05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3629 í B-deild Alþingistíðinda. (3167)

58. mál, skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði

Frsm. 1. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Frv. um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði hefur verið flutt hér síðan þessi sérstaki skattur var lagður á í fyrsta sinn á árinu 1979 og þá var frv. flutt af vinstri stjórninni sem tók við haustið 1978. Síðan hefur þessi skattur verið lagður árlega á samkvæmt sérstökum lögum sem gilt hafa fyrir eitt ár í senn.

Þetta frv. gerir ráð fyrir að framhald verði á þessari skattlagningu á árinu 1982. Sjálfstfl. hefur verið á móti þessari skattlagningu frá því að hún hófst árið 1979, og var fullkomin samstaða í þingflokki Sjálfstfl. um að vera á móti þessari skattlagningu og hún talin alröng með öllu af öllum þm. Sjálfstfl. Hins vegar hefur það gerst, að nú í tvö skipti hafa þrír ef ekki fjórir af þm., sem telja sig til Sjálfstfl., gengið til liðs við rauðliða í þinginu til að samþykkja þennan rangláta skatt. Aldrei virðist hafa hvarflað að þeim að skýra frá hvað hefur breytt afstöðu þeirra til þessa máls. Væri mjög fróðlegt að heyra hvað hafi gert að verkum að þeir hafa snúist gegn sínum flokki og eigin samþykktum í þessu máli. Mér finnst vera kominn tími til að gefa skýringu á þessu máli þegar í þriðja sinn á að fara að endurtaka þetta frá því að þeir komu í ríkisstj.

En það eru fleiri fjölskyldumeðlimir í núv. ríkisstj. sem hafa látið í ljós andúð sína á þessum skatti en þessir þm. Sjálfstfl. Höfuðleiðtogar Framsfl„ hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh., sem því miður eru ekki hér í dag, — annar kvað vera kominn á skíði og hinn í golf, — hafa lýst yfir að þeir væru á móti þessari skattlagningu og vildu afnema hana með öllu.

Furðulegt er líka til þess að vita, að 3. þm. Austurl., sem hefur gert að miklu baráttumáli að greiða fyrir uppbyggingu strjálbýlisverslunar, mælir nú með því að halda áfram skattlagningu m.a. á þessa sömu strjálbýlisverslun með samþykkt þessa frv. Væri líka fróðlegt, ef hann skýrir sitt nál., að fá að heyra af hverju hann breytir svo gegn sinni sannfæringu í þessum efnum. Það er ekki hægt að skýla sér á bak við fjárlagagerðina því að þessir sömu menn bera ábyrgð á þeirri ákvörðun sem var tekin í sambandi við fjárlagagerð.

Við, sem skipum 1. minni hl. fjh.- og viðskn., höfum verið á móti þessari skattlagningu frá upphafi, en auk mín skrifa undir þetta nál. hv. 3. þm. Reykv., Albert Guðmundsson, og hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen. Hins vegar tel ég það athyglisvert, sem fram kemur í nál. 2. minni hl., fulltrúa Alþfl., Sighvats Björgvinssonar, en hann telur að þessi skattur hafi verið lagður á mjög tímabundið og Alþfl. hafi fylgt þessari skattlagningu, en nú segir hann, að kominn sé tími til að spyrna við fótum, og flytur brtt. um að lækka þennan skattstofn úr 1.4% í 0.7 á þessu ári, en hann falli niður með öllu á árinu 1983.

Það fer að verða hæpinn þingmeirihluti fyrir þessari skattlagningu ef menn vilja standa við yfirlýsingar sínar í þessum efnum, ef menn vilja standa við það sem þeir hafa áður samþykkt og áður lagt til, eins og hæstv. landbrh., sem hér er inni og er algerlega á móti þessari skattlagningu. Það er kominn tími til að hann gefi einhverja yfirlýsingu hér á Alþingi um hvað hafi gert það að verkum, að honum snerist hugur og fór inn á skattránsstefnu kommúnista og Framsóknar. Leiðtoga Framsfl. hrýs hugur við að leggja þennan skatt á og lýsir því yfir í fyrra að hann vilji hverfa frá honum, og ekki hefur nú staðið á yfirlýsingum viðskrh., en þegar kemur til atkvgr. og afgreiðslu í hv. Alþingi eru þessir fuglar flognir.