06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3648 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

236. mál, móttökuskilyrði sjónvarps og hljóðvarps á Vestfjörðum

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans, þó að það gæti nokkurra vonbrigða hjá mér eftir þær upplýsingar sem hann gefur um væntanlegar framkvæmdir í þessum efnum á Vestfjörðum á þessu ári. Það er vegna þess að svo mikið þarf að gera á Vestfjörðum varðandi að bæta sjónvarpsskilyrði og setja upp FM-senda hljóðvarps að raunverulega þarf, ef vel á að vera, að gera markvert átak í þeim efnum og að ekki dragist úr hömlu að það sé gert. Þess vegna er mjög þýðingarmikið að það sé tekið á þessu viðfangsefni á þessu ári.

Hæstv. menntmrh. gat þess, að sett yrði upp sendistöð á Gelti sem mundi þjóna vitanum, vitavarðarbústaðnum í Keflavík eða Galtarvita, og er gott til þess að vita. Sérstaklega vil ég lýsa ánægju minni yfir því, að gert er ráð fyrir að þessi framkvæmd verði með þeim hætti, að bæir í Staðardalnum í Súgandafirði geti notið góðs af. Það bætir úr brýnni þörf á þeim slóðum. Ég er líka að sjálfsögðu ánægður með að það er gert ráð fyrir að sett verði upp sendistöð á Gjögri sem mundi koma að gagni fyrir sveitabæinn Reykjarfjörð í Reykjarfirði og svo Djúpuvík. Eins og ég gat um áðan hefur þessi þéttbýlisstaður, þó lítill sé, Djúpavík, ekki haft sjónvarpsskilyrði og var sérstaklega brýnt að bæta úr því.

Hins vegar verð ég að segja það, að mér urðu nokkur vonbrigði að því sem hæstv. ráðh. sagði um að könnuð yrðu sjónvarpsskilyrði innanvert við Djúpið. Mér skildist að það væri ekki ætlunin að bæta úr ástandi þar á þessu ári, en á því er mikil þörf, einkum í Mjóafirði og innarlega í Nauteyrarhreppi, að gera bragarbót í þessum efnum. Það nær harla skammt ef fyrirætlanir eru núna einungis um að athuga hvað eigi að gera á þessum slóðum. Ég verð að segja að ærinn tími hefur verið til að athuga um þessi efni þannig að það hefði átt að vera búið.

Mér þykir gott út af fyrir sig að heyra það og það er mjög þýðingarmikið, að gert skuli vera ráð fyrir að settir verði upp fimm FM-sendar á þeim stöðum á Vestfjörðum sem hæstv. ráðh. gat um og gaf fyrirheit um að yrði gert á þessu ári. Það bætir mikið úr þeirri þörf sem er fyrir FM-kerfi á Vestfjörðum, þar sem Vestfirðir hafa verið langt á eftir í þeim efnum eins og ég kom lítillega inn á í minni fyrri ræðu. Auðvitað get ég verið ánægður með það sem gert er, en í mínum huga ber meira á óánægju yfir því sem ekki er gert og vangert er og á enn þá að draga að verði gert í svo þýðingarmiklum verkefnum sem eru mjög aðkallandi, eins og ég hef áður lagt áherslu á.