06.04.1982
Sameinað þing: 74. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (3201)

365. mál, ný langbylgjustöð

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. menntmrh. að því, hvað líði áætlunum um framkvæmdir við byggingu nýrrar langbylgjustöðvar til þess að leysa af hólmi úrelta og úr sér gengna sendistöð á Vatnsendahæð við Reykjavík. Hér er gert ráð fyrir að einhverjar áætlanir séu á döfinni í þessu efni, og það er ekki að ástæðulausu að gert er ráð fyrir því. Ljóst er að núverandi sendistöð á Vatnsendahæð er þegar orðin allt of veik og útsendingar hennar nást illa víða um land og á miðunum umhverfis landið. Auk þess hafa loftnetsmöstur verið dæmd ónýt og geta fallið hvenær sem er með þeim afleiðingum að útvarp, m.a. til sjómanna á hafi úti, félli niður í ófyrirsjáanlega langan tíma. Hér er því um að ræða mál sem er allrar athygli vert, svo að ekki sé meira sagt.

Ég hef í höndum bréf og álitsgerðir varðandi þetta mál sem allar hníga að því, að það megi ekki bíða raunar stundinni lengur að hafist verði handa um að reisa nýja langbylgjustöð í staðinn fyrir stöðina á Vatnsendahæð. Ég er hér t.d. með bréf frá Verkfræðiþjónustu Guðmundar Óskarssonar til Pósts og síma, dags. 19. júlí s.l. Þar segir að fram hafi farið úttekt á ástandi tveggja 150 metra hárra loftnetsmastra á Vatnsendahæð og niðurstaða úttektarinnar sé á þá lund, að burðarþol mastranna sé nú allsendis ófullnægjandi og beri að fella þau við fyrstu hentugleika. Í þessu bréfi eru svo gefnar upplýsingar sem varða þessa niðurstöðu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta bréf, en ég hef einnig í höndum greinargerð um útvarpsmöstur á Vatnsendahæð, könnun á ástandi þeirra sumarið 1978 af Almennu verkfræðistofunni hf., og þar kennir margra grasa og of langt mál yrði að tíunda allt. Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum í niðurstöðum þessarar skýrslu sem liggur þegar fyrir árið 1978. Þar segir m.a.:

„Hönnunarálag þetta“ — þ.e. á möstrunum sem nú eru — „er aðeins rúmlega helmingur þess sem nú hefur verið krafist og styrkur mastranna nýbyggðra aðeins um 2/3 af styrk mastra byggðra samkv. kröfum nú til dags.“

Þá segir enn fremur að ástand mastranna sé afar slæmt, eins og það er orðað, og að ryðpollar hafi verið bæði mjög víða og einnig víða mjög djúpir. Sagt er um skástangirnar að lauslega áætlað virðist helmingur þeirra vera ónýtur eða stórskemmdur af ryði. Í þessari greinargerð segir að af þessu öllu megi ljóst vera að burðarþol mastranna hafi rýrnað verulega af völdum ryðs. Þá segir að þess vegna sé hætta á að möstrin brotni, ef vindhraði á Vatnsendahæð nái 11 vindstigum, og raunar sé það nokkurt undrunarefni að þau skuli enn standa uppi. — Þetta er sagt 1978 og það er ekkert gert og menn vita hvað er í húfi, ef þessi möstur falla, fyrir landsbyggðina og fyrir sjómenn á miðunum umhverfis Ísland.

Svo segir í þessari skýrslu frá 1978 að þeir kunnáttumenn, sem þar hafi fjallað um, telji ekki fært að mæla með því, að gert verði við útvarpsmöstrin á Vatnsendahæð, slíkt væri allt of kostnaðarsamt og möstrin eins og þau eru upphaflega byggð úrelt.

Það er af þessu tilefni sem ég hef leyft mér að gera þá fsp. til hæstv. menntmrh. sem er á þskj. 452.