05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3603 í B-deild Alþingistíðinda. (3144)

272. mál, Kísiliðjan

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fagna þeim ákvæðum sem fram koma í þessu frv. til laga um aukningu hlutafjár í Kísiliðjunni hf. sem stuðla að því að bæta rekstrarafkomu þess fyrirtækis.

Eins og fram kom í máli hæstv. iðnrh. hefur Kísiliðjan verið lyftistöng fyrir héraðið og fyrir sveitarfélög í Norðurlandskjördæmi eystra og í sínu næsta nágrenni, aukið þar mjög á fjölbreytni atvinnulífsins og skapað auknar tekjur sveitarfélaganna.

Eins og mönnum er kunnugt var rekstrarafkoma þessa fyrirtækis mjög léleg á síðasta ári. Eins og fram kemur í grg. með frv. stafar það bæði af óhagstæðri þróun gengismála fyrir þessa starfsemi svo og hversu markaðsmál voru erfið. Nú horfir betur og er batnandi útlit hvað varðar markaðshorfurnar. Eftir að þær ráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir, hafa náð fram að ganga virðist samkv. töflu 1, sem fylgir frv., að tapinu, sem var á síðasta ári, og áætluðu tapi á yfirstandandi ári verði snúið í hagnað. Ætti fyrirtækið að verða gert upp með nokkrum rekstrarafgangi ef af þessu verður.

En mig langaði aðeins að spyrja hæstv. iðnrh. um eitt atriði sem fram kemur í athugasemdunum við frv. Þar er gert ráð fyrir að nýir samningar verði gerðir milli Kísiliðjunnar og Manville um söluþóknun. Sveitarfélög í Norðurlandskjördæmi eystra, þ. á m. Húsavík, hafa haft nokkrar tekjur af hagnaði Manville, sem stafar af söluþóknun þess fyrirtækis vegna sölu á framleiðsluvörum Kísiliðjunnar hf. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðh. hvort þessar fyrirhuguðu breytingar á samningnum sem hér er getið um, muni leiða til þess, að breytingar verði á þeim tekjum sem sveitarfélög hafa haft af hagnaði Manville.