05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3625 í B-deild Alþingistíðinda. (3163)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Hér er á ferðinni vissulega eftirtektarvert mál og að mínum dómi ekki alveg augljóst að sú afgreiðsla, sem hér er stefnt að, sé sú hagstæðasta. Ég verð að segja að ég er fyrir mitt leyti andvígur því, að settur sé á stofn sérstakur sjóður með sérstakri sjóðstjórn sem á svo að hafa það verkefni sem getið er um í 5. gr., þ.e. að sjóðstjórnin eigi að ákveða listskreytingu þeirra mannvirkja, sem lög þessi taka til, og hvernig staðið skuli að framkvæmdum í samvinnu við arkitekt byggingarinnar. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé miklu eðlilegra og líklegra til góðs árangurs að þessi ákvörðun sé tekin af aðstandendum byggingarinnar í samvinnu við arkitekt hennar. Það er alveg sama hvort það heitir sveitarstjórn, ráðuneyti eða byggingarnefnd, ég treysti þeim miklu betur til þess, sem eru úr því umhverfi og starfa náið með arkitektinum sem fæst við byggingarnar, að finna réttu leiðina til að fá fram smekklegar og fallegar listskreytingar en einhverri sjóðstjórn sem starfar langt frá þeim stað sem verið er að byggja á.

Það var um það getið áðan, að þetta væri áhugavert mál fyrir myndlistarfólk, og ég efa ekki að svo sé. En ég held að það verði ekki fram hjá því gengið, að sá aðilinn, sem hlýtur að hafa mest ákvörðunarvald um með hverjum hætti bygging er skreytt, sé arkitekt hennar. Ég byggi þá skoðun mína á því, að það er nú orðið almennt viðurkennt að það megi ekki breyta byggingu arkitekts nema með hans leyfi. Þó að talað sé um það hér að sjóðstjórnin eigi að ákveða þetta í samvinnu við arkitekt byggingarinnar er það samstarf, eins og ég tók fram áðan, miklu erfiðara viðfangs en ef staðið væri að þessu með þeim hætti að aðstandendur byggingarinnar fengju að ráða að einhverju leyti.

Ég ætla ekki að tala um þetta lengi. Ég er á móti sjóðsstofnun til þessa, en ég er ákveðið fylgjandi því, að ákveðnum hluta af byggingarkostnaði sé varið til listskreytingar. Það þarf ekki að mínum dómi að vera heimildarákvæði. Það má vera föst ákvörðun. Það yrði miklu farsælla að mínum dómi en að fara að setja upp sjóð með einni stjórn fyrir landið allt.

Ég tel mig óbundinn af því samkomulagi sem gert hefur verið í nefndinni og ég er andvígur sjóðnum og mun ekki greiða honum atkvæði.