05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3605 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

272. mál, Kísiliðjan

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. hefur það fyrirtæki, sem hér er til umr., mikla sérstöðu í mörgu tilliti. Bæði er það að kísilgúr hefur ekki verið unninn annars staðar í heiminum með þessum aðferðum og auk þess hefur þessi verksmiðja átt við sérstæðan umhverfisvanda að etja vegna eldsumbrota að undanförnu eins og kunnugt er.

Það hefur gengið á ýmsu um rekstur Kísiliðjunnar. Upphaflega átti hún í erfiðleikum vegna þess, hve sérstaða hennar var mikil, tæknilegum erfiðleikum, eins og kom fram hjá hæstv. ráðh., og nú upp á síðkastið vegna eldsumbrota. Því miður verður að bæta því við, að Kísiliðjan við Mývatn hefur líka átt við að etja öfugþróun í stjórnarfari undanfarin ár. Það er rétt, sem kom fram hjá hæstv. ráðh., að gengismálin í heiminum hafa haft mikil áhrif á rekstrarafkomu Kísiliðjunnar að undanförnu og sennilega ekki eins mikil á neitt fyrirtæki í landinu. á hinn bóginn fór hækkun dollarans á almennum gjaldeyrismarkaði saman við gengisstefnu íslenskra stjórnvalda, sem var mjög öndverð öllu atvinnulífi á Íslandi, ekki bara útflutningsatvinnuvegunum, heldur einnig samkeppnisiðnaðinum, þar sem þeir, sem kepptu við innfluttar vörur, urðu oft og tíðum að horfast í augu við mjög mikla hækkun á innlendum kostnaði samfara því sem útlendar vörur hækkuðu ekki í verði. Ég hef ekki farið nákvæmlega ofan í það dæmi, hvernig afkoma Kísiliðjunnar hefði verið á s.l. ári ef skaplega hefði verið á málum haldið að þessu leyti, en ég vil benda á að á borðum þm. er annað frv. um aðra verksmiðju sem hefur farið illa út úr stefnu stjórnvalda, auk þess sem þar hafa komið líka önnur atriði til.

Í vetur spurði ég hæstv. ráðh. um afkomu fleiri iðnfyrirtækja sem eru í eigu ríkisins. Hvert einasta þeirra tapaði stórfé á s.l. ári. Svar hans var að þetta tap mundi verða unnið upp með því að ganga á eignir fyrirtækjanna eða með aukinni skuldasöfnun. Í fersku minni er okkur þm. að Sementsverksmiðjan þurfti sérstakt lán á s.l. ári til þess að geta náð endum saman vegna rekstrartaps.

Ég vil þrátt fyrir þetta láta í ljós ánægju mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. virðist reiðubúin til að hlaupa undir bagga með þessu fyrirtæki, Kísiliðjunni hf. Ég lít svo til sem þm. Norðurl. e., að þetta fyrirtæki hafi þrátt fyrir allt verið mjög mikil lyftistöng fyrir ákveðnar byggðir þess kjördæmis og raunar ein af stoðunum undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Því miður hugnast mér ekki að reka fyrirtæki með þeim hætti sem hér er gert, en þrátt fyrir það vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að það sé rétt stefna að koma nú til liðs við þetta fyrirtæki og reyna til þrautar hvort ekki sé hægt að sigrast á þeim erfiðleikum sem að mörgu leyti eru þessu fyrirtæki óviðráðanlegir og stafa af fyrrgreindum ástæðum.