14.04.1982
Efri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3709 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

255. mál, almenn hegningarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á almennum hegningarlögum og um breytingu á sektarmörkum nokkurra laga. Í sem skemmstu máli hefur frv. það, sem hér um ræðir, í för með sér að sektarmörk hækka allverulega frá því sem hefur verið, enda hefur verið svo um langan tíma að sektir hafa ekki fylgt þeirri verðlagsþróun sem hér hefur verið, þeirri óðaverðbólgu. Þetta hefur haft þær afleiðingar að sektir, sem leyfilegt hefur verið að beita sem viðurlögum við ýmiss konar refsiverðu athæfi, hafa á stundum verið hlægilega lágar. Nægir að minna á það er nokkrir erlendir vágestir, liggur mér við að segja, urðu á s.l. ári uppvísir að því að ræna hér eggjum og ungum og hlutu eitthvað í kringum 1000 gkr. í sekt, ef mig misminnir ekki.

Megintilgangur þessa frv. er sem sagt að lagfæra þetta þannig að sektir geti gegnt því hlutverki sem þeim væntanlega er ætlað, að koma í veg fyrir eða hindra að menn brjóti lög. Nefndin fékk til fundar við sig Jón Thors deildarstjóra í dómsmrn. Einnig kannaði nefndin afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga til þeirra atriða þessa frv. er kunna að varða sveitarfélögin, einkum það atriði að nú er gert ráð fyrir að sektir renni alfarið í ríkissjóð en ekki sumar hverjar í bæjar- eða sýslusjóði. Afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga til þessa máls var könnuð og kom þá í ljós að hér hefur verið um mjög lítilvægt atriði að ræða. Það hefur ekki verið hægt að segja að sektir hafi verið tekjuliður sveitarfélaga eða sýslufélaga, fjarri því. Eðlilegt er sömuleiðis, þegar ríkið stendur undir öllum löggæslukostnaði, að sektir renni þá jafnframt til ríkisins. Af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga og talsmanna þess kom í munnlegum viðræðum ekki fram nein mótbára gegn þessu, heldur töldu menn þetta fyrst og fremst eðlilegt ákvæði.

Allshn. leggur sem sagt samhljóða til að frv. þetta verði samþykkt.