05.04.1982
Neðri deild: 62. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3633 í B-deild Alþingistíðinda. (3176)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Félmn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til laga um brunavarnir og brunamál, 43. mál þingsins á þskj. 43, stjfrv. Nefndin sendi frv. til umsagnar flestum þeim aðilum er mál þetta varðar. Svör bárust frá brunamálastjóra, stjórn Brunamálastofnunar ríkisins, Viðlagatryggingu Íslands. sambandi ísl. tryggingafélaga, Samband ísl. sveitarfélaga, Landssambandi slökkviliðsmanna, en auk þess frá varaslökkviliðsstjóranum á Akureyri og Héðni Emilssyni tryggingafræðingi, stjórnarmanni í brunamálastofnuninni. Þessu til viðbótar kallaði nefndin til viðræðna um frv. formann stjórnar Brunamálastofnunar Íslands, Jón Bergsson verkfræðing, stjórnarformann Viðlagatryggingar Íslands, Ásgeir Ólafsson, og framkvæmdastjóra Sambands ísl. tryggingafélaga, Hafstein Hafsteinsson. Hefur því félmn. deildarinnar lagt mikla vinnu í þetta frv., en brunavarnir og brunamál skipta að sjálfsögðu miklu máli í okkar þjóðfélagi og telja flestir mjög brýnt að skipan þessara mála sé í góðu lagi og full þörf á að ný löggjöf tryggi sem best að svo geti orðið.

Í athugasemdum við lagafrv. þetta segir svo, með leyfi forseta:

Frv. er niðurstaða nefndar sem skipuð var af félmrh. 1980. Helstu breytingar, sem frv. þetta felur í sér, eru þessar, eins og segir í aths. við það, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Nánar verði kveðið á um hlutverk brunamálastofnunar varðandi kynningu og fræðslu svo og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

2. Öll sveitarfélög verði skylduð til að halda uppi brunavörnum, nema ráðh. veiti sérstaka undanþágu.

3. Brunamálanefndir sveitarfélaga verði afnumdar

sem ákvörðunaraðili um meðferð brota á lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál, en vald og skyldur slökkviliðsstjóra aukin í þessum efnum. Jafnframt komi skýrari ákvæði um meðferð slíkra mála.

4. Tekjustofnar brunamálastofnunar verði styrktir með hækkun brunavarnagjalds og breyttum reglum um álagningu þess.“

Í umsögnum um frv. og í viðtölum við framannefnda aðila komu fram nokkuð mismunandi viðhorf til frv. Nefndin varð sammála um nokkrar breytingar á frv., sem felast fyrst og fremst í eftirtöldum atriðum:

1. Að gera stjórn stofnunarinnar virka að því er varðar stjórn og eftirlit með stofnuninni, nokkurs konar vinnustjórn, m.a. með því að í stað sex manna stjórnar verði hún skipuð þremur mönnum. Er gert ráð fyrir í brtt. að stjórnin taki ákvörðun um ýmis mál, sem upprunalega frv. gerði ekki ráð fyrir, og þessi virka stjórn verði þá að koma reglulega saman og eins oft og verkefnin kalla á.

2. Undanþáguákvæði um skyldu sveitarfélaga til að halda uppi sérstökum brunavörnum eru betur skilgreind.

3. Viðlagatrygging er undanskilin gjaldskyldu til stofnunarinnar.

4. Framlög tryggingafélaga eru hækkuð úr 1.25% í núgildandi lögum í 1.75% af brúttóiðgjaldatekjum vegna brunatrygginga og eru þá miðuð við iðgjaldatekjur ársins á undan, eins og er í núgildandi lögum.

Í nál. á þskj. 457 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin hefur tekið frv. til umfjöllunar á mörgum fundum sinum. Frv. var sent til umsagnar. Auk þess komu á fund nefndarinnar fulltrúar ýmissa aðila sem mál þetta varðar. Nefndin varð sammála um að leggja til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem hún flytur á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. við frv. sem fram kunna að koma.“ — Undir þetta nál. skrifuðu allir nm. í félmn. Nd.

Á þskj. 458 eru 14 brtt. frá nefndinni, sem ég vil aðeins gera frekari grein fyrir.

1. brtt. er við 2. gr. frv., en eins og ég nefndi áður er í frv. gert ráð fyrir sex manna stjórn brunamálastofnunar til fjögurra ára í senn. Hún væri þannig skipuð að ráðh. skipaði formann hennar, einn mann eftir tilnefningu Sambands ísi. sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu Reykjavíkurborgar, einn eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna og tvo menn eftir tilnefningu brunatryggingafélaga í landinu. Í stað þess leggur nefndin til að ráðh. skipi þriggja manna stjórn brunamálastofnunar til fjögurra ára í senn. Hann skipi einn mann eftir tilnefningu Sambands ísl. sveitarfélaga, einn mann eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna og einn mann eftir tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga. Ráðh. skipar formann stjórnar úr hópi tilnefndra stjórnarmanna og ákveður þóknun til þeirra fyrir stjórnarstörf. Stjórnin skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi brunamálastofnunar.

Það kom fram í nefndinni, að eins og allir vita er Samband ísl. sveitarfélaga samnefnari fyrir öll sveitarfélög í landinu, þar með talið Reykjavíkurborg. Fulltrúi tilnefndur af stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga í stjórn brunamálastofnunar gætir því hagsmuna allra sveitarfélaga landsins í þessum málum.

Ég tel rétt að geta þess, að það hefur verið föst hefð í landssamtökum sveitarfélaga að formaður stjórnar sambandsins sé jafnframt fulltrúi eða starfsmaður Reykjavíkurborgar, og hafa lögmenn Reykjavíkurborgar gengt þessu embætti hver eftir annan. Ég tel því eðlilegt að álykta, að vel sé séð fyrir hagsmunum Reykjavíkurborgar og húsatryggingum borgarinnar í væntanlegri stjórn og tel að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga muni tryggja að svo verði.

Þá telur nefndin eðlilegt að fulltrúi sé frá Sambandi ísl.tryggingafélaga frekar en frá brunatryggingafélögum í landinu. Virðist sú skipan mála hafa gefist vel samkv. gildandi lögum og vera komin í fastan farveg.

Með tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna hafa þeir aðilar myndað virka stjórn sem mest þurfa að fjalla um brunavarnir og brunamál í landinu.

Að mati nefndarinnar er svo fámenn stjórn miklu hæfari til virkari stjórnunaraðgerða með brunamálastjóra en fjölmennari stjórn og mætti taka slíka skipan upp víðar í opinberum stofnunum.

Þá varð nefndin sammála um að leggja til að breyta því sem stendur í 3. mgr. 2. gr. frv. Í greininni stendur: „Að fengnum tillögum stjórnar brunamálastofnunarinnar skipar ráðh. brunamálastjóra. Skal hann vera arkitekt, verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa sérþekkingu á brunamálum.“ — Nefndin varð sammála um að breyta þessari mgr. þannig: Að fengnum tillögum stjórnar brunamálastofnunarinnar skipar ráðh. brunamálastjóra. Skal hann hafa sérþekkingu á brunamálum.

Nefndin varð sammála um að leggja til að fella út úr frv. upptalningu um menntunarstig brunamálastjóra. Í lögum standi að hann hafi sérþekkingu á brunamálum. Leggur nefndin þann skilning í þetta ákvæði, að sú sérþekking, sem brunamálastjóri þarf að hafa, byggist á víðtækri menntun, svo sem háskólaprófi eða tækniskólaprófi, og því til viðbótar á sérmenntun vegna brunamála. Upptalning í lögum á því að vera óþörf. Er t.d. nægjanleg upptalning að nefna verkfræðing? Hví þá ekki frekar byggingaverkfræðing eða byggingafræðing og byggingatæknifræðing frekar en tæknifræðing o.s.frv.? Þetta verður að vera matsatriði stjórnvalda, en sérmenntun og sérþekking á þessu verksviði er aðalkrafan. Nefndin vill ekki að slakað sé á menntunarkröfum til þessa embættis. Ég vil að það komi hér skýrt fram.

Þá leggur nefndin til að tvær síðustu mgr. 2. gr. verði sameinaðar í eina grein. Eins og er í frv. eru þær í tveimur mgr.:

„Brunamálastjóri veitir brunamálastofnuninni forstöðu og er jafnframt ráðunautur ríkisstj. um allt, sem að brunamálum lýtur.

Brunamálastjóri ræður starfsmenn brunamálastofnunarinnar og taka þeir laun samkv. kjarasamningum opinberra starfsmanna.“

Nefndin leggur til að 4. og 5. mgr. verði ein mgr. og orðist svo: Brunamálastjóri veitir brunamálastofnuninni forstöðu. Hann ræður starfsmenn brunamálastofnunarinnar og taka þeir laun samkv. kjarasamningi opinberra starfsmanna.

Niður er fellt að mati nefndarinnar það ákvæði, að hann eigi að vera jafnframt ráðunautur ríkisstj. um allt sem að brunamálum lýtur.

Við 3. gr. gerir nefndin þá brtt., að í stað b-liðar í upptalningunni, þar sem stendur: „Að hafa yfirumsjón með brunavarnaeftirliti sveitarfélaga“ o.s.frv., komi nýr b-liður: Að hafa á hendi tækniaðstoð við brunavarnaeftirlit sveitarfélaga og í öllum meiri háttar atvinnufyrirtækjum, verksmiðjum, birgðastöðvum fyrir olíu og bensín, verkstæðum, skólum, samkomuhúsum, sjúkrahúsum, hótelum o.s.frv., í samráði við viðkomandi slökkviliðsstjóra.

Að mati nefndarinnar er heppilegra að hafa þetta þannig, enda í fullu samræmi við þær umsagnir sem við fengum um þetta atriði frá núverandi stjórn og þeim aðilum sem gerðu athugasemdir við frv.

Þá leggur nefndin til einnig að c-liður 3. gr. breytist. Þar stendur: „Að yfirfara uppdrætti að nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjun töldum í b-lið, til þess að ganga úr skugga um“ o.s.frv. Í staðinn fyrir „töldum í b-lið“ komi: sem kveðið er á um í reglugerð. — Auðvitað er þetta beint reglugerðaratriði.

Þá leggur nefndin einnig til að f-liður breytist. Þar stendur „Að halda uppi rannsóknarstarfsemi á sviði brunamála og leiðbeina um val og uppsetningu á slökkvibúnaði og aðvörunarkerfum“, þá bætist inn í á eftir orðinu „uppsetningu“ orðin: og notkun á. Þetta er aðeins til að undirstrika nauðsyn þess, að þeir, sem um þessi mál fjalli, fái sem besta þjálfun og upplýsingar um þennan þátt slökkvistarfa eða brunamála.

Þá leggur nefndin einnig til að h-liður breytist þar sem stendur í frv.: „Að semja árlega skýrslu um orsakir eldsvoða“ o.s.frv. Þá bætist inn í: og afleiðingar. — Þetta er að mati nm. nauðsynlegt því að oft má læra af því sem kemur fram um orsakir og afleiðingar eldsvoða. Það verður a.m.k. til að vekja athygli á mikilvægi þessara mála.

Við 4. gr. gerir nefndin brtt. við 1. mgr.: „Sveitarfélög skulu halda uppi brunavörnum í samræmi við kröfur“ o.s.frv. Þar bætist inn í: þar með talið eldvarnaeftirlit í samræmi við þær kröfur o.s.frv. Við bætum eldvarnaeftirliti inn í, enda er gert ráð fyrir að eldvarnaeftirlit verði stór þáttur í málefnum sveitarfélaga að því er varðar brunavarnir.

Þá er einnig brtt. við 4. mgr. 4. gr. Þar stendur: „Félmrh. getur að fenginni umsögn brunamálastofnunar undanþegið sveitarfélag skyldu til að halda uppi sérstökum brunavörnum, berist rökstudd beiðni um slíkt frá sveitarstjórn.“ Nefndin leggur til að þessi mgr. orðist svo: Félmrh. getur, að fenginni umsögn stjórnar brunamálastofnunar, undanþegið sveitarfélag skyldu til að halda uppi sérstökum brunavörnum, berist rökstudd beiðni um slíkt frá sveitarstjórn. Það var lögð mjög rík áhersla á þetta atriði frá hendi stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga, að þessu undanþáguákvæði verði beitt þar sem fámenn sveitarfélög geti ekki framkvæmt þetta ein sér, en vilji frekar hafa samstarf við önnur sveitarfélög, enda hefur slíkt samstarf viðgengist og þarf að stuðla frekar að því.

4. brtt. er við 11. gr. Á eftir orðinu „umsögn“ í lok greinarinnar komi: stjórnar. — Þar sem stendur hér „að fenginni umsögn brunamálastofnunarinnar“ komi: að fenginni umsögn stjórnar brunamálastofnunarinnar.

5. brtt. er við 18. gr. og er greinin efnislega eins. Þar stendur: „Félmrn. skal, að fengnum tillögum brunamálastjóra, veita mönnum réttindi til að setja upp kynditæki og gera við þau. Einungis þau kynditæki má selja og setja upp, sem viðurkennd hafa verið af brunamálastofnuninni.“ — Það er miklu í miklu meira samræmi við fyrri mgr., að það verði brunamálastjóri sem viðurkenni slíkt, og leggur nefndin því til að í staðinn fyrir „brunamálastofnuninni“ komi: brunamálastjóra.

6. brtt. er við 19. gr. og er greinin efnislega eins. Á eftir orðinu „tillögum“ í 2. mgr. komi: stjórnar. — Þetta, eins og ég tók fram í upphafi, miðast við að gera þessa fámennu stjórn virkari í stofnuninni en gert var ráð fyrir.

7. brtt. er við 23. gr. Í staðinn fyrir greinina eins og hún er í frv.: „Lögreglustjóri skal sjá um, að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón. Réttarrannsókn þarf hins vegar ekki að fara fram, ef brunatjón er óverulegt“ o.s.frv., þá hljóði greinin þannig: Lögreglustjóri skal sjá um að lögreglurannsókn fari fram þegar eftir brunatjón. Ef kveðja þarf til sérfróða menn vegna rannsóknar á eldsvoða, skal stjórn brunamálastofnunarinnar tilnefna þá samkv. tillögu brunamálastjóra. Réttarrannsókn þarf hins vegar ekki að fara fram, ef brunatjón er óverulegt og eldsupptök kunn. Afrit af gögnum um hverja slíka rannsókn ber að senda viðkomandi tryggingafélagi og brunamálastofnun þegar þau liggja fyrir. — Nefndin taldi eðlilegt að þessi mikilvægi þáttur þessara mála færi fram á þann veg, að stjórn brunamálastofnunarinnar, sem á að vera virk stjórn, taki beinan þátt í þessu atriði málsins.

Viðamesta breytingin er sjálfsagt við V. kafla frv., 24. gr., um brunavarnagjaldið. Nú stendur í frumvarpsgreininni: „Öll tryggingafélög og aðrir, er tryggingar annast, skulu greiða brunamálastofnuninni 1.5% af brúttóiðgjaldatekjum vegna brunatrygginga (frumtrygginga) á fasteignum og lausafé. Sama gildir um tryggingu sem innifelur bæði brunatryggingu og annars konar tryggingu. Viðlagatrygging skal reiknuð með sem gjaldskyld trygging í þessu efni, þar eð hún innifelur brunatjón af völdum náttúruhamfara. Skulu framlögin því greidd ársfjórðungslega og miðast við iðgjaldatekjur yfirstandandi árs hverju sinni samkv. áætlun tryggingafélaga og ákvörðun þeirra í ársbyrjun um iðgjald. Endanlegt uppgjör við hvert félag fer fram þegar ársreikningar liggja fyrir.“

Um þetta fékk nefndin mjög harðorð mótmæli frá bæði Sambandi tryggingafélaga og eins frá Viðlagatryggingu, en Viðlagatrygging átti að gefa í tekjur samkv. þessu nálægt 150 þús. kr. Var talið óeðlilegt að Viðlagatrygging tæki þátt í þessu gjaldi þar sem Viðlagatrygging er ekki brunatrygging, heldur fyrst og fremst trygging gegn náttúruhamförum og fær sínar tekjur gegnum brunatryggingafélögin með sérstöku álagi á iðgjöld, eins og hv. þm. vita. Er því talið eðlilegt að mati nefndarinnar að fella gjaldskyldu Viðlagatryggingar út úr frv. Miðað við gjaldtöku í núverandi lögum, sem er 1,25% af brúttóiðgjaldatekjum vegna brunatrygginga á fasteignum og lausafé, eru þessar tekjur fyrir yfirstandandi ár áætlaðar í fjárlögum 1982 953 100 kr. Nefndin varð sammála um, vegna aukinna umsvifa sem hin nýju lög munu leggja á þessa stofnun, að hækka gjaldið í 1.75%, sem á að gefa eftir sömu forsendum tekjur upp á 1.4 millj. kr.

Eitt ákvæði, sem var nýtt í þessu frv., að framlög þessi yrðu greidd ársfjórðungslega og miðað við iðgjaldatekjur yfirstandandi árs samkv. áætlun tryggingafélaganna og ákvörðun þeirra í ársbyrjun, mætti, eins og ég áður sagði, mjög hörðum viðbrögðum frá tryggingafélögunum. Þau óskuðu eftir að þetta mál yrði athugað vandlega. Eftir að hafa skoðað ýmis rök með og á móti í sambandi við þetta atriði varð nefndin sammálá um að leggja til að fyrirkomulagið yrði óbreytt miðað við núgildandi lög, þ.e. að framlagið yrði greitt ársfjórðungslega og miðað við iðgjaldatekjur ársins á undan, enda fer endanlegt uppgjör fram þegar ársreikningar viðkomandi tryggingafélaga liggja fyrir. Má segja í sambandi við þetta atriði eins og margt annað í sambandi við þessa stofnun, að hægt er hvenær sem er að endurskoða þennan tekjuþátt, þ.e. prósentuupphæð af brúttóiðgjaldatekjum, ef sýnist svo eftir starfsemi þessarar stofnunar að hún þurfi meiri tekjur eða öflugri tekjustofna en þarna kemur fram.

Í b-lið 24. gr. frv. er: „Brunamálastofnun skal semja gjaldskrá og leggja hana fyrir ráðuneytið til staðfestingar.“ Nefndin varð sammála um að b-liður umorðist: Stjórn brunamálastofnunar er heimilt að sem ja gjaldskrá og fá hana staðfesta af ráðuneytinu. Í slíkri gjaldskrá skal kveðið á um skoðunargjöld og önnur gjöld, er brunamálastofnunin tekur fyrir veitta þjónustu. — Þetta er nýmæli, að setja þarna inn sérstaka gjaldskrá fyrir stofnunina, og er sjálfsagt rétt að stofnunin fái þessa heimild. Þar með geta komið nokkrar tekjur inn í stofnunina í sambandi við þessa breytingu.

9. brtt. nefndarinnar er við 25. gr. Það er aðeins orðalagsbreyting. „Slökkviliðsstjóra ber að hafa eftirlit með því í sínu umdæmi“ o.s.frv., stendur í frv., en nefndin leggur til að upphaf greinarinnar orðist svo: Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit o.s.frv.

Brtt. við 26. gr. er í samræmi við það sem áður hefur komið fram og er við 1. mgr. Á eftir orðinu „til“ í 4. línu komi: stjórnar Brunamálastofnunarinnar, en ekki Brunamálastofnunar ríkisins, eins og þar stendur.

11. brtt. er við 27. gr. Það er nokkur efnisbreyting sem nefndin leggur til, en í frv. stendur: „Nú telur brunamálastjóri að brotin séu ákvæði laga þessara eða reglugerðar og slökkviliðsstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta samkv. 26. gr. Hefur brunamálastjóri þá rétt til að beita þeim heimildum, sem slökkviliðsstjóra eru veittar í þeirri grein. Ef brunamálastjóri telur að sveitarstjórn gegni ekki skyldu sinni samkv. lögum þessum, þá er honum heimilt að láta bæta úr á kostnað sveitarsjóðs, að höfðu samráði við félmrn.“

Nefndin leggur til að þessi grein orðist svo: Nú telur brunamálastjóri að brotin séu ákvæði laga þessara eða reglugerðar og slökkviliðstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta samkv. 26. gr., og skal brunamálastjóri þá, að höfðu samráði við stjórn brunamálastofnunar, benda slökkviliðsstjóra á misbrestina, og hefur brunamálastjóri síðan rétt til að beita þeim heimildum, sem slökkviliðsstjóra eru veittar í þeirri grein, ef ekki er úr bætt. Ef brunamálastjóri telur að sveitarstjórn gegni ekki skyldu sinni samkv. lögum þessum, þá er honum heimilt að láta bæta úr á kostnað sveitarsjóðs, að höfðu samráði við stjórn brunamálastofnunar.

Það er sem sagt stjórn brunamálastofnunarinnar sjálfrar sem hefur með þetta að gera, en ekki félmrn. í þessu tilfelli. Það er gerð einfaldari stjórnin á þessu.

12. brtt. er við 28. gr. og er greinin efnislega eins. Í staðinn fyrir að ráðh. setur að fenginni tillögu brunamálastjóra o.s.frv. leggur nefndin til að ráðh. setji að fenginni tillögu stjórnar brunamálastofnunarinnar reglugerðir þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd laga þessara.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa lengra mál um frv. og brtt. að sinni, en nefndin varð sammála um þessar breytingar þó að einstakir nm. hafi óskoraðan rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. Ég endurtek að í aðalatriðum er um samræmingu að ræða, en við töldum rétt að gera þarna tilraun til að gera umfang þessarar stofnunar aðeins skilmerkilegra, ef það má orða það svo, þannig að fækka stjórnarmönnum úr sex í þrjá og reyna að fá virka stjórn yfir þessum málaflokki.