06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3211)

364. mál, utanríkismál 1982

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að skýrslu utanrrh., sem hér er til umr., vil ég lýsa því yfir, að það eru merkileg tímamót í þróun íslenskra stjórnmála að svo mikil samstaða skuli vera fyrir hendi milli Alþb. og Alþfl. varðandi flesta höfuðþætti alþjóðamála. Það kom fram í þeirri ræðu sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson var að flytja áðan. satt að segja er það nokkuð sérkennileg staða að standa hér eftir þessa ræðu og vera meira sammála flestu því, sem í þessari ræðu kom fram, en því, sem er að finna í skýrslu þess hæstv. utanrrh. sem situr í ríkisstjórn sem Alþb. á aðild að. Hvort sem vikið er að því, sem fram kom um nauðsynina á nýrri skipan efnahagsmála í heiminum og ný samskipti norðurs og suðurs, hvort sem vikið er að kjarnorkuvígbúnaðinum, hvort sem vikið er að málefnum Tyrklands, El Salvadors eða suður-Afríku, hvort sem vikið er að samskiptunum um friðarhreyfingarnar í Evrópu og Bandaríkjunum, sem hér komu fram hjá formanni Alþfl. áðan, þá er samstaða okkar í öllum þessum málum alger. (SighB: Og Pólland.) Og Pólland, Afganistan og Argentína og þau lönd önnur sem ég átti eftir að koma að í upptalningu minni.

Það er vissulega mjög merkilegt, að á svo breiðu sviði heimsmálanna — varðandi norður og suður og ný efnahagsleg samskipti í veröldinni, varðandi kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið, varðandi kúgun og herforingjastjórnir og ofbeldi, hvort heldur er í Tyrklandi, Póllandi, Afganistan, Suður-Afríku, Tyrklandi eða El Salvador–skuli vera hægt að ná fram slíkri samstöðu sem kemur fram í þeirri ræðu, sem formaður Alþfl. flutti áðan, og þeim orðum sem við fulltrúar Alþb. gætum haft um þessi efni. Það er nokkuð sérkennilegt að finna sjálfan sig í þeirri stöðu að vera meira sammála formanni Alþfl. um mörg af þessum efnum en því sem stendur í skýrslu hæstv. utanrrh.

Vissulega var það miðkaflinn í ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, um Atlantshafsbandalagið og herstöðina hér, sem við gerum veigamiklar athugasemdir við. En ég tók þó eftir því, að formaður Alþfl. orðaði það þannig, að Atlantshafsbandalagið hefði tryggt friðinn. Hann er að því leyti einu skrefinu nær raunveruleikanum en hv. formaður Sjálfstfl., sem sýknt og heilagt tönnlast á því, að Atlantshafsbandalagið hafi tryggt lýðræðið. Formaður Alþfl. áttar sig greinilega á því, að Atlantshafsbandalagið hefur ekki tryggt lýðræðið. Það sýnir sagan í Portúgal.

Hins vegar er það ekki rétt, sem kom fram hjá formanni Alþfl. áðan, að herstöðin og varnarsamningurinn við Bandaríkin hafi komið í veg fyrir aukin umsvif í höfunum í kringum Ísland. Þvert á móti, eins og kom fram síðar í ræðu hans, hafa Sovétríkin á undanförnum árum aukið umsvif sín í höfunum hér í kring og Bandaríkjastjórn, eins og ég mun koma að síðar, er með veigamiklar áætlanir um stórfellda aukningu á þessum hernaðarumsvifum. Það er alveg ljóst, að hvorki varnarsamningurinn né sá búnaður, sem hér er á grundvelli hans, hefur hindrað á neinn hátt hina miklu hernaðaruppbyggingu sem er að eiga sér stað í höfunum í kringum okkur. Að mínum dómi er alvarlegasti gallinn á skýrslu hæstv. utanrrh. sú algera þögn sem í þessari skýrslu er að finna og í ræðu hæstv. ráðh. um þessar miklu hernaðaráætlanir. Það verður til þess að maður spyr sjálfan sig: Hver er ástæðan fyrir því, að utanrrh. Íslands skuli telja þögnina um þessi miklu þáttaskil vera það sem mest er við hæfi þegar ræða á utanríkismál Íslands? Við blasir að stórveldin bæði, og þó kannske sérstaklega það sem tekið hefur að sér að ver ja Ísland, hafa nú þegar sett fram áætlanir um stórfellda eflingu kjarnorkuvopna í höfunum í kringum Ísland. Þá sér utanrrh. Íslands enga ástæðu til að skýra þjóðinni eða Alþingi frá þessum miklu áætlunum eða fjalla sérstaklega um hver eigi að vera viðbrögð Íslands við þessum nýju þáttaskilum. Varla verður því trúað, eins og ég mun koma að á eftir, að ekki sé fyrir hendi þekking á þessum miklu efnum í utanrrn. því að ekki þarf að leita lengra en til Tímans, málgagns hæstv. ráðh., til að finna nokkuð ítarlegar lýsingar á þessum efnum.

En áður en ég kem að skýrslu hæstv. ráðh. vil ég aðeins segja að gaman verður að fylgjast með því á næstu árum og áratugum, ef gæfan verður hv. þm. Geir Hallgrímssyni hliðholl og hann situr hér á Alþingi fram til aldamóta, hvort hann ætlar í 20 ár í viðbót að flytja þá sömu ræðu og hann byrjaði að flytja fyrir 20 árum. Hv. þm. Geir Hallgrímsson virðist ekki hafa séð neina ástæðu til að draga nýjar ályktanir eða setja fram nýja hugsun eða athugasemdir varðandi það sem hefur verið að gerast í heimsmálunum á sviði kjarnorkuvígbúnaðar, á sviði samskipta risaveldanna eða á öðrum sviðum á síðustu árum. Hann flytur hér nákvæmlega sömu gömlu kaldastríðsræðuna sem hann lærði í Heimdalli á þeim tíma þegar Ronald Reagan var enn að leika í kúrekamyndunum og gegndi formannshlutverki í verkalýðsfélagi leikaranna í Hollywood. (SighB: Og Ólafur Ragnar Grímsson var í Framsfl.) Nei, því miður var Ólafur Ragnar Grímsson ekki í Framsfl. á þeim tíma. (Gripið fram í.) Ég heyri að hæstv. utanrrh. er mikið kappsmál að Framsfl. beri á góma hér á eftir og skal ekki vikist undan því, enda hefur ráðh. nú þegar óskað eftir því í umr.þm. annarra flokka túlki fyrir sig ályktun miðstjórnar Framsfl. Það telst sjálfsagt einsdæmi í þingsögunni, að utanrrh. tiltekins stjórnmálaflokks skuli formlega óska eftir því á Alþingi, að þm. annarra flokka túlki fyrir sig miðstjórnarsamþykkt eigin flokks. En ég mun reyna að verða við þeirri ósk ráðh. á eftir. (Utanrrh.: Þm. hefur svo sterkar taugar enn þá til Framsfl.) Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðh., að ég hef enn þá sterkar taugar til Framsfl. En það er kannske spurningin hvort hafi slaknað á taugasambandi milli ráðh. og flokksins.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er vikið að því á bls. 9, að vígbúnaðarkapphlaup kjarnorkuveldanna hafi verið með tilteknum hætti. Í skýrslunni segir að kjarnorkuyfirburðir Sovétríkjanna í Evrópu séu 3.27:1, og er vitnað þar í ákveðna herfræðistofnun í Lundúnum. Þetta er eina samanburðartalan, einu samanburðarfræðin sem iðkuð eru í skýrslu hæstv. utanrrh. þegar borinn er saman kjarnorkuvopnastyrkleiki Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Það er nánast eins og þessi texti í skýrslunni, eins og reyndar sumt annað, sé samin eftir minnisblöðum áróðursdeildar Pentagon. Jafnvel í hægri sinnuðum blöðum í Bandaríkjunum er hægt að finna miklu raunhæfari lýsingar á samanburði kjarnorkuvopnastyrkleika Bandaríkjanna og sovétríkjanna en fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh.

Reyndar er það svo, að þegar menn fjalla um samanburð á kjarnorkuvopnastyrkleika er það mjög flókið mál. Það er mikill ábyrgðarhluti að setja það fram með svo einföldum hætti sem hæstv. ráðh. gerir í sinni skýrslu, nánast með einföldum áróðursblæ. Það er ljóst öllum þeim sem kynnt hafa sér þessi mál, að staða risaveldanna á sviði kjarnorkuvígbúnaðar er með þeim hætti að á einu sviðinu hefur annað þeirra yfirburði, en á öðru sviðinu hefur hitt yfirburðina. Samskipti risaveldanna á sviði kjarnorkuvígbúnaðar eru þannig samflétta gagnkvæmra yfirburða frá einu sviðinu til annars. Í þessu sambandi mætti benda utanrrn. á, að það ágæta blað, U.S. News and World Report, sem varla verður sakað um að vera óvilhallt ríkjandi utanríkisstefnu í Bandaríkjunum, hefur nýlega birt atkunnan samanburð á þessum gagnkvæma styrkleika risaveldanna. Þar kemur fram m.a. að á sviði langdrægra eldflauga eru yfirburðir Sovétríkjanna fólgnir í því að þau hafa yfir að ráða 1398 slíkum eldflaugum, en Bandaríkin 1052. Hins vegar eru yfirburðir Bandaríkjanna allmiklir á sviði langdrægra kjarnorkuflugvéla. Hafa Bandaríkin yfir að ráða 316 slíkum flugvélum, en Sovétríkin 150. Á sviði kjarnorkuvopnaflugskeyta, sem skotið er úr kafbátum, eru yfirburðir Sovétríkjanna með þeim hætti, að þau hafa yfir að ráða 989 slíkum flugskeytum, en Bandaríkin 576. Á sviði langdrægra kjarnorkusprengja eru yfirburðir Bandaríkjanna slíkir, að þau hafa yfir að ráða 9 þús., sumir segja 10 þús., slíkum sprengjum, en Sovétríkin 7 þús., sumir segja 6 þús. Ég hélt satt að segja að þessi einfalda vitneskja væri svo kunn öllum þeim sem í utanrrn. sitja, að þegar settur væri á blað texti um samanburð á kjarnorkuvopnastyrkleika risaveldanna gættu menn þess að gera skýra grein fyrir þessum mismunandi tegundum af yfirburðum sem hvort risaveldið um sig hefur á mismunandi sviðum kjarnorkuvígbúnaðar, en væru ekki að fara með eina tölu sem eingöngu þjónar þeim tilgangi að gefa mjög villandi mynd af kjarnorkuvopnastyrkleikanum í veröldinni.

Til viðbótar við þær upplýsingar, sem hægt er að finna í U. S. News and World Report og mætti benda utanrrh. á að lesa, langar mig til að minnast á nýlegt viðtal, sem birtist í New York Times, við Paul Wranke, sem var helsti sérfræðingur ríkisstjórnar Carters í afvopnunarmálum. Hvað segir þessi helsti sérfræðingur ríkisstjórnar Carters í afvopnunarmálum um kjarnorkuvígbúnað risaveldanna? Hann segir:

„Við höfum um það bil 10 000 langdrægar kjarnorkusprengjur í Evrópu, sem geta eyðilagt skotmörk í Sovétríkjunum. Sovétríkin hafa um það bil 7000. Við höfum þess vegna algera yfirburði“ — þ.e. Bandaríkin — „á þessu sviði. Ef hins vegar er litið á megatonnastyrkleikann blasir við að Sovéttíkin hafa yfirburði.“ En hann bætir við: „Þetta skiptir engu höfuðmáli. Á einu sviðinu höfum við algera yfirburði. Á öðru sviðinu hafa þeir algera yfirburði. Það, sem skiptir máli, er að við höfum getu til þess, bæði Bandaríkin og Sovétríkin, að gereyða hvort öðru mörgum sinnum.“

Það er margt fleira, sem kemur fram í þessari frá sögn af skoðunum aðalsérfræðings ríkisstjórnar Carters í afvopnunarmálum, sem er af allt öðru tagi en sá texti sem lesa má í skýrslu hæstv. utanrrh. Paul Wranke er einnig þeirrar skoðunar, eins og kemur fram í þessu viðtali í New York Times nýlega, að ef samþykkt væri tillagan um algera frystingu vígbúnaðarkapphlaupsins á þessari stundu, þ.e. hin svokallaða „Freeze-tillaga“ sem komið hefur fram í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni í Bandaríkjunum, þá mundi sú samþykkt vera Bandaríkjunum í hag vegna þess að Bandaríkin hafi algera yfirburði á þessu sviði. Þessi helsti sérfræðingur ríkisstjórnar Carters, sem gegndi einhverjum mestu trúnaðarstörfum í síðustu ríkisstjórn Bandaríkjanna á sviði kjarnorkuvopna- og afvopnunarmála, er sem sagt þeirrar skoðunar, að ef á þessari stundu væri samþykkt að frysta alla frekari aukningu kjarnorkuvígbúnaðar í heiminum yrði það Bandaríkjamönnum stórfelldlega til hags.

Það má einnig nefna hér fjölmörg önnur ummæli þm. í Bandaríkjunum, bæði í fulltrúadeildinni og í öldungadeildinni, sem gefa töluvert aðra mynd af þeirri stöðu en fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh. Ég nefni þetta hér vegna þess að ég geri þá kröfu til utanrrn. á Íslandi, að þegar það lætur frá sér fara texta þar sem vikið er að samanburði á kjarnorkuvopnastyrkleika stórveldanna sé reynt að gefa Íslendingum ítarlega og sanna mynd af þessum veruleika, en ekki spilaðar einhverjar einfaldar áróðursplötur sem helstu áróðursmeistarar vígbúnaðarkapphlaups stjórnarinnar í Bandaríkjunum væru fullsæmdir af. Ég sé ekki á hvern hátt það getur þjónað hagsmunum Íslendinga að vera að taka eins einhliða afstöðu í þessu áróðurskapphlaupi og kemur fram í skýrslu hæstv. utanrrh., þegar það liggur fyrir að mikill fjöldi fyrrv. ráðherra í Bandaríkjunum, mikill fjöldi færra sérfræðinga í Bandaríkjunum, mikill fjöldi bandarískra þingmanna, bæði í öldungadeildinni og fulltrúadeildinni, er á allt annarri skoðun. Við þurfum að átta okkur á því, að það er hinn gagnkvæmi vígbúnaðarstyrkleikur risaveldanna, ólíkt byggður upp á hinum ýmsu sviðum, sem skapar þetta mikla vandamál. Væri fróðlegt að fræðast um það hér í þessum umr., hvort þm. Sjálfstfl. með formann utanrmn. og formann Sjálfstfl. í broddi fylkingar eða hæstv. utanrrh. gætu stutt þá tillögu sem öldungadeildarþingmennirnir Edward Kennedy og Mark Hatfield hafa lagt fram í öldungadeild Bandaríkjaþings um frystingu kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupsins. Ég get lýst því yfir hér, að þm. Alþb. ættu ekki í nokkrum vandræðum með að samþykkja þessa tillögur. Ég skora á hv. þm., sem ég hef hér nefnt, fulltrúa Sjálfstfl., og einnig hæstv. utanrrh. að svara því hér í umr., hvort þeir væru reiðubúnir að styðja tillögu sama efnis í kjarnorkuvígbúnaðarmálum og þá sem þegar hefur verið lögð fram af þessum tveimur öldungadeildarþm. á þingi Bandaríkjanna.

Því miður er það þannig að í kringum kjarnorkuvígbúnaðarmálin er háð mikið áróðursstríð og mikil valdabarátta. Það er miður vegna þess að kjarnorkuvígbúnaðarmálin eru ásamt misskiptingu auðsins í veröldinni stærstu mál sem við þurfum að glíma við á þessari jörð, — mál sem eru þess eðlis, að ef illa fer í þeim efnum getur tortíming nánast gervallrar heimsbyggðar orðið afleiðingin. Það er þess vegna einmitt á þessum sviðum sem nauðsynlegt er að hleypidómalaus og áróðurslaus afstaða komi fram — sérstaklega hjá stjórnvöldum sem tala í nafni þjóða í þessum efnum.

Það var ánægjulegt að heyra að formaður Alþfl. lýsti hér áðan yfir stuðningi við þær friðarhreyfingar sem starfað hafa í Evrópu á undanförnum mánuðum og nú eru að rísa í Bandaríkjunum. Það er önnur afstaða en komið hefur fram hjá ritstjóra Alþýðublaðsins sem nú nýlega hefur tekið sæti á Alþingi. Það er önnur afstaða en komið hefur fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni í umr. fyrr hér á Alþingi. En vonandi boðar þetta stefnubreytingu hjá Alþfl. Það er líka ánægjulegt að miðstjórn Framsfl. skyldi samþykkja sérstakar stuðningsyfirlýsingar við friðarhreyfingarnar á síðasta aðalfundi miðstjórnar. Það sýnir okkar a.m.k. að fagnaðarfyrirsögnin í málgagni Geirs Hallgrímssonar fyrir nokkrum mánuðum á forsíðu: „Friðarhreyfingin er dauð“ — hefur ekki haft við rök að styðjast. (EG: Það er ekki sama friðarhreyfing og friðarhreyfing.) Það er alveg rétt, hv. þm. Eiður Guðnason, það er ekki sama friðarhreyfing og friðarhreyfing, en til að gera mitt mál stutt get ég einfaldlega sagt að ég get tekið undir hvert orð sem formaður Alþfl. sagði um það efni í ræðu sinni áðan.

Það hefur ekki heldur borið mikið á því í þessum umr., að risaveldin bæði, Bandaríkin og Sovétríkin, eru nú með áætlanir um gífurlega aukningu á kjarnorkusprengjuforða sínum. Við höfum ekki ítarlegar upplýsingar um þær áætlanir hjá Sovétríkjunum. En fyrir nokkrum dögum birtist í bandarískum blöðum frásögn af því, að ríkisstjórn Reagans hefði tekið ákvörðun um að framleiða á næstu árum hvorki meira né minna en 17 þús. nýjar kjarnorkusprengjur. Er þá ætlað að á þessum áratug verði um 25 þús. kjarnorkusprengjur í vopnabúri Bandaríkjanna.

Ég vék að því áðan, að áróðursmoldviðrið í kringum kjarnorkuvígbúnaðarumræðurnar væri mjög mikið. Oft er gripið til þess að telja það, sem er á dagskrá hverju sinni, algerlega nauðsynlegt út frá hagsmunum lýðræðis, frelsis eða varna vestrænna þjóða. Það er t.d. ekki langt síðan MX-eldflaugaáætlunin í Bandaríkjunum var talin bráðnauðsynleg í þágu varna Bandaríkjanna. Það voru haldnar margar ræður af Reagan Bandaríkjaforseta og talsmönnum hans um nauðsyn þess, algera nauðsyn þess, að koma upp MX-eldflaugunum. Í Morgunblaðinu á Íslandi mátti lesa frásagnir af því, hvað þessi eldflaugakerfi væru bráðnauðsynleg. En það hefur hins vegar ekki farið mikið fyrir því í fréttum hér á Íslandi undanfarið, að nú bendir allt til þess, að ríkisstjórnin í Bandaríkjunum muni hætta við gömlu MX-áætlunina, í þeim búningi a.m.k. sem hún var upphaflega sett fram, og jafnvel hætta við hana algerlega. Það, sem fyrir nokkrum mánuðum var talið algerlega nauðsynlegt í þágu „varna vestrænna ríkja“, eins og það var orðað hátíðlega, er nú einfaldlega gufað upp af áætlunarborðum herforingjanna og fjármálayfirvaldanna, en annað að koma í staðinn. Það væri nokkuð fróðlegt að taka saman yfirlit yfir öll þau vopn og þær vopnategundir sem talsmenn þessa vígbúnaðarkerfis hafa talið nauðsynlegar á undanförnum árum og áratugum, en hafa síðan einhvers staðar gufað upp á leiðinni.

Ég vék að því áðan, að það, sem væri e.t.v. merkilegast við þá skýrslu utanrrh., sem hér hefur verið lögð fram, væri það sem ekki er um fjallað í henni. Það hefði mátt ætla að þegar lögð er fram skýrsla um utanríkismál Íslendinga á Alþingi, þar sem vikið er að vígbúnaðarmálum, stöðu okkar í heiminum og ýmsu öðru sem snertir land okkar og hagsmuni þess, þá væri vikið a.m.k. einhverjum orðum að þeim nýju áætlunum sem þegar hafa verið samþykktar um gífurlega aukningu vígbúnaðar á hafinu í kringum okkur. En það er ekki stafur í þessari skýrslu um það. Það er ekki orð í þessari skýrslu um þær áætlanir sem þegar hafa verið settar fram um staðsetningu hundraða, jafnvel þúsunda, stýrieldflauga á hafinu í kringum Ísland og nágrannatönd okkar fyrir lok þessa áratugs. Mér er spurn: Af hverju stafar þessi þögn? Stafar hún af vankunnáttu? Stafar hún af því að menn hafa ekki fylgst með? Eða stafar hún af því, að menn vilja ekki segja þjóðinni frá þessum miklu áætlunum?

Ég bjóst við því, að í ræðu hæstv. utanrrh. yrði vikið að þessu einhverjum orðum, vegna þess að fyrri skýringin um vankunnáttuna verður varla tekin gild eftir að málgagn ráðh., dagblaðið Tíminn, hefur birt ítarlega frásögn af þessum áætlunum. Í Tímanum laugardaginn 27. mars s.l. birtist heilsíðufrásögn undir fyrirsögninni „Kjarnorkueldflaugar á skipum og kafbátum geta leyst eldflaugar í Evrópu af hólmi. Styrkur bandaríska flotans verður stóraukinn á næstu árum.“ Í upphafi greinarinnar segir: „Verður Norður-Atlantshafið, og þar með hafið umhverfis Ísland, nýr skotpallur fyrir eldflaugar sem borið geta kjarnorkuvopn? Ráðamenn í Bandaríkjunum og hjá NATO hafa íhugað þennan möguleika vandlega.“

Síðan birtir Tíminn ítarlega greinargerð um þessar áætlanir og þessi nýju hugðarefni herforingja Bandaríkjanna og NATO um að gera hafið í kringum Ísland að veigamiklum skotpalli fyrir einmitt sömu tegundir af eldflaugum og valdið hafa hinum miklu deilum og ólgu á meginlandi Evrópu á undanförnum mánuðum. En um þetta er ekki orð, hvorki í skýrslunni né í ræðu hæstv. utanrrh. Í frásögn Tímans segir að þessar upplýsingar komi m.a. fram í skýrslu sérstakrar nefndar um kjarnorkuvopn í Evrópu til þeirrar nefndar bandarísku öldungadeildarinnar sem hefur með samskipti við erlenda aðila að gera. Tíminn hefur auk þess fengið hluta þessara upplýsinga staðfestan í samtölum við háttsetta embættismenn í Washington. Varla verður því trúað, að dagblaðið Tíminn hafi betri sambönd í Washington en utanrrn. við Hverfisgötu.

Í viðtali við Tímann segir Ken Mayers, einn af yfirmönnum Center for Strategic and International Studies við Georgetownháskólann í Washington: „Ég get staðfest að það er rætt alvarlega um það, að eldflaugar á skipum og kafbátum geti leyst eldflaugar á landi að einhverju leyti af hólmi.“ — Síðan segir: „Það er ekkert leyndarmál, að þessi stjórn, sem nú situr að völdum, ætlar sér að auka styrk bandaríska flotans mjög verulega, bæði á Norður-Atlantshafi og annars staðar,“ segir John Lellenburg, yfirmaður í málefnum NATO í bandaríska varnarmálaráðuneytinu (Pentagon). Síðan kemur kafli í þessari frétt Tímans, sem ég mun lýsa nánar með tilvísunum í aðrar heimildir, erlend blöð, hér á eftir. En í málgagni ráðherrans, Tímanum, segir í kaflanum sem ber millifyrirsögnina: „3–4 þúsund nýjar eldflaugar til flotans“:

„Það er greinilegt að Lellenburg fer ekki með neitt fleipur þegar hann segir að styrkur bandaríska flotans verði aukinn verulega. Samkvæmt skýrslu hinnar sérstöku nefndar um kjarnorkuvopn í Evrópu hefur verið gerð áætlun fyrir flotann sem miðar að því, að komið verði fyrir á milli 3 og 4 þúsund nýjum eldflaugum um borð í skipum og kafbátum. Eru þetta venjulegar meðallangdrægar eldflaugar sem hægt er að nota til að granda óvinaskipum og gera árásir á stöðvar á landi. Verður byrjað að koma þessum eldflaugum fyrir á næsta ári og í athugun er að nota einnig eldflaugar með kjarnaoddum.“

Þessar fréttir, sem Tíminn hefur frá fréttaritara sínum í Washington, hafa líka birst á alþjóðlegum fréttavettvangi. 18. sept. s.l. birti International Herald Tribune, sem væntanlega er keypt í rn., frétt undir fyrirsögninni: 2500 stýrieldflaugar nú ætlaðar bandaríska sjóhernum. — Í fréttinni kemur fram, að ætlunin sé að staðsetja þessar 2500 stýrieldflaugar bæði í kafbátum og á herskipum ofan sjávar á árabilinu 1982–1986. Í skýrslunni og fréttinni segir að þetta muni þýða alls 2527 stýriflaugar fyrir árið 1989 og þær eigi að setja bæði í kafbáta, á flugvélamóðurskip og á önnur meiri háttar herskip. Þess má einnig geta, að í því þekkta tímariti Aviation Week and Space Technology birtist fyrir um það bil ári nokkuð ítarleg frásögn af því, að þegar hefði verið samþykkt í Bandaríkjunum að taka úr notkun eldri flugvélamóðurskip eða meiri háttar herskip, og nefnd sem dæmi New Jersey og Iowa, og taka af þessum skipum allt yfirdekkið til að koma fyrir á þeim stýrieldflaugum. Það er rakið mjög ítarlega í fréttinni, hvernig á árabilinu frá 1983 og fram til loka þessa áratugs eigi að búa hverja tegundina af þessum herskipum á eftir annarri þessum nýju stýrieldflaugum. Ég vek athygli á að við erum að tala um 2500 stýrieldflaugar, sem er margfaldur sá fjöldi stýrieldflauga sem valdið hefur hvað mestum deilum á meginlandi Evrópu á undanförnum árum, — um það bil fimmfaldur fjöldi þeirra stýrieldflauga sem hinar miklu pólitísku deilur hafa staðið um í Þýskalandi, Bretlandi, Belgíu, Hollandi og öðrum löndum á undanförnum árum. — Í þessari frétt kemur einnig fram, að samningur hefur verið gerður við Westinghouse-fyrirtækið í Bandaríkjunum upp á 18 millj. dollara til að þróa á næstu 22 mánuðum sérstakt skotkerfi fyrir þessar stýrieldflaugar sem hægt verður að setja í kafbáta, þá sömu kafbáta og sigla í höfunum í kringum Ísland. Í frétt, sem birtist í breska blaðinu Times s.l. haust, kemur fram til viðbótar, að auk herskipanna New Jersey og Iowa eigi einnig að breyta systurskipum þeirra, Wisconsin og Missouri, í þessu skyni á þessum áratug.

Herra forseti. Það mætti rekja margar aðrar greinar eða ítarlegri frásagnir, bæði úr mátgagni Framsfl., Tímanum, og einnig úr alþjóðlegum blöðum sem fjalla á sérfræðilegan hátt um þessi efni. Ég læt þetta nægja hér, en get rakið meira til viðbótar ef þess er óskað til að staðfesta að það liggur nú þegar fyrir umfangsmesta áætlun um aukningu kjarnorkuvopnaforða bandaríska flotans sem gerð hefur verið á síðari árum. Það er kjarni þessarar áætlunar, að kafbátar og herskip á Norður-Atlantshafi eigi að vera búin þessum kjarnorkueldflaugum. Það þýðir m.ö.o. að hafið í kringum Ísland verður meginkjarnorkuvopnabúr um lok þessa áratugs. Ef það er ekki efni til umræðna í skýrslu utanrrh., ef það er ekki efni í umræður um utanríkismál á Alþingi Íslendinga, þá veit ég satt að segja ekki hvað við eigum að taka fyrir. Hér fer saman einn veigamesti þátturinn í kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupi risaveldanna og okkar eigið hafsvæði, úthafið í kringum Ísland og nágrannalönd okkar, Færeyjar, Grænland og Noreg.

Ég spurði að því áðan: Hvernig stendur á því, að það hefur ekki komið eitt einasta orð frá utanrrn. á Íslandi opinberlega um þetta efni? Hvernig stendur á því, að ráðh. og rn. hafa ekki séð ástæðu til að segja íslensku þjóðinni frá þessum miklu áættunum sem Bandaríkin hafa nú þegar gert og fyrirtæki eins og Westinghouse og önnur fyrirtæki í Bandaríkjunum eru þegar byrjuð að framleiða eftir? Dagsetningar á tilkomu þessa nýja kjarnorkueldflaugakerfis í kafbátunum í kringum okkur og breytingar herskipanna Iowa, New Jersey, Missouri og Wisconsin eru allar komnar í áætlunarfarveg. Ég kann ekki svör við því, en æskilegt væri að það væri upplýst í umr. á eftir, hvers vegna ekki hefur verið ástæða til að fræða Alþingi og þjóðina um þetta efni. Það er svo nokkuð sérkennileg staðreynd, sem ég er viss um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu hafa verulegan áhuga á, að á sama tíma og þessi þögn er ríkjandi um stórfelldustu flotauppbyggingu á Norður-Atlantshafi á sviði kjarnorkuvopna, sem sett hefur verið fram nokkurn tíma, skuli vera ákveðið af hálfu hæstv. utanrrh. og stutt sérstakri þingflokkssamþykkt í Framsfl. að afhenda Bandaríkjasjóher í fyrsta sinn úthafshöfn á Íslandi.

Í Helguvík er eitt besta hafnarstæði fyrir úthafsskip á Íslandi. Hvers vegna hefur bandaríski sjóherinn, sem stefnir svo grimmt að uppbyggingu á Norður-Atlantshafi, slíkan áhuga á höfn í Helguvík? Hvernig stendur á því, að einmitt þegar slíkar áætlanir liggja fyrir í Bandaríkjunum skuli vera tekin sú ákvörðun að bandaríski sjóherinn geti eignast höfn á Íslandi?

En Tíminn, málgagn Framsfl. og hæstv. utanrrh., er merkilegt blað. Það er satt að segja töluvert önnur heimsmynd sem birtist þessar vikurnar og mánuðina í því blaði en er að finna í skýrslu hæstv. utanrrh. Það vekur spurningar um hver hafi misskilið hvern.

Fyrir nokkru, sunnudaginn 21. mars, birti Þórarinn Þórarinsson, sem tvímælalaust verður að telja reyndasta og fróðasta sérfræðing Framsfl. á sviði utanríkismála, helgargrein, stjórnmálagrein, á þeim stað þar sem talsmenn Framsfl. hafa í áratugi birt lesendum Tímans meginboðskap sinn. Þessi grein Þórarins Þórarinssonar ber heitið: „Hernaðarleg staða Íslands og hættan vegna hennar.“ Fyrsti kaflinn í þessari grein reyndasta talsmanns Framsfl. í utanríkismálum ber heitið: „Í þjóðbraut kjarnorkukafbáta.“ Það er það heiti sem Þórarinn Þórarinsson vill velja því ástandi sem ríkir hér í kringum okkur af hálfu beggja risaveldanna, að við séum í þjóðbraut kjarnorkukafbáta. Annar kaflinn í þessari grein ber heitið: „Hættan magnast.“ Þriðji kaflinn ber heitið „Herstöðin í Keflavík.“ Fjórði kaflinn heitir: „Gerbreytt staða.“ Næstsíðasti kaflinn ber heitið: „Góð tíðindi frá Washington.“ Er þar vikið að þeirri tillögu öldungardeildarþingmannanna Kennedys og Hatfields sem ég spurði um áðan hvort formaður Sjálfstfl. og formaður utanrmn. og hæstv. utanrrh. gætu stutt efnislega. Í lokakaflanum í þessari grein er fjallað um það sem ber heitið: „Framlag Íslendinga.“ Vegna þess að þessi höfundur, sem hefur bráðum í hálfa öld fjallað um utanríkismál á síðum málgagns Framsfl., hefur fram að færa ýmislegt sem ég held að öllum, sem um þessi mál fjalla, væri hollt að hugsa um ætla ég — með leyfi hæstv. forseta — að lesa nokkra kafla úr þessari stjórnmálagrein málgagns Framsfl., þó ekki væri nema til þess að það væri efniviður í umr. um hver hefði misskilið hvern. Í Tímanum segir m.a.:

„Íslendingar hafa hvergi nærri gert sér ljósa þá uggvænlegu staðreynd, að land þeirra er komið í „þjóðbraut kjarnorkukafbáta.“ Því fer fjarri að þessi þróun sé að taka enda. Þvert á móti bendir allt til að kafbátavígbúnaðurinn á hafinu umhverfis Ísland muni enn færast í aukana.

Bæði risaveldin stefna nú að því að byggja stærri kafbáta en áður og búa þá bæði fleiri eldflaugum en áður og að hver eldflaug geti borið fleiri kjarnaodda en áður. Þá stefna þau að því að búa bæði kafbáta og ofansjávarskip stýriflaugum sem flutt geta kjarnavopn.

Breska stjórnin hefur alveg nýlega ákveðið að endurnýja kjarnorkuvopn sín. Kafbátarnir verða endurnýjaðir, einnig eldflaugarnar og kjarnaoddarnir. Frakkar eru einnig að auka og endurnýja þann kafbátaflota sem búinn er kjarnavopnum.

Að sjálfsögðu gera kjarnorkuveldin það ekki uppskátt, hvar þau hafa þennan kjarnavopnaflota sinn, en það þarf ekki mikla þekkingu til að gera sér ljóst að stærsta hluta hans er að finna á hafsvæðinu kringum Ísland.“ Ég endurtek þessi orð ritstjóra Tímans: „stærsta hluta hans er að finna á hafsvæðinu kringum Ísland.“ En áfram segir í greininni:

„Þessu fylgir margvísleg hætta fyrir Ísland og íslensk fiskimið. Þess vegna er ekki aðeins eðlilegt, heldur óhjákvæmilegt, að Íslendingar hefjist handa, veki athygli á þessu á alþjóðavettvangi og beiti sér fyrir því, að þessi kafbátavígbúnaður verði í fyrsta lagi frystur og síðan unnið markvisst að samdrætti hans af hálfu allra viðkomandi aðila.“

Hér lýkur þessum hluta tilvitnunarinnar, en efnislega felur hann í sér kröfu um að Íslendingar beiti sér fyrir því, að þessi kjarnorkuvígbúnaðaraukning á hafinu í kringum Ísland verði fryst. Nú spyr ég hæstv. utanrrh.: Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því, að þessi áskorun í málgagni Framsfl., Tímanum, verði framkvæmd, að það verði verkefni íslenskra stjórnvalda að beita sér fyrir því, að Bandaríkin og Sovétríkin frysti nú þegar kjarnorkuvígbúnaðaráform sín í þessum heimshluta?

Síðan segir áfram í grein Þórarins Þórarinssonar: „Þegar framangreindar staðreyndir eru hafðar í huga, verður það best ljóst, hversu mjög hafa breyst varnarmöguleikar Keflavíkurflugvallar síðan varnarsamningurinn var gerður 1951.

Þá voru engar líkur til þess, ef til átaka kæmi milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, að hægt yrði að gera árás á Keflavíkurflugvöll öðruvísi en frá skipum eða flugvélum. Rússar höfðu þá hvorki kjarnavopn né flugskeyti, sem þeir gætu beitt í hugsanlegri árás á Keflavíkurflugvöll. Rökstuddar vonir voru fyrir því, að hægt væri að verja völlinn árásum.

Slíkar vonir sem þá voru fyrir hendi eru nú hrundar með öllu,“ segir þessi reyndasti talsmaður Framsfl. á sviði utanríkismála í nær hálfa öld. En hann segir meira, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef til átaka kæmi milli risaveldanna á Norður-Atlantshafi — en annarra hernaðarlegra átaka er vart að búast við þar — gætu Rússar skotið eldflaug frá kafbáti, sem væri í tiltölulega lítilli fjarlægð, og við slíkri árás eru engar varnir til og verða ekki til svo að fyrirsjáanlegt sé.

Þess ber svo að gæta, að árásarhættan er meiri nú en 1951, þar sem herstöðin á Keflavíkurflugvelli er nú miklu mikilvægari en þá, þar sem hún er orðin ein þýðingarmesta upplýsingastöð Bandaríkjanna um ferðir rússneska kafbátaflotans, eins og Benedikt Gröndal vék að í ræðu sinni.“

Ég sé ekki betur en að í þessum orðum ritstjóra Tímans og eins helsta sérfræðings Framsfl. í utanríkismátum sé að finna algera staðfestingu á þeim sjónarmiðum mínum sem ég flutti hér fyrir nokkrum mánuðum þegar við ræddum, ég, hæstv. utanrrh. og fleiri þm., um eðli herstöðvarinnar hér og tengsl hennar við kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaup risaveldanna.

Það er vissulega ánægjulegt að sjá að innan Framsfl. skuli vera til menn sem gera sér jafnskýra og glögga grein fyrir þeim hættum sem íslenskri þjóð eru búnar, bæði nú og á næstu árum. Ég hefði verið mun ánægðari með skýrslu hæstv. utanrrh. ef þessara sjónarmiða Framsfl. hefði gætt meira í henni.

Í greininni er enn fremur fagnað sérstaklega þeirri tillögu sem Edward Kennedy og Mark Hatfield hafa lagt fram á þingi Bandaríkjanna og lýst yfir stuðningi við „þrýstistefnuna“ í kjarnorkuvígbúnaðarmálum. Því er jafnframt fagnað, að í Bandaríkjunum sé að rísa fjöldahreyfing sem berst fyrir nákvæmlega sömu markmiðum og friðarhreyfingin í Evrópu gerði á s.l. ári.

Í lok greinarinnar er að finna þá niðurstöðu, að „eins og staða Íslands er með vaxandi kafbátaflota, búnum kjarnorkuvopnum, á hafinu umhverfis landið og mikla árásarhættu varðandi Keflavíkurflugvöll, ef til styrjaldar kæmi, hljóta Íslendingar af alefli að styðja alla viðleitni sem beinist að því að koma á stöðvun vígbúnaðarkapphlaupsins og gagnkvæmri afvopnun.

Ef árangur næðist í þeim efnum mundi það meira en nokkuð annað afstýra þeirri hættu sem yfir Íslandi vofir og þó einkum Keflavíkurflugvelli meðan vígbúnaðarkapphlaupið heldur áfram.“

Herra forseti. Þessi stefnugrein ritstjóra Tímans, þess manns sem lengur en nokkur annar hefur gegnt ulltrúa- og forustustörfum fyrir Framsfl. á sviðum utanríkismála, er vissulega fagnaðarefni sem innlegg inn í þá alvarlegu umræðu sem þarf að fara fram hér á ístandi. Ég hefði kosið að skýrsla utanrrh. bæri meira svip þeirra sjónarmiða sem þarna koma fram. En kannske eru þessi skrif Tímans, málgagns Framsfl., líka misskilningur að dómi hæstv. ráðh., eins og samþykktir miðstjórnar flokksins.

Þá er rétt að vekja athygli á því til viðbótar, að fyrir nokkrum dögum birtist í Tímanum leiðari undir fyrirsögninni: „Friðarsóknin í Bandaríkjunum“ — þar sem lýst var á mjög greinargóðan hátt stefnumálum þeirrar miklu fjöldahreyfingar, þeirrar friðarhreyfingar, sem risið hefur í Bandaríkjunum á undanförnum mánuðum, þeirri undirskriftasöfnun sem nú fer fram í einu fjölmennasta ríki Bandaríkjanna og hefur nú þegar hlotið fleiri undirskriftir en nokkur hliðstæð undirskriftasöfnun á undanförnum árum.

Það verður vissulega skemmtilegt að fylgjast með því, þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson og þeir Morgunblaðsmenn ásamt ritstjóra Alþýðublaðsins munu keppast við að reyna að koma sama kommúnistastimplinum á friðarhreyfingarnar í Bandaríkjunum og þeir hafa verið að keppast við á undanförnum mánuðum að koma á friðarhreyfingarnar í Evrópu. Þótt þeir geti kannske reynt að læða því inn hjá almenningi á Íslandi, að ég og mínir líkar séu grunsamlegir í þessum efnum, eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson gerði áðan, verður gaman að sjá þá flytja sömu ásakanir á Edward Kennedy og ýmsa öldungadeildarþingmenn í Bandaríkjunum. Staðreyndin er nefnilega sú, að þeir, sem hafa hér á undanförnum mánuðum talað gegn friðarhreyfingunum í Evrópu og nú verða, ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir, að tala gegn friðarhreyfingunum í Bandaríkjunum, eru orðnir svo langt til hægri í allri þessari alþjóðlegu umræðu að stór hluti þm. í öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjaþings er með miklu raunhæfari skoðanir á þessum efnum en þessir stjórnmálamenn á Íslandi — skoðanir sem í reynd eru miklu líkari því sem ég og ýmsir talsmenn Alþb. og stór hluti Framsfl. og reyndar margir einnig í Alþfl. höfum verið að halda fram á undanförnum vikum og mánuðum.

Það er rétt, sem aðeins er vikið að í skýrslu hæstv. utanrrh., að á undanförnum mánuðum hafa komið fram ýmsar tillögur í afvopnunarmálum. Sumpart eru þessar tillögur settar fram í áróðursskyni. Sumpart eru þær settar fram sem grundvöllur alvarlegra viðræðna. Hvort heldur þær eru frá Sovétríkjunum eða Bandaríkjunum eru þær þó greinilega knúðar fram m.a. í krafti þess fjöldastyrks sem málstaður friðarins hefur hlotið í þessum löndum. En það er athyglisvert, að það verður ekki hægt að lesa skýrslu hæstv. utanrrh. á annan veg en þann, að hann styðji þá tillögu sem Reagan Bandaríkjaforseti hefur lagt fram. Nú vil ég lýsa því yfir aftur, eins og ég gerði hér á Alþingi á sínum tíma, að ég tel tillögu Reagans að vissu leyti vera jákvætt skref í áttina að því að viðurkenna nauðsynina á raunhæfri afvopnun. Það er hins vegar einn stór galli á þeim tillögum sem ríkisstjórn Reagans hefur lagt fram í afvopnunarviðræðunum í Genf. Hann er sá, að kjarnorkuvopn á hafinu, kjarnorkuvopn í kafbátum, kjarnorkuvopn í herskipum á hafinu, eru algerlega undanþegin þeim afvopnunartillögum sem ríkisstjórn Reagans hefur sett fram. Það er hið stóra gat sem er á þeirri tillögu. Þau kjarnorkuvopn, sem yrðu aðallega á hafinu og í hafinu kringum Ístand, á ekki að takmarka. Þeim á ekki að fækka. Nei, þvert á móti er tillagan sett fram á þann hátt að skapa svigrúm fyrir Bandaríkin til að auka kjarnorkuvígbúnaðinn á hafinu í kringum Ísland og nágrannalönd okkar á sama tíma og kjarnorkuvopnaforðinn yrði takmarkaður á meginlandi Evrópu. Ég hefði kosið að talsmenn Íslendinga á vettvangi alþjóðastofnana bentu rækilega á þennan galla á tillögum Reagans, á sama tíma og menn gætu tekið undir ýmislegt annað sem í þeim felst. Þessi tillöguflutningur er beinlínis þannig úr garði gerður að hann skapar okkur Íslendingum og öðrum strandríkjum hér á Norður-Atlantshafi stórfellda hættu. Ég get ekki séð hvernig íslenskur utanrrh., sem vill gæta hagsmuna ríkisins, getur tekið undir þessar tillögur án þess að vek ja jafnframt rækilega athygli á því stóra gati sem þarna er.

Hæstv. utanrrh. setti fram þá ósk áðan, að ég tæki að mér að útskýra ályktun miðstjórnar Framsfl. um utanríkismál. Það er dálitið merkilegt í sjálfu sér, að ráðh. skuli telja þörf á að biðja um útskýringar á þessari samþykkt og gera það ekki innan flokksins, heldur gera það í heyranda hljóði á Alþingi. En sakir minningar um félagsskap okkar í Framsfl. á sínum tíma skal ég verða við þessari ósk hæstv. ráðh. Jafnframt væri óskandi að formaður miðstjórnarinnar, sem nú er, vegna fjarveru hins, sem kosinn var aðalformaður miðstjórnar af alkunnum ástæðum og þingheimi eru kunnugar, gæti einnig tekið þátt í þessari umr. svo að ekki leiki nokkur vafi á hvernig beri að túlka samþykktir æðstu stofnunar Framsfl. milli flokksþinga í þessum mikilvæga málaflokki. Ályktun miðstjórnar Framsfl. um utanríkismál er ekki löng. Í henni er hins vegar að finna mjög afdráttarlausa afstöðu til ýmissa þeirra málefna sem ég hef hér gert að umræðuefni. Þar stendur m.a.:

„Aðalfundur miðstjórnar Framsfl. telur nauðsynlegt að Íslendingar stuðli að því áalþjóðavettvangi, að dregið verði úr hættunni á því, að kjarnorkustyrjöld brjótist út í heiminum.

Nauðsynlegt er að Framsfl. hafi frumkvæði í þessum efnum.“

Nú er það dálitið merkilegt, að miðstjórnin skuli ekki telja rétt að utanrrh. eða ríkisstj. hafi frumkvæðið í þessum efnum, heldur segir miðstjórnin að Framsfl. skuli hafa frumkvæði í þessum efnum. Það er sérkennilegt og nokkur nýjung, að flokkur sem fer með utanríkismál og hefur reyndar gert það meginþorra þessa áratugs, skuli telja nauðsynlegt að hann taki sérstaklega að sér frumkvæðið í þessum efnum. Það mætti kannske túlka það á þann veg, að flokkurinn treysti ekki nægilega þeim, sem í fyrirsvari eru á sviði utanríkismála meðal þjóðarinnar, til að fara með þetta frumkvæði. Ég skal ekki svara þeirri spurningu hér. Hitt er ljóst, að Framsfl. telur það vera fyrsta verkefni að hafa frumkvæði um að dregið verði úr hættunni á því, að kjarnorkustyrjöld brjótist út í heiminum, sérstaklega í okkar heimshluta. Ég get ekki séð annað en það þýði, sérstaklega þegar höfð er í huga sú grein ritstjóra Tímans, sem ég vék að áðan, og þær fréttir, sem blaðið hefur fært af uppbyggingu kjarnorkuvígbúnaðar á hafinu í kringum Ísland, að Framsfl. ætlist til að Íslendingar taki upp frumkvæði í baráttunni gegn kjarnorkuvígbúnaðaruppbyggingu varðandi kafbáta og herskip á hafinu í kringum Ísland, þess vegna hljóti miðstjórn Framsfl. að tel ja það undarlegt, eins og ég hef talið hér, að í skýrslu hæstv. utanrrh. skuli ekki vera minnst einu orði á þetta atriði.

Þá segir enn fremur: „Aðalfundurinn fagnar þáltill. þingmanna flokksins um alþjóðlega ráðstefnu um afvopnun á Norður-Atlantshafi.“

Þetta er líka nokkuð skýrt. En það mætti spyrja í framhaldi af því, vegna þess að mér er ekki kunnugt um að það hafi komið fram: Styður hæstv. utanrrh. þessa till.? Er hann reiðubúinn að beita sér fyrir því í utanrmn., að þessi till. verði samþykkt? Það væri mjög æskilegt að fá svör við því á eftir, vegna þess að þingi fer senn að ljúka og þessi till. hefur legið í utanrmn. í nærri því tvo mánuði. Það væri mjög æskilegt að fá leiðbeiningar um það frá hæstv. ráðh. síðar í dag, hvort hann er því meðmæltur að þessi till. verði samþykkt.

Þá segir enn fremur í ályktuninni: „Fundurinn lýsir stuðningi við frjálsar og óháðar friðarhreyfingar sem vinna að gagnkvæmri afvopnun.“

Þetta er mjög merkileg yfirlýsing. Alþb. varð fyrst flokka til að lýsa yfir stuðningi við þessar friðarhreyfingar. Framsfl. hefur nú einnig tekið undir þessa ósk. Það er vissulega mjög mikilvægt þegar horft verður til þeirra mála sem friðarhreyfingar t.d. kirknanna í Hollandi og Þýskalandi og friðarhreyfingin í Bandaríkjunum hafa á stefnuskrá sinni, að fá það skýrt fram, að flokkur utanrrh. á Íslandi skuli vilja styðja þessa stefnuskrá. Það sýnir m.a. að miðstjórn Framsfl. er á allt annarri skoðun en Geir Hallgrímsson í þessu efni og allt annarri skoðun en ritstjóri Alþýðublaðsins í þessu efni.

Síðan er því bætt við: „Enn sem fyrr er það stefna Framsfl. að taka þátt í varnarsamtökum vestrænna þjóða, en jafnframt að hinn erlendi her fari héðan jafnskjótt og aðstæður leyfa.“

Þetta er að vísu nokkuð gamalkunnur texti úr samþykktum miðstjórnar Framsfl. Það má þó minna á að fyrir nokkrum árum, þegar þáv. formaður Framsfl. flutti stefnuræðu á miðstjórnarfundi í flokknum, — mig minnir að það hafi verið síðasta stefnuræðan sem hann flutti áður en hann lét af formennsku fyrir nokkrum árum, — þá vék hann að því, að það væri tímabært fyrir Framsfl. að fara að láta af yfirlýsingum sínum um að herinn ætti að fara. Ef ég man rétt voru í þeirri ræðu setningar á þá leið, að eðli hersins hér væri nú orðið slíkt að það væri kannske ekki ástæða til að vera að amast mikið við slíkri starfsemi. Ég tel vissulega mikilvægt að Framsfl. sjái þó ástæðu til að ítreka þetta fyrra stefnumál sitt.

Síðan lýsir fundurinn því yfir, að við ríkjandi aðstæður telji hann rétt að fylgt sé óbreyttri stefnu í öryggismálum og átelja beri allar tilraunir varnarliðsins til afskipta af innlendum málum. — Það hefur komið skýrt fram að þessa setningu telur hæstv. utanrrh. byggða á algerum misskilningi. Í skýrslu sinni lýsir hann því yfir, að það hafi engin vandamál verið í samskiptum við varnarliðið og samvinna hafi verið mjög góð á s.l. ári. Engu að síður ályktar flokkur hans um þessi efni. Ég held að það sé einsdæmi í stjórnmálasögu Íslendinga, að utanrrh. eða yfirleitt ráðherrar í nokkrum málaflokki skuli gefa þá yfirlýsingu að jafnmikilvæg samþykkt, sem æðsta stofnun flokks hans geri í þeim málum sem undir hann heyra, sé byggð á misskilningi. Reyndar hafði ráðh. í viðtali við Morgunblaðið harðari orð um þessa samþykkt Framsfl. en ég hef hér vitnað til, því að hann bætir við að hún hafi verið samþykkt í hugsunarleysi. Það væri kannske ástæða og tilefni til að spyrja í framhaldi af þessum yfirlýsingum ráðh.: Er eitthvað fleira í utanríkismálasamþykkt miðstjórnar Framsfl. sem ráðh. telur byggt á misskilningi eða er þetta það eina? Það væri satt að segja mjög gagnlegt fyrir okkur hina að fá að vita hvort ráðh. er samþykkur öllum öðrum yfirlýsingum sem fram koma í miðstjórnarsamþykktinni eða hvort þetta er það eina sem hann telur vera misskilning.

Afskipti af innanlandsmálum er hins vegar mjög teygjanlegt hugtak. Hæstv. ráðh. gaf nokkuð afdráttarlausa yfirlýsingu um það, að ef bandaríski herinn færi að skipta sér af innanlandsmálum bæri að grípa til harðra gagnaðgerða í þeim efnum. Lét hann mjög þung orð falla í þeim efnum sem ég styð algerlega. En málið er ekki alveg svona einfalt. Hér starfar bandaríska sendiráðið og hér starfar Menningarstofnun Bandaríkjanna. Það er alveg ljóst, að þessar tvær stofnanir, bandaríska sendiráðið og hin svokallaða Menningarstofnun Bandaríkjanna, hafa margvísleg afskipti af málefnum hersins hér á landi. Bandaríski sendiherrann er æðsti viðræðuaðili utanrrn. um herinn hér á landi, og starfsmenn Menningarstofnunar Bandaríkjanna hafa, eins og gögn hafa sýnt og fjölmörg dæmi sannað, margvísleg afskipti af afstöðu Íslendinga til herstöðvarinnar og varnarsamningsins. Ber að skilja þetta svo, að yfirlýsing hæstv. utanrrh. taki einnig til þessara aðila, líka til bandaríska sendiráðsins og menningarstofnunar Bandaríkjanna, vegna þess að þessar tvær stofnanir eru á mjög náinn hátt tengdar starfsemi hersins hér á landi og ábyrgar fyrir ákveðnum hluta þeirrar starfsemi í samræmi við bandaríska stjórnkerfið? Ég gæti nefnt ýmis dæmi um að náin samvinna hefur verið með íslenskum stjórnmálamönnum og bandaríska sendiráðinu í deilum um innanlandsmál á Íslandi. Náið samráð og ráðgjöf og upplýsingaþjónusta hefur komið fram af hálfu bandaríska sendiráðsins gagnvart þessum íslensku stjórnmálamönnum. Kannske gefst tækifæri til þess einhvern tíma síðar að leggja fram gögn, sem sýna þetta svart á hvítu, til viðbótar við þau gögn sem ég hef nú þegar kynnt Alþingi. En það er alveg ljóst af þeim gögnum sem ég hef séð og skoðað, að þeir eru nokkuð margir stjórnmálamenn og stjórnmálaskýrendur á Íslandi sem hafa mjög náið samband við bandaríska sendiráðið um gang mála hér innanlands. Ef yfirlýsing hæstv. ráðh., sem hann gaf hér áðan, tekur einnig til þessarar starfsemi, þá væri vissulega tilefni til þess að athuga það nánar á grundvelli þeirra gagna sem hægt verður að leggja fram um þessi efni.

Til viðbótar er í ályktun miðstjórnar Framsfl. lögð áhersla á, að umsvif varnarliðsins verði í engu aukin, og fagnað því starfi sem utanrrh. hefur unnið á þessu sviði. — Það eina, sem ég ætla að segja um þennan texta, er að hann má túlka á ýmsa vegu. Ég ætla ekki að blanda mér inn í þá umr., en það er hægt að færa nokkuð ítarleg rök fyrir því, að ýmsar áætlanir, sem settar hafa verið fram, feli ekki beint í sér að umsvifin séu ekki aukin.

Í lokagrein ályktunarinnar er talið nauðsynlegt að gerð verði grein fyrir því, með hverjum hætti ætlunin er að verja Ísland ef til átaka kæmi. — Ég vil taka undir þessa áskorun miðstjórnar Framsfl. Ég vænti þess, að hæstv. utanrrh. verði við þessari áskorun miðstjórnar eigin flokks innan tíðar og við hér á Alþingi og þjóðin öll fáum að sjá þær áætlanir sem Bandaríkjastjórn og NATO hafa gert um varnir Íslands ef til átaka kemur. Vona ég að þessi kafli í samþykkt miðstjórnar Framsfl. sé ekki líka byggður á misskilningi. Það væri synd ef þjóðin og þingið fengi ekki að sjá þessar áætlanir. Ég vona því eindregið að þær verði lagðar fram og ekki verði veitt þau svör við því, eins og hafa verið veitt við ýmsum öðrum óskum, að það séu svo viðkvæm skjöl að þau þoli ekki að íslenska þjóðin fái að fjalla um þau.

Þannig er nokkuð ljóst að í ályktun miðstjórnar Framsfl. kemur fram töluvert öðruvísi tónn í öllum áherslum og allri heimssýn og allri vandamálaskilgreiningu en birtist í skýrslu hæstv. utanrrh.

Ég vil að lokum varðandi þessa umr. um kjarnorkuvígbúnaðinn vekja athygli hæstv. ráðh. og Alþingis og utanrrn. á mjög merkilegri grein, sem maður að nafni Roger Morlander birti í Washington Post fyrir nokkrum dögum. Þessi maður var starfsmaður í Öryggisráði Hvíta hússins á tímum Nixons forseta og var sýndur slíkur trúnaður af Nixon og Kissinger að hann fékk að semja algerlega stefnugrundvöll Bandaríkjanna í afvopnunar- og kjarnorkuvígbúnaðarviðræðum sem þá áttu að eiga sér stað í Genf. Sú stefna, sem hann markaði, var samþykkt óbreytt af bæði Kissinger og Nixon. Þessi maður er nú í fararbroddi baráttunnar fyrir auknum og raunhæfum upplýsingum um kjarnorkuvígbúnað í Bandaríkjunum. Hann hefur látið af störfum í því vígbúnaðarkerfi sem hann starfaði í áður. Hann rekur m.a. í þessari grein þá niðurstöðu sína, að þrátt fyrir að þetta sé það svið mannlegra málefna þar sem örlög jarðarinnar geti ráðist með hvað afdrifaríkustum hætti, þá séu ákvarðanir þar teknar á grundvelli mikillar vanþekkingar, á grundvelli tilfinningaafstöðu, á grundvelli hleypidóma og á grundvelli tilviljana. Hann rekur einnig dæmi um hvernig tæknibilanir hvað eftir annað í vígbúnaðarkerfinu hafa gefið til kynna að kjarnorkustríð væri að hefjast. Hann rekur einnig hvernig í viðræðum, sem farið hafa fram innan Hvíta hússins og í innstu hringum vígbúnaðarráðgjafar Bandaríkjaforseta, hafi háttsettir herforingjar sett fram það sjónarmið, að kjarnorkustríð væri ekki ófýsilegur kostur og væri fyllilega raunhæfur möguleiki sem þáttur í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Hann vitnar orðrétt í þessi ummæli: „Vegna þess að aðeins 500 millj. manna mundu deyja“.

Þessi maður er einn af þeim örfáu í veröldinni, þeir eru nefnilega ekki mjög margir, sem hafa haft það að daglegu verkefni um áraraðir að leggja grundvöll að ákvörðunum risaveldanna um kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupið og hafa verið í innsta hring þess þrönga hóps sem ákvarðanir hefur tekið um það efni. Reynsla hans og niðurstaða er vissulega tilefni til þess, að íslenskir þingmenn og reyndar almenningur allur kynni sér rækilega sjónarmið hans. Það væri full ástæða til þess, þar sem við eigum í margvíslegum samskiptum við þær stofnanir sem taka ákvarðanir af þessu tagi, erum aðilar að Atlantshafsbandalaginu, erum háðir þeim ákvörðunum sem þarna eru teknar, að við kynntum okkur þessa lýsingu. Niðurstaða hans er því miður sú, að kjarnorkuvígbúnaðarkerfið sé með þeim hætti að líkurnar á því, að kjarnorkustyrjöld brytist út vegna tæknilegra mistaka eða vegna tilviljunar, hafi aukist svo stórfelldlega á síðustu árum vegna vígbúnaðarkapphlaups beggja risaveldanna að það verði að reikna með því sem möguleika ef ekki verður þegar í stað horfið frá þessari vígbúnaðarbraut sem risaveldin hafa fyrst og fremst verið á.

Þessi niðurstaða hans, þessi boðskapur er hinn sami og eitt víðlesnasta tímarit Bandaríkjanna, Time, birti á forsíðu sinni fyrir viku og bar heitið: „Thinking the Unthinkable“ — eða m.ö.o. að gera ráð fyrir því, sem hingað til hefur verið talið óhugsanlegt: Að einhver hluti jarðarinnar eða kannske jarðarbúar allir mundu tortímast í kjarnorkustyrjöld. Þetta er raunhæft mat þeirra manna sem hafa verið æðstu ráðgjafar forseta Bandaríkjanna um þessi efni. Er ekki ástæða til þess, að menn eins og hv. þm. Geir Hallgrímsson, sem í ræðum sínum hér kallar á aukinn vígbúnað, hugleiði aðeins reynslu og viðvörunarorð þessara manna sem hafa miklu meiri þekkingu á þessum efnum en við sem erum í þessum sal.

Mér hefur hér orðið tíðrætt um kjarnorkuvígbúnaðarmálin vegna þess að mér finnst þar vera hið stóra gat sem er á skýrslu hæstv. utanrrh. Því miður verður að segja það einnig, að varðandi ýmis önnur málefni, eins og Tyrkland og El Salvador, er ekki í þessari skýrslu að finna það sjálfstæði í afstöðu eða þá gagnrýni á aðgerðir herforingjanna í löndunum báðum sem ég hefði talið nauðsynlegt að utanrrh. í lýðræðisríki sýndi. Það var miklu nær að skoðanir, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson flutti hér áðan, samræmdust því sem segja ber úr forustustól íslensku þjóðarinnar um þessi efni.

Í þessari skýrslu er lítið vikið að því ástandi sem í reynd hefur skapast í Tyrklandi í kjölfar valdatöku hersins. Á hinn bóginn eru fluttar nánast orð fyrir orð, setningu fyrir setningu þær afsakanir sem Bandaríkin og nánustu talsmenn þeirra hafa haft í frammi gagnvart herforingjastjórninni í Tyrklandi. Það er ekki vikið að því í þessari skýrslu, að síðan herforingjastjórnin tók við völdum í Tyrklandi hafa 70 þús. manns verið fangelsaðir og yfir 30 þús. þeirra sitja enn þá í fangelsum. Það er ekki vikið að því í þessari skýrslu, að stærsta verkalýðshreyfing landsins hefur verið bönnuð, 2000 forustumenn hennar sitja nú í fangelsum og aðalforustusveit hennar, 50 verkalýðleiðtogar á yfir höfði sér dauðadóm. Það er ekki vikið að því í þessari skýrslu, að fyrir nokkru var einn fremsti mannréttindalögfræðingur Tyrklands fangelsaður, fluttur brott af heimili sínu og í dýflissu herforingjastjórnarinnar, þrátt fyrir að hann njóti margvíslegrar virðingar á alþjóðlegum vettvangi fyrir störf sín að mannréttindamálum.

Í þessari skýrslu er sett fram sú ályktun, að það kunni að vera skammt í að herforingjarnir muni efna loforð sitt um að koma á lýðræði í Tyrklandi. Enn á ný vil ég vitna í Tímann sem föstudaginn 1. apríl birti yfirlitsgrein eftir ritstjóra blaðsins undir fyrirsögninni: „Er stefnt að fasisma í Tyrklandi?“ Það er miklu raunhæfari fyrirsögn á hugleiðingum, hvert þróunin stefni í Tyrklandi, en yfirlýsingar um að herforingjarnir kunni að stefna að lýðræði. Í fjölmörgum blöðum á alþjóðlegum vettvangi hefur á síðustu vikum og mánuðum verið vikið ítarlega að þeim pyntingum sem fjölmargir forustumenn í stjórnmálum, í verkalýðshreyfingu og í mannréttindamálum hafa sætt í tyrkneskum fangelsum. Hið virta franska blað, Le Monde, birti t.d. fyrir nokkrum dögum ítarlega grein um þær kerfisbundnu pyntingar sem stundaðar eru í fangelsum í Tyrklandi. Þar er að finna óhugnanlegar lýsingar á sviðsettum hengingum, á kynferðisofbeldi, á raflosti og fjölmörgum öðrum aðferðum sem beitt er í fangelsum herforingjastjórnarinnar. Blaðið Guardian birti einnig frásagnir af því nýlega, hvernig fyrrv. borgarstjóri Istanbul, jafnaðarmaður sem með engu móti er hægt að ásaka fyrir öfgakenndar skoðanir í þjóðmálum, var fangelsaður á heimili sínu og færður í dýflissu herforingjastjórnarinnar. Þannig mætti lengi telja frásagnir af því sem gerst hefur síðan herforingjarnir tóku völdin í Tyrklandi. Má í því sambandi minna á bæði ályktun Evrópuráðsins og einnig sérstaka samþykkt sem gerð var af aðalnefnd Evrópuráðsins fyrir nokkrum dögum þegar mannréttindalögfræðingurinn Apaydin var fangelsaður af herforingjastjórninni fyrir þá sök eina að hafa tekið að sér að vera verjandi verkalýðsforingjanna fimmtíu.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli hv. alþm. á sérstakri ályktun og greinargerð sem Alþýðusamband Íslands samþykkti 1. apríl s.l. Í þessari ályktun, sem samþykkt var með öllum greiddum atkv. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands, kemur fram skýr og eindregin fordæming á því ástandi sem þróast hefur í Tyrklandi undir herforingjastjórninni. Í ályktuninni er því lýst hvernig stjórnmálaflokkar hafa verið bannaðir, hvernig verkalýðsfélög hafa verið bönnuð, hvernig stjórnmálamenn og leiðtogar verkalýðsfélaga hafa verið ofsóttir, hvernig fjölskyldur þeirra hafa sætt hinni verstu meðferð af hendi yfirvalda og hvernig dómar eru kveðnir upp án þess að nokkur eðlileg málsvörn fari fram. Í grg., sem Alþýðusamband Íslands hefur tekið saman á grundvelli lýsinga frá hinum frjálsu verkalýðsfélögum í Vestur-Evrópu, er að finna mjög ítarlega lýsingu á því, hvernig farið er með lögfræðinga, stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtoga undir herforingjastjórninni í Tyrklandi, hvernig kerfisbundið hefur verið unnið að því að útrýma sjálfum grundvelli frjálsrar verkalýðsstarfsemi í þessu landi með því að taka úr umferð alla forustusveit verkalýðshreyfingarinnar, með því að yfirtaka byggingar hennar, með því að banna málflutning hennar og á margvíslegan annan hátt komið í veg fyrir að starfsemi frjálsra verkalýðsfélaga geti nokkurn tíma í náinni framtíð risið á ný í Tyrklandi. Þar er einnig lýst þeirri meðferð sem verkalýðsforingjar hafa orðið að sæta í fangelsum herforingjastjórnarinnar, þar sem komið hefur verið í veg fyrir að þeir hafi geta sofið dögum og jafnvel vikum saman, hvernig þeir hafa verið beittir raflosti, siðferðilegri niðurlægingu, barsmíðar hafa verið tíðkaðar og fjölmörg önnur dæmi, eins og sviðsettar hengingar, nefnd um framferði herforingjastjórnarinnar. Það er þess vegna ljóst að í Tyrklandi er núna á kerfisbundinn hátt verið að vinna að því að festa í sessi öfgafulla fasistastjórn. Yfirlýsingar forsvarsmanna herforingjanna um að þeir séu að koma á lýðræði í landinu eru skrum eitt. Allar þessar aðgerðir gagnvart stjórnmálaflokkunum, jafnaðarmannaflokknum og öðrum flokkum, og verkalýðshreyfingunni er á engan hátt hægt að réttlæta með því ógnarástandi sem ríkti í Tyrklandi fyrir valdatöku herforingjastjórnarinnar. Því er jafnvel haldið fram í grg. verkalýðshreyfingarinnar norrænu og frjálsu verkalýðshreyfingarinnar í Evrópu að herforingjarnir í Tyrklandi og stjórnvöld í Tyrklandi tengd þeim hafi í vikunum og mánuðunum fyrir valdatökuna leyft ofbeldisverkunum að leika lausum hala til að geta haft ástæðu til að grípa völdin.

Það er satt að segja merkilegt, eins og hér hefur þegar komið fram í umr., að þegar í utanrmn. Alþingis og í viðræðum við þingflokkana er leitað eftir því, að Alþingi fordæmi þetta afnám á lýðræði og þá ógnarstjórn sem þarna ríkir, þegar þess er óskað að íslenskir alþm. lýsi yfir stuðningi við yfirlýsingu sem allir viðstaddir norrænir þm. samþykktu á þingi Evrópuráðsins, skuli Sjálfstfl. og Framsfl. skerast úr leik. Það krefst vissulega skýringar í þessum umr., hvers vegna forustusveit Framsfl. og Sjálfstfl. hefur lagst eindregið gegn því og raun ber vitni að sjálfsögð yfirlýsing um ástandið í Tyrklandi og hin tiltölulega hógværa samþykkt Evrópuráðsins er væri samþykkt hér á Alþingi. Hvernig stendur á því, að forustusveit Framsfl. og Sjálfstfl. vill halda þessum hlífiskildi yfir herforingjunum í Tyrklandi þótt allar alþjóðlegar heimildir lýsi mjög rækilega því ógnarástandi sem þar er?

Sama gildir reyndar um El Salvador. Í skýrslu hæstv. utanrrh. í fyrra var að finna kafla þar sem endurteknar voru ásakanir Bandaríkjastjórnar um að erlend íhlutun væri meginorsök þeirra átaka sem voru í El Salvador. Að vísu var tekið fram að ekki væri felldur dómur um þetta efni. Þó var talin sérstök ástæða til að helga ákveðna grein í skýrslunni því efni að endursegja þessar áróðurslummur frá ríkisstjórn Bandaríkjanna. Ég gerði á þeim tíma athugasemd við þennan kafla, og gangur mála hefur sýnt að þetta reyndist ómerkilegur áróður af hálfu ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Því miður verður að segja það eins og er, að í skýrslunni, eins og hún er nú, er ætið margt sem bendir til þess, að hæstv. ráðh. sé mjög svipaðrar skoðunar og stjórnvöld í Bandaríkjunum varðandi málefni í El Salvador.

Herra forseti. Ég mun reyna að ljúka máli mínu á næstu mínútum, en það eru fjölmörg önnur atriði sem væri vissulega ástæða til að fjalla hér ítarlega um. Það hefur aðeins í umr. af hálfu einstakra manna verið vikið að því ömurlega efnahagsástandi, sem ríkir núna í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, og þeim afleiðingum, sem áframhald ríkjandi efnahagsstefnu í Bandaríkjunum getur haft fyrir iðnríki Vesturlanda. Þessi ágreiningur um efnahagsstefnu á Vesturlöndum er orðinn svo harður og grimmur að Frakklandsforseti sér sérstaka ástæðu til að gera sér ferð til Bandaríkjaforseta til að reyna að fá hann til að breyta stefnu sinni. Efnahagsbandalagið reynir allt hvað það getur til að fá Bandaríkjaforseta til að breyta stefnu sinni. Það er nokkuð samdóma álit þeirra forsvarsmanna í efnahagsmálum í Evrópu, sem um þetta hafa fjallað, að haldi þessi hávaxtaefnahagsstefna áfram í Bandaríkjunum muni hún þýða svo stóraukið atvinnuleysi í Evrópu og slíka áframhaldandi fátækt fyrir ríki þriðja heimsins að við munum hér innan örfárra missera búa við efnahagskreppuástand sem mun minna á þá miklu heimskreppu sem var rótin að heimsstyrjöldinni miklu og gaf fasista- og öfgahreyfingum í Evrópu þann jarðveg sem þurfti á að halda til að geta byggt stríðsáætlanir sínar á fjöldafylgi. Þessi ágreiningur um efnahagsstefnuna er það örlagaríkasta, ásamt kjarnorkuvígbúnaðarmálunum, sem við erum að fást við. Um þennan ágreining er líka harla litið að finna í þessari skýrslu.

Enn fremur mætti nefna að alvarleg ástæða hefði verið til að fjalla ítarlega um ástandið í Mið-Austurlöndum og aðgerðir Ísraels gagnvart Arabalöndunum í þessum heimshluta.

Enn fremur hefði ég kosið að fjalla ítarlegar um þær hugmyndir, sem settar eru fram í lok skýrslunnar varðandi nýskipan á sviði utanríkisviðskipta. Ég vil láta nægja að segja hér að ég tel ekki rétta leið að byrja á því að fara að breyta ráðuneytum hér á Íslandi áður en gerbreytingar eru gerðar á markaðsstarfsemi Íslendinga erlendis og á þátttöku stóru sölusamtakanna í því að efla samvinnu utanríkisþjónustunnar og annarra aðila á því sviði. Ég held að þau stóru vandamál, sem við eigum við að glíma í markaðsmálum erlendis, verði ekki leyst með því að breyta starfsháttum ráðuneyta hér heima, heldur fyrst og fremst með nýjum starfsháttum og öflugu samvinnukerfi erlendis þar sem markaðssvæðin eru fyrir hendi.

Herra forseti. Ég hef í þessari ræðu gert nokkuð að umtalsefni annars vegar þær áherslur og þær eyður og þá heimssýn, sem birtist í skýrslu hæstv. utanrrh., og hins vegar það, sem málgagn Framsfl., Tíminn, málgagn ráðh. hefur sett fram á undanförnum vikum og mánuðum. Vissulega er það svo, að margt af því efni, sem birst hefur í Tímanum og einnig er að finna í ályktun miðstjórnar Framsfl., er miklu nær því, sem ég tel vera rétta og raunsanna lýsingu á þeim meginvandamálum sem við eigum við að glíma í þessum efnum, en sá texti sem fluttur er í skýrslu hæstv. utanrrh. Það er umhugsunarefni, bæði fyrir ráðh. og Framsfl. og stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., að Morgunblaðið skuli telja sig eiga meiri samleið með málflutningi ráðh. en virðist koma fram í Tímanum. Það hefur þegar verið vikið að því hér, að hæstv. utanrrh. hafi sett fram þá fullyrðingu, að miðstjórn Framsfl. hafi byggt ályktun sína um eitt atriði á misskilningi. Það er mál sem sjálfsagt verður gert upp innan Framsfl. og við kveðum ekki upp úr með hér. En allur sá texti, sem birst hefur landsmönnum af hálfu flokksins á undanförnum vikum, á sama tíma og þessir atburðir hafa verið að gerast, gefur vissulega tilefni til þess, að við hér,en sérstaklega sagnfræðingar framtíðarinnar, veltum því fyrir okkur hver hafi misskilið hvern, hvort hæstv. utanrrh. hafi misskilið Framsóknarflokkinn eða Framsóknarflokkurinn misskilið hæstv. utanrrh.