14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3714 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég mæli hér fyrir, um kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, felur í sér að Alþingi heimili ríkisstj. að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju að Mjóeyri við Reyðarfjörð til framleiðslu á kísilmálmi og hafi með höndum þá framleiðslu og skyldan atvinnurekstur.

Mál þetta á sér rúmlega tveggja ára aðdraganda og má rekja upphaf þess til stjórnarsáttmála ríkisstj. Gunnars Thoroddsens frá 8. febr. 1980. Þar er lögð áhersla á rannsóknir á sviði orkunýtingar og uppbyggingu meiri háttar nýiðnaðar á vegum landsmanna sjálfra er m.a. byggi á innlendri orku. Með hliðsjón af þessu ákvæði stjórnarsáttmálans hefur síðan verið unnið að athugunum á ýmsum möguleikum sem til greina koma í orkufrekum iðnaði. Sýndu fyrstu almennu athuganirnar, sem fram fóru í þessu efni vorið 1980, að kísilmálmframleiðsla gæti verið hagkvæmur kostur í þróun þessa iðnaðar hérlendis. Í framhaldi af þessu tók dr. Jón Hálfdánarson hjá Íslenska járnblendifélaginu að sér að gera frumathugun á framleiðslu kísilmálms hér á landi. Skilaði hann skýrslu um málið í nóvember 1980 og bentu niðurstöður hennar til þess, að ástæða væri til að ráðast í frekari undirbúning að slíkri framleiðslu.

Í febr. 1981 skipaði iðnrn. verkefnisstjórn til að hafa umsjón með frekari athugunum á þessu sviði. Í henni áttu sæti Finnbogi Jónsson deildarstjóri í iðnrn., formaður, Hörður Jónsson framkvæmdastjóri hjá Iðntæknistofnun og Jón Steingrímsson verkfræðingur hjá Íslenska járnblendifélaginu. Verkefnisstjórnin réð sér ritara, en Almenna verkfræðistofan hf. var aðalráðgjafi varðandi verkfræðilega þætti. Auk þess hafa ýmsar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar unnið að málinu síðan á vegum verkefnisstjórnar.

Orkustefnunefnd ríkisstj. hefur fylgst með undirbúningi málsins og einnig hafa einstakir fulltrúar í nefndinni tekið þátt í viðræðum og athugunum vegna ákveðinna þátta þess. Verkefnisstjórnin skilaði iðnrn. skýrslu um verk- og fjárhagsáætlun fyrir verkefnið í maí 1981 og skýrslu um frumathugun kísilmálmverksmiðju um miðjan nóv. 1981. Var báðum þessum gögnum dreift hér á hv. Alþingi strax og þau lágu fyrir. Lokaskýrslu skilaði verkefnisstjórnin svo í byrjun mars s.l. og fylgir hún sem viðauki með frv. þessu. Skýrslu verkefnisstjórnar fylgir einnig greinargerð staðarvalsnefndar iðnrn. um félagsleg áhrif kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Í skýrslu sinni leggur verkefnisstjórnin til að ráðist verði í byggingu 25–30 þús. tonna kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði, að aflað verði lagaheimildar um stofnun hlutafélags, er annist byggingu og rekstur verksmiðjunnar, að undirbúningi og framkvæmdum verði hagað þannig, að verksmiðjan geti tekið til starfa vorið 1985. Iðnrn. sendi Þjóðhagsstofnun skýrslu verkefnisstjórnar til umsagnar, og jafnframt hefur verið leitað eftir umsögn bresks ráðgjafarfyrirtækis um forsendur og niðurstöður skýrslunnar. Vænti ég þess, að umsagnir þessar liggi fljótlega fyrir þannig að þær megi koma að gagni við umfjöllun málsins hér á hv. Alþingi. Þá má einnig nefna að Náttúruverndarráð og Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafa haft mál þetta til meðferðar.

Miðað er við að kísilmálmverksmiðjan rísi að Mjóeyri við Reyðarfjörð. Í því efni hefur m.a. verið tekið mið af áliti staðarvalsnefndar frá því í apríl 1981 og þeirri stefnumörkun ríkisstj., að orkufrekur iðnaður dreifist á landshluta með hliðsjón af æskilegri byggðaþróun og þéttbýlismyndun í einstökum fjórðungum. Á Austurlandi er stór hluti af auðnýtanlegri vatnsorku landsins og því þjóðhagslega hagkvæmt að koma þar á fót iðnaði sem nýtir hluta af þessari orku. Sú iðnaðaruppbygging þarf að gerast með þeim hætti, að hún valdi sem minnstri röskun á félagslegum aðstæðum og þeirri atvinnustarfsemi sem fyrir er. Bygging kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði fellur vel að þessum markmiðum.

Fyrirhugað verksmiðjusvæði er í landi Sómastaðagerðis í Reyðarfjarðarhreppi. Þar eru möguleikar á stóru iðnaðarsvæði sem auk kísilmálmverksmiðju gæti rúmað ýmsa aðra iðnaðarstarfsemi í framtíðinni. Hafnarskilyrði á þessum stað eru með því besta sem gerist hér á landi. Áætlaður kostnaður við 140 m langan hafnarbakka með 10 m dýpi fyrir allt að 20 þús. tonna skip er um 30 millj. kr. eða einungis tæp 4% af heildarstofnkostnaði þessarar verksmiðju. Verksmiðjusvæðið liggur vel við nálægum byggðarlögum. Fjarlægð til Reyðarfjarðarkauptúns er um 4 km og til Eskifjarðarkaupstaðar um 9 km. Íbúafjöldi á þessum tveimur stöðum var 1. des. s.l. um 1800 manns. Frá verksmiðjusvæðinu til Egilsstaða eru um 38 km, íbúafjöldi á Egilstöðum er um 1160 manns, og ætla má að verksmiðjan muni ekki síst á byggingartíma sækja verulega þjónustu þangað svo og til annarra nágrannabyggðarlaga, eins og Fáskrúðsfjarðar, Neskaupstaðar og Seyðisfjarðar, en íbúafjöldi á þessum þremur siðast nefndu stöðum er um 3500 manns.

Bygging og rekstur kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði mun óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á atvinnulíf og vinnumarkað á Miðausturlandi. Miklu varðar að framkvæmdirnar hafi í för með sér jákvæða þróun í atvinnulífi í fjórðungnum, en leiði ekki til stökkbreytinga og verulegrar röskunar á félagslegu umhverfi og þeirri atvinnustarfsemi sem fyrir er. Í þessu efni skiptir t.d. miklu máli að tilhögun framkvæmda sé með þeim hætti, að umframeftirspurn eftir vinnuafli komi ekki hart niður á starfandi fyrirtækjum. Annars vegar er um að ræða tímabundin áhrif sem leiðir af eftirspurn eftir starfsliði á byggingartíma, sem áætlað er að geti orðið um 350 manns þegar flest er, og hins vegar varanleg áhrif vegna stöðugs rekstrar verksmiðju með allt að 130 manna starfsliði. Með rekstri verksmiðjunnar er áætlað að starfandi fólki á Reyðarfjarðarsvæðinu fjölgi um 17% eða þar um bil og sú fjölgun muni á tiltölulega skömmum tíma leiða til aukningar í atvinnu- og þjónustugreinum í nálægðum byggðarlögum. Leiddar hafa verið að því líkur, að starfsemi kísilmálmverksmiðju geti þegar fram í sækir skapað langt til jafnmörg störf í þjónustugreinum og svarar því fólki sem starfar við verksmiðjuna sjálfa. Miðað við áætlaðan starfsmannafjölda í verksmiðjunni mundi þetta þýða um 110 ný þjónustustörf á Miðausturlandi.

Samkv. framansögðu er áætlað að rekstur verksmiðjunnar skapi með beinum og óbeinum hætti atvinnu fyrir um 240 manns, en það jafngildir 315 af þeim mannafla sem spáð er að komi á vinnumarkað á Miðausturlandi fram til ársins 1990. Þjóðhagsleg hagkvæmni þess að ráðast í byggingu kísilmálmverksmiðju er talin ótvíræð af þeim sem um mál þetta hafa fjallað. Má benda á nokkur atriði sem máli skipta í þessu samhengi.

Í fyrsta lagi eru afkastavextir af fjárfestingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði taldir verða um 10% samkv. þeim forsendum sem við er miðað. Raunvextir á alþjóðlegum lánamörkuðum í dag eru hins vegar verulega lægri eða um 6%. Samkv. þessari áætlun mun fjárfesting í kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði því skila arði vel umfram kostnaðarverð fjármagnsins, a.m.k. þegar til lengri tíma er litið.

Í öðru lagi er reiknað með að verksmiðjan greiði orkuverð sem stendur undir framleiðslukostnaði raforku frá nýjum virkjunum jafnframt því að skila arði til orkuframleiðslunnar sjálfrar. Þann arð ber að lita á sem þjóðhagslegar tekjur.

Í þriðja lagi munu ýmis aðföng, sem keypt eru til verksmiðjunnar, m.a. flutningar og önnur þjónusta, einnig skila umtalsverðum arði innanlands.

Í fjórða lagi er innlendur kostnaður við byggingarframkvæmdirnar sjálfar áætlaður 57% af heildarkostnaði og skilar sá hluti stofnkostnaðar verksmiðjunnar einnig umtalsverðum þjóðhagslegum arði.

Í fimmta lagi mun bygging og rekstur kísilmálmverksmiðju verða algerlega undir forustu og stjórn landsmanna sjálfra og þannig munu Íslendingar afla sér afar þýðingarmikillar þekkingar og reynslu á öllum þáttum stóriðju, allt frá hönnun og byggingu verksmiðju til markaðssetningar afurðanna. Þessi þekking mun auðvitað koma að verulegu gagni við aðrar stóriðjuframkvæmdir á vegum Íslendinga í framtíðinni.

Loks má geta þess, að unnt er að nýta afgangsvarma frá verksmiðjunni til húshitunar á Eskifirði og Reyðarfirði. Forathuganir sýna að bygging slíkrar hitaveitu í tengslum við verksmiðjuna gæti lækkað húshitunarkostnað í þessum byggðarlögum mjög verulega og fært þannig til viðbótar þjóðhagslegar tekjur af verksmiðjunni. Þegar á heildina er litið er því þjóðhagsleg arðsemi kísilmálmverksmiðju væntanlega meiri en bein arðsemi verksmiðjunnar eins og hún er reiknuð með um 10% afkastavöxtum á föstu verðlagi.

Skal nú vikið að verksmiðjunni sjálfri og framleiðslu á kísilmálmi.

Frv. miðar við tveggja ofna verksmiðju í fyrstu með stækkunarmöguleikum síðar. Hráefni vegna framleiðslunnar eru kvarts, kol, koks, kurl eða trjábolir og rafskaut og verða hráefnin innflutt. Gert er ráð fyrir hefðbundnum ofnum, þ.e. hálflokuðum, en við hönnun verður við það miðað, að unnt verði að loka ofnum síðar ef hagkvæmt þykir. Lokaðir ofnar eru enn á þróunarstigi, en þegar starfræksla slíkra ofna verður möguleg mun verða unnt að nýta kolsýrling, er myndast við málmbræðsluna, ásamt rafgreindu vetni til innlendrar eldsneytisframleiðslu. Er þar um mjög athyglisverða þróunarmöguleika að ræða sem skipt geta miklu í orkubúskap okkar í framtíðinni.

Kísilmálmframleiðsla er tæknilega mjög hliðstæð framleiðslu á kísiljárni, en meiri kröfur eru gerðar til hráefna fyrir kísilmálm, og járn er ekki notað við framleiðsluna. Markaður er hins vegar allur annar fyrir kísilmálm en kísiljárn eins og síðar verður að vikið. Tvö erlend fyrirtæki á sviði ofnaframleiðslu, Elkem í Noregi og Mannersmann Demag í Þýskalandi, hafa þegar gert formleg tilboð um sölu nauðsynlegra tækja og véla í verksmiðjuna. Nauðsynlegt er að taka upp viðræður við þessi fyrirtæki á næstu mánuðum og sem ja um endanlega gerð ofna og ofnkaup á grundvelli þessara tilboða fyrir 1. sept. n.k., ef halda á þeirri framkvæmdaáætlun sem verkefnisstjórnin gerði ráð fyrir, þ.e. að verksmiðjan geti hafið rekstur árið 1985. Byggingar vegna verksmiðjunnar verða allar hannaðar í samræmi við íslenska staðla.

Mengunarhætta við kísilmálmvinnslu er í öllum megindráttum hin sama og í kísiljárnvinnslu. Mengunarhætta ytra umhverfis er fyrst og fremst frá ofnreyknum sem flytur með sér ókristallað kísilryk. Með reyknum berst einnig brennisteinsdíoxíð sem er skaðlegt ef það er í miklum mæli. Gert er ráð fyrir að ofnreykurinn verði kældur með lofti niður fyrir það hitastig að hann þoli síun, og honum síðan blásið í gegnum síur þessar, þar sem meginhluti ryksins verður eftir en lofttegundirnar sleppa út. Þetta er raunar hliðstæð hreinsunaraðferð og þekkt er og reynsla er fengin af úr járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Þetta ryk yrði síðan kögglað með vatni og lagt á hauga, og raunar er ekki ólíklegt að fyrir það finnist hagnýt not, svo sem reyndin er í vaxandi mæli erlendis og þegar liggur fyrir frá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga í tengslum við sementsframleiðslu.

Mengunarhætta innandyra liggur fyrst og fremst í kristölluðu kvartsryki, reyk frá töppun og málmsteypu, ryki frá mölun framleiðsluvörunnar, hávaða og snörpum geislahita á vissum stöðum. Ýmis ráð eru tiltæk til varnar innri mengun og ber þar einna hæst góða loftræstingu. Er því gert ráð fyrir henni í áætluninni og miðað við að ná megi a.m.k. svipuðum árangri við mengunarvarnir og á Grundartanga, en þær eru með því besta sem þekkist í heiminum við þessa framleiðslu. Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð hafa fjallað um æskilegar rannsóknir á lífríki og umhverfi vegna verksmiðjunnar og gert um þær tillögur þótt byggja megi að verulegu leyti á fenginni reynslu af járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Þarf að rannsaka marga þætti, þ. á m. staðbundna þætti, svo sem loftdreifingu og vinda með tilliti til dreifingar úrgangsefna.

Eins og áður greindi eru aðalhráefnin við framleiðsluna kvarts, kol og koks, kurl og rafskaut. Að mati verkefnisstjórnar iðnrn. er tryggt að auðvelt muni að afla allra þessara hráefna. Tvö fyrirtæki hafa skriflega staðfest áhuga sinn á gerð langtímasamninga um afhendingu á kvartsi, en það er það af hráefnum til verksmiðjunnar sem erfiðast er að afla. Í áætlunum er miðað við að kvarts verði keypt frá Spáni, samtals um 66 þús. tonn á ári, en önnur lönd, sem til greina koma í þessu sambandi, eru m.a. Finnland, Kanada, Grikkland og Portúgal. M.a. með tilliti til viðskiptahagsmuna Íslendinga eru Spánn og Portúgal talin sérstaklega áhugaverð. Gert er ráð fyrir að koks verði flutt inn frá Belgíu, en kol frá Bandaríkjunum eða Evrópu. Kurlið verður væntanlega unnið úr innfluttum trjábútum frá Svíþjóð, Noregi eða Skotlandi. Rafskaut til kísilmálmframleiðslu eru framleidd hjá tveimur fyrirtækjum og er annað á Ítalíu en hitt í Bandaríkjunum. Að mati sérfróðra aðila eru möguleikar fyrir hendi til slíkrar framleiðslu trjákurls hérlendis, ekki síst á Fljótsdalshéraði, en taka mun nokkur ár að fá úr því skorið hvort slík framleiðsla gæti orðið hagkvæm. Hefur landbrn. í hyggju að láta fara fram athugun á hagkvæmni slíkrar framleiðslu á trjákurli.

Hráefnablöndur fara nokkuð eftir því, hvort nota á kísilmálminn í álsteypu eða til svonefndrar silikonframleiðslu, en gæðakröfur, sem silikonframleiðendur gera, eru strangari með tilliti til hreinleika málmsins og þar með til hreinleika hráefna. Áhersla hefur verið á það lögð við undirbúning verksmiðjunnar að gera sem ítarlegastar athuganir á markaðsmálum kísilmálmframleiðslu.

Eins og drepið var á eru meginnotkunarsvið kísilmálms tvö: annars vegar í álsteypu og hins vegar í svonefndum silikoniðnaði. Þetta heiti, silikon, er raunar dregið af latnesku heiti frumefnisins kísils sem er silicium. Um 2/3 hlutar heimsframleiðslunnar fara nú til blöndunar í álsteypu og um 1/3 til framleiðslu svonefndra silikonefna. Þessi tvö notkunarsvið eru í eðli sínu mjög ólík. Fyrirtæki, sem steypa úr áli, eru mjög mörg og flest þeirra nota tiltölulega lítið magn af kísilmálmi. Silikonframleiðendur eru hins vegar fáir og hver um sig notar mikið magn af þessu efni, kísilmálmi. Fyrir silikonframleiðendur eru gæði og stöðugleiki í afhendingu mjög þýðingarmiklir þættir, en hjá álsteypunum er verðið á kísilmálminum ráðandi þáttur. Algengt er að hlutfall kísilmálms í álsteypu sé 6–12% og þykja slíkar blöndur henta mjög vel til sérhæfðra nota.

Kísilmálmur er aðalhráefnið í framleiðslu svokallaðra silikonefna. Hér er um mjög fjölbreytilegan efnaiðnað að ræða, svo sem framleiðslu á rakafráhrindandi efnum, hitaþolnum efnum, þéttiefnum, svonefndum silikonolíum, skilkongúmmíi og silikonplasti. Efni þessi keppa að hluta til við efni framleidd úr olíu og hefur hækkandi verð á olíu bætt samkeppnisstöðu sillkonefna mjög verulega. Talið er að heildarnotkun á kísilmálmi í heiminum árið 1980 hafi verið tæp 500 þús. tonn. Ef Bandaríkin eru undanskilin eru stærstu notkunarlöndin mjög háð innflutningi á kísilmálmi þar sem eigin framleiðsla er sáralítil. Árið 1980 fullnægði Japan um 84% af þörfinni með innflutningi, Vestur-Þýskaland um 85% og Bretland heildarnotkun eða 100%. Bandaríkin hafa lengst af verið stærstu framleiðendurnir og hafa framleitt meira en nemur eigin þörfum. Á allra síðustu árum hafa Bandaríkin hins vegar flutt inn kísilmálm í vaxandi mæli og árið 1980 nam innflutningurinn um 15% af heildar notkun þar í landi það ár.

Á árinu 1980 var afkastageta kísilmálmverksmiðja í heiminum verulega meiri en heildarnotkun á kísilmálmi á því ári. Talið er líklegt að nokkur ríki muni draga úr framleiðslu á kísilmálmi á næstu árum vegna hækkandi orkuverðs heima fyrir. Á það m.a. við um Spán og Portúgal svo og Bandaríkin, en þar hefur orkuverð farið mjög hækkandi á undanförnum árum. Orkuverð til kísilmálmframleiðslu er mjög breytilegt eða á bilinu 9–70 mills á kwst., lægst í Noregi og Kanada, en hæst í Japan. Miðað við framleiðslu einstakra landa árið 1980 má áætla að meðalraforkuverð í kísilmálmframleiðslu nú sé um 20 mills á kwst. og svarar það nokkurn veginn til sömu upphæðar í íslenskum aurum.

Milliríkjaviðskipti með kísilmálm eru mjög mikil. Voru helstu innflutningslöndin á árinu 1980 Japan, sem flutti inn um 58 þús. tonn, Vestur-Þýskaland 55 þús. tonn, Bandaríkin 19 þús. tonn, Bretland 22 þús. tonn og Austur-Evrópa, sem flutti inn 48 þús. tonn á því ári.

Framtíðarhorfur um kísilmálmmarkaðinn verða að teljast góðar. Ekkert bendir til þess að önnur efni leysi kísilmálm af hólmi á þeim sviðum sem hann er notaður í dag. Vissar líkur eru á að ný notkunarsvið komi til sögunnar, þótt ekki sé unnt að reikna með því í markaðsspám að svo stöddu. Samkv. spá frá fyrirtækinu Commodity Research Unit Ltd., sem er sjálfstætt ráðgjafarfyrirtæki og fjallaði um þetta mál, markaðsþáttinn, fyrir iðnrn., er áætlað að heildarnotkun á kísilmálmi í heiminum verði um 650 þús. tonn árið 1986 og rúmlega 800 þús. tonn árið 1990. Framleiðsla á 25 þús. tonnum af kísilmálmi hér á landi á árinu 1986, þ.e. á því ári sem unnt væri að ná fullri framleiðslu með tveimur ofnum, mundi samkv. framansögðu svara til um 3.8% af heimsnotkun það ár.

Innflutningsverð á kísilmálmi til Bretlands, Þýskalands og Japans var að meðaltali um 1 560 dalir á hvert tonn á árunum 1976–1980 á verðlagi 1. mars 1982. Þar sem kísilmálmur keppir að hluta til við afurðir, sem framleiddar eru úr olíu, og raforka er hér kostnaðarliður í framleiðslunni má telja líklegt að verð á kísilmálmi verði ekki lægra að jafnaði í framtíðinni en það var á seinni hluta síðasta áratugs. Er það raunverulega varlega í sakirnar farið. Sem stendur er þó verð á kísilmálmi í lægð þótt ástandið sé ekki eins slæmt og í öðrum greinum orkufreks iðnaðar. Markaðsverðið nú er á bilinu 1 2001 300 dalir á tonn, sem er allt að 20% lægra en það var á síðari hluta síðasta áratugs.

Gert er ráð fyrir að þau 25 þús. tonn af kísilmálmi, sem í fyrstu yrðu framleidd hérlendis, verði seld þannig að um 7500 tonn á ári fari til Japans, um 10 000 tonn til Vestur-Þýskalands, um 3000 tonn til Bretlands, um 2500 tonn til Bandaríkjanna og um 2000 tonn til annarra landa. Samkomulag hefur verið gert við Japani um þau 7 500 tonn sem þangað er áætlað að selja og samningar eru á lokastigi við Þjóðverja um sölu á um 10 000 tonnum af kísilmálmi á ári þangað. Áætlað er að þessi tvö lönd taki við um 70% af heildarframleiðslu tveggja ofna kísilmálmverksmiðju. Samningar þessir eru að sjálfsögðu gerðir með fyrirvara um stofnun fyrirtækisins og samþykkt væntanlegrar stjórnar þess.

Stofnkostnaður 25 þús. tonna kísilmálmverksmiðju er áætlaður um 750 millj. kr., miðað við verðlag 1. mars 1982, og skiptist þannig að innlendir kostnaðarliðir eru áætlaðir 57%, en erlendir kostnaðarliðir 43%. Kostnaður við vélar og tæki er byggður á bráðabirgðatilboðum Elkem í Noregi og Demag í Vestur-Þýskalandi, en þetta eru þau tvö fyrirtæki sem helst koma til greina við kaup á vélbúnaði fyrir verksmiðjuna eins og áður er getið. Aðrir kostnaðarliðir eru áætlaðir af innlendum verkfræðistofum, og hefur í því efni verið höfð hliðsjón af nýlegum sambærilegum mannvirkjum, svo sem járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga og Hrauneyjafossvirkjun. Kostnaður við höfn, vatnsveitu og orkuveitu er ekki meðtalinn þar sem þau mannvirki verða í eigu annarra en verksmiðjunnar sjálfrar. Í rekstrarkostnaðaráætlun er hins vegar reiknað með greiðslu fyrir afnot af höfn svo og greiðslu fyrir vatnsnotkun og orkunotkun.

Gert er ráð fyrir að bygging verksmiðjunnar verði fjármögnuð í fyrsta lagi með hlutafé, sem verður 30% af stofnkostnaði eða um 225 millj. kr„ í öðru lagi með fjárfestingarlánum, sem ríkissjóður ábyrgist, allt að 40% af stofnkostnaði eða um 300 millj. kr., og í þriðja lagi með útflutningslánum, sem fylgja munu tækjum og vélum frá því ríki þaðan sem vélarnar og tækin yrðu keypt allt að 30% af stofnkostnaði eða um 225 millj. kr.

Meðalframleiðslukostnaður kísilmálms á verðlagi 1. mars 1981 er áætlaður rúmlega 12 þús. kr. á tonn og nemur kostnaður við hráefni um 41% af framleiðslukostnaði, laun og launatengd gjöld um 10%, raforka um 19%, afskriftir og vextir um 21% og annar kostnaður um 8%.

Sem stendur er markaðsverð á kísilmálmi 12–13 þús. kr. á tonn og hefur verðið ekki verið svo lágt í tæp 10 ár. Ný verksmiðja með mikla vaxtabyrði mundi verða rekin með halla við núverandi markaðsaðstæður.

Gerð hefur verið rekstrar- og fjárstreymisáætlun fyrir afskriftartímabilið og eru niðurstöður þær, að reiknað er með að tap verði á rekstrinum fyrsta árið, 1985, um 38 millj. kr., en upp frá því verði um hagnað að ræða. Þannig er áætlað að tekjur fyrir skatta verði árið 1986 um 33 millj. kr. og eftir það á bilinu 55–65 millj. kr. á ári. Hér er um meðaltalstölur að ræða, en ljóst er að verðið mun sveiflast eftir markaðsástandi hverju sinni. Þarf að kappkosta að draga úr áhrifum slíkra sveiflna, t.d. með einhvers konar jöfnunarsjóði sem athuga þarf um í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar almennt hérlendis.

Gert er ráð fyrir að orkuverð fyrstu 10 árin, þ.e. 1985–1994, verði 15 mills á kwst. en 20 mills á kwst. á árunum 1995–2004. Í báðum tilvikum er miðað við verðlag 1. mars 1982 og er miðað við að orkuverðið yrði að fullu verðtryggt.

Afkastavextir fjárfestingarinnar hafa verið áætlaðir og er niðurstaðan sú, eins og áður greinir, að arðsemi heildarfjárfestingar verði rösk 10%, eða 10.4%, fyrir skatta á föstu verðlagi. Verður þessi arðgjöf að teljast vel viðunandi þegar haft er í huga að tæknileg áhætta í þessum rekstri er svo til enginn, að vaxandi markaður er talinn fyrir afurðir verksmiðjunnar og að raunvextir á alþjóðlegum lánamörkuðum eru í dag um 6% og líkur til að þeir verði lægri í framtíðinni.

Heildarorkuþörf fyrir tveggja ofna kísilmálmverksmiðju er talin nema 345 gwst. á ári miðað við 25 þús. tonna framleiðslu og mesta aflþörf um 45 mw. Næg orka og afl er talið til í landskerfinu til að fullnægja orkuþörf slíkrar verksmiðju. Gert er ráð fyrir að næsta stórvirkjun í landskerfinu komi í gagnið haustið 1987. Fyrir þann tíma er unnt að auka orkuvinnslugetu landskerfisins verulega umfram þarfir hins almenna markaðar. Samkv. þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið um stofnlínukerfi landsins, eiga ekki að vera vandkvæði á því að flytja næga orku til verksmiðjunnar í upphafi. Á tímum mesta álags gæti þó annar ofn verksmiðjunnar þurft að sæta nokkrum álagstakmörkunum á fyrstu tveimur árunum, þ.e. fram til þess tíma sem næsta stórvirkjun kemst í gagnið.

Meðal þeirra framkvæmda, sem ráðast þarf í vegna kísilmálmverksmiðju, er lagning háspennulínu frá Hryggstekk í Skriðdal til Reyðarfjarðar. Þessi lína yrði um 35 km. að lengd með 132 kw spennu.

Gerð hafa verið drög að orkusölusamningi milli verksmiðjunnar og Landsvirkjunar. Er þar gert ráð fyrir að samningstíminn verði 20 ár og orkuverðið 17.5 aurar á kwst. að meðaltali, en það samsvara 17.5 mills á kwst. á því gengi sem miðað er við í samningsdrögunum. Gert er ráð fyrir að orkuverðið verði að fullu verðtryggt, en verðtryggingarákvæði og hækkanir á grunnverði á samningstímanum yrðu háð nánara samkomulagi. Með hliðsjón af því, að verksmiðjan þarf að bera þungan fjármagnskostnað á fyrstu starfsárum, er æskilegt fyrir verksmiðjuna að í fyrstu verði orkuverðið hlutfallslega lægra, en aftur á móti hlutfallslega hærra síðar þegar greiðslufjárstaða verksmiðjunnar er orðin betri. Landsvirkjun hefur þann fyrirvara á varðandi samningsdrögin, að lokið verði framkvæmdum við Kvíslaveitu og Þórisvatnsmiðlun 1985–1986 og nauðsynlegri aukningu uppsetts afls á Þjórsársvæðinu. Samningsdrögin eru einnig byggð á þeirri forsendu, að samningar takist milli ríkisins og Landsvirkjunar um byggingu og rekstur nýrra virkjana og yfirtöku fyrirtækisins á byggðalínukerfinu. Einnig telur Landsvirkjun nauðsynlegt að núverandi fjárhagsstaða fyrirtækisins verði tryggð á viðunandi hátt þannig að hæfilegt fé fáist úr rekstri til fjármögnunar nýrra virkjana án þess að lántökur í því skyni verði meiri en góðu hófi gegnir. Varðandi síðastnefnda fyrirvarann skiptir ekki minnstu máli að veruleg hækkun fáist á orkuverði til Íslenska álfélagsins hf.

Orkuverð það, sem hér er lagt til grundvallar við rekstur kísilmálmverksmiðjunnar, er byggt á áætluðum framleiðslukostnaði á orku frá næstu virkjunum, en það hefur verið talið liggja á bilinu 15-20 mills á kwst. miðað við 6% reiknivexti. Orkuverð, sem er 17.5 mills á kwst. að meðaltali eða jafngildi þess í íslenskum aurum með fullri verðtryggingu, virðist því raunhæf viðmiðun, en gert er ráð fyrir að verksmiðjan kaupi einungis forgangsorku. Lægra orkuverð en þetta mundi að sjálfsögðu bæta verulega afkomu verksmiðjunnar. En ég tel að það eigi að vera grundvallaratriði í uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi, að hann greiði viðunandi orkuverð sem sé breytilegt með tilliti til verðbólgu og ekki svo lágt að almenningur þurfi að greiða hærra raforkuverð með stóriðju en án.

Varðandi einstakar greinar frv. er rétt að taka fram eftirfarandi:

Samkv. 1. gr. er gert ráð fyrir að hlutafélag verði stofnað um rekstur verksmiðjunnar. Hins vegar eru fjárhæðir við það miðaðar, að ríkissjóður geti verið eigandi 100% hlutafjárins. Að ráði varð að nota hlutafélagaformið um reksturinn þar eð þetta er algengasta rekstrarform atvinnufyrirtækja í landinu, — rekstrarform sem löggjafinn hefur sett ítarlegar reglur um, reglur til að starfa eftir og þekkt er bæði hér á landi og erlendis. Ætti það að sjálfsögðu að auðvelda stjórnun fyrirtækisins.

Frv. gerir ráð fyrir að ríkissjóður eigi tryggan meiri hluta í fyrirtækinu og meiri hluta í stjórn þess. Í hlutafélagalögum eru ákvæði er vernda rétt minnihlutaeigenda. Þar sem ráð er fyrir því gert í frv., að ríkið geti boðið öðrum samstarf sem minnihlutaeiganda er eðlilegt að nota umrætt félagsform um reksturinn.

Í sambandi við 2. gr. frv. er rétt að geta þess, að ekki er talið nauðsynlegt að erlendir aðilar eigi hlut í félaginu. Er við það miðað að íslenskir aðilar standi að því einir og bygging og rekstur, þar með talin hráefnaöflun og markaðssetning, verði ávallt undir ótvíræðu forræði íslenskra stjórnvalda. Greinin felur í sér það nýmæli, að öðrum íslendum aðilum en ríkinu er nú gefinn kostur á að taka þátt í uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Þar gæti m.a. verið um að ræða sveitarfélög, innlend hlutafélög, samvinnufélög og aðra innlenda aðila. Þess má geta, að fram hefur komi áhugi hjá sveitarfélögum á Austurlandi að eignast hlut í félaginu, þótt tæpast sé hægt að gera ráð fyrir að hann verði stór.

Í 3. gr. frv. er að finna nauðsynlegar fjáröflunarheimildir vegna byggingar verksmiðjunnar og aðildar ríkisins að hlutafélaginu. Áætlaður stofnkostnaður er sem áður segir um 750 millj. kr. Með frv. er ríkisstj. veitt heimild til að leggja fram 30% af stofnkostnaði eða allt að 225 millj. kr. sem hlutafé og taka lán í sama skyni. Greinin gerir því ráð fyrir þeim möguleika, að ríkissjóður leggi fram allt hlutaféð, en verði um aðra hluthafa að ræða lækkar hlutafjárframlag ríkisins að sjálfsögðu sem því nemur. Ekki er ríkissjóði heimilt samkv. frv. að taka lán eða ábyrgjast lán vegna hlutafjárframlaga annarra aðila.

Ríkisstj. er í 3. gr. veitt heimild til að ábyrgjast lán að fjárhæð allt að 300 millj. kr., þ.e. um 40% af stofnkostnaði, eða taka lán að sömu fjárhæð og endurlána félaginu til byggingar verksmiðjunnar. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða sem tryggir félaginu fjárfestingarlán með hagkvæmustu kjörum sem bjóðast á almennum lánamörkuðum. Skiptir miklu fyrir rekstrarafkomu fyrirtækisins fyrstu árin að vaxtabyrðin verði sem minnst. Gert er ráð fyrir að 30% af kostnaði verði fjármögnuð með útflutningslánum, en útflutningslán eru sem kunnugt er lán sem fylgja kaupum á tækjum og vélum til verksmiðjunnar og fara lánskjör eftir reglum viðkomandi landa. Slík lán eru að jafnaði hagstæð, enda veitt til að örva útflutning.

Með ákvæðum 2.–4. tölul. 3. gr. eru ríkisstj. veittar heimildir til þess að tryggja að hlutafélagið eigi kost á þeirri aðstöðu um jarðnæði, höfn og annað sem á þarf að halda vegna verksmiðjunnar. Miðað er við að heimildir til fjáröflunar vegna þessara framkvæmdaþátta verði afgreiddar síðar af hálfu Alþingis, eftir því sem nauðsyn krefur, og fjáröflun í hverju tilviki hagað með tilliti til þess sem venja er um hliðstæðar framkvæmdir.

Vegna verulegrar eignaraðildar ríkissjóðs að félaginu og hinnar miklu fjárþarfar hlutafélagsins þykir eðlilegt að ekki verði greidd stimpilgjöld af hlutabréfum þess og að heimilt verði að lækka stimpilgjöld vegna stofnlána sem félagið tekur. Kveður 6. tölul. 3. gr. á um þetta.

Gert er ráð fyrir að kísilmálmverksmiðjan rísi á Reyðarfirði, nánar tiltekið upp af svonefndri Mjóeyri, í óskiptu landi kristfjárjarðanna Sómastaða og Sómastaðagerðis. Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi slíkra. Afla verður sérstakrar lagaheimildar til sölu kristfjárjarða þar sem þær eru eigin eignir, og Alþingi eitt getur heimilað breytingar á stofni kristfjárgjafa og aðeins að uppfylltu því skilyrði, að söluandvirði verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafarinnar. Því er landbrh. fyrir hönd ríkisstj. og hreppsnefnd Helgustaðahrepps, bæjarstjórn Eskifjarðarkaupstaðar og hreppsnefnd Reyðarfjarðahrepps sem umráða og hagsmunaaðilum í 4. gr. heimilað að selja ríkissjóði jarðirnar Sómastaði, Sómastaðagerði og Framnes í Reyðarfjarðarhreppi. Andvirði hinna seldu jarða skal varið til félagslegra framkvæmda í Reyðarfjarðarhreppi, Helgustaðahreppi og Eskifjarðarkaupstað. Frv. gerir ráð fyrir að félmrn. sem æðsta stjórnvald á sviði sveitarstjórnarmála samþykki ráðstöfun söluandvirðis, enda sé hún samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa.

Stjórnarráðið, nánar tiltekið landbrn., hefur á hendi umsjón kirkjujarða annarra en prestssetra. Því er ekki óeðlilegt að lita svo á að umráðin, sem frá ómunatíð höfðu verið í hendi kirkjunnar, séu nú réttilega í höndum landbrn. Sveitarstjórnirnar hafa hins vegar ríkra hagsmuna að gæta af sölunni og því þykir eðlilegt að þær komi fram sem hagsmunaaðilar við þessa sölu ásamt landbrh. sem seljanda. Samhliða því, að heimild er veitt til sölunnar, er fjmrh. veitt heimild til að kaupa jarðir þessar. Ábúendur jarðanna eru eigendur mannvirkja og ræktunar. Þar sem nábýlið við verksmiðjuna torveldar búskap á jörðum þessum er fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs veitt heimild til að kaupa eignir ábúenda svo að þeir geti komið sér fyrir á nýjum stað og verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna verksmiðjuframkvæmdanna. Samningur um sölu jarðanna hefur þegar verið undirritaður af forsvarsmönnum viðkomandi sveitarfélaga og gerður með fyrirvara að sjálfsögðu um samþykki Alþingis.

Gert er ráð fyrir að ríkissjóður leigi hlutafélaginu nauðsynlegt jarðnæði fyrir verksmiðjureksturinn. Vegna aðildar ríkissjóðs þykir eðlilegt að hafa ekki lágmark á tölu stofnenda eða hluthafa í félaginu. Slíkar hömlur hafa reyndar flestar verið numdar úr lögum um hlutafélög í nágrannalöndum okkar og er ákvæði um þetta að finna í 5. gr. frv.

Í 6. gr. er fjallað um stjórn félagsins og skipulag. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður gæti eigendahagsmuna sinna í félaginu á aðalfundi og öðrum hluthafafundum á sama hátt og aðrir hluthafar. Rétt þykir að nýta heimildir hlutafélagalaga til að ríkið sem eigandi geti haft sem virkasta stjórn á og eftirlit með rekstri fyrirtækisins. Ríkisstj. er því í 2. mgr. 6. gr. veitt heimild til að setja á stofn fulltrúanefnd við félagið samkv. 57. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög. Lagt er til að fulltrúanefndin verði skipuð níu mönnum. Fjórir skulu ásamt varamönnum kosnir hlutfallskosningu á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Fjórir skulu ásamt varamönnum kosnir af starfsmönnum fyrirtækisins samkv. reglum sem ráðh. setur. Iðnrh. skipar einn, ásamt varamanni, úr stjórn félagsins til setu í fulltrúanefnd. Framkvæmdastjóri félagsins skal sitja fundi fulltrúanefndarinnar og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

Hlutverk þessarar fulltrúanefndar samkv. greininni er m.a. að fylgjast með starfi félagsins og stuðla að því að ákvarðanir stjórnvalda um málefni þess nái fram að ganga, að gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi þess og að koma á framfæri við félagsstjórn tillögum um málefni félagsins. Með ákvæði þessu, sem er heimildarákvæði, er að því stefnt að tryggja Alþingi áhrif á stjórn félagsins án þess að raska því sem telja má eðlilega skiptingu starfa milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Til að tryggja áhrif fulltrúanefndarinnar á stefnu félagsins og greiðar upplýsingar til hennar þykir rétt að einn af stjórnarmönnum félagsins eigi sæti í nefndinni og framkvæmdastjóri félagsins sitji fundi hennar og hafi þar málfrelsi og tillögurétt. Í heimildarákvæðinu er enn fremur það nýmæli, að tryggja má starfsmönnum fastan vettvang til þátttöku í stefnumótun félagsins og rétt til að fylgjast með starfsemi þess og afkomu.

Samkv. 7. gr. er hlutafélaginu gert að greiða tekjuskatt og eignarskatt og önnur opinber gjöld sem almennt eru lögð á hlutafélög með atvinnurekstur hér á landi. Um opinber gjöld félagsins fer eftir þeim lögum sem gilda á hverjum tíma, með þeirri undantekningu sem fram kemur í 2. mgr. Samkv. 2. mgr. 7. gr. er félagið undanþegið aðstöðugjaldi á atvinnurekstur sinn, en er í þess stað gert að greiða sérstakt gjald sem skiptist þannig að fjórðungur rennur til Eskifjarðarkaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps, fjórðungur til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fjórðungur til rannsókna og undirbúnings á sviði orkufreks iðnaðar og fjórðungur til iðnþróunar á Austurlandi. Gjald þetta skal vera 15 af aðstöðugjaldsstofni og kemur það í stað aðstöðugjalds á atvinnurekstur félagsins samkv. lögum nr. 8 frá 1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Samkv. þessu er félaginu gert að greiða gjöld af rekstri sínum sem svarar til aðstöðugjalds hjá iðnfyrirtækjum almennt.

Eins og 2. og 4. mgr. 3. gr. og 4. gr. frv. bera með sér er það ríkisvaldið sem skapar iðjuverinu sjálfu aðstöðu, t.d. til móttöku á orku, með lagningu vegar, öflun lóðarréttinda og með því að beita sér fyrir hafnargerð við verksmiðjuna. Af þessu má ljóst vera að ekki gæti talist eðlilegt að Reyðarfjarðarhreppur fái óskipt aðstöðugjald af rekstri verksmiðjunnar. Það er stefna núv. ríkisstj. að tengja uppbyggingu orkunýtins iðnaðar innlendri iðnþróun. Til að stuðla að því, að fjárfesting í orkufrekum iðnaði renni stoðum undir víðtæka iðnþróun, er það nýmæli tekið upp í lagagrein þessa, að 0.5% af aðstöðugjaldsstofni vegna rekstrar verksmiðjunnar renni að jöfnu til fyrirhugaðs Iðnþróunarsjóðs Austurlands og til rannsókna á sviði orkufreks iðnaðar í landinu.

Þensluáhrifa af byggingu og rekstri verksmiðjunnar mun gæta sérstaklega á Reyðarfirði og Eskifirði og það í verulegum mæli. M.a. er fyrirsjáanlegt að stækkun og endurbætur þarf að gera á skólahúsnæði og dagvistunaraðstöðu, auk þess sem sveitarfélögin verða að taka á móti verulegum hópi aðflutts fólks vegna framkvæmdanna og kosta aðstöðu vegna hinna nýju íbúa. Er því talið eðlilegt að umrædd sveitarfélög skipti með sér að jöfnu fjórðungi af gjaldi samkv. þessari grein.

Með hliðsjón af þessu og eins og áður er fram komið er lagt til að gjald samkv. 7. gr. skiptist þannig að 1/4 renni til Reyðarfjarðarhrepps og Eskifjarðarkaupstaðar að jöfnu,1/4 renni til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga,1/4 til iðnþróunarfyrirtækis eða sérstaks sjóðs, sem stofnað verður til á vegum ríkisins og verði gjaldinu varið til rannsókna og undirbúnings á nýtingu orku til meiri háttar nýiðnaðar, og 1/4 renni til Iðnþróunarsjóðs Austurlands. Samkv, þessu mun helmingur gjaldsins koma viðkomandi landshluta til góða, en hinn hlutinn landinu í heild í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og til undirbúnings orkunýtins iðnaðar.

Þar eð hlutafélagið mun fást við útflutningsframleiðslu, sem byggist m.a. á hagnýtingu innlendrar orku, þykir rétt að láta félagið njóta svipaðrar aðstöðu um aðflutningsgjöld og söluskatt og sambærileg fyrirtæki, svo sem virkjanir og meiri háttar iðnfyrirtæki, svo sem Kísiliðjan, Þörungavinnslan og Járnblendiverksmiðjan. Í 1. mgr. 8. gr. er því lagt til að félagið verði undanþegið greiðslu aðflutningsgjalda af byggingarefni, vélum og búnaði og öðrum fjárfestingarvörum til verksmiðjunnar. Í síðari málslið 1. mgr. er lagt til að ríkisstj. sé heimilt að fella niður aðflutningsgjöld og/eða söluskatt í því skyni að jafna aðstöðumun milli íslenskra og erlendra verktaka og þjónustuaðila vegna þessara gjalda. Sams konar ákvæði er í lögum um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.

Í 2. mgr. 8. gr. eru ákvæði um hráefni og aðrar framleiðslunauðsynjar verksmiðjunnar svo og framleiðsluvörur hennar, og er lagt til að aðföng og framleiðsla verði undanþegin tollum og söluskatti. Í 3. mgr. 8. gr. er lagt til að rafmagn til rekstrar verksmiðjunnar verði undanþegið söluskatti og verðjöfnunargjaldi á raforku. Sambærileg ákvæði gilda m.a. um Áburðarverksmiðju ríkisins og Járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. Undanþágur af þessu tagi má að sjálfsögðu fella niður síðar með lagabreytingum ef þurfa þykir.

Í 9. gr. er fjallað um byggingu hafnar við Mjóeyri sem samkv. greininni skal vera í eigu sérstaks hafnarsjóðs sem stofna skal til samkv. ákvæðum hafnalaga. Fyrirhugað hafnarsvæði er framan við fyrirhugað verksmiðjusvæði. Höfnin yrði reist í beinum tengslum við verksmiðjuna, en gert er ráð fyrir að fleiri en kísilmálmverksmiðjan komi til með að nota höfnina. Eðlilegt þykir með hliðsjón af legu hafnarinnar við Mjóeyri og til að koma í veg fyrir óeðlilega samkeppni milli Eskifjarðarhafnar og Reyðarfjarðarhafnar, að höfnin við Mjóeyri verði sameign Eskifjarðarkaupstaðar og Reyðarfjarðarhrepps að jöfnu. Ekki hefur þó þótt rétt að lögfesta slíka skipan, en láta hins vegar sveitarfélögunum, sem í hlut eiga, eftir að leita samninga sín á milli um það atriði. Í rekstraráætlun fyrir verksmiðjuna hefur verið við það miðað að greitt yrði fyrir afnotin með venjulegum hafnargjöldum. Um gerð hafnarmannvirkja, rekstur hafnarinnar og stjórn mun að öðru leyti fara samkv. hafnalögum og samkomulagi aðila.

Áréttað er í 10. gr. að félaginu beri að gera allar þær varúðarráðstafanir, sem við verður komið til að varna tjóni á umhverfinu, og gæta skuli ákvæða laga um náttúruvernd, mengunarvarnir, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Er ávallt mikilvægt við verksmiðjurekstur sem þennan að gæta vel að umhverfisvernd bæði utan og innan vinnustaðarins.

Í 3. mgr. 10. gr. er nýmæli þess efnis, að hlutafélagið skuli vegna eðlis rekstrar þess kosta rannsóknir sem hlutaðeigandi stjórnvöld telja nauðsynlegar til að fylgjast með áhrifum af rekstri verksmiðjunnar. Með þessu ákvæði er tryggt að hlutaðeigandi stjórnvöld hafi fjárhagslegt bolmagn til að gera rannsóknir til að fylgjast megi með áhrifum hins sérgreinda iðnaðar á umhverfi verksmiðjunnar. Ákvæði þetta er sett með hliðsjón af reynslu af stóriðjurekstri hérlendis og af því að umfang og eðli stóriðjurekstrar af þessu tagi krefst sérstakra aðgerða til að tryggja að umhverfi verksmiðjunnar verði ekki fyrir tjóni. Með hliðsjón af því, að rannsóknir samkv. 3. mgr. þessarar greinar geta verið kostnaðarsamar, þykir rétt að ágreiningi um eðli og umfang þeirra megi skjóta til úrskurðar þess ráðh. sem viðkomandi rannsóknarþáttur heyrir undir. Með bréfi 23. sept. 1981 var óskað eftir því við Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Náttúruverndarráð, að samstarf yrði haft við iðnrn. varðandi mengunarvarnir við verksmiðjuna. Ráðuneytinu hefur nú borist skýrsla frá þessum aðilum um nauðsynlegar rannsóknir að þeirra mati samkv. 10. gr.

Loks er í 11. gr. ákvæði er stefnir að aukinni samvinnu stjórnenda og starfsfólks fyrirtækisins. Með stofnun samstarfsnefndar er mótað fast samstarfsform sem miðar að auknum réttindum og ábyrgð starfsfólks á vinnustað í þeim tilgangi að efla lýðræði í atvinnurekstri og ná betri árangri í framleiðslu. 11. gr. kveður — ásamt heimildarákvæðinu um fulltrúanefnd í 2. mgr. 6. gr. — á um afar þýðingarmikil atriði er varða stöðu starfsmanna innan fyrirtækja og áhrif á starfsumhverfi. Hugmyndir um aukinn hlut og ábyrgð starfsmanna í stjórnun og rekstri fyrirtækja eru nú mikið ræddar í flestum löndum Vestur-Evrópu, þ. á m. á öðrum Norðurlöndum. Hér á landi hafa þessi mál ekki verið eins mikið til umræðu í samtökum launafólks eða á stjórnmálavettvangi og hefði mátt vænta, en áhugi á þeim er þó vaxandi. Eðlilegt er að ríkisvaldið sem atvinnurekandi gangi á undan með góðu fordæmi í þessu efni.

Herra forseti. Eitt höfuðmarkmið efnahagsstefnu núv. ríkisstj. er að efla atvinnulíf landsmanna. Í því skyni hefur verið unnið að athugunum á iðnaði sem rennt geti stoðum undir efnahagsstarfsemi í landinu. Efst á blaði í þeim efnum er frekari nýting á náttúruauðlindum landsins. Orkulindirnar eru ein þeirra náttúruauðlinda sem Íslendingar geta í auknum mæli hagnýtt til að bæta og jafna lífskjör í landinu. Nýting þeirra verður að vera í samræmi við almenn þjóðhagsleg markmið um fulla atvinnu, batnandi lífskjör, yfirráð landsmanna yfir náttúruauðlindum, öruggt íslenskt forræði í atvinnulífinu, stöðugleika í efnahagsmálum, gott vinnuumhverfi og verndun íslenskrar náttúru gegn mengun. Bygging kísilmálmverksmiðju hér á landi fellur vel að þessum markmiðum. Með lögfestingu þessa frv. væri stigið mikilvægt skref í atvinnusögu Íslendinga og mikilvægur áfangi næðist í uppbyggingu stóriðju undir forustu og stjórn landsmanna sjálfra. Kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði gæti þannig orðið fyrsta stóriðjufyrirtækið algerlega í innlendri eigu.

Þótt nú styttist óðum í starfstíma þessa þings vænti ég að frv. þetta geti orðið að lögum fyrir þinglok, m.a. með samvinnu iðnn. beggja deilda við athugun málsins.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. iðnn.