fara að grípa með þeim hætti inn í svið framkvæmdavaldsins sem gert er ráð fyrir með tillögunum sem fram koma í þessu frv.

Það hefur legið fyrir, að ég hygg frá því á árinu 1978 og raunar áður en sú ríkisstj. tók við völdum sem ég átti sæti í sem iðnrh., 1978–1979, að olíuleitarmálefni heyrðu undir iðnrn. og jafnframt að Orkustofnun yrði falin viss forusta í þeim málum fyrir ráðuneytisins hönd til þess að fylgjast með gagnasöfnun og varðveita gögn og koma upp sérfræðilegu miði, eftir því sem fjárveitingar leyfðu og ástæða þætti til að sinna þessum málum. Ég tel að sú skipan mála hafi verið eðlileg og rétt ráðin. Í framhaldi af þessu hefur skapast vísir að olíumáladeild-eða það má kalla það kannske hafsbotnsrannsóknadeild — innan Orkustofnunar. Á árinu 1979, að mig minnir, fékkst sérstök aukafjárveiting til að ráða sérfróðan mann til starfa innan Orkustofnunar til að sinna þessum málum sérstaklega. Þar er um að ræða Karl Gunnarsson jarðfræðing. Hann hefur starfað við Orkustofnun áfram og vinnur að þessum málum sérstaklega og tók saman mjög gott yfirlit, sem gefið var út í skýrsluformi, um þekkingu okkar á íslenska landgrunninu og hugsanlegar líkur á að þar megi finna auðæfi, m. a. í formi kolvetna. Þar var um ákveðið brautryðjandastarf að ræða og mjög þýðingarmikið að fá það fram, en hins vegar aðeins fyrsti þáttur á langri vegferð til þess að við öflum okkur nauðsynlegrar vitneskju um þennan stóra hluta af Íslandi sem liggur undir yfirborði sjávar og kann að reynast þjóðinni notadrjúg eign, — ekki bara sjórinn sem yfir því er, heldur þau auðæfi sem á hafsbotni eða undir hafsbotni kunna að leynast.

Ég held að það sé skynsamlegt að viðhalda þeirri skipan, sem upp hefur verið tekin, að málefni þessi heyri undir iðnrn. og Orkustofnun sérstaklega og hún verði efld til forustu í þessum málum. Ráðuneytinu þótti hins vegar henta að setja nefnd til að vinna að tillögugerð um þessi efni, og í skipunarbréfi, sem um er getið í þeirri skýrslu eða nefndaráliti sem hér var nefnt og var útbýtt á Alþingi fyrir fáum dögum, dagsett 25. júní s. l. af hálfu nefndarinnar, er getið um helstu verkefni hennar, svo sem að gera tillögur um skipulag og framkvæmd olíuleitar með hliðsjón af líklegum áföngum fram að hugsanlegu vinnslustigi, að gera tillögur um kannanir á setlögum innan íslensks yfirráðasvæðis sem kynnu að innihalda kolvetni, olíu eða gas, að annast samningaviðræður fyrir hönd ráðuneytisins við aðila sem rétt þætti að tækju þátt í könnun varðandi olíuleit, að semja drög að reglum um hagnýtar hafrannsóknir á auðlindum landgrunns í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 41 frá 1979, að láta fara fram könnun á hugsanlegum umhverfisáhrifum olíuvinnslu ef til kæmi hér við land og safna upplýsingum um reynslu af olíuvinnslu og olíuslysum erlendis. Nefndin hefur unnið á grundvelli þessa skipunarbréfs og í því áliti hennar, sem hefur verið dreift á hv. Alþingi, er að finna rammaáætlun fyrir tímabilið 1982–1984 og alveg sérstaklega tillögur um framkvæmdir og hugsanlegar fjárveitingar, að áliti nefndarinnar, til aðgerða á árinu 1982.

Það er hins vegar ekki ætlun ráðuneytisins, að þessi olíuleitarnefnd þróist upp í að verða eins konar stofnun, heldur að meðferð þessara mála, varsla á upplýsingum og úrvinnsla úr gagnasöfnun, fari fram á Orkustofnun og þangað verði ráðnir þeir kraftar sem nauðsynlegt þykir til að vinna að þessum málum. Í því frv., sem hér er til umr., er að vísu gert ráð fyrir að Orkustofnun komi að þessu máli, eins og það er orðað í 5. gr.: „Í Orkustofnun skal setja á laggirnar deild, sem annast framkvæmdastjórn fyrir olíuleitarnefnd. Deildarstjóri er jafnframt framkvæmdastjóri nefndarinnar, og ræður hann sér starfslið.“

Það, sem greinir á milli í mínum sjónarmiðum og hv. flm. þessar frv., er það, að þeir vilja gera þessa olíuleitarnefnd að eins konar stofnun. Það tel ég alls ekki skynsamlegt. Ég tel ekki heldur skynsamlegt að Alþingi fari að kjósa slíka nefnd og grípa með þeim hætti inn á svið sem eðlilegt er að framkvæmdavaldið fjalli um og sjái um.

Í grg. með þessu frv. er vitnað til tillagna sem hv. þm. Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu fluttu, eins og hér segir, fyrr á þessu þingi, en mun nú eiga að vera á síðasta þingi, um kosningu svokallaðrar stóriðjunefndar, sem átti að vinna að athugunum á stóriðjumálum, og er um margt svipað hlutverk og þessari olíuleitarnefnd er ætlað, þ. e. að fjalla um þau mál og ráða sér lið til starfa. Ég tel það ekki skynsamlegan hátt af hálfu löggjafans að ætla að taka þannig á einstökum þáttum, sem undir framkvæmdavaldið heyra, og það verða til þess að rugla reytunum á óheppilegan hátt ef að því ráði yrði horfið. Hitt er jafnsjálfsagt og eðlilegt, að Alþingi taki afstöðu til meiri háttar tillagna og stefnumótunar í málum sem þessum og fái greiðan aðgang að upplýsingum um þau efni. Bæði ég og hæstv. forveri minn í ráðherrastól, Bragi Sigurjónsson, höfum komið slíkum upplýsingum á framfæri við Alþingi þannig að það vissi hvað um væri að ræða.

Eins og fram kemur í 4. gr. í þessu frv. er greinilegt að þessari olíuleitarnefnd er af hálfu flm. ætlað að vera eins konar stofnun. Þar er talað um í 2. lið, að hún hafi frumkvæði að öllum málum, er varða hagnýtar hafsbotnsrannsóknir og olíuleit, og umsjón með framkvæmd olíuleitarmála, og í 3. lið að afla, vinna úr og annast vörslu allra tiltækra gagna um jarðfræðilegar og jarðeðlisfræðilegar upplýsingar um íslenskt umráðasvæði sem geta haft þýðingu fyrir olíuleitarstarfsemi. Í 7. lið er þessi nefnd kölluð ráð sem hafi samráð við samtök allra aðila sem olíuleitar- og olíuvinnslumál varða á einhvern hátt, en í 8. lið kemur nú þessi stofnanahugmynd fram með skýrustum hætti. Þar segir að hlutverk nefndarinnar sé að annast samstarf og samskipti við hliðstæðar erlendar stofnanir fyrir hönd iðnrn. Ég held að það sé ekki skynsamleg hugsun, sem þarna liggur að baki, og við eigum að vinna að þessum málum þannig að móta hér skynsamlegar tillögur um skipan rannsókna á hafsbotnssvæðum okkar og að efla deild innan Orkustofnunar til að sinna hagnýtum verkefnum að þessu leyti, sérfræðilegum verkefnum, og annast gagnavörslu og úrvinnslu gagna.

Þessi mál eru sem sagt á rekspöl, en ég hefði vissulega kosið að fengist hefðu meiri fjárveitingar samkv. fjárlagafrv. en þar kemur fram. Í fjárlagafrv. eru ætlaðar aðeins 300 þús. kr. til setlagarannsókna, en tillögur nefndarinnar og rn., sem framsendar hafa verið hv. fjvn., nema rösklega 2.5 millj. kr. til að vinna að þeim málum sem nefndin telur skynsamlegt að ráðast í á komandi ári og ég teldi æskilegt að ráðist yrði í til að þoka þessum málum fram.

Það varð niðurstaða um þetta efni í ríkisstj. á milli mín og hæstv. fjmrh., að þetta mál yrði sent fjvn. til umræðu og úrlausnar. Ég vænti þess, að nefndin sjái sér fært að bæta við þær fjárveitingar sem frv. gerir ráð fyrir, en hitt er jafnljóst, að til verður að koma vilji af hálfu ríkisstj. til þess að svo megi verða, jafnhliða stuðningi nefndarinnar.

Ég vil aðeins geta til viðbótar um það sem fram kemur í nál. sem hér liggur fyrir. Þar kemur það sérstaklega fram af hálfu nefndarinnar þar sem segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin vill forðast þá þróun að verða eins konar stofnun er hafi á sinni könnu rekstur rannsóknarverkefna. Eðlilegra er, þegar verkefni hafa verið skilgreind nægilega vel og stefna valin, að þeim sé komið fyrir hjá viðkomandi ríkisstofnunum og geri nefndum hagnýtar hafbotnsrannsóknir tillögur til ráðuneytisins þar að lútandi. Nefndin yrði þá frekar umræðuvettvangur og hvati að nýjum verkefnum heldur en framkvæmdaaðili.“

Ég tel mig hafa skýrt mín sjónarmið varðandi æskilega tilhögun þessara mála, en vildi aðeins að lokum geta um þau helstu verkefni sem að hefur verið unnið á þessu ári fyrir þá fjárveitingu sem veitt var samkv. fjárlögum til settagarannsókna.

Þær athuganir, sem fé hrökk til fyrir, beindust að könnunum á Skjálfandasvæðinu. Þar komu við sögu jarðfræðingurinn Lovísa Birgisdóttir, sem vann að athugunum við Flatey á Skjálfanda og í nágrenni Húsavíkur og er að vinna að skýrslugerð um þær athuganir, og Karl Gunnarsson jarðeðlisfræðingur hjá Orkustofnun. Hann vann að segulmælingum og þyngdarmælingum í Flatey sérstaklega og í grennd til að kanna, hvernig kantur þeirrar setlagadældar, sem talið er að þarna sé að finna, líti út milli lands og eyjar, og til að reyna að fá úr því skorið, hvort líkur séu á að þessi setlög séu undir sjálfri Flatey. En sem kunnugt er er yfirborð Flateyjar hraun og ekki vissa fyrir því, hvort þar undir sé hraunlagastafli og þarna sé um gosstöð að ræða eða hraun sem runnið hafi yfir setlög. Karl Gunnarsson hefur tjáð mér að athuganir hans bendi til þess, að þarna sé aðeins um tiltölulega þunna hraunlagasyrpu að ræða og að líkur séu á að setlögin, sem einna þykkust eru úti fyrir mynni Eyjafjarðar, en ná austur á Skjálfandasvæði, séu einnig undir Flatey. Þannig hafa athuganir á liðnu sumri gefið vísbendingu um að skynsamlegt sé að bora í Flatey til að kanna nánar undirstöðu eyjarinnar og þau setlög sem þar er að finna.

Það þarf ekki að rökstyðja hvers vegna skynsamlegt sýnist að velja Flatey sem borpall, ef svo má segja. Það er sjálfgefið þar sem ekki er annars staðarfast land að finna yfir þessu setlagasvæði sem komið hefur fram við mælingar á sjó og við viðnámsmælingar sem fram fóru fyrir nokkrum árum. Það er hins vegar verulegt fyrirtæki ef þarna á að bora djúpa rannsóknarholu. Ef fara ætti niður í 3–4 km dýpt kostar það a. m. k. 10 millj. kr., auk kostnaðar við að koma bor út í eyjuna, en borun undir 1 km grunnrar holu þarna til að fá skorið úr um efstu jarðlögin kostar mun minna. Það eru tillögur þar að lútandi sem nefnd um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir hefur gert.

Í þeirri grg., sem vitnað er til, og áliti nefndarinnar er að finna sundurliðaðar tillögur um æskilegar framkvæmdir sem unnt væri að ráðast í á næsta ári, annars vegar á vegum Orkustofnunar að upphæð 1530 þús. kr. og hins vegar sem iðnrn. gengist fyrir, eða nefndin fyrir þess hönd, að upphæð 1025 þús. kr. eða rösklega 1 millj. kr.

Að lokum vil ég svo geta þess, að alveg nýlega hafa komið fram þau sjónarmið, að í stað þess að gera hljóðbylgjumælingar frá skipum til könnunar á setlögum sé unnt að afla verðmætra upplýsinga, sem kosta mun minna fjármagn, með flugsegulmælingum úr lofti og fá þannig gróft yfirlit yfir útbreiðslu settaga á landgrunni okkar. Það eru slíkar athuganir sem felast m. a. í tillögum nefndarinnar um hagnýtar hafsbotnsrannsóknir að ráðist verði í og kaup á tækum í því skyni. Slík tæki mundu ekki aðeins notast til slíkra athugana, heldur gætu einnig gagnað í sambandi við athuganir á landi, þ. á m. í sambandi við jarðhitaleit og jarðhitakönnun.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég tek undir það, sem fram kom í máli hv. 1. flm., að full ástæða er til að vinna skipulega og markvisst að athugunum á íslenskum hafsvæðum og hafsbotni, og ég vanmet engan veginn þann vilja sem fram kemur hjá honum með flutningi þessa frv. þó að ég telji eðlilegra að halda þeirri skipan, sem komið hefur verið á, og vinna áfram með þeim hætti, en jafnframt að Alþingi fái upplýsingar um þróun mála nokkuð reglubundið og kynntar verði fyrir þinginu stefnumótandi tillögur í þessum efnum.