06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3647 í B-deild Alþingistíðinda. (3193)

236. mál, móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil taka fram að vissulega hefði verið æskilegt af minni hálfu að geta gert nána grein fyrir framkvæmdaáætlun um dreifikerfi Ríkisútvarpsins í sumar, en því miður er þess ekki kostur á þessari stundu. En áætlunin er langt á veg komin og hún ætti að geta legið fyrir áður en mjög langt um líður, og ég er fús til að skýra þingheimi frá því þá, hvernig hún lítur út. Vonandi getur það orðið fljótlega eftir páska.

Fsp. hv. 4. þm. Vestf. er um afmörkuð atriði og henni mun ég svara eins og hún liggur fyrir, enda má heita ákveðið hvað til greina kemur að framkvæma á Vestfjörðum á þessu sumri. En ég vil taka það fram í þessu sambandi. að hvað varðar þessar framkvæmdir felst auðvitað engin endanleg lausn á vandamáli Vestfirðinga í þessum efnum. Það er síður en svo.

Fsp. eru á þskj. 438. svo að ég snúi mér að því að svara beint þeirri fyrri, hverjar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á árinu 1982 til að koma á viðunandi sjónvarpssambandi við þá sveitabæi og þéttbýlisstaði á Vestfjörðum sem ýmist hafa engin eða þá mjög slæm skilyrði til móttöku á sjónvarpi, þá vil ég greina frá því, að sett verða upp tæki á Gelti og reyndar bráðlega, en með tilkomu þeirra komast Galtarviti og bæir í Staðardal við Súgandafjörð í sjónvarpssamband. Þá er fyrirhugað að reisa í sumar sjónvarpsendurvarpsstöð við Gjögur, en hún mun sjá íbúum við innanverðan Reykjarfjörð fyrir sjónvarpi. Auk þess þykir mér rétt að geta þess, áð unnið er að athugunum og mælingum og verður áfram í sumar, strax og hægt er og færð leyfir, vegna stöðva við innanvert Ísafjarðardjúp.

Hvað varðar 2. fsp. er frá því að greina, að keyptir hafa verið til landsins fimm FM-sendar sem á að setja upp í sumar á Vestfjörðum. Þessir sendar verða á Þverfjalli, Botnsheiði, Holti í Önundarfirði, Patreksfirði og á Bíldudal. Í framhaldi af þessum uppsetningum verða kannaðir möguleikar á frekari FM-væðingu á Vestfjörðum.

Ég vil geta þess einnig, að fyrirhugað er að verja 10 millj. kr. til endurnýjunar og nýrra senda í dreifikerfi sjónvarps almennt, en 4 millj. kr. til dreifikerfis útvarps nú í sumar.

Ég hef haldið mér við það í þessum svörum að svara því sem beint er að spurt í fsp. hv. þm.