05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3607 í B-deild Alþingistíðinda. (3153)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Mér skilst, að hæstv. fjmrh. sé á leiðinni, og vildi gjarnan hinkra aðeins eftir honum svo að hann yrði hér viðstaddur. Ég verð ekki langorður, þannig að það er von til að hv. deild geti afgreitt þetta mál fljótlega, þegar hæstv. ráðh. kemur. (Forseti: Það verða gerðar ráðstafanir til þess að vita hvort hann getur komið.)

Herra forseti. Þá hefur hæstv. fjmrh. gengið í salinn.

Ég vil gera hér örfáar athugasemdir að lokum við afgreiðslu á frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1982.

Eins og hv. dm. muna óskaði ég eftir því, að hv. fjh.og viðskn. þessarar deildar kæmi saman til fundar og ræddi þetta mál nú þegar það kemur aftur til deildarinnar eftir langan tíma í Nd. — en þó þannig að í meginatriðum má segja að sömu annmarkar séu á þessu frv. til lánsfjárlaga og voru þegar það fór frá þessari hv. deild. Ég gerði ásamt fleiri hv. dm. ítarlega grein fyrir þessum annmörkum þá. En ég óskaði eftir þessum fundi til að fá upplýsingar um þrennt í rauninni og ég skal takmarka mál mitt við það: Í fyrsta lagi upplýsingar um stöðu erlendra skulda þjóðarbúsins að þessum lánsfjárlögum samþykktum, hvernig sú staða yrði í árslok 1982. Þessara upplýsinga óskaði ég eftir frá Seðlabankanum. Þær bárust mér í hendur nú fyrir um klukkutíma. Í öðru lagi óskaði ég eftir að fá upplýsingar um hver væri þróun innlána, peningalegs sparnaðar, það sem af er þessu ári, og hver hún hefði verið á s.l. ári til samanburðar. Og í þriðja lagi óskaði ég ýmissa upplýsinga um hvernig forsendur þessara lánsfjárlaga mundu vera og hvort þær mundu standast.

Þá vík ég fyrst að erlendum lánum. Hæstv. ráðh. hefur undanfarið látið hafa eftir sér í fjölmiðlum og fram hefur komið eftir honum í Nd., að hann væri í rauninni mjög ánægður með stöðu íslenskra efnahagsmála að þessu leyti, erlendar skuldir væru ekki meiri en þær hefðu verið. Við stjórnarandstæðingar höfum lagt höfuðáherslu á að aukning erlendra skulda væri hrikaleg, á sama tíma sem gífurlegur samdráttur er í fjárfestingu sem unnt væri að gera ráð fyrir að stæði undir þessum lántökum. Fram hefur komið að samdráttur í stóriðju og stórvirkjunum er yfir 40% að magni til frá því í fyrra og 30–40% samdráttur í hitaveituframkvæmdum. Samt sem áður eru lántökur svo gífurlegar sem hér hefur verið tíundað. Ég legg áherslu á að það er þetta atriði sem við gagnrýnum, en ekki erlend .skuldaaukning án tillits til þess hvað fyrir þessa peninga er gert.

Hæstv. ráðh. birti hér tölur um það, hver nettó-staða þjóðarbúsins út á við hefði verið undanfarin ár. Hann komst að raun um það að árið 1981 — og það er staðfest af Seðlabankanum — hefði nettó-staða erlendra lána verið í kringum 32% af þjóðarframleiðslu og hefði ekki aukist síðustu 2–3 árin. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að endanleg tala fyrir árið 1981 reyndist þessi vegna hagstæðrar þróunar á gjaldeyrismörkuðunum fyrir okkur vegna hækkunar dollarans. Hins vegar var stefnt í allt annað með lánsfjárlögum 1981. Ef sú þróun á gjaldeyrismörkuðunum hefði ekki orðið sem raun varð á hefði nettó-staða okkar versnað verulega á s.l. ári. En þetta er kannske ekki höfuðatriðið. Hæstv. ráðh. segir í besta tilviki hálfan sannleika með þessu, vegna þess að nú er stefnt í það að þessi staða versni stórkostlega. Og það var það sem ég vildi fá upplýsingar um frá Seðlabanka. Ég er hérna með bréf, dagsett í dag, sem ég fékk fyrir hálftíma. Þar segir að þessi nettó-tala verði 36% að hún versni úr því að vera 32% eða nálægt því í hvorki meira né minna en 36% á þessu ári. Þennan sannleika ætti hæstv. ráðh. að segja þjóðinni, fyrst hann er á annað borð að leggja svo mikla áherslu á að tekist hafi að halda erlendum lánum, nettó-skuld okkar við útlönd, í sama hlutfalli á s.l. ári.

Þá er það upplýst af Seðlabankanum nú, að greiðslubyrði erlendra lána eftir samþykkt þessara lánsfjárlaga verði ekki 19% af útflutningstekjum, eins og gert hefur verið ráð fyrir áður, heldur 20%. Þetta er niðurstaðan. En í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að svo hóflega verði farið í erlendar lántökur að þessi greiðslubyrði fari ekki yfir 15%. Hún er sem sagt komin fjórðungi yfir það sem hæstv. ríkisstj. þóttist ætla að stefna að einungis fyrir tveimur árum. Þess vegna þykir mér með miklum ólíkindum þegar menn eins og hæstv. fjmrh. koma fram fyrir þjóðina — á því ári sem samdráttur er jafngífurlegur í stórframkvæmdum — og segja: Það er allt í lagi hjá okkur, við höfum ekki aukið skuldir þjóðarinnar meira en eðlilegt er. — Staða langra erlendra lána, þeirra skuldbindinga sem eru í rauninni opinberar skuldbindingar þjóðarbúsins, versnar svo að hún fer í 40% af þjóðarframleiðslunni í árslok með samþykkt þessara lánsfjárlaga og hefur aldrei nokkurn tíma verið hærri.

Um það má kannske deila, hvort eðlilegt sé að leggja áherslu á nettó-stöðu þjóðarbúsins út á við, þegar verið er að tala um hversu skuldugir við séum eða um löng erlend lán. En um það verður ekki deilt, að löng erlend lán eru tekin að tilstuðlan stjórnvalda á hverjum tíma og í öllum alþjóðaviðskiptum er fyrst og fremst horft á það, hversu skuldug viðkomandi þjóð er í löngum erlendum lánum. Mér er tjáð að þær þjóðir, sem hafa gerst svo skuldugar að þær skuldi 40% af sinni þjóðarframleiðslu í erlendum skuldum, séu sérstaklega litnar hornauga af alþjóðastofnunum. Það er rétt, sem fram hefur komið h já hæstv. ráðh., að enn er ekki svo komið að Íslendingar séu litnir hornauga að þessu leyti. En nú syrtir í álinn. Loðnan er horfin og það er gert ráð fyrir að verulegur samdráttur verði frá því sem áður var áætlað í okkar útflutningstekjum og þjóðarframleiðslu. Þegar það fer saman, að svo ótæpilega er gengið í það að taka erlend lán — og slíkar blikur eru á lofti — og jafnframt er ljóst að við erum verr í stakk búnir en ella vegna samdráttar á sviði stórframkvæmda og orkuframkvæmda, sem spara okkur að sjálfsögðu stórfelldan gjaldeyri, þá er miklu eðlilegra að hæstv. fjmrh. komi opinskátt fram við þjóðina og segi: Því miður verð ég að segja ykkur alveg hreint eins og er, að hér horfir ekki nægilega vel. Þetta hafði hæstv. viðskrh. manndóm í sér til að segja í þessari hv. deild þegar lánsfjárlög voru til umr. í haust. En nóg um það.

Allar þær upplýsingar, sem ég aflaði mér um stöðu erlendra lána og greiðslubyrði um áramót að þessum lánsfjárlögum samþykktum benda til þess, að mjög sígi á ógæfuhlið í þessum efnum. Þessar tölur eru miklum mun verri en ég hafði fengið áður uppgefnar án þess að þær væru skuldbindandi af hálfu Seðlabankans. Hér er það alveg skýrt tekið fram, að þessar tölur eru í samræmi við þjóðhagsspá í febrúar s.l., en þá er ekki búið að endurskoða þjóðhagsspána. Nú eru horfur á að þjóðarframleiðslan verði verulega minni en gert var ráð fyrir þá, því miður verð ég að segja. Þetta eru hin verstu ótíðindi, jafnvel verri en stjórnarandstaðan hefur verið að segja frá hér í þingsölum í vetur. En hér er um tölur að ræða sem eru staðfestar af hálfu Seðlabankans.

Þá vil ég koma að innlendum sparnaði. Samkvæmt þeim lánsfjárlögum, sem hér eru til afgreiðslu, er ætlunin að stórauka lántökur hins opinbera af innlendu fé. Ég hef margbent á að þessar áætlanir virðast algerlega byggðar á sandi. Hæstv. fjmrh. gerði að vísu spariskírteini ríkissjóðs nokkru aðgengilegri fyrir sparifjáreigendur. Ég veit ekki — og hef ástæðu til að spyrja hæstv. ráðh. um það — hvernig sala spariskírteinanna gengur. En eitt get ég fullyrt og það er að þótt spariskírteinasala ríkissjóðs gangi skár en hún hefði gert að öðrum kosti, þá yrði þar fyrst og fremst um tilflutning á sparnaði að ræða.

Í fyrra jukust innlán í bankakerfið mjög mikið, meira en undanfarin ár. En þrátt fyrir þessa innlánsaukningu jókst ekki heildarsparnaður í þjóðfélaginu, heldur minnkaði hann samkvæmt upplýsingum sem fyrir liggja nú frá Seðlabankanum. Sparnaður í atvinnulífinu, sparnaður í opinberum rekstri, sparnaður einstaklinga í öðru formi en peninga minnkaði meir en aukning peningalegs sparnaðar var, þannig að það er langt, langt síðan jafnlítill sparnaður hefur orðið í íslensku þjóðlífi og á s.l. ári. Og beri menn það nú saman við þá glansmynd sem hæstv. ríkisstj. vill að þjóðin horfi á að þessu leyti. Ég hef hér upplýsingar um innlán í bankakerfið fyrstu mánuði ársins í ár og fyrstu mánuði ársins í fyrra. Innlán með vöxtum jukust fyrstu tvo mánuðina í fyrra um 13.3%, en núna aðeins um 9.1%. Heildarútlán í fyrra jukust aðeins um 7.4%, en núna um 8.8%, þannig að það er ljóst hvert stefnir að þessu leyti, og því miður eru allar áætlanir um að stórauka lántökur hins opinbera samkv. lánsfjárlögum við slíkar aðstæður algerlega út í hött.

Þriðja atriðið, sem ég talaði um hér síðast og óskaði upplýsinga um, var hvernig forsendur lánsfjárlaganna væntanlegu stæðu. Eins og menn vita er gert ráð fyrir því í frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun, að ekki verði nema 25–26% verðbólga frá ársbyrjun til ársloka á Íslandi í ár. Sú verðbólga er næstum þegar orðin. Hún yrði sem sagt að verða nálægt núlli seinni hluta ársins ef þær forsendur ættu að standast. Ég hef áður gert grein fyrir því, hversu mikill munur er á að afgreiða lánsfjárlög með slíkum hætti eða fjárlög, þar sem í lánsfjárlögum er gengið út frá ákveðinni krónutölu til hinna ýmsu verkefna. (Fjmrh.: Í fjárlögum líka.) Í fjárlögum er það líka gert, hæstv. fjmrh., en þó einungis að hluta til, þ.e. á sviði framkvæmda, sem orðið hafa illa úti einmitt vegna þess. Raungildi framkvæmda og þess, sem ríkissjóður leggur hverju sinni í framtíðaruppbyggingu, hefur minnkað ár eftir ár einmitt af þeim sökum.

Hæstv. ráðh. lét mér í té upplýsingar frá 5. apríl um skýrslu Þjóðhagsstofnunar um verðbólguna á þessu ári, þ.e. hugmyndir um framreikning vísitölunnar eins og hann verður eftir ákvörðun ríkisstj. um niðurgreiðslur. Þar er sagt að niðurstöður séu óbreyttar. Þar er gert ráð fyrir 40% verðbólgu frá upphafi til loka árs, en ekki 25–26% eins og lánsfjáráætlunin segir, og er þá einungis talað um framfærsluvísitöluna, en byggingarvísitalan hækkar um 44% frá upphafi til loka árs samkvæmt þessum áætlunum og 47% frá því í fyrra, þannig að ef ætti að byggja á þessum forsendum hæstv. ráðh. um framkvæmdafé þyrfti framkvæmdafé í lánsfjárlögum fyrir árið 1982 að vera 47% hærra en það var í fyrra til þess að það haldi raungildi sínu. Nú er einungis gert ráð fyrir að það verði um 30% hærra. En því miður er það svo að alveg er ljóst að þessi spá, sem er sjálfsagt gerð af fullum vilja til þess að reyna að láta líta svo út að verðbólgan verði sem allra minnst á þessu ári, hún stenst ekki. Hagstofan gerir ráð fyrir að framfærsluvísitala hækki um 11.7% 1. maí og er þá þegar tekið tillit til niðurgreiðslna í mars og að verðbótavísitala hækki um 10.10% 1. júní. Að sjálfsögðu má laga framfærsluvísitöluna eitthvað til með auknum niðurgreiðslum. Það tekst hins vegar ekki með byggingarvísitölu, og hún er miklu betri mælikvarði á það hvort lánsfjárlög séu raunhæf eða ekki. En samkvæmt þessu er verðbólguhraðinn, ef hann er mældur á þessa niðurgreiddu og nafntoguðu framfærsluvísitölu, 55% nú, ef spá Hagstofunnar rætist. Því miður byggjast lánsfjárlögin, sem eru hér nú til 3. umr., á þessum forsendum, sem í rauninni eru algerlega út í bláinn, eins og margsinnis hefur verið bent á í þessum umr.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða meira um þessi lánsfjárlög, enda mörg orð búinn að segja út af þeim, og vísa til þeirra nál. sem fyrir liggja í þessum efnum. En ég verð að segja það að lokum, að það er nokkuð langt síðan ég hef orðið vitni að því að hæstv. ráðh. hafi reynt að segja þjóðinni hálfsannleika með jafnaugljósum hætti og gert hefur verið undanfarið í þessum efnum, sérstaklega að því er varðar erlendar lántökur. Og mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna menn reyna að fara svo augljóslega öfugt með staðreyndir eins og hæstv. ráðh. hafa gert að þessu leyti.