05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3626 í B-deild Alþingistíðinda. (3164)

2. mál, Listskreytingasjóður ríkisins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr. og er raunar annað málið sem lagt var fram á þessu þingi í haust um listskreytingar á vegum ríkisins, horfir auðvitað til mikilla framfara að því leyti, að gert er ráð fyrir að festa fjármagn til þessa með ákveðnari hætti en verið hefur. Ég held, eins og raunar hefur komið fram hjá öllum ræðumönnum hér, að sú ákveðna hugmynd horfi til mikilla framfara og þar með meginhugsunin í þessu frv.

En varðandi það, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, vil ég vekja athygli á að í frv., eins og það var lagt fram af hæstv. menntmrh., var kveðið á um mikið miðstýringarvald til handa þessari sjóðsstjórn. Í 5. gr. frv., eins og það var lagt fram, sagði, með leyfi hæstv. forseta: „Sjóðsstjórnin ákveður listskreytingu þeirra mannvirkja, sem lög þessi taka til, og hvernig staðið skuli að framkvæmdum í samvinnu við arkitekt byggingarinnar.“ — Það var m.ö.o. ákveðið að sjóðstjórnin skyldi hafa vald til að ákveða þetta sjálf. Varðandi það fellst ég á rök hv. síðasta ræðumanns. Ég er sannfærður um að þetta kerfi og hið mikla vald til handa þessari stjórn hefði beinlínis verið mjög skaðlegt, enda spurðu menn hvort þetta mundu ekki þýða að heilt bákn mundi rísa upp í kringum sjóðstjórnina, að hún mundi vera á faraldsfæti marga hringi í kringum landið til að skoða aðstæður og annað slíkt. Þegar menn höfðu velt þessu fyrir sér og skoðað gögn í þá veru var frvgr. breytt mjög verulega og nú hljóðar hún svo — að vísu með öðru númeri af því hún verður 8. gr.: „Sjóðstjórnin skal samþykkja fyrirhugaða listskreytingu þeirra mannvirkja, sem lög þessi taka til, og hvernig staðið skuli að framkvæmdum í samvinnu við arkitekt byggingar og bygginganefnd.“ — M.ö.o.: einu mjög veigamiklu grundvallaratriði hefur verið breytt. Þessu valdi hefur verið dreift og frumkvæðið er nú hreint og klárt ekki hjá sjóðstjórninni, heldur hjá bygginganefnd og arkitekt og hlutverk sjóðstjórnarinnar er síðan að vinna að samræmingarstarfi og að samþykkja, þ.e. hún hefur í raun, eins og þetta nú er sett, neitunarvald, en frumkvæðið er heima í héraði eða hjá þeim aðilum sem að byggingarframkvæmdunum standa. Ég tel að með þessu hafi frv. verið breytt í verulegum grundvallaratriðum frá upphaflegri mynd, eins og fram kom í gögnum sem hv. þm. Halldór Blöndal las upp og borist höfðu nefndinni. Það var mikill miðstýringarþanki í frv., eins og það upphaflega var kynnt, og ekki aðeins ég, heldur fleiri nefndarmenn drógu mjög í efa að skynsamlegt væri að fela stjórninni svo mikil og afgerandi völd, sem vafalaust hefðu haft í för með sér að upp risi bákn. En þessu hefur sem sagt verið breytt. Ég vil vekja rækilega athygli á því, hvernig þessari grein hefur verið breytt. Ég hygg að það þýði að þessi almenna hugmynd þróist í allt aðra átt en upphaflega var stefnt að, m.ö.o. að hér verið ekki miðstýrt bákn með miklu valdi, heldur hafi þessu valdi verið dreift, en það þarf samþykki stjórnarinnar. Hennar starf felst þá í samræmingu frekar en frumkvæði.