04.11.1981
Neðri deild: 9. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (322)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. þdm. sýna umr. um atvinnumál þjóðarinnar ekki mikinn áhuga, það eru mættir um 8 þm. af 40 í deildinni. Ég hefði haldið að við slíkar aðstæður sem hér eru nú hefðu þm. áhuga á að ræða þessi mál, og þeir, sem ekki hafa áhuga á að ræða þau, gætu þá a. m. k. hlýtt á. Ég hefði líka búist við því, þar sem 10 menn eru í ríkisstj., að það væru hér meira en 10% af ráðherrunum. Sem sagt, það er sjútvrh. einn sem mætir til fundar í þd. Hæstv. forsrh., sem ég hefði talið að ætti töluvert erindi í þessar umr., sést ekki enn þá. Ég vil fara þess á leit við hæstv, forseta þessarar virðulegu deildar, að óskað væri eftir að ráðh. í ríkisstj. tækju þátt í þessum umr. og hlýddu hér á mál manna. (Forseti: Það er verið að gera tilraun til að finna ráðh. í húsinu.) Svo er líka gaman að reyna að finna einhvern Alþb.-mann, því að hér er enginn, og þetta er nú forustuflokkur í ríkisstj. að hann telur sjálfur. Ég held að ég láti það bíða ef þessir menn eru að taka saman uppi í stjórnarráði og eru að hætta, — það hefði ekki gert mikið til þó að þeir hefðu gert það eitthvað fyrr.

Mér finnst rétt að ég hefji mál mitt um þetta á þann veg, að þjóðin á kröfu til þess, að kjörnir þm. reyni að segja þjóðinni umbúðalaust sannleikann og láti þjóðina vita hvernig þeir líti á ástandið. Ég held að það sé engin ástæða fyrir þá, sem ráða eða telja sig ráða á hverjum tíma, að draga upp alranga mynd af ástandinu, einhvers konar glansmynd, eins og því miður ber mikið á. Það er heldur ekki ástæða til þess fyrir stjórnarandstöðu á hverjum tíma að reyna að mála hlutina dekkri litum en í raun og veru er þörf á. Við eigum að líta á þessi mál frá því sjónarhorni og af þeirri þekkingu sem við höfum og segja þjóðinni frá því umbúðalaust, hvernig málum er háttað.

Mér finnst hörmulegt til þess að vita, að þegar hæstv. forsrh. flutti áramótaræðu sína að kvöldi gamlársdags, þá sagði hann m. a.: „Að undanförnu hefur ríkisstj. reynt að búa þannig um hnútana, að útflutningsatvinnuvegir geti lifað og dafnað við stöðugt gengi. Nú í árslok hefur það gerst í fyrsta sinn um alllangt skeið, að allar greinar fiskvinnslunnar hafa jákvæða afkomu. Frystiiðnaðurinn, sem átt hefur á þessu ári“ — sem sagt árinu 1980 — „í alvarlegum erfiðleikum, hefur nú að mati Þjóðhagsstofnunar 3.5% í afgang.“ Og hann bætti við: „En ákvörðun fiskverðs er fram undan.“

M. ö. o.: á gamlárskvöld var afkoma útflutningsatvinnuveganna jákvæð og hafði 3.5% í afgang, en fiskverðsákvörðun lá ekki fyrir. Nú segir hæstv. sjútvrh. að það þurfi að koma rekstrargrundvelli atvinnuveganna upp fyrir núllið fyrir næstu áramót. M. ö. o. viðurkennir hann — sem er satt og rétt hjá honum — að atvinnuvegirnir séu reknir með halla. En við erum nýlega búnir að hlusta á stefnuræðu hæstv. forsrh., sem hann flutti 22. okt., þar sem hann heldur áfram að tala um hvað ástandið sé gott í þjóðfélaginu, í atvinnumálum, í efnahagsmálum og peningamálum almennt. Þar er haldið áfram að viðhalda þeirri glansmynd sem var borin á borð fyrir þjóðina á gamlárskvöld. Hann segir í stefnuræðu sinni: „Gengi íslensku krónunnar hefur ekki verið jafnstöðugt um langt árabil. Á hinn bóginn hefur gengi gjaldmiðla helstu viðskiptaþjóða okkar breyst mjög innbyrðis á þessu ári. Þetta hefur valdið nokkrum erfiðleikum í ýmsum atvinnugreinum, en hefur um leið verið búhnykkur fyrir aðrar atvinnugreinar. Þessi misjafna gengisþróun erlendra gjaldmiðla er algerlega af erlendum toga“ — m. ö. o. kemur okkur ekkert við, bókstaflega ekki neitt. Það er allt í lagi. Og hann segir: „Ríkisstj. stefnir áfram að stöðugu gengi íslensku krónunnar.“ Berið þetta nú saman við ræðu hæstv. sjútvrh. áðan. Hann var þó ólíkt nær raunveruleikanum. Hann talaði ekki um að gengið væri stöðugt og að hægt væri að standa á stöðugu gengi. Hann fór að vísu nokkra hringi, hann er fimleikamaður góður. Í ræðu hans voru góðir punktar og nokkur tilþrif, en svo komu aftur afleitir kaflar á milli, þar sem hann dró úr því sem hann áður hafði sagt, og oftast nær gerði hann það mjög átakanlega ef hann hafði eitthvað skynsamlegt lagt til málanna. Þess vegna var ræða hans í heild engan veginn nógu góð vegna þessara sífelldu leikfimiæfinga sem hann gerir oft töluvert af að stunda.

Hvernig lýsti núv. ríkisstj. ástandinu í atvinnumálum eða í sjávarútvegi 22. okt.? Ég held að það megi leita lengi að öðrum eins snillingi, sem lýsir í tveimur örstuttum setningum afkomu sjávarútvegsins eins og hæstv. forsrh. gerði í stefnuræðunni 22. okt. Hann segir orðrétt: „Verkun saltfisks og skreiðar er rekin með verulegum hagnaði.“ Svo kemur önnur setning: „Afkoma frystingar er lakari.“

Ég held að það hefðu fáir klárað sig af því að draga upp glansmynd af ástandinu í atvinnumálum, í höfuðatvinnuvegi landsmanna í færri orðum en hæstv. forsrh. gerði í þessari stefnuræðu. En hann er ekki einn um þessa stefnuræðu. Þetta er stefnuræða ríkisstj., þessara 10 ráðh. Það eru þeir um leið sem eru að lýsa yfir hvað allt sé gott og fágað — og þar með sjútvrh. En núna er 4. nóv. og þá er komið annað hljóð hjá karli.

Hvað sagði þessi sama ríkisstj. 31. des.? Þá sagði hún að útgerð og fiskvinnslu yrði gert kleift að breyta skammtímalánum og lausaskuldum í lengri lán. Nú segir sjútvrh. að „kommissar“ Hermannsson sé ekki búinn að þessu, þeir komi ekkert nálægt þessu, hann eigi að gera þetta.

Í öðru lági segir þessi sama ríkisstj. á gamlársdag: „Verðjöfnunarsjóði sjávarútvegsins skal útvegað fjármagn til þess að tryggja eðlilega afkomu fiskvinnslunnar, ef þörf krefur vegna stöðvunar gengissigs“ — sem var ákveðin um áramót. Hvernig hefur það tekist? Verðjöfnunarsjóðurinn er tómur. (Gripið fram í: Hann hefur þá verið það fyrr.) Nei það voru ýmsar deildir hans sem voru vel fjáðar, en frystideildin var tóm og er búin að vera það í mörg ár, frá tímum fyrri vinstri stjórnarinnar vegna þess að hún kippti grundvellinum undan frystingunni á árunum 1972–1973. Ég gæti kennt formanni Verkamannasambandsins ýmislegt, ef ég tæki hann í tíma, svo að hann yrði miklu betri og meiri maður á eftir.

Hér er sagt: „Vaxtakerfið verði endurskoðað í heild með einföldun fyrir augum og dregið verði úr þörfum fyrir vaxtamismun með hækkun á þjónustugjöldum banka og sparisjóða.“ Svo kemur blessaður hæstv. sjútvrh. hér áðan og segir að þessi þjónustugjöld séu orðin alveg óbærileg og hann vinni nú að því, að þessu verði breytt. Þetta var ákvörðun hans sjálfs og þeirra 9 hinna á gamlársdag, að hækka þjónustugjöld banka og sparisjóða, og þeir hafa dyggilega farið eftir því síðan. En nú segir hann: Við verðum að draga úr þessu öllu, enda er kominn nóvember og við erum að athuga þetta og við erum að athuga hitt.

Forsrh. er mjög oft búinn að tala um það, hvað hann legði mikla áherslu á að þessi ríkisstj. hefði lækkað vextina. (Gripið fram í.) Ríkisstj. lækkaði víxilvextina, en bankarnir hættu að lána víxla. Og hann segir í stefnuræðunni: „Tekist hefur að verðtryggja flestar tegundir inn- og útlána á þessu ári, þrátt fyrir það að vextir hafi tvívegis verið lækkaðir á árinu. Vextir og verðbólga hafa þannig náð saman með hjöðnun verðbólgu, en ekki með vaxtahækkunum. Almenningur getur nú lagt fé sitt fyrir án ótta við rýrnun þess af völdum verðbólgu.“ Vextirnir lækka, segir hann, og almenningur stóreykur innlög sín í banka og sparisjóði. Hvernig getur þetta átt sér stað? Eru vextir og verðtrygging lána ekki nákvæmlega það sama? Ef maður tekur lán segir maður ekki: Ég borga ekki nema 2% vexti, en 50–60% verðtryggingu eða aukaþóknun til bankanna. — Við tökum allan kostnaðinn við lántökuna. Það er alveg sama hvað það er kallað, hvað af þessu er sérstök þóknun til bankanna, verðtrygging eða vextir. Það er þessi heildarkostnaður sem um er að ræða, og þegar við lítum á hann hefur hann hækkað en ekki lækkað. Og hvað eru svo þessir menn alltaf að ráðast á kratana fyrir hávaxtastefnu þeirra? Ég sé ekki annað en þeir séu búnir að hlaupa fram úr krötunum, þeir hafi ekkert við þeim í hávaxtastefnu sinni. Kratarnir eru lafmóðir á eftir þeim og komast aldrei með tærnar þar sem þeir hafa hælana í hávaxtastefnunni. Þetta er alveg óþarfi að vera að reyna — það sér hver meðalhálfviti í gegnum svo einfalda hluti sem þessa.

Við skulum svo líta á hvernig ríkisstj. stendur sig í því að fjármagna atvinnulánasjóðina. Hér var afgreidd snemma á þessu ári lánsfjáráætlun ríkisstj. og m. a. ákveðið fjármagn til atvinnulánasjóðanna. Hvernig stendur það dæmi nú, 4. nóv.? Það vantar enn þá um 8000 millj. gkr. til þess að fjármagna atvinnulánasjóðina. Svona er vel staðið í stöðu sinni. Svo draga þessir menn bara poka fyrir andlitið og segja að allt sé í lagi. Svo leggja þeir nú fram till. að nýrri lánsfjáráætlun og þar er ákveðið að hækka kaupskyldu lífeyrissjóðanna á skuldabréfum opinberra sjóða og fjárfestingarsjóða úr 40 í 45% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa mótmælt þessu. Fyrri ríkisstj. hafa reynt að leita samkomulags við lífeyrissjóðina í þessum efnum en ekki hækkað skylduna með þessum hætti: Lífeyrissjóðirnir benda á það, að með þessu verði frjáls ráðstöfunarréttur fólksins í lífeyrissjóðunum á fjármagni sjóðanna enn þá skertur og lánin til sjóðsfélaga skerðist sem nemur um 8.3%. Það er ekki lítil skerðing. Einhvern tíma hefði Verkamannasambandið látið frá sér heyra meðan það var lifandi. En það er ekki að búast við að dauðir fuglar fljúgi.

Samband lífeyrissjóða bendir á að yfir 90% af lánveitingum lífeyrissjóðanna renni til kaupa eða viðhalds á húsnæði. Fjármagn til íbúðaframkvæmda eykst því ekkert við þessa ráðstöfun, heldur er eingöngu um tilfærslu að ræða frá frjálsri ráðstöfun sjóðsfélaga á fjármagni sjóðanna til aukinnar miðstýringar. Þetta er hægt þegar öreigastjórn er við völd á Íslandi. Þá er ekki verið að spyrja verkalýðssamtökin eða launþegasamtökin. Nei, þá skal auka þessa skyldu með þessum hætti. Hefði ekki verið sæmra fyrir ríkisstj. að standa sig betur og fjármagna atvinnulánasjóðina á þessu ári með frjálsum samningum við lífeyrissjóðina? Nei, það var ekki gert, með þessum árangri sem ég sagði áðan. Það vantar um 8000 gamlar millj. enn, þótt komið sé fram í næstsíðasta mánuð þessa árs.

Það er sagt að það sé alveg nóg fjármagn í bönkunum, þeir geti lánað. Á sama tíma þarf alltaf að vera að skerða útlán bankanna. Þeir hafa þá sífellt minna til þess að lána. Á þeim hvílir auðvitað sú skylda að fjármagna atvinnuvegina til þess að atvinnulífið geti snúist með eðlilegum hætti. Við vitum að í bankakerfinu eru bráðabirgðainnstæður lífeyrissjóða sem þráast við að lána atvinnulánasjóðunum. Ekki veit ég hvað það eru háar upphæðir, en sjóðsstjórnirnar vilja hafa það fjármagn þann veg að þær geti sótt það með engum fyrirvara ef á þarf að halda. Þetta vita þessir menn, og það hefði átt að vinna að því að „konvertera“ lánum, vinna að því að skapa atvinnuvegunum rekstrargrundvöll. Og að öllu þessu er unnið, þó að sagt hafi verið að þetta hafi allt legið fyrir á gamlársdag, en sjútvrh. viðurkennir nú í sinni ræðu í dag hvernig þetta ástand er.

Ég spyr: Er það réttlæti við fiskverðsákvörðun að láta sjómenn og útvegsmenn eina fá minni hækkun en allir aðrir hafa fengið í þjóðfélaginu? Mér er það alveg ljóst — ég vil ekki vera ósanngjarn við hæstv. ríkisstj. — að þegar þarf að gera ráðstafanir verða þær einhvers staðar að koma við. En þá verða þær að koma nokkurn veginn jafnt við alla og þá sérstaklega þá sem mest mega sin. Ég tel aftur á móti ranglátt að sjómenn og útvegsmenn eigi að fá minni hækkun á sínum tekjum en allir aðrir. Fyrst fáum við allir 9% hækkun frá 1. sept., en síðan er í lok október ákveðin 5% hækkun á fiskverði. Þarna er verið að ganga á rétt þessarar einu stéttar. Sagt er að öreigaflokkurinn í ríkisstj. hafi ekki viljað hækka neitt við hana. (Gripið fram í: Hver er öreigaflokkurinn?) Alþb., þegar það er í stjórnarandstöðu.

En hvernig á svo að vinna að þessum málum fyrir atvinnuvegina? Jú, það á að taka einn og einn út úr, eins og hefur verið gert, og einhverjir ákveðnir sjóðir eiga að lána. Það er verið að taka út aðila eins og Hraðfrystihús Keflavíkur. Það er verið að nefna hér nokkur önnur fyrirtæki. Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Hvaða inntökuskilyrði eru sett fyrir því, að fyrirtækin séu tekin í svokallaðan bráðabanaklúbb atvinnuveganna? Það hljóta að vera einhverjar reglur um inntökuskilyrði á meðan eiginfjármagn allra annarra brennur á báli verðbólgunnar.

Ég er algerlega á móti því að taka þetta með þessum hætti. Það verður að gera hér sameiginlegar heildarráðstafanir. Það er ekki hægt í öðru orðinu að draga úr framlögum til Byggðasjóðs og segja svo: Þessi sjóður á að lána öllum allt. Sjútvrh. sagði: Við Ragnar Arnalds erum búnir að fá 10 millj. að láni í Seðlabankanum fyrir ykkur þarna í Byggðasjóði og „kommissar“ Sverrir Hermannsson hefur ekki enn þá lokið við að ausa þessu út. Og sjútvrh. sagði: Mér er ljóst að hér verður að koma mun hærri upphæð. En ég spyr: Hver á að borga þetta aftur þegar meginhlutinn af þessu fjármagni fer til fyrirtækja sem aldrei koma til með að borga það aftur? Þá verður sagt eftir eitt eða tvö ár: Það voru meiri fíflin, þessir menn í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins. Þeir taka lán með óskaplega óhagstæðum kjörum, verðtryggð lán, lána þetta hinum og þessum sem ekkert geta borgað. Þeir eru búnir að setja Byggðasjóð á hausinn og gersamlega að eyða því fjármagni sem þar var til. Þetta verður það sem þeir menn fá. Þessi sjóður er engan veginn þess umkominn að taka stór lán og lána með þessum hætti.

En það skal ég segja hæstv. sjútvrh. út af því sem hann sagði um nýjustu togarana, að það væri eðlilegt að Fiskveiðasjóður afskrifaði hluta af lánunum, að ekki mun standa á mér í stjórn Framkvæmdastofnunar — og þar með í stjórn Byggðasjóðs — að afskrifa að okkar leyti hluta í þessum skipum, enda hefur það verið margrætt. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir stjórnarmenn eru á þessu, hann þarf engar áhyggjur að hafa af því, það verður vafalaust gert. Hinu þætti mér gott að skýrt væri frá, á hvern hátt Fiskveiðasjóður ætlar að afskrifa hluta þessara lána, hvað mikið af hverju láni og hvað heildarupphæðin, sem sjóðsstjórnin hefur ákveðið að afskrifa, er hár hundraðshluti af þeim lánum, sem hvíla á þessum skipum, upphæðin sem þessi afskrift kemur til með að ná til.

Það var komið inn á það hér áðan, að halli atvinnuveganna hafi verið mikill á árinu 1974. En hvað gerðist þá? Þá varð verðfall á flestum erlendum mörkuðum. Þessi hallarekstur stóð allt árið 1975 og fyrstu mánuði ársins 1976. Það var ekki við að búast öðru en atvinnureksturinn væri á þessu tímabili í miklum vanda. Nú er því ekki til að dreifa, eins og við vitum. Það hefur ekki orðið neitt verðfall á neinum afurðum, eins og af er látið. Þjóðir, sem kaupa af okkur, Evrópuþjóðirnar, sem kaupa af okkur í dollurum, miða auðvitað við sína eigin mynt. Breytingin hefur ekki orðið ýkjamikil að öðru leyti en því, að það hafa ekki orðið hækkanir til jafns við verðbólguna í okkar landi. Það er það sem skapar erfiðleikana.

Ég sá í Þjóðviljanum, eftir að ég ræddi hér um daginn um sjávarútvegsmál í hv. þd., að blaðamaðurinn segir að ég hafi heimtað gengislækkun. Það er alger misskilningur. Það gerði ég aldrei og geri ekki enn þá.

Ríkisstj. segir að hún hafi gert ráðstafanir, sem hafi styrkt stöðu atvinnuveganna þannig að ekki þurfi að beita gengissigi, eins og þeir sögðu um áramót. Sjútvrh. viðurkennir réttilega að staða sjávarútvegs — og ég tala nú ekki um útflutningsiðnaðar- er með þeim hætti, að tilkostnaður við framleiðsluna er miklu meiri en þessar atvinnugreinar þola. Hvers vegna er staða þeirra með þeim hætti? Á meðan ekki eru gerðar aðrar ráðstafanir er auðvitað fyrirsjáanlegt að gengislækkun er orðin. Hún er búin að vera borðleggjandi nú um þó nokkurn tíma. Gengislækkun er engin björgun, hefur aldrei verið og verður ekki. En þegar hún hefur átt sér stað verður hún óumflýjanleg til þess að hjól atvinnuveganna geti snúist, hvort sem við viljum gengislækkun eða ekki. Menn þurfa bara að hafa þrek og heiðarleika til að viðurkenna það sem hefur misfarist, að atvinnuvegirnir geta ekki gengið lengur með þessum hætti. Og þá er ekki um neitt annað að ræða, fyrst önnur úrræði eru ekki til, en að játa staðreyndir.

Það er alger misskilningur að ætla sér að fela sig á bak við Seðlabankann í þessum efnum. Seðlabankinn ber aldrei tillögur sínar á torg fyrir fjölmiðla eða aðra þjóðfélagsþegna um það, að hann telji gengislækkun óumflýjanlega. Seðlabankinn ræðir við ríkisstj. um hvernig ástand og horfur eru í gjaldeyrismálum og hjá atvinnuvegunum. Hann heldur sínum skoðunum alveg innan sinnar stofnunar, en skýrir ríkisstj. frá þeim á hverjum tíma. Seðlabankinn gerir ekki till. um breytt gengi nema ríkisstj. á hverjum tíma hafi samþykkt að breyta gengi krónunnar. Þetta vitum við og þýðir ekki að segja — hvorki einum né öðrum — annað. Þetta er satt og rétt. Við vitum að í ríkisstj. eru annars vegar menn sem neita að játa staðreyndir, menn sem vilja mjög gjarnan að atvinnulífið og sérstaklega einkareksturinn gangi sér til húðar og eigur þeirra, sem hafa staðið undir einkarekstrinum árum og áratugum saman, brenni upp á þeim rekstrargrundvelli sem nú er. Það þykir þessum piltum mörgum hverjum gott. Menn vita við hverja ég á þegar ég segi þetta. Ég á við kommúnista.

Hins vegar eru svo menn í ríkisstj. sem gera sér ljóst hvernig málum er komið. Ég mundi ekki deginum lengur sitja í stól sjútvrh. í ríkisstj. sem mánuðum saman neitar að játa staðreyndir, sem stingur hausnum í sandinn eins og strúturinn og sér ekki hvað er að gerast í kringum sig. Með slíkum mönnum er ekki hægt að vinna. Það skilja allir. Og ég held að það sé ekki svo gaman að vera ráðh. að menn geti vikum og mánuðum saman haldið þessum leik áfram. Svo koma þessir menn, eins og hæstv. félmrh. bæði um daginn og oftar, og segja: Það er nóg atvinna í þessu landi, það er mikið hér af erlendu vinnuafli. –Hann talar aftur minna um hve mikið er af vinnuafli Íslendinga erlendis. Látum það nú vera. Þetta er rétt að vissu marki, en bara að vissu marki.

Sú breyting, sem orðin er á vinnutilhögun víða, hefur dregið úr atvinnutekjum fólks. Ég veit um heil byggðarlög þar sem tekjur einstaklinganna, tekjur verkamanna og sjómanna, hafa ekki hækkað að krónutölu á milli áranna 1980 og 1981 vegna þess að það hefur dregið svo mikið úr bæði nætur- og eftirvinnu. Og það er annað sem hefur skeð og hefur líka gífurleg áhrif, að með breyttri verkun, með því að minnka framleiðsluna í frystingu, fara meira í skreiðarverkun og lítillega í saltfisksverkun, hefur dregið úr bónustekjum þessa fólks. Þetta hefur dregið verulega úr þessari atvinnu, ekki eingöngu í þessu eina kauptúni sem ég er með í huga, heldur mjög víða annars staðar. En þetta er misjafnt eftir því hvar er á landinu, eins og allir vita.

Á Austfjörðum er mikil spenna víðast hvar núna í atvinnumálum. Á Vestfjörðum og Norðurlandi hefur þetta farið versnandi. Reykjavíkursvæðið er engan veginn nógu gott. Suðvesturlandið hefur aftur verið lánsamt á þessu ári.

Ef við litum yfir afkomu útgerðar, þá er alveg rétt að bátaútgerðin hefur haft nokkuð góða afkomu á þessu ári, þ. e. allur eldri flotinn sem er ekki með miklar skuldir. En hvenær ætti útgerð að hafa góða afkomu ef það er ekki þegar afli er mikill, eins og hann hefur víðast hvar verið á þessu ári? Svo komum við aftur að dýrari skipunum, þessum fáu dýru bátum. Þar er afkoman auðvitað allt önnur og sömuleiðis hjá togurunum. Þar hefur afkoman hríðversnað. Nýju togararnir eru reknir með svo gífurlegum halla að það fær enginn við það ráðið. Mér er alveg ljóst, að ekki þessi ríkisstj. og engin önnur ríkisstj. getur skapað atvinnuvegunum þann grundvöll að dýrustu skipin fái rekstrargrundvöll svo að þau geti borið sig. Því er um að gera að byggja rekstrargrundvöllinn á meðaltalinu, fá hann upp fyrir núllið, eins og sjútvrh. sagði að væri nú stefnt að fyrir áramótin. En forsrh. var aftur með 3.5% í hagnað á gamlársdag og búið að treysta grundvöllinn undir atvinnulífinu. — Þetta er nauðsynlegt að gera. En jafnhliða þessu þýðir ekki að fara fram á það við opinbera sjóði, að þeir láni til skipabygginga. Það er enginn grundvöllur til að fá þau lán aftur borguð. Þess vegna verður að greiða beint ef halda á uppi þessum mikilvæga iðnaði. Þá verður að greiða strax til lækkunar beint frá samfélaginu vegna þessara skipabygginga. Annað er algerlega útilokað eins og hver maður veit og skilur.

Hæstv. sjútvrh. nefndi hér áðan skýrsluna um 19 togara úrtakið, sem send var til okkar stjórnarmanna í Framkvæmdastofnun. Ég er honum alveg sammála um að það á ekki að senda þessa skýrslu þannig að hún verði opinbert plagg. Það getur verið hættulegt fyrir þessi atvinnufyrirtæki að lenda þannig á milli tannanna á öllum. Þeir, sem hafa áhuga á að túlka það með mismunandi hætti, gætu skaðað enn meira þessi fyrirtæki. En hitt held ég að hæstv. ráðh. ætti að athuga, hvort ekki væri rétt að senda þm. þetta sem trúnaðarmál. Það er þingmanna að fara með það þannig að þm. geri sér grein fyrir því, hvað hér er um gífurlegar upphæðir að ræða.

Ég held að ég brjóti engan trúnað þó að ég segi að togari, sem er nú í smíðum og afhentur verður í lok fyrsta ársfjórðungs næsta árs eða jafnvel fyrr, þurfi til þess að geta staðið við sínar skuldbindingar, greiðslu vaxta og afborgana, að fiska um 16500 tonn. Og hverjum dettur það í hug? Við vitum að það er glórulaust. Nú segja margir: Er ekki hægt nú eins og áður að treysta á það, að blessuð verðbólgan komi til hjálpar? — Það hafa á öllum tímum verið smíðuð eða keypt til landsins dýr skip og þau hafa náð sér á strik eftir nokkur ár, þegar verðbólgan hefur komið til hjálpar. En á þessu hefur auðvitað orðið geigvænleg breyting á síðari árum. Eftir að verðtrygging var tekin upp minnka ekki skuldirnar, heldur vaxa þær með verðbólgunni. Samhliða þessu hafa þessi nýju skip allt aðra stöðu en áður var. Þá fengust á þessi skip miklir aflamenn sem fiskuðu jafnvel betur en flestir aðrir. En nú er beitt og hefur verið beitt á undanförnum árum, eins og við vitum, og verður vafalaust beitt um mörg ókomin ár aflatakmörkunum í stórum stíl. Það er þess vegna útilokað, að þessi skip geti nokkurn tíma verið rekin án halla nema þau verði greidd niður. Þetta er sú geigvænlega breyting sem orðið hefur á síðari árum. Við skulum ekki vera að gera okkur mikla rellu út af því, við vitum að það er ekki hægt annað en verðtryggja á einhvern hátt og á verulegan hátt skuldir manna. Það verður til þess að auka sífellt á beiðni manna um lán úr opinberum sjóðum ef þeir fá lán og sjá að verðbólgan getur borgað lánin fyrir þá og þeir orðið ríkari sem fá slík lán úr opinberum sjóðum á kostnað hinna.

Ég er mjög á móti því, að Byggðasjóður verði gerður að allsherjar kreppulánasjóði, og tel það langt fyrir utan hans hlutverk, því að í 28. gr. laga um Byggðasjóð segir: „Hlutverk Byggðasjóðs er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með því að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda og eflingar atvinnulífs með hliðsjón af landshlutaáætlunum og til að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“ Þessum sjóði hefur aldrei verið ætlað annað hlutverk en að veita fjárhagslegan stuðning til framkvæmda í tilteknum byggðarlögum sem verst eru sett á hverjum tíma. Þegar ástandið er orðið þannig í stærsta atvinnuvegi þjóðarinnar, að hann er almennt kominn sem komið er, þá getur þessi litli sjóður engan veginn staðið við þessar skuldbindingar.

Ég er lítið hrifinn af þeirri ákvörðun ríkisstj. að formaður þeirrar nefndar, sem á að vinna að þessum málum, eigi að koma frá Framkvæmdastofnun. Ég held að formaður nefndarinnar hefði átt að vera frá sjútvrn. eða forsrn. til þess að hafa meiri stjórn á öðrum fulltrúum sem skipaðir verða í þessa nefnd. Ég er mjög hræddur um að bankarnir noti sér það og segi: Ríkisvaldið hefur falið ykkur að hafa þetta með höndum. Það er ykkar að taka á ykkur að leysa þessi mál. Við getum ekkert gert sjálfir. Þetta verður ekki gert nema til komi stórfelld aðstoð Seðlabankans og nauðsynleg samvinna viðskiptabankanna í landinu og þátttaka þeirra til björgunar atvinnuvegunum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en segja við hæstv. sjútvrh. að ég met það þó við hann, að hann skuli sitja hér og hlusta á þessar umr. og taka þátt í þeim. Ég bið hann að skila hjartans kveðju til hinna 9 ráðherranna eða 8, því að einn er hér í dyrunum núna, og harma það að þeir gefi sér ekki tíma til að taka þátt í jafnalvarlegum umr. og þessum. Ég tel að ástandið í þessum efnum sé orðið svo alvarlegt, eins og hæstv. sjútvrh. hefur viðurkennt, að það sé sannarlega þörf fyrir fleiri aðila en ríkisstj. og stjórnarliðið, það er ekkert síður þörf fyrir okkur hina, sem erum í stjórnarandstöðu, að vinna hér að af heilum hug við að koma þessum málum í betra horf. Til þess erum við kjörnir af þjóðinni að vinna saman að því að treysta undirstöðuatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, og útflutningsiðnaðinn. Við verðum að gera okkur grein fyrir því, að það er ekki hægt að setja fram einhverja glansmynd, að allt sé í lagi, þegar það er ekki fyrir hendi. Við verðum að vera raunsæir og líta á málin í réttu ljósi, sjá hvað er að. Það er fyrsta skilyrðið, til þess að hægt sé að laga það sem aflaga fer, að viðurkenna það sem hefur miður farið. En það skortir mikið á hjá sumum mönnum í hæstv. ríkisstj.