06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

364. mál, utanríkismál 1982

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa greinargóðu skýrslu um utanríkismál. Hún er greinargóð nú eins og áður.

Þrennt ber að mínum dómi hæst í alþjóðamálum um þessar mundir: Í fyrsta lagi aukin spenna mill austurs og vesturs og vaxandi vígbúnaðarkapphlaup. Í annan stað ofbeldi, kúgun og mannréttindabrot í ýmsum heimshornum. Í þriðja lagi hungur og fátækt í heilum heimshlutum. Þróun þessara mála skiptir okkur Íslendinga miklu. Ofbeldi, kúgun, hungur fátækt skipta okkur ekki bara máli út frá mannúðarsjónarmiði, þau snerta ekki einungis jafnréttishugsjón okkar og óbeit okkar á misrétti, þau varða líka framtíð okkar í bráð og lengd. Í þessu ástandi getur falist kveikja ófriðar og styrjaldar rétt eins og í spennunni milli austurs og vesturs. Ég mun því í þessum orðum hér á eftir gera þessi mál einkanlega að umræðuefni, jafnframt því að fjalla um stöðu Íslands í varnarmálum og öryggi landsins svo og stuttlega um ýmsa þá málaflokka aðra sem drepið er á í skýrslu utanrrh.

Utanrrh. getur þess í skýrslu sinni að litið miði í norður-suður viðræðunum um nýskipan alþjóðaefnahagsmála. Þó er þetta líklega stærsta verkefnið sem mannkynið stendur frammi fyrir. Þessu verkefni verður ekki ýtt til hliðar. Talið er að um 800 millj. manna búi við algera fátækt. Fimmti hluti íbúanna á suðurhveli jarðar líður hungur og næringarskort. Stærstur hluti þessa fátækasta fólks í veröldinni býr sunnan Saharaeyðimerkurinnar og í Suður-Asíu. Þjóðartekjurnar í þessum heimshluta eru að jafnaði innan við 2500 kr. á mann á ári að meðaltali. Og í þessum heimshluta er fólksfjölgun ör. Jafnvel við lækkandi fæðingatíðni mun eitt þessara fátækustu ríkja jarðarinnar vera orðið jafnfjölmennt og Bandaríki Norður-Ameríku áður en þessi öld er á enda. Þetta er ríkið Bangla Desh. Að líkindum mun íbúum jarðarinnar hafa fjölgað um 2000 millj. um næstu aldamót ef svo fer fram sem horfir. Þessi þróun varðar ekki síður hinn iðnvædda heim en þá sem suðurhvelið byggja. Okkur mun ekki duga að senda hinum sveltandi matarsendingar. Í þeirri gjá, sem myndast hefur milli fátækra og ríkra þjóða, er fólgin hætta fyrir heimsbyggðina alla. Það er skylda okkar að vinna að því með öllum tiltækum ráðum, að þessir meðbræður okkar og systur þurfi ekki að svelta og þeim sé séð fyrir nauðþurftum í fæðu, í læknishjálp, í húsaskjóli og í lágmarksfræðslu.

En þetta verkefni er stærra og mikilvægara en svona upptalning gefur til kynna. Við skulum ekki láta okkur til hugar koma að allsnægtalönd eins og iðnþróuðu ríkin eru nú fái staðist til lengdar umlukin af fátækt og hörmungum annars staðar í heiminum. Hættan á átökum og styrjöldum er ekki einungis fólgin í spennunni milli austurs og vesturs, hún er ekki einungis fólgin í samkeppninni um völd og áhrif, hún er líka fólgin í hættunni á víðtæku hungri í veröldinni og síharðnandi baráttu um auðlindir jarðarinnar.

Ímyndunarafl okkar hrekkur varla til þegar við ætlum að fara að draga upp mynd af ástandinu meðal fátækustu þjóða heims. Mér er reyndar minnisstæð næturstund í Karachi í Pakistan fyrir tæpum 20 árum. Þegar nóttin lagðist yfir varð varla þverfótað fyrir fólki sem svaf undir berum himni. Það átti vitaskuld ekkert húsaskjól. Ég minnist þess, að þennan hóp mátti greina í tvennt: Þeir, sem betur komust af, höfðu teppi til að sveipa sig í, hinir ekki. Þó var þetta ekki einu sinni fátækasta fólkið í veröldinni, en þessi örbirgðarmynd situr greypt í huga minn nær 20 árum síðar.

Ég sagði áðan að jöfnun lífskjara í veröldinni væri meðal mikilvægustu verkefna sem mannkynið stæði frammi fyrir. Ég sagði líka að okkur dygði ekki að senda matargjafir til þeirra sem svelta. Staðreyndin er sú, að þessu verkefni verður ekki valdið nema með sameiginlegu átaki norðurs og suðurs, austurs og vesturs. Í æ ríkari mæli verður að beina kröftunum að því að hjálpa hinum vanþróuðu ríkjum til sjálfshjálpar, finna leiðir til þess að þær geti lifað af landi sínu. Þetta mun þeim ekki takast einum sér. Til þess þarf að koma skilningur og aðstoð þróuðu ríkjanna. Slökun spennu og samdráttur í vígbúnaði getur losað það fjármagn, það hugvit og þann mannafla sem þróuðu þjóðirnar verða að leggja fram í þessu skyni. Einn skriðdreki er jafnvirði skólahúsnæðis fyrir 30 þús. börn. Ein orrustuþota er jafnvirði 40 þúsund apóteka. Á hverju ári er varið yfir 500 milljörðum dollara í vígbúnað. 1/2% af þessari upphæð hrykki til þess að endurvæða landbúnaðinn í fátæku ríkjunum svo að þau yrðu sjálfum sér næg í matvælaframleiðslu. Þetta vandamál varðar mannkynið allt og í úrlausn þess geta austurveldin vitaskuld ekki skorist úr leik. Sú hefur verið afstaða þeirra, að þeim komi þetta ekki við, en sú afstaða fær ekki staðist. Skylda Sovétríkjanna og fylgifiska þeirra er vitaskuld hin sama og annarra jarðarbúa, — og reyndar hefur vígbúnaðarfjárfestingin ekki verið síður í örum vexti þar en annars staðar á sama tíma og Sovétríkin hafa látið þessi vandamál afskiptalaus.

Það er hryggileg staðreynd að horfa á þá gífurlegu fjármuni, sem varið er í vígbúnaðarkapphlaupið, á sama tíma og stór hluti mannkyns sveltur heilu hungri. Vitaskuld er óraunhæft að gera því skóna að vígbúnaði verði hætt í einu vetfangi. En það verður að teljast raunhæft markmið að dregið verði úr aukningunni. Það er nær sanni að setja sér slík nærtæk markmið sem kleift á að vera að ná og líta á það sem fyrsta skref, frekar en að ætlast um of.

Nú er vissulega á það að líta og rétt að minna á að vígbúnaður á sér ekki einungis stað í hinum iðnvædda heimi. Fátækar, vanþróaðar þjóðir verja miklum fjármunum í vopnakaup og herbúnað. Það má vera og á reyndar að vera sérstakt umhugsunarefni með hvaða hætti verði dregið úr þessari tilhneigingu og þessari þróun. Hitt er ljóst, að mestir fjármunir og mesta hættan á allsherjarstyrjöld eru í höndum stórveldanna. Kapphlaupið þeirra á milli er geigvænlegt. Það kapphlaup verður ekki stöðvað nema takast megi að draga úr tortryggni og gagnkvæmum ótta.

Sívaxandi vígbúnaður Sovétríkjanna á undanförnum árum, innrás þeirra á Afganistan og nú síðast frelsiskúgunin í Póllandi, sem gerðist undir sovéskum þrýstingi, eru vissulega rót þeirrar aukningar í hernaðarútgjöldum og vígvélum sem nú á sér stað hjá vesturveldunum og þó einkum hjá Bandaríkjunum. Hvort heldur menn telja þessi umsvif eðlileg viðbrögð eða ekki, hvort heldur menn telja að hér sé um nauðsynleg viðbrögð að ræða eða ekki, þá held ég að öllum hljóti að vera ljóst að þessar aðgerðir Sovétríkjanna vöktu tortryggni og ótta sem lagði grundvöllinn að þessum viðbrögðum. Við bundum miklar vonir við þá slökun spennu sem átti sér stað á seinasta áratug. samningar stórveldanna um takmörkun langdrægra eldflauga voru mikilvægt skref í þessum efnum. Þann þráð verður að leitast við að taka upp að nýju. Nú er hins vegar vaxandi spenna milli austurs og vesturs. Aðgerðir Sovétríkjanna hafa lagt til eldiviðinn í þann tortryggnisloga, en ríkisstjórn Ronalds Reagans hefur aukið á spennuna og óttann með ógæfulegum yfirlýsingum og vopnaglamri. Á sama tíma og það er hinum frjálsa heimi nauðsynlegt að tryggja og treysta frelsi sitt og hafa uppi öruggan viðbúnað svo að því verði ekki ógnað af einræðisöflum kommúnismans verður hinn lýðfrjálsi heimur að hafa forustu um að draga úr spennu og byggja upp traust í stað tortryggni. Mér dettur ekki í hug að telja þetta hlutverk auðvelt, en það er hryggilegt að sjá þetta takmark fjarlægjast, eins og nú virðist vera raunin.

Nýjustu atburðirnir í vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna, uppsetning SS-20 kjarnorkueldflauganna af hálfu Sovétríkjanna, og áform NATO um endurnýjun kjarnavopnabúrsins í Evrópu, hafa vakið andsvar í fjöldahreyfingum í Evrópu og nú einnig í Ameríku, svonefndum friðarhreyfingum. Þetta eru sundurleitar hreyfingar að því leyti, að áhersluatriði ýmissa hópa innan hreyfinganna eru misjöfn. Þær eru líka sundurleitar í þeim skilningi, að í þeim sameinast fólk úr öllum stéttum, en það er reyndar styrkur þeirra um leið. En það, sem sameinar öðru fremur, er að menn fá ekki skilið hvaða nauður beri til þess að hlaða kjarnavopnum á kjarnavopn ofan þegar vitað er að það, sem fyrir er, hrekkur vel til þess að tortíma mannkyninu mörgum sinnum. Afleiðingar kjarnorkustyrjaldar eru svo hroðalegar að þá hugsun fær enginn hugsað til enda. Slík vopn má aldrei nota. Ég ætla mér ekki þá dul að ráða þá gátu, hvort einmitt ógnin, sem í þeim felst, hafi hindrað styrjöld. Hitt er ég hins vegar sannfærður um, að stöðug viðbót á báða bóga er bæði tilgangslaus og hættuleg.

Vandinn er hins vegar sá, að austan járntjalds skiptir vilji fólksins valdhafana engu. En einmitt þessir valdhafar verða að leggja sitt af mörkum til þess að raunveruleg takmörkun á vígbúnaði náist, til þess að skref verði stigin til að draga úr vopnabúnaði. Hinn einfaldi sannleiki er nefnilega sá, að einhliða takmörkun mun ekki endast. Jafnvel þótt hún yrði ákveðin er fullvíst að jafnskjótt og sá aðili, sem til þess gripi, teldi að á hann hallaði, þá yrðu þau öfl yfirsterkari sem vildu og teldu að vígbúast yrði á ný til að jafna metin. Hér getur hvorki gilt: Þú fyrst, svo ég, né heldur: Fyrst ég, svo þú. Skrefin verður að stíga í takt. Barátta friðarhreyfinganna er á hinn bóginn hávær skilaboð til stórveldanna um að setjast að samningaborði. Þeim skilaboðum, þeim boðskap, komast stórveldin ekki hjá að sinna. Við Alþfl.-menn tökum undir þá kröfu friðarhreyfingarinnar, að kjarnorkuvopnakapphlaupið verði stöðvað og stórveldin setjist að samningaborði.

Jafnaðarmannaflokkar Danmerkur, Noregs, Finnlands, Íslands og Svíþjóðar lýstu í fyrra yfir þeim vilja sínum að beita sér fyrir áframhaldandi kjarnorkuvopnaleysi á Norðurlöndum sem lið í víðtækara samkomulagi um takmörkun vopnabúnaðar í Evrópu. Þetta var og er í rauninni tilboð um skref til slökunar spennu sem kallar á viðbrögð og andsvar frá stórveldunum, en þó einkum frá Sovétríkjunum sem hafa yfir að ráða miklum kjarnavopnabirgðum á nálægum svæðum. Einhliða yfirlýsing án tilslakana af hálfu grannans í austri eða án samhengis við aðra þætti hefur hins vegar aldrei komið til greina, enda leysir hún engan vanda, svo sem sást reyndar berlega af því þegar sovéskan kafbát hlaðinn kjarnavopnum rak á sænskar fjörur, og mun það vera eina skiptið sem Norðurlönd hafa ekki verið kjarnorkuvopnalaust svæði.

Valdbeiting og kúgun er regla frekar en undantekning í heiminum, svo ömurlegt sem til þess er að vita. Jafnframt því að beita okkur fyrir því, að þessu verði snúið við, verðum við að horfast í augu við þessa grimmilegu staðreynd. Dæmin eru mörg.

Innrás Sovétríkjanna í Afganistan var meðal grófustu landvinninga seinni ára. Sovétríkin gengu þar á lagið vegna þess að í Afganistan var valdalegt tómarúm sem þau töldu sig geta fyllt upp í afskiptalaust. Þá var ekki hikað við að ráðast til atlögu. Og allar götur síðan hafa Sovétríkin skellt skollaeyrum við mótmælum flestra þjóða heims og haldið áfram að beita hervaldi sinu til að kúga þessa þjóð til hlýðni.

Setning herlaga í Póllandi og alger frelsissvipting pólsku þjóðarinnar er í annan stað til marks um hvernig ógnun um utanaðkomandi íhlutun er beitt til að kúga þjóð til hlýðni. Enn einu sinni sannaði kommúnistískt þjóðskipulag ofbeldi sitt og innræti. Frelsisvottur er ekki liðinn og kerfið getur reyndar ekki einu sinni brauðfætt þjóðir sínar með viðunandi hætti. Í atburðunum í Póllandi endurtekur sagan sig allar götur frá því í Austur-Þýskalandi 1953, síðan í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu. Allt er þetta á sömu bókina lært: Hver frelsisneisti slökktur með hervaldi.

Innrás Argentínu í Falklandseyjar nú á dögunum sýnir hvernig óprúttnir einræðisherrar hagnýta sér varnarleysi eða vígbúnaðarleysi til að hernema lönd. Hvort eðlilegt sé að Falklandseyjar séu breskt land er önnur saga og skiptir ekki máli í þessu sambandi. Hitt skiptir máli, að samningaumleitanir voru í gangi, en herforingjarnir í Argentínu sáu sér leik á borði og hagnýttu sér vígbúnaðarleysið í eyjunum, — í eyjum sem reyndar eru jafnfjarri Argentínuströnd og Færeyjar eru Íslandi.

Í þessum þremur dæmum, af Afganistan, Póllandi og Falklandseyjum, getum við séð að vígbúnaðarleysi býður freistingu heim, að útþenslustefna Sovétríkjanna nýtir sér sérhvert tómarúm, að ógnum um íhlutun leiðir til herlaga og kúgunar mannréttinda á áhrifasvæði Sovétkommúnismans. Hver sá, sem hefur lent undir járnhæl þessa kommúnisma, er sífelldlega brotinn til hlýðni.

Atlantshafsbandalagið var stofnað sem vörn gegn útþenslu Sovétkommúnismans. Hlutverk þess var að tryggja lýðfrjálsum þjóðum á norðurhveli frið og öryggi og standa þannig vörð um lýðræðisskipulagið. Það hefur tekist. Við höfum notið friðar. Þennan einfalda sannleika hljótum við og verðum að hafa í huga. Dæmin, sem ég rakti áðan, sýna að hættan er ekki liðin hjá. Enn er full þörf á árvekni og viðbúnaði. Varnarleysi býður hættu heim. Hlutleysi er engin trygging. Þvert á móti skapar það tómarúm við ríkjandi aðstæður sem útþensluþjóð leitast við að fylla eins og dæmin sanna. Það varnar- og öryggisfyrirkomulag sem við höfum búið við hefur látið okkur njóta friðar. Það vitum við og við kunnum engin betri ráð til að treysta öryggi okkar. Það hefur ríkt jafnvægi á okkar slóðum. Röskun þess jafnvægis af okkar hálfu væri mjög óviturlegt.

Varnarleysi Íslands eins og Alþb. boðar byði heim hættu á hernámi og ógnunum af því tagi sem ég rakti dæmi um áðan. Alþb:-menn segja að aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og hérvera varnarstöðvar geri okkur að skotmarki Rússa. Ég segi: Varnarleysi við núverandi aðstæður mundi gera okkur að tálbeitu og skotmarki beggja. Tómarúm á Íslandi í þessum skilningi, eins og Alþb. berst fyrir, mundi auka umsvif beggja á hafinu umhverfis okkur og við gerðum frelsi okkar, öryggi og sjálfstæði að leiksoppi.

Talsmenn Alþb. leika oft eins konar hernaðarleiki hér á Alþingi og frammi fyrir alþjóð. Þeir segja að í stríði yrðum við að skotmarki, að varnarstöðin í Keflavík yrði stjórnstöð í árásum Bandaríkjanna á Rússa, að við yrðum meðsekir í hildarleik. — En þetta stríð má aldrei hefjast. Í því yrði engu og engum þyrmt. Hlutleysi mundi ekki heldur gagnast þá. Öll okkar viðleitni á að beinast að því að koma í veg fyrir slíka styrjöld. Reynslan sýnir að við núverandi fyrirkomulag hefur það tekist í okkar heimshluta.

Talsmenn Alþb. hafa ítrekað á undanförnum misserum hafið upp sérstakar áróðurshrinur gegn varnarstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Kjarninn í þessum áróðri hefur verið sá, að Keflavíkurstöðin hafi tekið eðlisbreytingu og sé nú árásarstöð. Þessar fullyrðingar fá ekki staðist. Eins og áður hefur verið rakið varð eðlisbreyting fyrir 20 árum þegar stöðin var afhent flotanum til umsjónar í stað flugliðsins. Þá varð sú eðlisbreyting að fækkað var í liðinu um helming. Hingað komu eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar og sett var upp svonefnt SOSUS-hlustunarkerfi. Síðan hefur engin eðlisbreyting átt sér stað. Tæki hafa fullkomnast og flugvélar verið endurný jaðar. Leitartækni er betri, hlustunartæki heyra betur, en eðlisbreyting er það ekki. AWACS-ratsjárvélarnar eru framhald á þróun af þessum toga. Ratsjárstöðvar voru reistar hér á hverju landshorni fyrir 20 árum til að fylgjast með flugvélaferðum, einkum þeirra sem ekki,láta af sér vita, þ.e. sovéskra herflugvéla fyrst og fremst. Tvær þessara stöðva voru síðan lagðar niður. Eitt meginhlutverk AWACS-vélanna er að koma í þeirra stað þótt ljóst sé að þessar vélar búa yfir ýmissi tækni, sem tekur fram því sem áður gilti, og njóti þess eiginleika að sjá yfir stærra svæði og verða ekki fyrir sömu takmörkunum af hnattlögun jarðarinnar og jarðstöðvar.

Á hinn bóginn hafa orðið verulegar eðlisbreytingar á sovéska flotanum á Norðurhöfum. Uppbygging hans er gífurleg. Það má nefna viðbót flugvélamóðurskipa í þennan flota, en þau hafa einmitt tekið þátt í flotaæfingum skammt frá Íslandi, eins og t.d. skipið Kiev gerði fyrir nokkrum árum. Það má nefna smíði stærstu kjarnorkukafbáta heims, eins og Typhoonskipanna sem munu vera um 23 þús. smálestir. Það má nefna kjarnorkubeitiskipið Kirov sem sást á reynslusiglingu norður af landinu ekki alls fyrir löngu. Og það má nefna langfleygar flugvélar, eins og Backfire, sem munu geta náð til Íslands frá Kóla-skaga. Hér hefur greinilega átt sér stað eðlisbreyting sem við Íslendingar hljótum að taka mið af.

Varðandi samskipti okkar við varnarliðið hefur þingflokkur Alþb. haft í frammi upphlaup annað veifið. Öll hafa þau þó runnið út í sandinn. Seinast hafði það í hótunum í svonefndu Helguvíkurmáli og lá við að iðnrh. tækist að koma í veg fyrir að íslenskar hendur fengju verk að vinna við rannsóknir á svæðinu. Þessi málatilbúnaður var ráðh. til háðungar.

Hingað til hefur Alþb. líka tekist það furðulega ætlunarverk sitt að koma í veg fyrir byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Nú er svo komið að ákvörðun um framkvæmdir má ekki dragast öllu lengur, þá mundi tækifærið ganga okkur úr greipum. Utanrrh. hefur lýst málinu svo, að verið væri að fleygja 50 millj. dala út um gluggann. Ég vil minna á að aðskilnaður venjulegra flugsamgangna frá varnarstöðinni og bygging nýrrar flugstöðvar er áratuga baráttumál Íslendinga. Ég vil líka minna á að miðstjórn Framsfl. gerði sérstaka samþykkt í fyrra um að reisa skyldi flugstöðina. Við þau heit ætti Framsfl. að standa. Sannleikurinn er sá, að núverandi flugstöð er þjóð og landi til vansæmdar. Er erfitt að sjá hvað gengur Alþb. og ýmsum Framsóknarþm. til að koma í veg fyrir að þessi vansæmd verði afmáð og ný flugstöð reist. Ég vil nota þetta tækifæri til að skora á hæstv. utanrrh. að beita sér með öllum tiltækum ráðum og alkunnri festu og klókindum fyrir framgangi flugstöðvarmálsins. Ég vil líka beina því til þm. Framsfl. sérstaklega að standa við bakið á utanrrh. sínum í þessu máli og í svonefndu olíutankamáli, og eru þessi orð mælt að gefnu tilefni. Það er mikið hagsmunamál byggðanna á Keflavíkur- og Njarðvíkursvæðinu að sú úrlausn í olíugeymamálinu, sem utanrrh. vinnur að, nái fram að ganga. Flugstöðin varðar þjóðina alla. Hún er anddyri landsins. Vegna þessa geri ég þessi mál tvö sérstaklega að umtalsefni.

Hafréttarmál hafa löngum verið okkur Íslendingum hugleikin og við höfum haft ákveðna forustu á því sviði á undanförnum áratugum. Nú eru þau í eins konar sjálfheldu vegna einstrengingslegrar afstöðu Bandaríkjastjórnar, eins og fram kom í máli hæstv. utanrrh. áðan. Þó er ljóst að 200 mílna efnahagslögsagan er í höfn, en mörg viðfangsefni bíða engu að síður á þessu sviði, bæði varðandi efnahagslögsögu og landgrunn. Í þeim málum verðum við að halda vöku okkar og starfa af alefli. Þetta varðar verndun og nýtingu sameiginlegra fiskstofna og fiskstofna sem flakka á milli lögsögusvæða. Við getum fagnað þeim samningum sem tókust um Jan Mayensvæðið, bæði varðandi fiskveiðar og landgrunn. Milliríkjasamningurinn um verndun á laxi í Norður-Atlantshafi er líka spor í rétta átt. Á hinn bóginn ríkir mikil óvissa um stöðuna á þeim svæðum sem vita að Grænlandi. Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í Grænlandi varðandi úrsögn þeirra úr Efnahagsbandalaginu hafa komið þessum málum í nýja stöðu. Nú er mjög brýnt að ná fram algeru banni við loðnuveiðum, a.m.k. um sinn. Að því hlýtur að verða undinn bráður bugur, og þannig skildi ég hæstv. utanrrh. En það er íhugunaratriði, hvort ekki eigi strax að leita eftir samningum við Grænlendinga um framtíðarskipun mála, en ræða síðan við Efnahagsbandalagið um hvernig með skuli fara þar til Grænlendingar hafa tekið við fullum yfirráðum yfir þessu hafsvæði.

Um kröfugerð vegna skiptingar landgrunns sunnan Íslands, sbr. ályktun Alþingis frá 19. maí 1980, skal ég vera fáorður. Af skýrslu utanrrh. má sjá að því máli miðar áleiðis og virðist vera í réttum farvegi.

Í framhaldi af þessu er ekki úr vegi að víkja að samskiptum okkar við næstu nágranna okkar, Færeyinga og Grænlendinga. Þau samskipti eru smám saman að fá á sig þá mynd sem þeim ber, skipa þann sess sem við á. Þessi þrjú lönd, Ísland, Grænland og Færeyjar, hafa mikilla sameiginlegra hagsmuna að gæta í hafréttarmálum, í öryggismálum og í fiskveiðimálum. Reyndar hafa þau jafnframt slíka lykilstöðu í þessum málaflokkum að önnur veigameiri eru vandfundin. Þetta þarf að nýta. Það krefst aukins samráðs og aukinnar samvinnu þessara landa í milli.

Um þátttöku Íslands í starfi alþjóðastofnana skal ég vera fáorður, þótt hér sé um mjög mikilvægan málaþátt að ræða. Ég vil fyrst segja að Norðurlandasamvinnan er einstök í sinni röð og skiptir okkur Íslendinga mjög miklu máli. Mikilvægi hennar verður seint ofmetið menningarlega, pólitískt og efnahagslega. Þessa samvinnu verðum við að leggja rækt við. Þátttaka okkar í Sameinuðu þjóðunum er annar hyrningarsteinn íslenskra utanríkismála sem sífelldlega verður að leggja alúð við. Þátttaka okkar í þessum alþjóðastofnunum og svæðasamtökum og öðrum slíkum, svo sem Evrópuráðinu, gæti þó nýst okkur betur en raun ber vitni ef aðstaða til að sinna þessu samstarfi væri bætt. Þótt því fylgi kostnaður verðum við sem fullvalda ríki að kappkosta að sinna þessu samstarfi vel, og einmitt af því getum við haft ómældan hag.

Varðandi alþjóðastofnanir vil ég að lokum sérstaklega gera að umtalsefni að ekki má dragast öllu lengur að ganga frá aðild okkar að Alþjóðaorkustofnuninni. Ég minni á tillögur okkar Alþfl.-manna um þetta efni. Af slíkri aðild höfum við mikið hagræði og það veitir okkur öryggi sem við þurfum á að halda. Ég vænti þess, að við þurfum ekki að bíða öllu lengur eftir því, að af þessari aðild verði.

Einn hlutinn í skýrslu utanrrh. fjallar um utanríkisviðskipti og er saminn í viðskrn. að venju. Ég ætla ekki að fjalla um efnisatriði þessa kafla, en einungis að benda á fáein atriði varðandi utanríkisviðskipti.

Í fyrsta lagi er andvaraleysi að svo haldi enn fram sem áður, að nær allur olíuinnflutningur okkar komi frá einu landi. Þótt verðlag sé nú talið hagstætt vil ég minna á að þannig hefur líka verið stundum áður, en samt höfum við orðið fyrir sérstökum erfiðum áföllum og að mínum dómi reyndar ósanngirni af hálfu seljenda við sérstakar aðstæður. Það er ekki góð stefna að hafa öll eggin í einni körfu. Staðan í olíuframboði og eftirspurn eftir olíu um þessar mundir gerir auðveldara um vik að svipast um og ná hagstæðum samningum um olíuviðskipti en verið hefur um langa hríð. Þetta tækifæri á vitaskuld að nýta. Mín skoðun er sú, að viðskrh. hafi sofið á verðinum í þessu mikla hagsmunamáli, og ég tel það mjög gagnrýnivert.

Í annan stað vil ég benda á að fjölbreyttir og traustir markaðir fyrir afurðir okkar eru undirstaða þess, að efnahagslífið fái þrifist hér á landi. Á þessu sviði eru vafalaust mörg tækifæri vannýtt, en blikur á lofti má sjá á ýmsum öðrum mörkuðum. Ég hef undanfarin fjögur ár varað við vaxandi samkeppni frá Kanadamönnum á freðfiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum. Andsvar okkar hlýtur að vera bæði öflun og efling annarra markaða, svo sem í Evrópu, og hitt engu að síður, að leggja rækt við tækniframfarir, hagræðingu og gæði í frystiiðnaðnum ásamt því að auka framlegð í veiðunum með því að hafa hemil á stærð fiskiskipaflotans og þar með kostnaði af veiðunum.

Þriðja atriðið, sem ég vil gera að umtalsefni varðandi utanríkisviðskipti, er skreiðarmarkaður okkar í Nígeríu. Hann hefur áður reynst okkur stopull. Í þeim efnum ríkir nú líka nokkur óvissa. En nú er meira í húfi en nokkru sinni fyrr. Mér er ofarlega í huga að.þess verði gætt að ofþenja ekki þennan markað, og vil ég ætla sölusamtökum að gæta að slíkri hættu. Á hitt vil ég jafnframt leggja áherslu, að utanr.- og viðskrn. leggi sérstaka rækt við og vinni í að treysta viðskiptasambönd okkar við þetta land, Nígeríu. Þótt margt annað í utanríkisviðskiptunum gefi tilefni til frekari umfjöllunar læt ég nægja á þessu stigi að benda á ofangreinda þrjá þætti.

Það horfir víða ófriðlega í heiminum. Víða líða þjóðir af styrjaldarátökum. Víða eru þjóðir kúgaðar og mannréttindi fótum troðin. Mannréttindabrotin eru ekki einungis kúgun í sjálfu sér, heldur einnig kveikja að stærra báli og meiri hörmungum. Kúgun og ofbeldi fæða af sér styrjaldir. Þessi mál skipta okkur Íslendinga miklu, ekki bara af mannúðarástæðum, heldur eins af því að þau varða framtíð mannkyns og öryggi okkar sem þjóðar. Ég hef gert sum þessara mála, eins og Afganistanmálið og Póllandsmálið, að umtalsefni fyrr í ræðu minni. Öðrum hlýt ég að víkja að nokkrum orðum, en enn önnur munu liggja ónefnd að þessu sinni þótt vissulega mætti vera ástæða til að ræða um þau líka. Ég mun tímans vegna einungis fara fáeinum orðum um nokkur þessara mála.

Í Tyrklandi situr herforingjastjórn sem hefur fótum troðið almenn mannréttindi. Þessi stjórn naut þolinmæði og umburðarlyndis lýðfrjálsra ríkja framan af. Til þess lágu ekki síst þær ástæður, að herinn í Tyrklandi hafði áður sýnt að þótt hann tæki völdin í sínar hendur um hríð skilaði hann þeim fljótt aftur til fólksins, og svo hitt, að því varð ekki neitað, að í landinu ríkti hrein skálmöld mánuðina áður en herinn lagði undir sig stjórnvölinn. Nú er þolinmæðin hins vegar þrotin. Forustumenn verkalýðssamtaka og stjórnmálasamtaka eru ofsóttir og fangelsaðir. Pyntingar viðgangast samkv. framlögðum skýrslum og allt er stjórnarfarið mjög harðneskjulegt, svo að vitnað sé í skýrslu hæstv. utanrrh., og ekki sér enn í valdaafsal herforingjanna. Nýverið töluðu þeir um frjálsar kosningar í árslok 1983 eða jafnvel ekki fyrr en á árinu 1984. Það er löng bið. Þessum mannréttindabrotum, þessari ógnarstjórn, hljóta Íslendingar að mótmæla af einurð hvarvetna þar sem því verður við komið. Sú áhersla, sem við Alþfl.-menn höfum lagt á að Ísland beitti áhrifum sínum í þessu veru, kom fram í fsp. Vilmundar Gylfasonar til hæstv. utanrrh. fyrr í vetur, og sú áhersla, sem við leggjum á þessi mál, hefur nú verið ítrekuð með flutningi þáltill. sem Vilmundur Gylfason flytur fyrir hönd Alþfl. ásamt með hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. Við væntum þess að þessi till. fái jákvæðar undirtektir og framsóknarmenn og sjálfstæðismenn láti af úrtölum þeim sem þeir hafa haft uppi í þessu máli og komu reyndar seinast fram í máli hv. 1. þm. Reykv., formanns Sjálfstfl. Vífilengjur duga ekki. Rödd okkar á að heyrast hátt of skýrt.

Í Suður-Afríku heldur ríkisstjórnin þar uppteknum hætti. Með kynþáttakúgunarstefnu er meiri hluta þjóðarinnar haldið í heljargreip. Sá meiri hluti nýtur engra mannréttinda og mikill hluti hans býr við sultarkjör. Fangelsanir og pyntingar eru daglegt brauð. Sífellt bætist í hóp þeirra sem láta lífið í ríkisfangelsunum. Dauði Neils Agets nýverið var ekki fyrsta dæmið um voveiflegan dauða fanga í ríkisfangelsum Suður-Afríku. Ásigkomulag Somil Fetah, forseta sameinaða verkalýðssambandsins í Suður-Afríku, þegar honum var sleppt úr fangelsi nýlega og lagður inn á sjúkrahús er annar vitnisburður um stjórnaraðferðirnar þar á bæ. Endurteknar árásir Suður-Afríku í Angóla eru enn til marks um að ríkisstjórn Suður-Afríku heldur uppi ógn, ekki einungis á hendur eigin borgurum, heldur líka gagnvart grannríkjum sínum. Við höfum fordæmt Apartheid-stefnuna, en kynning þessara mála mætti vera meiri svo og á sjálfstæðisbaráttu Namibíu, sem enn býr við ólögleg yfirráð Suður-Afríku þrátt fyrir margítrekaðar yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur helgað árið 1982 eflingu refsiaðgerða gegn kynþáttahatursstjórn Suður-Afríku. Alþfl. telur að þessi samþykkt gefi tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu Íslendinga. Markmiðið á að vera að hafa áhrif í þá átt að uppræta kynþáttahatursstefnu ríkisstjórnarinnar í Suður-Afríku og þvinga Suður-Afríku til að sleppa þeim tökum sem landið hefur á grannríkinu Namibíu. Við Alþfl.-menn höfum af þessu tilefni lagt til að komið verði á fót landsnefnd til stuðnings jafnrétti og frelsi í Suður-Afríku. Rökstuðningurinn kemur fram í þáltill. okkar, sem Eiður Guðnason er 1. flm. að. Það er sérstakt tilefni til að hrinda þessu máli nú í framkvæmd þannig að viðbrögð okkar við samþykkt Sameinuðu þjóðanna komi strax fram.

Somosa var frjálslyndur í samanburði við herforingja í El Salvador. Þetta eru ekki mín orð. Þau eru höfð eftir Robert White, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador. White hafnar líka algerlega þeim kenningum ríkisstjórnar Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta, að orsaka ástandsins í El Salvador sé að leita í undirróðri frá Kúbu og Sovétríkjunum. White staðhæfir að orsakanna sé að leita í félagslegum og efnahagslegum aðstæðum í landinu sjálfu, í atvinnuleysi, hungri og félagslegu óréttlæti. Ríkjandi yfirstétt hefur lifað við auð og allsnægtir í skjóli hervalds. Hún hefur haldið ræktanlegu landi í járngreip sinni. 0.4% þjóðarinnar eiga 40% af öllu ræktanlegu landi og 90% þjóðarinnar reyna að draga fram lífið á 20% ræktanlegs lands. Talið er að einungis um 16% vinnuaflsins hafi haft stöðuga vinnu árlangt og 60% þjóðarinnar hafa ekki haft rafmagn. Það voru gefin loforð um að skipta landinu milli smábænda. Þau loforð voru ekki efnd. Framkvæmd þeirra var frestað. Þau svik voru aðdragandi þess ástands sem nú ríkir í El Salvador og ég hef áður gert sérstaklega að umræðuefni hér á Alþingi.

Í framsöguræðu minni með þáltill. um málefni El Salvadors rakti ég staðreyndir varðandi manndráp, pyntingar, kúgun og mannréttindabrot í þessu stríðshrjáða landi. Ég varaði þá við því, að þær kosningar, sem þá voru fram undan, væru engin lausn á vanda þjóðarinnar. Það hefur nú komið á daginn. Ég lýsti þá stuðningi okkar Alþfl.-manna við yfirlýsingar Frakklands og Mexíkó, og ég ítreka það nú. Á þessum málum er ekki til nein hernaðarleg lausn, einungis pólitísk lausn. Þáltill. okkar Alþfl.-manna felur í sér að Ísland beiti áhrifum sínum til þess, að fundin verði slík pólitísk lausn og til þess að Bandaríkjastjórn láti af hernaðarstuðningi við sitjandi ríkisstjórn. Með samþykkt hennar kæmu sjónarmið Íslendinga fram með mjög skýrum hætti. Furðulegur málflutningur hv. þm. Péturs Sigurðssonar fyrir hönd Sjálfstfl. í sambandi við umr. um þessa þáltill. gerir í raun enn nauðsynlegra en ella að till. verði samþykkt svo að fram komi meirihlutaálit Alþingis, sem ég er sannfærður um að hlýtur að vera stuðningur við sjónarmið okkar Alþfl.-manna. Sömu undanbrögð komu fram hjá hv. 1. þm. Reykv. áðan. Hann taldi útilokað að gera upp á milli aðila og virtist óvitandi um hverjir væru hinir kúguðu og hundeltu í þessu landi. Líka af þeim sökum tel ég nauðsynlegt að þessi þáltill. verði samþykkt.

Framlag Íslands til þróunaraðstoðar hefur verið og er enn smánarlega litið. Þótt framlag á fjárlögum teljist nú hærra en nokkru sinni fyrr er það aðeins ellefti hluti þess markmiðs, um 0.7% sem við höfum sett okkur eins og aðrar þjóðir, 1/11 hluti. Ég vil nota þetta tækifæri til að setja fram þá hugmynd, að Íslendingar setji sér nú það mark að tvöfalda framlag sitt til þróunaraðstoðar á hverju ári næstu árin. Með því móti yrði takmarkinu, sem við höfum sett okkur eins og aðrar þjóðir, náð á fimmta ári héðan í frá. Þess er að vænta að ný lög um Þróunarsamvinnustofnun Íslands reynist lyftistöng undir framlag okkar til þróunaraðstoðar. Á hinn bóginn er það sérstakt gleðiefni sem fram kemur í skýrslu utanrrh., að ýmis þróunarríki hafi leitað hingað eftir aðstoð við uppbyggingu fiskveiða. Á því sviði höfum við sérstakri þekkingu að miðla og með slíkri aðstoð værum við einmitt að hjálpa þróunarlöndunum til að bjarga sér sjálf. Það er besta aðstoðin að mínum dómi, eins og fram kom fyrr í ræðu minni.

Herra forseti. Ég hef gert grein fyrir viðhorfum okkar Alþfl.-manna til ýmissa þátta utanríkismála. Við teljum bæði rétt og sjálfsagt að gildandi fyrirkomulag í vörnum landsins verði einn af hornsteinum íslenskrar utanríkisstefnu hér eftir sem hingað til. Við teljum þátttöku okkar í norrænni samvinnu og Sameinuðu þjóðunum til annarra hyrningarsteina íslenskrar utanríkisstefnu, og við viljum að við þá sé lögð sérstök rækt. Við Alþfl.-menn tekjum mjög mikilvægt að þar sem mannréttindi eru fótum troðin heyrist rödd Íslands greinilega. Það á við í Afganistan, í Póllandi, í EI Salvador, í Tyrklandi og í Suður-Afríku, svo að einhver dæmi séu nefnd. Því fremur er ástæða til þess að rödd okkar heyrist skýrt þar sem hv. formaður utanrmn. hafði uppi málaflækjur um sum þessara málefna hér áðan — og reyndar hafa málgögn Sjálfstfl. haft uppi hinn furðulegasta málflutning og ekki fengist til að fordæma kúgunina og kúgarana t.d. í EI Salvador.

Ég hef, herra forseti, notað verulegan hluta af þessari ræðu til að fjalla um spennuna milli austurs og vesturs og vígbúnaðarkapphlaupið annars vegar og skyldur okkar til að draga úr fátækt í þriðja heiminum og byggja brú milli norðursins og suðursins hins vegar. Mér er ljóst að þetta eru erfið verkefni, hvort heldur er stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins og slökun spennu eða átak til að jafna aðstöðu milli norðursins og suðursins. En þetta eru svo óendanlega mikilvæg verkefni að þau verður sífellt að hafa í forgrunni. Á það viljum við Alþfl.-menn leggja áherslu. Það er skylda okkar Íslendinga að stuðla að jákvæðri þróun í þessum efnum eftir mætti, og það vil ég gera að mínum lokaorðum.