04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara ítarlega út í þá umr. sem hér hefur farið fram í dag, þó að það væri full ástæða til þess miðað við margt af því sem hér hefur verið sagt. Hæstv. sjútvrh. hefur gert grein fyrir þeim aðgerðum sem ríkisstj. leggur áherslu á á þessu sviði og vinnur að og hefur unnið að, þannig að hrakspár stjórnarandstæðinga hafa ekki náð að koma fram þarna fremur en annars staðar. Það var hins vegar ansi fróðlegt að heyra ræðu hv. þm. Sverris Hermannssonar, „kommissars“ í Framkvæmdastofnun ríkisins, og þó vantaði í hana kafla sem hefði getað borið yfirskriftina: Viðræður þm. Austurlands Sverris Hermannssonar við framkvæmdastjóra og „kommissar“ Framkvæmdastofnunar ríkisins. Hann greindi ekki frá þeim viðræðum né heldur niðurstöðum þeirra, en það hefði verið ákaflega fróðlegt að heyra.

Ég kvaddi mér hér hljóðs út af einu atriði í málflutningi hv. þm. Péturs Sigurðssonar sem kom víða við. M. a. lét hann að því liggja, að núv. ríkisstj. væri gagngert að sitja á svokölluðum nýjum vísitölugrundvelli til að falsa vísitöluna. Hér er auðvitað um að ræða grófar missagnir, ranghermi, af hálfu hv. þm. og það er þeim mun alvarlegra sem hann veit betur.

Seint á árinu 1978 fór fram ný neyslukönnun hér vegna nýs vísitölugrundvallar framfærslukostnaðar. Þessi könnun var síðan reiknuð út á árinu 1980 aðallega og fram eftir þessu ári. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta þessa árs að niðurstaða í þessum efnum lá fyrir að því er útreikning varðar. Ég hygg að það sé rétt munað hjá mér, að ég hafi fyrst séð plögg um þennan útreikning í ágúst eða sept. á þessu ári, 1981. Þá fyrst var þessari frumvinnu lokið af hálfu Hagstofu Íslands. Og hver er það svo sem fjallar um þetta mál? Það er kauplagsnefnd. Kauplagsnefnd er skipuð fulltrúa Alþýðusambands Íslands og fulltrúa Vinnuveitendasambandsins, auk formanns. Kauplagsnefnd hefur í rauninni mjög sérstæða stöðu miðað við aðrar nefndir í okkar opinbera stjórnkerfi. Það er fyrst og fremst verkefni aðila kauplagsnefndar að fjalla um þann nýja vísitölugrundvöll sem þarna liggur fyrir, — ekki hvað er í honum, vegna þess að það gengur fram af könnuninni, heldur hvenær og hvernig þessi nýi vísitölugrundvöllur hugsanlega tengist við kaup og kjör í landinu. Það er aftur á móti samningsatriði milli aðila vinnumarkaðarins hvenær þessi vísitölugrundvöllur kemur inn. Þetta er mál sem ríkisstj. hefur ekki haft með að gera með öðrum hætti en þeim, að auðvitað hlýtur ríkisstj. eins og aðrir að hafa áhuga á að sá vísitölugrundvöllur, sem við er miðað, sé sem réttastur og gefi sem besta mynd af neyslu manna í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

Það er hins vegar ekki þar með sagt að það eigi endilega að mæla vísitölubætur til láglaunafólks eftir þeim meðaltalsgrundvelli sem út úr slíkri könnun kemur. Ég vil t. d. nefna matvörur í þessu sambandi. Þær vega þungt í núverandi vísitölugrundvelli. Þær eru mun léttari í hinum nýja vísitölugrundvelli. Verðhækkanir á matvörum yrðu því lakar bættar samkv. nýja vísitölugrundvellinum en þeim gamla. Þetta er mál sem þarf að hafa auga á og auðvitað verður að fjalla um það í tengslum við hvenær og hvernig þessi nýi vísitölugrundvöllur verður tengdur. En það er auðvitað af og frá að ríkisstj. sé að sitja á þessum grundvelli til að falsa lífskjör launafólks í landinu eða til að draga úr því, að launafólk fái réttmætar verðbætur á sín laun fyrir þá verðbólgu sem hér gengur yfir á hverjum tíma.