06.04.1982
Sameinað þing: 75. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3699 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

364. mál, utanríkismál 1982

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það eru nú orðnar allmiklar umr. um skýrslu utanrrh. sem maklegt er og eðlilegt. Það hefði verið ástæða fyrir mig að víkja að ýmsu sem hér hefur komið fram, en ég hafði sérstaklega ætlað mér að ræða hér einn þátt, sem varðar okkar utanríkismál, og kem nánar að því. En ég get ekki orða bundist yfir ræðu hv. 11. þm. Reykv. Hann kom víða við, þó að hann væri aðallega í kjarnorkumálunum. Hann dæmdi ýmsa menn hart. Þar var greinilega í heiðurssæti formaður Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv. En það var einnig augljóst að annar maður var ekki miklu betri, og það var hæstv. utanrrh. Það mátti ekki ætla annað af tali hv. 11. þm. Reykv. en að hæstv. utanrrh. væri dyggur stuðningsmaður hv. 1. þm. Reykv. Enginn getur staðið óstuddur, ekki heldur utanrrh. Við vitum að það er ríkisstj. sem styður hæstv. utanrrh. enda er hæstv. utanrrh. hluti af ríkisstj. Og svo er ríkisstj. studd. Þar er nú ekki það þýðingarminnsta, að hv. 11. þm. Reykv. styður ríkisstj. af alefli. Ríkisstj. mundi ekki lifa ef eitthvert lát væri á þeim stuðningi. Ef málið er rakið virðist þannig nú hv. 11. þm. Reykv. fyrst og fremst hafa verið að húðstrýkja sjálfan sig í öllum þeim árásum sem hann hélt uppi í sinni ræðu. Það er heldur ekkert lítið ámælisvert sem hv. þm. hafði fram að færa á hendur ríkisstj. Það mátti ekki annað ætla af því, sem hv. þm. sagði, en ríkisstjórn Íslands væri í vitorði eða a.m.k. væri kunnugt um þær fyrirætlanir Bandaríkjamanna að gera hafsvæðið umhverfis Ísland að því skelfilegasta víghreiðri kjarnorku sem fyrirfyndist á jarðkringlu okkar.

Það var eðlilegt að hv. 11. þm. Reykv. fyndi sig nokkuð óöruggan í þessari stöðu, enda kom á daginn að hann var eins og drukknandi maður, þegar hann greip í bjarghring sem hann taldi vera, þar sem var formaður Alþfl. Það mun nú sýna sig hvort þetta flotholt Ólafs Ragnars Grímssonar verður að því gagni sem hann hyggur að verði.

Ég ætla ekki hér, eins og tíma mínum er háttað og tíma allra þm. svo seint á þessum fundi, að fara nánar út í þessi mál, en sný mér að því sem ég vildi gera að mínu höfuðumtalsefni. Það er þáttur Evrópuráðsins og starfsemi þess sem viðkemur okkur að sjálfsögðu, þar sem við erum eins og kunnugt er aðilar að Evrópuráðinu. Þykir mér þá rétt að ræða sérstaklega í þessum umræðum um 33. þing Evrópuráðsins, sem haldið hefur verið frá því að umræða fór fram um síðustu skýrslu utanrrh. um utanríkismál.

Evrópuráðið er pólitísk stofnun, sem er fyrst og fremst samansett af ráðherranefnd, sem er fulltrúi ríkisstjórnanna, og þingi, sem er fulltrúi þjóðþinga aðildarríkjanna. Tengslum milli þessara tveggja stofnana er haldið uppi af svokallaðri sameinaðri nefnd sem fulltrúar beggja eiga sæti í. Aðalframkvæmdastjórinn og starfslið hans þjónar svo þessum aðilum. Þing Evrópuráðsins er ráðgefandi þing og hefur ekki löggjafarvald. Þingið skipa 170 fulltrúar.

Gert er ráð fyrir reglulegu þinghaldi á hverju ári og er því skipt í þrjá hluta: að vori, hausti og vetri. Með þessu móti getur þingið fylgst betur með breytingum á sviði alþjóðamála. Þingið lætur til sín taka hin margvíslegustu mál, svo sem pólitísk, efnahagsleg, félagsleg, menningarleg, að undanskildum hermálum. Málin hafa áður verið undirbúin af þingnefndum og eru afgreidd í formi tillagna til ráðherranefndar, ályktana, fyrirmæla og álitsgerða.

Í skýrslu utanrrh., sem hér er á dagskrá, er fjallað um starfsemi Evrópuráðsins að því er varðar ráðherranefndina. Við fulltrúar Íslands á þingi Evrópuráðsins höfum hins vegar lagt fram skýrslu um störf þingsins. 33. þing Evrópuráðsins var venju samkv. skipt í þrjá hluta. Var fyrsti hlutinn haldinn 11.–15. maí 1981, annar hlutinn 30. sept. til 8. okt. 1981 og þriðji hlutinn 25.–29. jan. 1982. Þingfundir eru ávallt haldnir í aðalstöðvum Evrópuráðsins í Strasbourg.

Umræður á 33. þinginu snerust einkum um ástandið í Tyrklandi. Hér hefur Tyrkland borið á góma í þessum umr. svo að það er ekki ástæðulaust að víkja að því sem gerðist á þingi Evrópuráðsins. Miklum tíma var varið í þær umræður á fyrsta hluta þings Evrópuráðsins í maímánuði 1981 og á þriðja hluta þingsins í janúarmánuði s.l. Aðaluppistaðan í umræðunum var áframhaldandi vera Tyrklands í Evrópuráðinu og hvort leyfa ætti fyrrum þingmönnum í sendinefnd Tyrklands á Evrópuþingi setu á 33. þinginu. Hvort tveggja varð tilefni deilna þingmanna í milli og urðu langar umræður um þessi atriði.

Málalyktir fengust svo á síðasta hluta þingsins í janúarmánuði s.l. með því að samþykkt var með yfirgnæfandi meiri hluta ályktun þar sem því er beint til ríkisstjórna, að athugaðir verði möguleikar á að ríkisstjórn Tyrklands verði kærð fyrir mannréttindanefnd Evrópuráðsins vegna brota á mannréttindayfirlýsingunni. Í ályktuninni lýsir þingið m.a. yfir þungum áhyggjum vegna frétta um pyntingar og illa meðferð fanga.

Í fyrra samþykkti 32. þingið ályktun sem m.a. kvað á um að kjörbréf tyrknesku fulltrúanna rynnu út 11. maí 1981 og að ekki mundi verða um þátttöku Tyrkja að ræða í þingi Evrópuráðsins ef kosningar hefðu ekki farið fram í landinu fyrir þann tíma. Þó svo að kosningar hefðu ekki farið fram ræddu ýmsir þingmenn um þann möguleika, að tyrkneskum fyrrverandi þingmönnum skyldi verða gefinn kostur á að sitja á Evrópuráðsþinginu og greiða þar atkvæði. Meiri hlutinn var þó á þeirri skoðun, að slíkt stríddi berlega gegn stofnskrá Evrópuráðsins og þingsköpum þess.

Maífundurinn samþykkti að seta fyrrum tyrkneskra þingfulltrúa á þingi Evrópuráðsins gangi í berhögg við reglur Evrópuráðsins. Þetta var samþykkt með 51 atkv. gegn 48, en 10 sátu hjá. Alllíflegar umræður urðu um pólitíska stöðu mála í Tyrklandi. Stjórnmálanefnd þingsins gat ekki komið sér saman um texta sem leggja ætti fyrir þingið. Talsmaður nefndarinnar, Austurríkismaðurinn Ludwig Steiner, hafði skilað skýrslu eftir könnunarferð til Tyrklands, en nefndinni tókst ekki að ná samkomulagi um að leggja skýrsluna fyrir þingið. Skýrsla þessi var því lögð fram í nafni Steiners svo og drög að samþykkt. Fram komu um 10 breytingartillögur og viðaukatillögur við texta þann er Steiner hafði lagt fram í eigin nafni. Í fyrirmælunum, sem loks voru samþykkt, var minnt á nauðsyn þess að hætt yrði pyntingum og illri meðferð á föngum í Tyrklandi svo og að reglur yrðu mildaðar er kveða á um 90 daga varðhald án dóms og laga. Með samþykkt þessara fyrirmæla var brottvísun Tyrklands úr Evrópuráðinu slegið á frest.

Litlar umræður urðu um Tyrklandsmálið á haustfundinum, en þó var samþykkt ályktun þar sem á ný er lögð áhersla á að ástandið í Tyrklandi samrýmist ekki stofnskrá Evrópuráðsins.

Í byrjun janúarmánaðar s.l. fór nefnd á vegum stjórnmála- og laganefndar þingsins í könnunarferð til Tyrklands til að reyna að gera sér grein fyrir ástandinu þar. Sú breyting hafði orðið á stjórnmálalegu ástandi í Tyrklandi, að Evren hershöfðingi, forseti Tyrklands, hafði í nýársboðskap til þjóðarinnar gefið upp tímaáætlun um að drög að stjórnarskrá yrðu lögð fyrir þjóðaratkvæði haustið 1982 og að þingkosningar fari fram 1983 eða í síðasta lagi vorið 1984. Ekki fylgdu þó neinar yfirlýsingar um almenn mannréttindi í Tyrklandi.

Miklar umræður urðu um Tyrklandsmálið á janúarfundi Evrópuráðsins. Komu einkum fram þrjú sjónarmið í þeirri umræðu. Fulltrúi breska íhaldsflokksins og ýmsir aðrir fulltrúar hægri flokka héldu því fram, að ekki bæri að einblína á ástandið í Tyrklandi eins og það væri í dag, heldur yrði að bera það saman við ástandið eins og það var fyrir valdaránið 12. sept. 1980. Að því leyti væri ástandið í dag betra en þá, þar eð öryggi íbúanna væri nú tryggt. Viðurkennt var að pyntingar ættu sér stað, en jafnframt minnt á að ekki væri óeðlilegt að herforingjastjórnin þyrfti meira en 18 mánuði til að koma reglu á í Tyrklandi.

Í öðru lagi komu fram sjónarmið sem fulltrúar Grikkja, Portúgala og Spánverja aðhylltust ásamt ítölskum kommúnistum og nokkrum róttækum sósíalistum, þ. á m. hollenskum fulltrúum. Bent var á að traust Evrópuráðsins væri í veði sem mannréttindastofnunar. Bæri því að beina þeim tilmælum til ráðherranefndarinnar að Tyrklandi ætti að víkja úr Evrópuráðinu samkv. 8. gr. stofnskrárinnar. Fyrir fulltrúum Portúgals og Spánar, en þau lönd hafa nýverið öðlast lýðræðislegt stjórnarfar, vakti einnig að gera þeim öflum í ríkjum þessum, er veltu fyrir sér möguleikum á að kollvarpa lýðræðinu, fyllilega ljóst að fyrir slík uppátæki yrði refsað í Evrópuráðinu.

Í þriðja lagi komu svo fram þau sjónarmið, sem einkum Norðurlöndin aðhylltust, að áður en til brottrekstrar kæmi ætti að reyna möguleika Evrópuráðsins á að hraða þróun í átt til lýðræðis í Tyrklandi og væru þeir möguleikar best tryggðir með áframhaldandi aðild Tyrklands að stofnuninni. Meiri hluti þingfulltrúa aðhylltist síðan sjónarmið þessi. Í umræðunum kom fram að með þessu móti héldi Evrópuráðið opnum möguleikum á að hafa áhrif á herforingjastjórnina í Tyrklandi. Samfara þessari hógværu afstöðu gagnvart aðild Tyrklands að Evrópuráðinu kom fram hörð afstaða gegn pyntingum og illri meðfer fanga og mikil gagnrýni á banni við starfsemi stjórnmálaflokka og verkalýðsfélaga. Ýmsir ræðumenn minntu á skýrslur, einkum frá Amnesty International, sem staðhæfu ekki einungis að pyntingar ættu sér stað í Tyrklandi, heldur hefðu þær færst í vöxt. Aðrir minntu á réttarhöldin yfir foringjum verkalýðsfélaganna og bæri því að kæra Tyrkland fyrir mannréttindanefnd Evrópuráðsins.

Stjórnmálanefndin lagði fram skýrslu sem tekin hafði verið saman af austurríska þingmanninum Ludwig Steiner og formanni stjórnmálanefndarinnar, breska þingmanninum Tom Erwin. Með skýrslunni fylgdu drög að ályktun, en við bættust 420 breytingartillögur og viðaukatillögur. Aðeins nokkrar þessara breytingartillagna hlutu meirihlutafylgi á þinginu. Þá hafði einnig verið lögð fram sérstök skýrsla af fulltrúa þýskra sósíaldemókrata, Hans Bardens, fulltrúa í laganefndinni, þar sem fjallað var um ástandið í landinu út frá réttarfarslegu sjónarmiði.

Ályktunin, sem samþykkt var, er mjög umfangsmikil. Í henni kemur m.a. fram að þing Evrópuráðsins liti svo á, að ástandið í Tyrklandi haldi áfram að vera ósamrýmanlegt stofnskrá Evrópuráðsins, en að áframhaldandi vera Tyrklands í Evrópuráðinu geri því kleift og skyldi stofnunina til að fylgjast með því, að lýðræði verði aftur komið á í Tyrklandi og að mannréttindi verði virt. Lýst er ánægju yfir að dregið hafi úr hryðjuverkum í Tyrklandi, en bent er á að samfara þessu hafi ekki enn verið komið á almennum mannréttindum, sem voru takmörkuð eða afnumin, sbr. 15. gr. stofnskrár Evrópuráðsins. Lýst er yfir áhyggjum yfir skýrslum um að pyntingar og slæm meðferð fanga eigi sér enn stað. Harmað er að stjórnmálasamtök eru útilokuð frá þátttöku í störfum hinnar sérstöku ráðgjafarsamkundu sem stofnuð hefur verið til þess að gera drög að stjórnarskrá. Þingið álitur að Evrópuráðið geti ekki — án þess að glata trausti sem mannréttindastofnun — frestað því á ný að taka harða afstöðu gegn núverandi ástandi í Tyrklandi. Fordæmd eru þau mannréttindabrot sem hafa átt sér stað í Tyrklandi, m.a. bann við starfsemi stjórnmálaflokka og verkalýðsfélaga, fangelsanir vegna skoðana, pyntingar og slæm meðferð á pólitískum föngum og réttarhöld þar sem ákærðum er ekki tryggður réttur til málsvarnar.

Þá er athygli ríkisstjórna aðildarríkja Evrópuráðsins beint að 24. gr. stofnskrár Evrópuráðins sem heimilar sérhverju aðildarríki að vísa til mannréttindanefndarinnar sérhverju broti á ákvæðum sáttmálans. Þingið álitur að málsmeðferð, sem gert er ráð fyrir í 24. gr. sáttmálans, eigi að beita í máli Tyrklands til að upplýsa að hve miklu leyti staðhæfingar um pyntingar og önnur mannréttindabrot eigi við rök að styðjast.

Í lok ályktunarinnar er ýmsum tilmælum og áskorunum beint til tyrknesku ríkisstjórnarinnar um að hefja aðgerðir til að tryggja að lýðræði verði komið á í Tyrklandi á ný og að mannréttindi verði virt. Samhliða ályktun þessari voru samþykkt tillaga og fyrirmæli í Tyrklandsmálinu.

Tyrklandsmálið bar langhæst í umfjöllun 33. þings Evrópuráðsins. En eftir setningu herlaga í Póllandi hinn 13. des. s.l. fjallaði þingið að sjálfsögðu á janúarfundinum allítarlega um málefni Póllands og tóku næstum 50 ræðumenn til máls um ástandið í Póllandi. Ýmsir fulltrúar hægri flokkanna héldu því fram, að atburðirnir í Póllandi hefðu átt sér stað vegna þess að vestræn ríki hefðu ekki brugðist nógu harkalega við öðrum útþensluaðgerðum Sovétríkjanna. Sömu aðilar gagnrýndu hina nýgerðu samninga um útflutning á gasi frá Sovétríkjunum til nokkurra Vestur-Evrópuríkja. Ýmsir fulltrúar hægri flokkanna gagnrýndu og undanslátt Vestur-Evrópuríkja varðandi lánakjör og greiðsluskilmála Pólverjum til handa.

Ýmsir þingmenn sósíaldemókrata og sósíalista vöruðu við því að blanda saman Póllandsmálinu og afvopnunarmálunum. Forðast bæri að láta afstöðuna í Póllandsmálinu færa ríki Vestur-Evrópu aftur til tíma kalda stríðsins. Slíkt mundi ekki hjálpa Pólverjum, nema síður væri. Fram kom að mótsagnakennt væri að ýmsir hefðu gagnrýnt setningu herlaga og tilkomu herforingjastjórnarinnar í Póllandi um leið og þessir hinir sömu væru reiðubúnir að samþykkja slíkar aðgerðir í Tyrklandi.

Einnig kom fram sú skoðun, að þróunin í Póllandi bæri ekki vott um veikleika hjá Vesturlöndum, heldur væri hér um að ræða vísbendingu um djúpstæðan klofning innan Varsjárbandalagsins. Margir þingmenn voru þó á því, að þróunin í Póllandi, sem væri til komin vegna beinnar eða óbeinnar íhlutunar Sovétríkjanna, væri brot á Helsinki-samþykktinni. Samstaða var um að afnema bæri herlögin í Póllandi, að hin frjálsu verkalýðsfélög fengju að starfa aftur og að ríkisstjórnin tæki aftur upp viðræður við Samstöðu og kirkjuna. Jafnframt náðist samstaða um að senda bæri Pólverjum matvæli, helst í gegnum óháðar stofnanir.

Fyrir þinginu lá skýrsla frá franska Gaulleistanum Jacques Baumel ásamt drögum að ályktunartillögu. Allmargar breytingartillögur og viðaukatillögur komu fram áður en ályktunin um Pólland var samþykkt með yfirgnæfandi meiri hluta. Nokkrir fulltrúar greiddu atkvæði gegn tillögunni og nokkrir sátu hjá. Þingið fordæmir kröftuglega valdbeitingu pólska hersins sem gerð væri í skjóli hótana um bein afskipti Sovétríkjanna. Þá er harmað að setning herlaganna hinn 13. des. 1981 hefði komið í veg fyrir lýðræðislega þróun sem falið hefði í sér virðingu fyrir almennum mannréttindum. Þá er samstöðu lýst sem verkalýðshreyfingu sem á sér mjög víðtækan stuðning meðal þjóðarinnar og hefur ávallt komið málum sínum fram á friðsamlegan hátt. Þingið álitur að ástandið í Póllandi sé alvarleg hindrun gegn þessari þróun, stríði gegn Helsinki-samþykktinni og sé jafnframt í mótsögn við viðleitni til slökunar spennu.

Þingið álítur að núverandi stjórn í Póllandi sitji þar í óþökk meiri hluta pólsku þjóðarinnar. Lýst er yfir ánægju með skilyrði þau sem sett eru fram af vestrænum ríkjum til að samskipti þeirra við Pólland geti komist í eðlilegt horf, þ. á m. á viðskiptasviðinu, en þau eru afnám herlaganna, að pólitískir fangar verði látnir lausir, að listamenn og rithöfundar geti óheftir látið skoðanir í ljós svo og að komið verði á ný á viðræðum við Samstöðu og kirkjuna.

Þá er lýst yfir stuðningi við þær skoðanir, að aðildarríki Evrópuráðsins eigi að taka Póllandsmálið upp á Madridráðstefnunni og krefjast þar að pólska ríkisstjórnin virði Helsinki-samþykktina. Ítrekuð var nauðsyn þess, að leitað verði nýrra leiða til að bæta sambúð ríkja í Evrópu, og risaveldin væru hvött til að hrinda í framkvæmd samningum um kjarnorkuvopnaafvopnun í Evrópu. Þá er lögð áhersla á að aðildarríki Evrópuráðsins og lýðræðisríki heimsins haldi áfram að láta Pólverjum í té aðstoð, einkum með sendingu matvæla. Jafnframt samþykkti janúarfundurinn fyrirmæli varðandi flóttamenn frá Póllandi.

Af öðrum alþjóðamálum, sem þingið fjallaði um, má nefna samskipti Evrópuráðsríkjanna og Bandaríkjanna, en fyrir þinginu lá skýrsla frá Jacques Baumel um þau mál. Samþykkt var ályktun um samband Evrópuráðsins og Norður-Ameríku, þar sem m.a. kemur fram að hvorki Evrópuríki né ríki Norður-Ameríku geti séð fram úr vanda þessa áratugar upp á sitt eindæmi. Þá er því haldið fram, að öryggi Evrópu sé stefnt í voða meðan ekki takist að efla traust austurs og vesturs á Madridráðstefnunni um öryggi og samvinnu. Enn fremur er vonast eftir að viðræður Sovétríkjanna og Bandaríkjanna um meðaldrægar kjarnaflaugar í Evrópu beri árangur.

Samþykktar voru tvær ályktanir um Madrid-ráðstefnuna.

Claude Dejardm, þingmaður belgískra sósíalista, fylgdi úr hlaði skýrslu stjórnmálanefndarinnar um ofsóknirnar í Íran. Samþykkt var mótatkvæðalaust ályktun þar sem það er m.a. harmað, hve aðildarríki Evrópuráðsins geti lítil áhrif haft á ráðamenn í Íran í þessum málum. Lýst er yfir samstöðu með þeim aðilum í Íran, þar á meðal Baháí-trúarsöfnuðinum, sem verða fyrir óréttlátum ofsóknum. Þá eru ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins hvattar til að nota hvert tækifæri er býðst til að sannfæra ríkisstjórn Írans um nauðsyn þess að alþjóðlegar samþykktir, sem Íran er aðili að, séu í heiðri hafðar.

Herra forseti. Ég hef hér vikið nokkuð að þeim alþjóðamálum, sem síðasta þing Evrópuráðsins lét til sin taka, einkum Tyrklandsmálunum og Póllandsmálunum. Þingið lét til sín taka að venju fjölmörg mál, svo sem efnahagsmál, félags- og heilbrigðismál, vísinda-, tækni- og umhverfismál, landbúnaðarmál, löggjafarmál og málefni flóttamanna, svo að eitthvað sé nefnt. Ég ætla mér ekki að fara að ræða öll þessi mál í þessum umr., en leyfi mér að vísa til þskj. 560, þar sem er að finna skýrslu fulltrúa Íslands á 33. þingi Evrópuráðsins frá maí 1981 til jan. 1982.