05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3617 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða. Hæstv. ráðh. talaði um að hann vildi gjarnan fá málefnalega umr. um erlenda skuldasöfnun. En það, sem hann hafði fyrst og fremst til málanna að leggja, var skætingur í garð stjórnarandstöðunnar og útúrsnúningur.

Ég hef sjaldan orðið fyrir því að hlusta á ráðh. verða eins gjörsamlega rökþrota og þennan hæstv. ráðh. í þessum umr. Kjarninn í hans boðskap var m.a. sá, að það væri stefna stjórnarandstöðunnar að auka erlendar lántökur og sporna gegn innlendri lánsfjáröflun. Hann sagðist ekki kannast við neinar tillögur um að stjórnarandstaðan hefði uppi tilburði um að draga úr erlendum lántökum eða greiða fyrir innlendri lánsfjáröflun. Það er eins og maðurinn sé bæði blindur og heyrnarlaus, því að við höfum ítrekað birt og boðað stefnu okkar í þessum efnum á undanförnu ári. Maðurinn er gjörsamlega rökþrota í þessu máli.

Hver er leiðin til þess að auka innlenda lánsfjáröflun? Leiðin er vitaskuld sú að framfylgja raunvaxtastefnu eins og við Alþfl.-menn höfum lagt til. Meðan það er ekki gert mun allt annað reynast hjóm eitt vegna þess að heildarkakan, sem menn hafa þá til ráðstöfunar, vex ekki. Eina ráðið til þess að auka hér möguleika á innlendri lánsfjáröflun, grundvallarforsendan fyrir því að ná árangri í þeim efnum, er auðvitað að framfylgja raunvaxtastefnunni. Og það merkilega er að þessi hæstv. ráðh. fékk aðeins að finna smjörþefinn af því, að þetta er mögulegt, því að það gerðist á fyrra ári um tíma að menn nálguðust það að framfylgja þessari stefnu. Og hvað gerðist þá? Sparnaður í bönkunum jókst og svigrúmið til innlendrar lánsfjáröflunar jókst. Það þýðir ekkert að vera að hjakka og hjakka varðandi einhverjar bindingar í lífeyrissjóðunum. Það fé, sem þar er til ráðstöfunar, er að svo og svo miklu leyti í fjárfestingu, hvort heldur það gerist í gegnum lánsfjáráætlun eða í gegnum lífeyrissjóðina sjálfa. Það er bara spurningin um hvernig kökunni er skipt á hina ýmsu hluta þjóðarbúsins. Það er ekki spurningin um það, hvort menn hafi meira eða minna fé í innlendri lánsfjáröflun, heldur einungis spurningin um það, hvernig því er skipt. Ef menn vilja hafa stærri hluta í innlendri lánsfjáröflun er auðvitað ráðið að sparnaðurinn aukist í landinu, eins og horfur voru á og greinilega gerðist hluta árs í fyrra.

Ég vil líka minna á, að við Alþfl.-menn höfum talið nauðsynlegt að draga úr erlendum lántökum, og ég mótmæli því alfarið, að við höfum flutt nokkra einustu tillögu sem feli í sér tilefni til aukinnar erlendrar lántöku. Þvert á móti höfum við flutt tillögur t.d. varðandi stærð skipastólsins um að draga úr innflutningi fiskiskipa, sem mundi hafa stórkostleg áhrif til þess að draga úr erlendri skuldasöfnun. Og þar er tvöföld ástæða til þess að draga úr, vegna þess að það er ekki einasta að menn séu að binda sér byrðar með því að kaupa þessi skip erlendis frá, heldur er líka verið að binda sér viðbótarbyrðar vegna rekstrar þessara skipa, og engar tekjur koma á móti þegar heildarfiskaflinn er takmarkaður.

Það liggur því ljóst fyrir, að um grundvallaratriði þessa máls hefur ríkisstj. gjörsamlega yfirsést. Hún hjakkar á hálfhring í kringum lífeyrissjóði og því um líkt, við að búta niður það sem er síminnkandi, í stað þess að taka á þessum málum með raunhæfum hætti. Ætli það væri ekki munur fyrir hæstv. fjmrh. ef hann hefði staðið gegn þessari skriðu skipainnflutnings og þeirri erlendu lántöku sem því fylgir? Ætli það væri ekki munur fyrir hæstv. fjmrh. ef honum hefði tekist að auka hér innlendan sparnað með framkvæmd raunvaxtastefnunnar, eins og við Alþfl.-menn höfum lagt til? Þá horfði hér allt öðruvísi við. Núna er hann að afsaka sig með því, að það séu lakari kjör á lánum í útlöndum en hafi verið áður, eins og við höfum ekki vitað það. Það kemur ekki þessu máli við. Og það er heldur engin afsökun að tala um að hlutfallstalan sé svona há af því að þjóðarframleiðslan sé að dragast saman. Byrðarnar verða þetta þungar m.a. vegna þess að þjóðarframleiðslan er að dragast saman. Það er alveg ljóst. Það er m.a. þess vegna sem fjórði hver þorskur og fjórða hver branda, sem dregin er úr sjó, fjórða hver vinnustund í fiskvinnslu, hverju nafni sem nefnist, fer í það að vega á móti þessari greiðslubyrði. Svo talar hæstv. fjmrh. um að stjórnarandstaðan sé að hræra saman hlutunum. Við fluttum hér tiltölulega mjög hógværar ræður þar sem við vöruðum við þessari skuldasöfnun, lítum á þjóðarbúið sem heild og hvernig það stæði. En hver var það sem fór að hræra? Það var hæstv. ráðh. Hann vildi ekki einu sinni tala um ríkisfjármálin í heild, heldur bara um A-hlutann sér. Og síðan talar ráðh. um að stefnan í þessari lántöku sé sú, að fyrirtæki muni standa undir henni. Þó verður hann að játa það á sig síðar í sömu ræðu, að dæmi séu um að tekin séu erlend lán í rekstur. Og þess eru fjölmörg dæmi. Það þarf ekki einu sinni að rekja þau, svo vel þekkir allur þingheimur hvernig komið er í þeim efnum. En við skulum taka bara einn einfaldan mælikvarða á það, hvernig þessum lántökum er farið núna miðað við það sem áður var.

Það, sem fer í endurnýjun á lánum, í það að framlengja gömul lán, var á árinu 1980 35% af innkomnum lánum, löngum erlendum lánum. Á þessu ári er það komið í 45%. Bara á þessum tveim árum hefur þetta hlutfall hækkað úr 35% í 45%. Það er ástæða til að vara mjög eindregið við þessari þróun. Og það er annar mælikvarði sem er mjög lýsandi. Á árinu 1980 var varið 703.5 millj. kr. í virkjanir, stóriðju og hitaveitur. Lántökur erlendis nettó, löng lán, voru þá heldur minni eða 686 millj. kr. Á árinu 1981 helst þetta líka nokkurn veginn í hendur. Það, sem varið er í virkjanir, stóriðju og hitaveitur, er um 1000 millj. kr., og löng erlend lán eru rúmlega 1000 millj. kr. En hvað gerist á þessu ári núna? Það er það sem er alvarlegt. Á þessu ári er varið 825 millj. kr. í virkjanir, stóriðju og hitaveitur, þær framkvæmdir sem geta staðið undir lántökum af þessu tagi. En hvað er tekið að láni til að standa undir þessu? Það er 50% meira. Það eru um 1 300 millj. kr. Það er þessi þróun sem er mjög einkennandi fyrir þau lánsfjárlög sem hér eru til umræðu. Fram að þessu hafa menn fylgt þeirri reglu, að löng erlend lán, nettó-hluti þeirra, stæðist nokkurn veginn á við það sem væri sett í virkjanir, stóriðju og hitaveitur. En núna leyfa menn sér að fara 50% fram úr. Þarna munar 400–500 millj. kr., sem eru hrein eyðslulán, miðað við það sem menn hafa tíðkað á undanförnum árum.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá hæstv. ráðh. þegar hann talar um að stjórnarandstaðan fjalli um þessi mál af ábyrgðarleysi og yfirborðsmennsku. Ræða ráðh. sjálfs áðan bar einmitt keim af þessum atriðum, af ábyrgðarleysi og yfirborðsmennsku og tilraun til að villa um með því að tala um A-hluta fjárlaga í staðinn fyrir að tala um þjóðarbúið í heild, með því að slá úr og í.

Það er auðvitað áhyggjuefni þegar hæstv. fjmrh. talar um svo alvarlegt mál sem þetta af slíkri sýndarmennsku sem hann gerði hér áðan og kórónar svo allt saman með því að kenna stjórnarandstöðunni um. Þó er ljóst af þeim dæmum, sem ég hef hér rakið af tillöguflutningi okkar Alþfl.-manna, að við höfum einmitt flutt till. sem mundu verða til þess að snúa af þessari braut, að dregið yrði úr erlendum lántökum, að innlend lánsfjáröflun væri aukin.

Það væri vissulega ástæða til þess, að farið gæti fram málefnaleg umræða um þessi mál eins og hæstv. ráðh. var að óska eftir. En þá verður hæstv. ráðh. líka að vera reiðubúinn að fjalla um þessi mál á grundvelli staðreyndanna, en ekki bara með útúrsnúningi, skætingi, árásum á stjórnarandstöðuna og kvartandi og kveinandi undan því, að hún standi í vegi fyrir að hægt sé að breyta um stefnu. Sannleikurinn er sá, að stjórnarandstaðan, við Alþfl.-menn höfum flutt hverja tillöguna á fætur annarri sem mundi hafa komið í veg fyrir þessa þróun, sem mundi hafa komið í veg fyrir að við stæðum í þeim sporum sem ríkisstj. hefur nú komið þjóðarbúinu í. Það er auðvitað sannleikurinn í þessu máli.

Ég skal nú ekki lengja þessa umr., herra forseti. En ég verð að segja það, að málflutningur af því tagi, sem hæstv. ráðh. hafði hér uppi áðan, er vitanlega fyrir neðan virðingu Alþingis. Þeir, sem sitja í nefndum og hafa farið yfir þessi mál og líta á fáeina einfalda mælikvarða, eins og ég hef hér gert núna, þeir sem eru reiðubúnir að líta á hvaða tillögur hafa verið fluttar um hvernig eigi að halda á málunum með öðrum hætti, þeir flytja ekki mál sitt með þeim hætti sem hæstv. ráðh. gerði.

Ég vil að lokum vænta þess, herra forseti, að hæstv. ráðh. sjái nú að sér og athugi sinn gang og treysti sér til að ræða þessi mál á eðlilegum og málefnalegum grundvelli, en ekki með árásum og útúrsnúningi.