14.04.1982
Efri deild: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

169. mál, loftferðir

Frsm. minni hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. samgn. varð nefndin ekki alveg á sama máli um afgreiðslu þessa frv., frv. til l. um breytingu á loftferðalögum. Ástæðan kom fram í máli hans. Hér er ekki verið að setja í lög nýjar reglur um skipulag þessara mála, heldur að færa þetta inn í lögin um loftferðir sem ég held að menn séu út af fyrir sig sammála um.

Sá ágreiningur, sem þarna kom fram, er af öðrum toga spunninn, eins og fram kom í máli hv. frsm. meiri hl., og þar sem við í minni hl. teljum að þar sé um algerlega haldlaus rök að ræða getum við ekki fallist á þau sjónarmið og leggjum til að frv. verði samþykkt óbreytt.