04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra umhyggju hv. þm. Sverris Hermannssonar fyrir atvinnuvegum landsins. Kannske gæti hann beint einhverjum af þessum fsp. til kommissars Sverris Hermannssonar. Ég vil einnig gjarnan þiggja alla þá aðstoð og samstarf, sem býðst við bæði þingmanninn Sverri Hermannsson og kommissar Sverri Hermannsson sem og aðra stjórnarandstæðinga, við að lagfæra alvarlegt ástand sem sannarlega er hjá atvinnugreinum landsins. Við getum sagt að það séu hjöðnunarverkir í þeirri viðleitni að ná verðbólgunni niður.

Að vísu er það ekkert nýtt, að atvinnuvegirnir hafi á þessum verðbólgutímum okkar átt við gífurlega erfiðleika að stríða. Ég get t. d. aðeins gripið niður hjá frystingunni. Hún var samkv. tölum þjóðhagsstofnunar talin vera með 6.1% halla árið 1974,1% halla 1975 o. s. frv. Þó er þetta dæmi langtum meira sláandi hjá útgerðinni sem hefur iðulega árum saman verið rekin með gífurlega miklum halla, t. d. minni togarar, hreinn hagnaður í hlutfalli af tekjum mínus 16.3% 1973, mínus 6.0% 1974, mínus 11.2 1975, mínus 13.9 1976 0. s. frv. En þetta breytir ekki því, að slíkur rekstrargrundvöllur er óþolandi til lengdar. Vitanlega hafa stjórnvöld, þegar þannig hefur árað, iðulega gripið til sérstakra ráðstafana til að lagfæra rekstrargrundvöllinn, m. a. þegar um útgerðina hefur verið að ræða með tilfærslu við gengisbreytingar yfir í stofnfjársjóð, og þá hafa erlend lán, sem á slíkum skipum hafa hvílt, verið lækkuð. Ég endurtek hins vegar að þetta breytir ekki þeirri staðreynd, að við svona ástand verður ekki búið til langframa.

Ég vildi gjarnan tvískipta þessu umræðuefni, ræða fyrst dálítið almennt um rekstrargrundvöllinn, en síðan um þau sérstöku vandamál sem við blasa og hv. þm. kom nokkuð inn á.

Í upphafi ársins 1980, í febrúar, þegar þessi ríkisstj. tók við, gengu fulltrúar frystihúsanna á fund forsrh., á minn fund og fleiri ráðh. og gerðu grein fyrir því, að frystingin væri rekin með 9–10% halla að þeirra mati. Þeir töldu að kostnaðarhækkunum undanfarinna mánaða hefðu ekki verið mætt eins og nauðsynlegt hefði verið. Kostnaðarhækkanir hefðu verið, ef ég man rétt, um 15%. Hins vegar hefði gengisaðlögun að þessum kostnaði aðeins verið um 5%, og töldu þeir það vera meginskýringu á þeim mikla halla sem þá var orðinn. Við athugun kom í ljós að þetta var á rökum reist, og á árinu 1980 var gripið bæði til ýmissa — við skulum segja: minni háttar ráðstafana til að lagfæra þessa rekstrarstöðu, og sömuleiðis var gengi aðlagað þessari kostnaðarhækkun mjög svo, þ. e. gengisbreyting eða gengissig var 52% á árinu 1980. Af minni háttar ráðstöfunum vil ég nefna hækkun afurðalána í 85% vegna mikillar og langrar birgðastöðu, niðurfellingu aðflutningsgjalda af nokkrum mikilvægum þáttum fiskvinnslunnar og síðast en ekki síst — en kannske er það stærsti þátturinn í þessum minni háttar aðgerðum — voru 3.6 milljarðar endurgreiddir af gengisuppfærslu og afkomu Seðlabankans til útflutningsatvinnuveganna.

Í fleira var jafnframt ráðist, m. a. að skuldbreyta vanskilum útgerðarinnar hjá Fiskveiðasjóði, Byggðasjóði og olíufélögunum. Ég get upplýst nú að þessi skuldbreyting hjá Fiskveiðasjóði nemur 65 millj. 310 þús. kr. í dag — ég tala hér í nýkr. að sjálfsögðu — og 62 umsóknir um slíka skuldbreytingu hafa verið afgreiddar. Þetta skiptist þannig, að þilfarsskip undir 100 rúmlestum eru með 18 slík lán upp á 2.6 millj., togarar með 16 lán upp á 37.2 millj., loðnuskip með fjögur lán upp á 3.6 millj., þilfarsskip yfir 100 rúmlestir með sex lán upp á tæpar 2 millj. Síðan eru 18 fasteignalán upp á tæpar 20 millj. Ég vil bæta því við, að um 37 aðilar eru enn í athugun. Það er vegna þess að á ýmsum gögnum stendur og sumar af þeim umsóknum munu ekki falla undir þau skilyrði sem sett eru. Mér er jafnframt kunnugt um það, að hjá Byggðasjóði hefur svipuð skuldbreyting átt sér stað, og fagna ég því. Hins vegar hefur ekki orðið af skuldbreytingu á olíuskuldum, fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að þegar það var boðið óskuðu útgerðarmenn ekki eftir því. Olíufélögin voru líka ákaflega treg til að ábyrgjast skuldabréf sem í því sambandi yrðu gefin út og keypt af bönkunum. Ég get hins vegar upplýst að útgerðarmenn hafa nú farið þess á leit við mig, að málið verði tekið upp að nýju. Ég hef rætt það bæði við viðskiptabankana og olíufélög og mun mjög fljótlega kalla þessa aðila saman til að skoða málið að nýju.

Þetta eru atriði sem ákveðin voru á síðasta ári og ég vil leyfa mér að fullyrða að það — ásamt með þeirri gengisaðlögun sem ég nefndi áðan — hafi orðið til þess að staðan um síðustu áramót var orðin nokkuð þolanleg. En þar á ég að sjálfsögðu við meðalstöðu þessara atvinnuvega eins og reiknað er af Þjóðhagsstofnun og er út af fyrir sig umræðuefni. Hitt er staðreynd, að þessi rekstrargrundvöllur hefur mjög raskast og spillst, ef ég má kalla það svo, á þessu ári, og mér finnst ástæða til að hugleiða hvers vegna svo hefur farið. Eftir þá fiskverðsákvörðun. sem nýlega var tekin áætlar Þjóðhagsstofnun að afkoma greinanna sé eins og hér segir — þetta er áætlun sem ég fékk í hendurnar í dag:

Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir að miðað við áætlaða aflaaukningu árið 1981 séu bátar með 0.9% hagnað, minni togarar í núllinu, stærri togarar með mínus 9.1%, en samtals — þegar útgerðin er tekin sem heild — sé afkoman mínus 0.7%.

Satt að segja, þegar þetta er borið saman við afkomutölur útgerðarinnar í gegnum árin sem ég nefndi örfáar áðan, er þetta heldur með því betra. Hitt vil ég taka fram, að þessar afkomutölur eru umdeilanlegar, t. d. áætlun um aflaaukningu, og ef lagður er til grundvallar óbreyttur afli frá síðasta ári verður afkoman töluvert lakari: í heild mínus 3.1%, minni togarar mínus 4.2%, stærri togarar mínus 12,6%. Einnig er ljóst að afkoma útgerðarinnar er mjög breytileg og allt önnur og lakari fyrir skipin sem nýrri eru og eru með langmestan fjármagnskostnað.

Það er rétt sem hv. þm. sagði, að sjútvrn. setti í vor í gang sérstaka athugun á afkomu hluta togaraflotans. Það var gert í nánu samstarfi við Landssamband ísl. útvegsmanna, Framkvæmdastofnun og Fiskveiðasjóð og var ráðinn til þess sérstakur maður. Ég skal ekkert um það deila, hvort þetta hafi verið eðlilegt verkefni sjútvrn. Ég hefði vel getað fallist á að þetta væri verkefni Framkvæmdastofnunar. Henni ber að gera úttekt og áætlanir um afkomu atvinnuveganna. En um þetta var út af fyrir sig ekkert deilt og ég féllst á þá skoðun hv. þm. Sverris Hermannssonar, þegar hann gekk á minn fund, að sjútvrn. gengist fyrir þessari úttekt.

Ég vil leyfa mér að halda því fram, að þetta verk hafi verið vel unnið, til þess vandað og unnið á þann máta, að skoðaðir voru reikningar hvers einstaks fyrirtækis. Þrjú fyrirtæki féllu út af því að það var ekki hægt að nota reikninga þeirra. Því miður virðist brenna við enn hjá íslenskum fyrirtækjum að reikningshald er slíkt að það satt að segja vekur furðu að fyrirtækin skuli standa í rekstri sem þessum, það sem hlýtur að vera ákaflega mikilvægt að hafa glöggar upplýsingar úr bókhaldi nánast frá degi til dags um hvernig reksturinn gengur. Þegar slík fyrirtæki höfðu verið lögð til hliðar urðu togararnir 19 sem úrtakið nær til. Það eru togarar sem skráðir eru eftir 1977 og eru valdir þannig vegna þess að þeir eru nýrri hluti flotans og með meiri fjármagnskostnað en aðrir og hafa ekki notið þeirrar mikilvægu fyrirgreiðslu, sem fólst í yfirfærslu fjármagns í stofnfjársjóð skipa við gengisfellingar og ég nefndi áðan. Hv. þm. fór fram á að þessi skýrsla yrði lögð fram hér á Alþingi. Ég tel mér það ekki heimilt því að reikningar einstakra togara hafa verið fengnir sem trúnaðarmál. Ég hef hins vegar heimilað að þessari skýrslu yrði dreift til stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins, og ég hef heitið sjávarútvegsnefndum Alþingis að þær muni fá þessa skýrslu — og ég vil leyfa mér að vona að þm. sætti sig við það — en henni verði ekki dreift opinberlega hér á borð. Reyndar tel ég að ég sé að ganga þar töluvert lengra jafnvel en mér er heimilt með slíkt trúnaðarskjal.

Úr þessari skýrslu má að sjálfsögðu ýmislegt ræða. Hér eru samanteknar upplýsingar um meðalafkomu þessara skipa. Ég vil geta þess í fyrsta lagi, að í skýrslunni er gerður samanburður á rekstrarafkomu þessara 19 togara og þeirra 68 skipa sem áætlun Þjóðhagsstofnunar nær til. Það kann að vekja nokkra furðu þegar litið er á slæma afkomu þessara 19 togara, að í raun og veru ber þar ekki ýkjamikið á milli. Það er að vísu svo, að miðað við úttekt Þjóðhagsstofnunar — að sjálfsögðu fyrir fiskverðshækkunina síðustu og miðað við 21. sept. 1981 í 68 skipa úrtaki — er talið að tap á minni togurunum sé mínus 6.8%. En í þessu úrtaki 19 skipa er talið að tapið sé mínus 29%.

Ég sagði að þarna bæri raunar ekki ýkjamikið á milli. Vitanlega er þetta stór munur. En þegar ég segi það á ég við að einstakir liðir þessarar áætlunar falla nokkuð vel saman. Í ljós kemur að þessi 19 skip eru með meiri tekjur að meðaltali heldur en úrtak Þjóðhagsstofnunar, samtals með 15 millj. 633 þús. tekjur, úrtak Þjóðhagsstofnunar rúmlega 14 millj. Þetta er eðlilegt því að hér er um nýrri og fullkomnari skip að ræða í mörgum tilfellum og því iðulega meiri afla. Fjöldinn er hins vegar mun meiri í áætlun Þjóðhagsstofnunar en í úrtakinu. Ég ætla ekki að lesa hvern einasta lið, því að satt að segja er hér mjög mikil nálægð, ef ég má orða það svo, eða mjög líkir liðir, eins og aflahluti, launatengd gjöld, veiðarfæri, olíur — olíukostnaður aðeins meiri, 3.9 millj. á móti 3.1, sem er ekki óeðlilegt út af fyrir sig — mörg þessi skip eru af stærri gerðinni af minni togurunum. En langsamlega mesti munurinn kemur fram á liðnum vextir. Vextir eru hjá Þjóðhagsstofnun áætlaðir 1 millj. 383 þús., en vextir í þessu 19 skipa úrtaki eru taldir vera 3 millj. 311 þús. Þarna er langsamlega stærsti munurinn sem veldur því, að tap hjá Þjóðhagsstofnun er í krónum talið 956 þús. en í þessu 19 skipa úrtaki 3 millj. 271 þús. Þessi munur liggur fyrst og fremst í fjármagnskostnaðinum. Það er einnig gegnumgangandi í þessari skýrslu, að fjármagnskostnaðurinn er yfirgnæfandi. Fjármagnskostnaðurinn er í einu tilfelli að vísu mjög lágur, aðeins um 3% — eða vaxtakostnaður réttara sagt, en er í mörgum tilfellum upp í 30 og jafnvel 40% — svo að ég tali ekki um alveg sérstök tilfelli sem mér sýnast varla vera marktæk, þar sem vaxtakostnaður er jafnvel yfir þetta. Í sumum tilfellum er um að ræða að skip hefur verið mikið frá veiðum vegna bilana og aflaverðmætið þess vegna orðið lítið. Hér ræði ég um hundraðshluta af aflaverðmætinu.

Í niðurstöðum þessarar skýrslu segir svo: „Fjárvöntun nemur um 16% af heildartekjum meðalskips í úrtakinu.“ Til fróðleiks er rétt að upplýsa það, að til þess að meðalskip í úrtakinu sé rekið hallalaust þyrfti fiskverð að hækka um 33.3% miðað við aflaforsendur rekstraráætlunarinnar. Á sama hátt þyrfti aflamagn að vaxa í 5500 tonn á ári úr 4162 tonnum til þess að hallalausum rekstri yrði náð. Ég vil geta þess, að í úrtakinu kemur fram gífurlegur munur á afla þessara skipa. Skipið með lægstan afla er með 2717 lestir af óslægðum fiski — það skip var reyndar aðeins 176 daga við veiðar — en önnur skip, sem eru við veiðar eðlilegan tíma, eru mörg hver með afla sem er þó af svipaðri stærðargráðu, þ. e. um 3000 lestir og upp í 4000 lestir. Sem dæmi get ég reyndar nefnt eitt skip, sem er á veiðum 307 daga og er aðeins með 2845 lesta afla, og annað skip 297 daga með 3579 lesta afla. Aflahæsta skipið er hins vegar með 329 úthaldsdaga og 6456 lesta afla. Það kemur út með hagnað í þessu úrtaki. Það er eina skipið sem skilar hagnaði í þessu úrtaki. Reyndar mun þar vera um mjög sérstakar aðstæður að ræða, og ég get getið þess, að annað skip með mjög svipaðan afla skilar þó ekki hagnaði, enda mun eiginfjárstaða í því fyrirtæki vera miklu lakari en hjá þessu sem ég nefndi.

Ég læt þetta nægja úr þessari skýrslu. En eins og ég sagði hef ég heitið því að afhenda nm. í sjútvn. skýrsluna og mun gera það mjög fljótlega.

Það má reyndar segja, að þetta vandamál 19 skipanna — það eru 16 þeirra sem eru í verulegum vanda — tilheyri ekki beinlínis þessum almennu umræðum um rekstrargrundvöllinn, sem ég vildi gera að sérstöku viðfangsefni, heldur því sem ég kem að síðar um sérvandamál. Þannig lít ég á þessi skip. Ég vil þó geta þess nú þegar, að ég hef verið að kanna leiðir til að bæta rekstrargrundvöll þessara skipa. Mér sýnist að ekki verði hjá því komist að lækka fjármagnskostnaðinn. Þess vegna hef ég lagt til við stjórn Fiskveiðasjóðs að ríkisframlagið, sem mun verða 25–26 millj. kr., verði lagt í Stofnfjársjóð fiskiskipa og ráðstafað þar eftir ákveðnum reglum, sem settar verði í samráði við stjórn sjóðsins og Landssamband ísl. útvegsmanna, til þess að lækka erlendar skuldir á þessum skipum. Það er tilgangslaust að skuldbreyta slíkri lánastöðu í ný erlend lán. Ég lít svo á að þessi skip eigi þarna nokkurn rétt þegar tekið er tillit til þess, að svipaður háttur var á hafður oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við gengisfellingar. Fjármagn var þá flutt yfir í Stofnfjársjóð fiskiskipa og notað til að greiða niður erlendar skuldir. Ég get upplýst hér að stjórn Fiskveiðasjóðs hefur fjallað um málið og fallist á þetta og leggur til að þetta verði gert. Mun ég flytja till. í sambandi við lánsfjárlög um að þetta verði heimilað.

Þetta var um stöðu útgerðarinnar í dag, kannske með nokkrum útúrdúr vegna þessarar sérstöku athugunar á togurunum. Vil ég þá geta um stöðu annarra greina.

Samkv. áætlun Þjóðhagsstofnunar, þeirri meðaltalsáætlun sem Þjóðhagsstofnun vinnur, er staða vinnslunnar eftir 5% fiskverðshækkun eins og hér segir:

Frystingin er með mínus 9,1%, söltunin er með töluverðan hagnað, — ég verð að segja eins og er, að mér finnst alltaf dálítið varasamt að vera að nefna slíkar tölur, en skal þó gera það, — hún er talin vera með um 10% hagnað, herslan með 6.6, en samtals um núllið eða mínus 0.7%. En ég vil taka það fram, um leið og ég nefni þessa tölu, að í þessum afkomutölum, t. d. söltunar, gætir þess náttúrlega fyrst og fremst hvað afkoman er góð á vertíðinni. Þess vegna eru slíkar meðaltalstölur satt að segja ákaflega varasamar í allri meðferð. Afkoma söltunar annars staðar þar sem jafnvel verður að nota togarafisk sem er 10% dýrari, ef ekki fæst bátafiskur sem er eins hagkvæmur til söltunar og vertíðarfiskurinn hér suðvestanlands, er að sjálfsögðu töluvert lakari. Það sama má segja um hersluna. T. d. að sumarlagi nær herslan hvergi nærri þessari arðsemi. Hér er um ársgrundvöll að ræða, miðað við að vísu það fiskverð sem er orðið í dag, þau laun sem eru orðin í dag, þann kostnað sem er orðinn í dag á ýmsum liðum. En góð afkoma fyrr á árinu lagfærir þessar tölur þegar á heildina er litið, og því vil ég vara við að svona tölur séu notaðar án skýringar.

Þarna hefur hallað undan fæti. Á því er ekki nokkur vafi. Mér sýnist frystingin vera að meðaltali komin niður í svipað og hún var í ársbyrjun 1980. Eðlilegt er að menn spyrji hvað veldur. svarið liggur að vísu í augum uppi. Kostnaðarhækkanir hér innanlands frá áramótum hafa numið í kringum 30%. Fjármagnskostnaður hefur alveg sérstaklega aukist. Þegar ég segi 30% reikna ég með að hann verði um 40% á ársgrundvelli, en 30% á fyrstu 9 mánuðum ársins. Fjármagnskostnaður hefur alveg sérstaklega aukist mikið. Það sýna m. a. þær tölur sem ég nefndi áðan um togaraútgerðina.

Fjármagnskostnaður er að vísu í meðaltalsreikningum Þjóðhagsstofnunar aðeins áætlaður um 7%. Ég óttast að þar sé um vanáætlun að ræða, og reyndar telur frystingin að þar vanti eitthvað upp á, þótt mjög séu nú áætlanir samtaka frystiiðnaðarins og Þjóðhagsstofnunar farnar að nálgast. Ég er a. m. k. viss um það, að fjármagnskostnaði er mjög ójafnt skipt á milli fyrirtækja í greininni og þau eru mörg fyrirtækin sem hafa illa þolað tæpan rekstrargrundvöll og þess vegna safnað skuldum og stórlega aukið fjármagnskostnað. Sérstaklega held ég að dráttarvaxtabyrði hafi aukist miklu meira en gert er ráð fyrir í þessum útreikningum — ég segi: held ég, vegna þess að það verður að segjast eins og er, að þrátt fyrir töluverða vinnu Þjóðhagsstofnunar og manna á vegum rn. við að reyna að greina á milli dráttarvaxta og almenns vaxtakostnaðar gengur það ákaflega illa. Bókhald fyrirtækja er ekki svo gott að unnt sé að greina þar á milli með öruggri vissu.

Á sama tíma hafa að vísu gerst hlutir sem eru jákvæðir. T. d. hefur hækkun á þorskflökum á Bandaríkjamarkaði orðið um 14% í byrjun ársins. Hins vegar hefur þorskblokkin þar fallið um nálægt 10% og alveg sérstaklega hefur gengisröskun á milli dollarans og Evrópugjaldeyris valdið vinnslunni verulegum búsifjum. Í þessu sambandi vekur að sjálfsögðu athygli sú skoðun Þjóðhagsstofnunar, að framleiðslusamsetning frystingarinnar sé það óhagstæð miðað við breskan markað að nemi 4% í afkomu. Það er ekki lítil tala. Þarna er að sjálfsögðu um það að ræða, að haldið hefur verið áfram að framleiða á Bretlandsmarkað þrátt fyrir fall pundsins, en þess ekki gætt nægilega fljótt að breyta framleiðslunni yfir í flök á Bandaríkjamarkað. Ég viðurkenni og vil reyndar leggja áherslu á að þetta hefur ekki að öllu leyti verið á valdi fyrirtækjanna. Þessu hafa ýmsar aðstæður ráðið að töluverðu leyti. Í fyrsta lagi tekur ætíð nokkurn tíma að breyta, og mikið af þessari framleiðslu á rætur sínar að rekja til fyrsta hluta ársins, þegar mönnum var ekki orðin ljós sú verulega röskun sem orðið hefur á gjaldeyrismörkuðum. Í öðru lagi hefur afli iðulega verið svo mikill, að menn hafa ekki talið sér fært — m. a. vegna skorts á vinnuafli — að koma þeim afla í gegnum framleiðsluna án þess að ráðstafa töluverðu í þá framleiðslu sem krefst ekki eins mikils vinnuafls. Engu að síður verður að segja eins og er, að þarna hefur orðið á brotalöm sem í framtíðinni þarf sannarlega að gæta að og ég treysti öflugum samtökum frystiiðnaðarins betur en öðrum til að passa upp á.

Það er einnig alveg ljóst, að mjög hefur verið haldið aftur af aðlögun gengis að kostnaðarhækkunum innanlands, enda hefur það verið einn þáttur í viðleitni ríkisstj. að ná verðbólgunni niður, og reyndar viðurkennt t. d. af fulltrúum frystiiðnaðarins á fundi með okkur forsrh. og víðar að gengisfelling er neyðarkostur, einnig fyrir þessar greinar, ekki síst þegar allt er orðið gengis- eða verðtryggt, ekki aðeins launin, heldur einnig fjármagnskostnaðurinn og reyndar allur annar kostnaður sem á þessar vinnslugreinar fellur. Gengisfelling er því ákaflega fljót að renna út í sandinn. En breyting gengis með tilliti til dollarans er frá áramótum orðin 22%. Krónan hefur verið lækkuð um 22%. Hins vegar mun þessi breyting miðað við meðalgjaldeyri, vera í kringum 9–10%, ég hef það ekki nákvæmt. Það hafa orðið ýmsar breytingar á gjaldmiðlum. M. a. hefur þýska markið hækkað mjög mikið og reyndar aðrir gjaldmiðlar einnig, þannig að þar hefur orðið töluverð breyting innbyrðis sem ekki er hægt að gera sér í fljótu bragði grein fyrir hvaða áhrif hefur.

Nú spyrja menn að sjálfsögðu hvað beri að gera til þess að lagfæra þennan grundvöll. Ég vil segja það í fyrsta lagi, að það á að lækka fjármagnskostnaðinn alveg tvímælalaust. Í öðru lagi á að lækka ýmis gjöld á útflutningsatvinnuvegunum, m. a. skatta og launatengd gjöld. Það á að taka á þeim málum af mikilli festu og alvöru. Og í þriðja lagi er alveg ljóst að nái þessar aðgerðir ekki að treysta grundvöll atvinnuveganna verður að laga gengi að þeim kostnaðarhækkunum sem eru þarna umfram.

Ég vil fara nokkrum orðum frekar um fjármagnskostnaðinn. Ég ætla að byrja á því að nefna lítið dæmi sem ég heyrði um í gær og á reyndar að fá sundurliðað, en var ekki búinn að fá það fyrir þennan fund. Útgerðarfyrirtæki eitt hefur greitt á 8 mánuðum þessa árs um það bil 450 þús., ekki í vexti og alls konar slíkan fjármagnskostnað, heldur í gjöld til bankanna fyrir lánin sem þar hafa verið afgreidd. Þarna er um að ræða stimpilgjöld, þarna er um að ræða áhættuþóknun til Ríkisábyrgðasjóðs, þarna er um að ræða framlengingargjald h já banka upp á 86 þús. kr. Samtals nema þessi gjöld og fleiri slík, sem bankarnir og sjóðirnir hafa tekið, um 45 millj. gkr. Ég spyr: Er þetta ekki okur, ef slíkt orð má nota hér? Er virkilega þörf á þessu? Er þörf á því við framlengingu á erlendu láni, sem ég hefði talið að væri sæmilega tryggt í nýlegum togara, að taka 86 þús. kr., 8.6 millj. gkr., fyrir framlengingu á slíku láni? Ég segi hiklaust að slíkt verði að taka til endurskoðunar.

Í þessu sambandi vil ég jafnframt upplýsa að stimpilkostnaður hækkaði verulega við lög sem samþykki voru hér á hinu háa Alþingi 1976, þau nálægt því tvöfölduðust þá. Ég hef upp á síðkastið aflað mér ítarlegra upplýsinga um framkvæmd þessa. Um hana eru satt að segja skiptar skoðanir. Bankarnir hafa tekið upp þann háttinn að krefjast til tryggingar á afurðalánum skuldabréfa, sem samkv. lögum bera 1% kostnað við þinglesningu, og þetta þarf að endurtaka æðioft. Hins vegar var áður aðeins krafist víxla sem tryggingar. Þarna kann að vera að unnt sé að leiðrétta með því að fara aftur yfir í víxla. Það mundi lækka stimpilkostnaðinn niður í 0.55%. Hins vegar sýnist mér koma mjög glöggt fram í grg. með frv. þessu, sem varð að lögum 1976, að það hafi ekki verið tilgangur löggjafans með þessum lögum að stimpilgjöld af afurðalánum hækkuðu og ekki þurfi reyndar að breyta þessum lögum mikið til þess að það sé ljóst. Þetta mál er í athugun á vegum sjútvrn., fjmrn. og banka og verður náttúrlega að leiðrétta auk annarra kostnaðarliða sem ég nefndi, eins og þóknana til bankanna.

Ég vil einnig leyfa mér að fullyrða að staða bankanna hafi mjög batnað. Hún þurfti að batna, og vitanlega er ákaflega mikilvægt í okkar þjóðfélagi að staða bankanna sé sterk. Lánsfjárþörfin er mikil og ekki hefur verið unnt að fullnægja lánsfjárþörf atvinnuveganna eða einstaklinga eins og æskilegt hefði verið. Einnig er nauðsynlegt að gjaldeyrisforði þjóðarinnar sé hæfilega mikill. Á þessu hefur sem betur fer orðið veruleg bót á undanförnum árum. Eiginfjárstaða Seðlabankans, tekið úr gögnum Seðlabankans sjálfs, er í árslok 1980 orðin 36 milljarðar 450 þús. kr. Eiginfjárstaða Seðlabankans í árslok 1979 var 13 milljarðar 281 þús. Þetta er að sjálfsögðu í krónum þessara ára, þ. e. gkr. Þar áður var eiginfjárstaða 1978 6 milljarðar 242 millj. Og 1977, var eiginfjárstaðan 2 milljarðar 672 millj. Á milli ára hefur eiginfjárstaða töluvert meira en tvöfaldast, reyndar miklu nær því að þrefaldast þessi ár. Og eiginfjárstaða Seðlabankans er samkv. tölum hans sjálfs nú 2.15% af þjóðarframleiðslunni. Gjaldeyrisstaðan hefur einnig mjög batnað og er nú orðin 5.33% af þjóðarframleiðslu og hefur ekki verið betri síðan 1973, og eiginfjárstaðan hefur aðeins verið betri í þrjú ár: 1960, 1968 og 1.972.

Ég sagði áðan að því bæri mjög að fagna, að staða bankanna hefur styrkst. En ég varpa fram þeirri spurningu hvort hún sé ekki orðin nægilega sterk nú og hvort ekki megi ráðstafa hagnaði bankanna umfram verðtryggingu eiginfjárstöðu til þess að bæta rekstrarafkomu atvinnuveganna. Svar mitt er tvímælalaust já. Það ber að gera þetta. Ég teldi það mjög skaplegt markmið að segja sem svo: Við skulum verðbæta eiginfjárstöðuna eins og hún er orðin, við skulum bæta gjaldeyrisstöðuna um þá breytingu sem verður á gengi, en við skulum ráðstafa því, sem eftir er, til þess að bæta rekstrarstöðu atvinnuveganna með lækkun á vöxtum og jafnvel gengisuppfærslu sem þeir búa við í dag. Mér sýnist engin goðgá að halda, þegar ég lít á færslur yfir á endurmatsreikning Seðlabankans í ár, að þarna megi ná umtalsverðum bata. Ég ætla ekki að nefna ákveðna hundraðstölu, en þessi mál eru nú í mjög ítarlegri meðferð og í fullu samráði við Seðlabankann verið að athuga hvað þarna megi gera. Það þarf engin lög til þess að seðlabankastjórn sé heimilt að bjóða þau kjör sem bankinn leyfir. Ég get upplýst það, sem mér var sýnt í morgun, að víða tíðkast að seðlabankar greiða stóran hlut af hagnaði sínum í ríkissjóð. Sænski seðlabankinn greiddi á síðasta ári 650 milljarða sænskra kr. í sænska ríkissjóðinn. Þarna er kannske skýring á því, hvers vegna þessar þjóðir geta veitt atvinnuvegunum alls konar stuðning. Þarna er kannske skýring á því, hvers vegna Norðmenn styrkja sjávarútveg sinn með 1.2 milljörðum. Þarna er kannske skýring á því, hvers vegna Norðmenn, Bretar og fleiri greiða niður vexti hjá útflutningsatvinnuvegunum. T. d. bjóða Bretar nú 80% lán með 7.5% vöxtum við útflutning á tækjum. Það er gert með ríkisábyrgð, í því tilfelli sem ég þekki, úr Lloyds-banka í Bretlandi. Ég vil því leggja á það áherslu, að gera þarf alvarlega athugun á því, hvort ekki sé hægt að lækka fjármagnskostnaðinn. Ég tel, að það sé hægt að gera, og vísa til þeirrar afkomu bankanna sem ég hef nú lauslega rakið.

Mér þykir einnig rétt að nefna ýmislegt sem gert hefur verið til að lækka fjármagnskostnað. Ég nefndi áðan að samkomulag náðist við Seðlabankann á síðasta ári um að endurgreiða 3.6 milljarða af gengishagnaði bankans af afurðalánum, þ. e. vaxta- og gengishagnaði bankans. Þetta voru sem sagt í nýkr. 36 millj. Þá hefur náðst samkomulag um það við Seðlabankann, að hann leiðrétti afurðalán, sem voru í dollurum, þegar gjaldeyri var hins vegar skilað í öðrum myntum. Sú leiðrétting nemur 33 millj. kr. og ég get getið þess, að um 23–24 millj. munu renna til frystiiðnaðarins. Að sjálfsögðu er þessu skilað í hlutfalli við þau afurðalán og þann gjaldeyri sem útflutningsatvinnuvegirnir skiluðu. Þá hefur stjórn Seðlabankans einnig samþykkt þá tillögu, sem ég bar fram í ríkisstj. og síðan við Seðlabankann ásamt viðskrh., að Seðlabankinn endurgreiddi gengisuppfærslu þá sem í hans hlut kom við gengisfellinguna 25. ágúst s. l. Þetta nemur 41 millj. kr. og af því renna 60 þús. til landbúnaðarins, 4.7 millj. til iðnaðarins, en rúmlega 36 millj. til fiskvinnslunnar. Jafnframt liggur fyrir Alþingi brtt. við brbl. sem heimila Seðlabankanum að ráðstafa nokkru af því, sem til fiskvinnslunnar á að renna, yfir til frystingarinnar þannig að þangað rynnu 26 millj., en 10 millj. í saltfisk og skreið fyrst og fremst. Þarna er um færslu frá saltfiski og skreið að ræða. Má segja að þetta sé mjög hliðstætt við ákvarðanir sem teknar voru með brbl. í ársbyrjun og árslok 1978, þegar gengishagnaður — að vísu atvinnuveganna — var tekinn og honum ráðstafað til að greiða skuld frystideildar Verðjöfnunarsjóðs og loðnuafurðadeildar.

Ég hef einnig getið um skuldbreytingar Fiskveiðasjóðs og ég hef getið um þá tilfærslu sem ég mun beita mér fyrir að verði yfir í. stofnfjárdeild Fiskveiðasjóðs. Ég hef einnig nefnt skuldbreytingu hjá Byggðasjóði, og ég hef einnig nefnt að í gangi er að taka að nýju upp slíka skuldbreytingu í gegnum olíufélögin. Þá get ég upplýst að með reglugerð, sem gefin var út 2. þ. m., er ákveðið að þeim lánum hjá Fiskveiðasjóði til fiskiskipa sem 42% voru bundin byggingarvísitölu og 27% bundin byggingarvísitölu verði breytt í þau lán sem tekin voru upp síðar og bundin eru við meðalgjaldeyri samkv. reikningum Fiskveiðasjóðs. Þessi skip, fyrst og fremst 4 eða 5 togarar sem byggðir voru innanlands, hafa búið við mjög óhagstæð lánskjör hjá Fiskveiðasjóði. Ég hefði reyndar talið, að þetta hefði átt að gerast fyrr, og beindi því til Fiskveiðasjóðs fyrir nokkru, en gerði það síðan mjög ákveðið eftir að skýrsla sú lá fyrir sem ég ræddi áðan, um afkomu togaranna, og Fiskveiðasjóður brást strax vel við því. Þessi breyting er nú í gangi og er mikilvæg fyrir þessi skip.

Ég hef einnig lagt til að dráttarvextir verði endurskoðaðir. Ég tel að þeir eigi að lækka. Það er í athugun. Ég hef einnig lagt til að afurðalánavextir verði lækkaðir. Það tengist að sjálfsögðu því, hvort afkoma bankanna er slík að unnt sé að ráðstafa fjármagni í því skyni. Það er líka í athugun.

Ég nefndi áðan að við þurfum að athuga hvort ekki megi lækka opinber gjöld, t. d. mætti endurskoða launaskatt. Ég vil hins vegar taka það fram, að við verðum þá að sjálfsögðu hér á hinu háa Alþingi að horfast í augu við niðurskurð á einhverjum lið, nema menn vilji stofna stöðu ríkissjóðs í halla. Ég held að það eigi að forðast og því yrðu menn að athuga um niðurskurð ef slík opinber gjöld eru felld niður en það tel ég vera eðlilega og reyndar sjálfsagða athugun í þessu dæmi.

Ég vil svo segja það að lokum, að vitanlega er fast gengi ekkert sáluhjálparatriði í þessu máli, þvert á móti. Vitanlega verður að athuga gengið og tryggja grundvöll atvinnuveganna með lagfæringu á því, ef ekki næst sú staða atvinnuveganna sem leitað er eftir að bæta að öðrum leiðum. Seðlabankinn er að sjálfsögðu með þau mál í stöðugri athugun og gerir tillögur um slíkt þegar hann sér ástæðu til.

Mér sýnist vera sjálfsagt markmið að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna upp fyrir núllið fyrir næstu áramót. Það verða ætíð einhverjar sveiflur á rekstrargrundvelli atvinnuveganna og við gefum aldrei afstýrt falli niður fyrir núllið annað slagið. En það er von mín að þær athuganir, sem nú eru í gangi, geri okkur kleift að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna upp fyrir núllið um næstu áramót. Þá vil ég sérstaklega taka fram að ég á við frystinguna ekki síst sem slíka.

Til mín hefur ekki verið beint spurningum um stöðu útflutningsiðnaðarins. Því miður óttast ég að staða hans sé jafnvel lakari en staða frystingarinnar, en um það ætla ég ekki að ræða. Ég held að þar verði að grípa til sérstakra viðbótaraðgerða. Þó vil ég geta þess hér, að í öllum þeim aðgerðum, sem ég hef nefnt í fjármagnsmálum og lækkun fjármagnskostnaðar, hef ég ætíð lagt á það áherslu, að slíkar aðgerðir hljóti að ná til allra útflutningsgreinanna og ekki um að ræða millifærslu á milli iðnaðar og sjávarútvegs eða öfugt. Ég vil einnig geta þess, að í framhaldi af mjög mikilli vinnu, sem ríkisstj. hefur látið gera, úttekt eða samanburði á starfsgrundvelli útflutningsatvinnuveganna, er komið í gang starf sem miðar að því að jafna þennan starfsgrundvöll. Það er mikið verk og allflókið, mun taka einhvern tíma, en því verður hraðað eins og frekast er kostur.

Ég kem þá að því sem ég vil kalla sérstök vandamál. Sérstök vandamál í sjávarútvegi eru síldveiðar og vinnsla og loðnuveiðar og vinnsla. Á þessum afurðum hafa ekki orðið þær hækkanir erlendis sem nauðsynlegar eru til að tryggja afkomu veiða sjómanna og vinnslu eins og æskilegt hefði verið. Ég ætla ekki að fara ítarlega út í þessa þætti, m. a. vegna þess að um þau mál hefur áður verið rætt hér á hinu háa Alþingi. Ég vil þó segja það hér, að mér þótti mjög lofsvert hvernig hagsmunaaðilar þar leituðust við að mætast á miðri leið. Og ég vil leggja á það ríka áherslu, að vandamál loðnuveiða og vinnslu verða aldrei bætt með gengisfellingu. Þar er um miklu, miklu stærri vanda að ræða en svo, og hef ég engan ábyrgan aðila heyrt leggja slíkt til.

Hins vegar eru svo erfiðleikar einstakra fyrirtækja. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm., að þar er um mikið alvörumál að ræða. Ríkisstj. hefur að sjálfsögðu verið þessi staða fullkomlega ljós. M. a. þess vegna samþykkti ríkisstj. síðast fimmtudaginn 1. okt. till. sem ég lagði fram og er svohljóðandi:

Ríkisstj. samþykkir að veita Framkvæmdasjóði heimild til lántöku sem ráðstafað verði í samráði við ríkisstj, til að aðstoða þau fyrirtæki í fiskiðnaði sem eiga við sérstaka rekstrarerfiðleika að etja. Jafnframt verði þegar hafin athugun á rekstrarerfiðleikum slíkra fyrirtækja og á leiðum til úrbóta. Hámark lánsupphæðar verður ákveðið síðar.“

Menn spyrja e. t. v.: Hvers vegna var ríkisstj. að beina þessu vandamáli til Framkvæmdastofnunar? Ég átti sæti í stjórn Framkvæmdastofnunar í mörg ár eins og að sjálfsögðu margir aðrir hv. þm. sem hér eru inni. Ég held að mönnum sé það öllum ljóst, að þegar Framkvæmdastofnun var sett á fót 1971 eftir mjög mikla erfiðleika í atvinnuvegum okkar eftir þá röskun sem varð á árunum 1967–1968, þá var Framkvæmdastofnun ekki síst ætlað að vera eins konar öflugur Bjargráðasjóður. Framkvæmdastofnun er samkv. lögum ætlað að tryggja jafnvægi í byggð landsins eða búsetu, eins og orðað er í lögum þeirrar stofnunar, og það eru engin takmörk um það sett, hvað Framkvæmdastofnun eða stjórn hennar getur ákveðið að gera til að tryggja slíka búsetu.

Ég minnist þess einnig mjög vel, að öll þau ár sem ég sat í stjórn Framkvæmdastofnunar voru þar á borðum nánast við hvern einasta stjórnarfund slík erfiðleikamál. Ég get nefnt t. d. erfiðleika á Skagaströnd en þau mál voru lengi þar til meðferðar. Ég get nefnt málefni varðandi Bíldudal, Drangsnes, Raufarhöfn, Þórshöfn, Búlandstind, Eyrarbakka, Stokkseyri, Þorlákshöfn. En ég man aldrei eftir svona miklu fjaðrafoki eða svona miklum bréfaskriftum á milli ríkisstj. og Framkvæmdastofnunar þegar þessi mál voru til umr. Ég man vel að „kommisararnir“ blessaðir og aðrir starfsmenn Framkvæmdastofnunar voru þá á þönum fram og aftur við að leysa þessi mál, og það tókst oft allvel, t. d. á Skagaströnd þar sem nú er rekið öflugt frystihús og útgerð. Það tókst víða mjög vel. Ég gæti nefnt ýmsa staði, en ætla ekki að lengja fundinn með því. Það var í fjöldamörgum tilfellum að Framkvæmdastofnunin leysti nánast þegjandi og hljóðalaust slík vandamál. Þess vegna var ákaflega eðlilegt að ríkisstj. beindi þeim tilmælum til Framkvæmdastofnunar, að hún tæki þessi vandamál nú fyrir. Ég hefði reyndar talið að það væri varla þörf á því og mér sýnist að sú tillaga, sem samþ. var, veiti satt að segja Framkvæmdastofnun ákaflega mikið svigrúm til að taka á þessum málum. Það er engin hámarksupphæð sett á lántöku. Framkvæmdastofnun er beðin að gera tillögur til ríkisstj. um það. Þarna er einnig lögð áhersla á að Framkvæmdastofnun beiti sér fyrir athugun á rekstrarerfiðleikum fyrirtækjanna og leiðum til úrbóta. Þetta hefur árum saman verið verkefni Framkvæmdastofnunar og hún hefur unnið á þessu sviði hið ágætasta verk. Hún hefur á að skipa sérfræðingum sem geta sinnt slíkum störfum.

Þessi tillaga var samþykki, eins og ég sagði, 1. okt. s. l. Það var daginn fyrir fund í stjórn Framkvæmdastofnunar, og ég veit ekki annað en hún hafi borist inn í Framkvæmdastofnun sama dag. Fundurinn var 2. oki. Fimmtudaginn 22. oki. var að ósk framkvæmdastjóra, Sverris Hermannssonar, boðað til fundar með fjmrh. og mér og allri stjórn Framkvæmdastofnunar um framkvæmd þessa máls — þremur vikum seinna. Þá var búið að segja upp öllum hjá Hraðfrystihúsi Keflavíkur, eftir að forráðamenn þess fyrirtækis — sem var vel kunnugt um þessa tillögu — höfðu gengið — segja þeir mér — fjórum sinnum inn í Framkvæmdastofnun á fund stjórnenda þar og spurt: Hvað ætlar stofnunin að gera tillögur um? Á þessum fundi skýrðum við þetta mál eins og skýringar væri þörf, og ég held að þær skýringar hafi verið teknar góðar og gildar. Allir voru sammála um að koma yrði í veg fyrir stöðvun fyrirtækjanna. Strax daginn eftir voru útvegaðar 10 millj. í Seðlabanka til aðstoðar í þessu sambandi. Samþykkt var líka að þegar yrði sett á fót nefnd til að athuga rekstrarerfiðleikana og gera tillögur til úrbóta. Síðan mun hafa verið fjallað um þetta mál á fundi í Framkvæmdastofnun nokkrum dögum síðar og bréf hafa borist til forsrh. nú fyrir tveimur dögum eða svo. Það verður tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun. Þar er boltanum kastað til baka og ríkisstj. beðin um að skipa slíka nefnd og reyndar óskað eftir að sjútvrn. skipi formann. Ég hef út af fyrir sig ekki á móti því: Hins vegar tel ég að það sé að öllu leyti eðlilegra að formennskan sé í Framkvæmdastofnun því að þar verður málið vitanlega að vinnast. Við erum ekki enn þá búnir að fá neinar vísbendingar um það frá Framkvæmdastofnun, hvað hún telur upphæðina háa sem þörf er á. Ég hef hins vegar sett fram í ríkisstj. að ég áætla, eftir þeim upplýsingum sem ég hef, að ekki veiti af 200 millj. kr. í því skyni að breyta vanskilum fyrirtækja í skil. Ég tel að til viðbótar við það þurfi lánsfé, t. d. lánsfé úr Byggðasjóði, með hagstæðum kjörum til þess að gera eigendum kleift að auka eigið fé í þessum fyrirtækjum. Það er t. d. mjög greinilegt hjá þeim togurum sem teknir voru til athugunar, að skortur á eigin fé er mjög almennur.

Ég vil einnig beina því til hv. þm. sem sitja í stjórn Framkvæmdastofnunar, hvort ekki sé ástæða til að gera svipað og stjórn Fiskveiðasjóðs hefur samþykkt að minni tillögu að gera, og nota eitthvað af því fjármagni, sem Alþingi veitir til Framkvæmdastofnunar, til að lækka skuldir ýmissa þessara fyrirtækja við Byggðasjóð. Mér er ljóst að það dregur vitanlega úr útlánagetu Framkvæmdasjóðs alveg eins og Fiskveiðasjóðs. En ég lít svo á að mikilvægara sé í dag að tryggja rekstrargrundvöll þessara fyrirtækja og hjálpa þeim, sem eru í sérstökum erfiðleikum, heldur en að stofna til nýrra framkvæmda.

Herra forseti. Fjölmargt fleira mætti að sjálfsögðu um þetta mál segja. Ég skal þó ekki lengja ræðu mína en vil að lokum taka undir það sem hv. fyrirspyrjandi eða frsm. sagði, að það á að hætta að tala og fara að vinna. Það á að hætta að skrifa bréf fram og aftur og fara að vinna. Og ég verð að segja það, að af fyrri kynnum mínum af Framkvæmdastofnun treysti ég henni mjög vel til að vinna þetta verk fljótt og ötullega. Hún hefur starfskröftum á að skipa til að vinna þetta verk. Og ég vil taka það fram, að allt það, sem sjútvrn. getur lagt til þeirra mála, er að sjálfsögðu opið. Menn geta fengið aðgang að starfskröftum og öðru sem þar er að finna.