05.04.1982
Efri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3620 í B-deild Alþingistíðinda. (3157)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það er kannske ekki mikil ástæða til að fara mörgum orðum um málflutning hæstv. ráðh. í þessari hv. deild við þessa umr. Hann viðhafði hér þau orð, að við stjórnarandstöðuþingmenn fimbulfambuðum hér um ákveðin mál. Ég vil vísa þessu til föðurhúsanna og tel að hæstv. ráðh. hafi rækilega varpað þarna steini úr glerhúsi.

Hæstv. ráðh. fór mörgum orðum um málflutning okkar um erlendar lántökur. Ég kom hér fram með nýjar upplýsingar frá Seðlabankanum um hvert mat Seðlabankans væri á því, hvað samþykkt þess frv., sem við erum nú að fjalla um í þessari hv. deild, mundi þýða. Að sjálfsögðu er útilokað fyrir Alþingi eða Seðlabankann annað en að reyna að gera sér grein fyrir því, hvað samþykkt þessa frv. þýðir. Og þá þarf að sjálfsögðu að reyna að horfa fram í tímann.

Hvorki hæstv. ráðh. né einstakir þm. né Alþingi né Seðlabankinn geta metið hvað við erum að gera í þessum efnum nema menn reyni að gera sér grein fyrir því, hvernig þetta horfir, til hvers samþykkt þessa ákveðna frv. leiðir. Ég þarf ekki að endurtaka það, að þær upplýsingar, sem ég kom hér fram með nú um það, eru uggvænlegar. Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði með mínum málflutningi raunar andmælt þessu sjálfur. Ég hefði bent á að í fyrra hefði Seðlabankinn gefið út spádóma á þessu sviði og þeir hefðu ekki ræst. Það má náttúrlega lengi halda svo á málum, að benda á að einstakir spádómar í þessum efnum hafi ekki ræst. En það kastar tólfunum þegar menn koma og segja: Spádómurinn rættist ekki, þess vegna er málflutningurinn óábyrgur sem hafður er frammi í dag, en hæla sér svo af því jafnframt, að þessi spádómur hafi ekki ræst vegna eigin verðleika. Sannleikurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. vill þakka sér þann utanaðkomandi búhnykk á s.l. ári sem varð til þess, að nettó-staða þjóðarbúsins við útlönd versnaði ekki eins mikið og efni stóðu til. Hæstv. ráðh. hefur, bæði hér á hinu háa Alþingi og eins í fjölmiðlum, beinlínis þakkað sjálfum sér og ríkisstj. það að staðan versnaði ekki á s.l. ári.

Það er að sjálfsögðu ekki bæði hægt að þakka sér fyrir slíkan búhnykk og tala svo — eins og hæstv. ráðh. gerði hér áðan — um að það væri ekki á hans færi að koma í veg fyrir, að loðna veiddist ekki, og það væri ekki á hans færi að koma í veg fyrir, að vextir hækkuðu ekki í alþjóðaviðskiptum. Hvorugt þetta er á valdi hæstv. ráðh., það er alveg hárrétt. En þá þarf hann líka að hafa kjark og þor til að skýra rétt frá því, að það væri ekki á hans valdi og það væri ekki af hans völdum sem staðan í þessum efnum versnaði ekki eins og horfur voru á í fyrra.

Nú er hins vegar allt annað uppi á teningnum, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi sjálfur. Það eru mjög versnandi horfur um okkar þjóðarbúskap og versnandi horfur um að við höldum okkar útflutningstekjum. Það er einmitt vegna þess að slíkar sveiflur eru hættulegar. Þær eru jafnhættulegar fyrir þjóðarbúið og tekjur okkar sjálfra. Ef tekjur okkar sjálfra minnka höfum við minni möguleika á að standa undir lánum. Hvert og eitt einasta heimili í landinu veit að það er einmitt vegna þess að tekjur þess geta breyst, að menn þurfa að vera varkárir í að taka lán og að það kemur að skuldadögum. Og þegar sveiflur eru í tekjum þjóðarbús, eins og í tekjum heimila, þá er einmitt ástæða til þess að gjalda varhug við því að taka lán. Það er nákvæmlega af þessum ástæðum sem við höfum varað við því hér, stjórnarandstæðingar, hversu mikið hefur sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum á undanförnum árum. Og ég vil enn og aftur benda á það, að þetta gerist á því ári sem stóriðja og stórvirkjanir, orkuframkvæmdir rýrna samkv. skýrslu ríkisstj. sjálfrar. Þær dragast saman að magni til um 43.5% og framkvæmdir við hitaveitu um 31.5% að magni til. Og ég vil leggja áherslu á það, að í málflutningi okkar stjórnarandstæðinga hefur þetta tvennt verið borið saman.

Það er að sjálfsögðu út af fyrir sig ekki hægt að líta svo á að erlendar lántökur séu af hinu illa, jafnvel þó að þær aukist verulega, ef um er að ræða að þetta fé sé lagt í arðbærar framkvæmdir, við skulum hugsa okkur t.d. til vegamála, sem eru sjálfsagt einar arðbærustu framkvæmdir sem við getum lagt opinbert fé í, eða orkuframkvæmda, svo að dæmi séu tekin. En það er á því ári sem þessar framkvæmdir dragast svona stórkostlega saman, sem við erum að fara langt yfir strikið í erlendum lántökum.

Ég vil rifja hér upp það sem stendur um þetta efni í stjórnarsáttmálanum sem er ekki nema rétt um tveggja ára gamall. Þar segir svo, með leyfi forseta: „Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u.þ.b. 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“ Síðan kemur hér varnagli: „Efri mörk erlendrar lántöku verði þó ákveðin nánar með hliðsjón af eðli framkvæmda með tilliti til gjaldeyrissparnaðar og gjaldeyrisöflunar.“ Hér er að sjálfsögðu verið að slá þann varnagla, að þetta gæti kannske farið fram úr 15%, og væri kannske ekkert óeðlilegt við það, ef verið væri að fara í framkvæmdir sem spöruðu gjaldeyri eða öfluðu gjaldeyris. En það, sem er að gerast núna er þveröfugt. Það er verið að draga þessar framkvæmdir stórkostlega saman á sama tíma sem greiðslubyrðin hækkar upp í ekki 16%, ekki 17%, heldur 20% af útflutningstekjum. Það er þetta meginatriði sem við stjórnarandstæðingar höfum bent á og gagnrýnt. Að öðru leyti held ég að ég segi ekki meira um það sem varðaði erlendar lántökur í máli hæstv. fjmrh.

Hæstv. ráðh. taldi að við stjórnarandstæðingar værum þversum í þessum efnum og vildum ekki einu sinni auka opinberar lántökur á innlendum fjármagnsmarkaði. Það var engu líkara en að hæstv. ráðh. teldi að það væri bara hægt að finna þarna fé, eitthvert nýtt fjármagn til að draga úr erlendum lántökum, þá væri ráðið einfalt, bara taka meiri lán á innlendum markaði.

Það er að sjálfsögðu misskilningur hjá hæstv. ráðh., að það verði til einhverjir peningar með því að taka lán á innlendum markaði. Þeir peningar, sem verða til þar, verða vegna sparnaðar. Ég hef hér reynt að upplýsa hæstv. ráðh. og vonandi fleiri ráðamenn þjóðarinnar um það, að því miður varð niðurstaðan sú, þrátt fyrir það að menn hafa hér hver um annan þveran hælt sér einna helst af því, að stjórnarstefnan hafi leitt til aukins innlends peningalegs sparnaðar á s.l. ári, — þrátt fyrir þetta er heildarsparnaður í þjóðfélaginu minni en hann hefur verið nokkru sinni, a.m.k. um mörg undanfarin ár.

Hér hef ég í höndum bréf frá Seðlabanka Íslands sem staðfestir þetta. Það er dagsett 11. mars s.l. Þar segir, með leyfi forseta: „Þjóðhagslegur heildarsparnaður nam 25.6% af vergri þjóðarframleiðslu árið 1980, en 23.5% árið 1981, samkv. bráðabirgðauppgjöri Þjóðhagsstofnunar.“ Innlendur sparnaður, heildarsparnaður minnkaði um 2% miðað við þjóðarframleiðslu á árinu í fyrra. Ástæðan er einfaldlega sú, að sparnaður þjóðarinnar, sparnaður í opinberum rekstri minnkaði, sparnaður í atvinnufyrirtækjunum minnkaði vegna lélegrar afkomu atvinnuveganna, sparnaður hjá venjulegu fólki — í öðru en í peningalegum sparnaði sem jókst nokkuð í fyrra — minnkaði. Og þessi sparnaður minnkaði svo mikið að nam meiru en aukningu á peningalegum sparnaði, sem var nokkur í fyrra. Það varð tilflutningur á sparnaði, en heildarsparnaðurinn minnkaði. Og þegar svo er ástatt, eins og ég benti hæstv. .ráðh. á í umr. áðan, að heildarinnlán í bankakerfið hafa aukist miklu mun minna en í fyrra, þá er útilokað að tala um að það sé einhver lausn á erlendum lántökum að auka lántökur hins opinbera á innlendum lánsfjármarkaði. Þar eru þessir peningar einfaldlega ekki til, nema það eigi þá að taka þá frá öðrum, t.d. húsbyggjendum eða atvinnuvegunum, og draga þá úr fjárfestingu atvinnuveganna.

Þróunin hefur verið sú undanfarið, að dregið hefur úr fjárfestingu atvinnuveganna, einkum á þeim sviðum sem æskilegt hefði verið að auka þá fjárfestingu. Ein skýringin á því, að þjóðartekjur okkar hafa ekki aukist undanfarin ár þrátt fyrir gífurlega aflaaukningu og hagsæld til sjávarins, er einmitt sú, að stefnan hefur að þessu leyti verið röng.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að ræða frekar um furðulegan málflutning hæstv. fjmrh. við þessa lokaumr. um lánsfjárlög. Því miður verður að segja sem svo, að þessi lög verða óbrotgjarn minnisvarði um fjármálastjórn núv. ríkisstj., og sá minnisvarði er ekki fagur.