06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3651 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

359. mál, flóð Þjórsár í Villingaholtshreppi

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Sigurjónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans, en því miður er ekki áformað að gera mikið við Þjórsá. Ég held samt að þar sé verulega mikil hætta á því, að þetta geti valdið miklum erfiðleikum. Ef áin heldur áfram að flæða þarna upp, eins og hún hefur gert núna ár eftir ár og hefur komist upp að bæjum, þá getur það valdið stórskemmdum og tjóni á fjölda bæja með auknu vetrarrennsli sem stefnt er að með aukinni vatnsmiðlun, og gæti hún þá farið vestur yfir Flóann. Það mundi þýða að þarna lokast af margir bæir. Það gæti valdið ýmsum skemmdum þannig að erfitt væri að bæta.

Ég vil líka minnast á að það er sama að segja um ána í Skeiðahreppi. Þar hefur hún verið að taka meira og meira af landi. Það er staðreynd að austustu bæirnir, bæði Skeiðháholt og Blesastaðir, hafa orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna þess að áin sargar stöðugt meira og meira af ræktunarlöndum. Svo virðist að eftir að vetrarmiðlun varð meiri og meira rennsli árinnar á veturna auki það stöðugt hættuna. Aukin vatnssöfnun í Þórisvatni verður til þess að auka vatnsrennslið á veturna, en það þýðir að vatnið breiðir meira úr sér þegar niður á flatlendið kemur. Við þann mikla ís sem er fleytt í burtu frá Búrfellsvirkjun, hefur líka komið að því að áin skemmir meira.

Stjórn Landsvirkjunar hefur haft eitthvert eftirlit með þessu á liðnum árum, eins og fram kom hjá hæstv. ráðh„ og ég vona að fylgst verði vel með þessu í framtíðinni og þá verði gripið inn í og komið í veg fyrir að tjón hljótist af. En það, sem veldur nú sérstökum áhyggjum, er flóðahættan í Villingaholtshreppi. Ef áin fer upp þar er ábyggilega erfitt að breyta því á stundinni og það getur valdið miklum skemmdum ef ám fer vestur yfir Flóann. Þess vegna lagði ég fram þessa fsp. til að heyra um hvort virkjunaraðilar hafi ekki hugsað sér að gera þarna meira en búið er að gera, meira til að koma í veg fyrir að þetta gæti komið fyrir.