14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3744 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég mun ekki ræða efnislega um frv. Það kemur væntanlega í nefnd, sem ég á sæti í, og þar kem ég til með að fá tækifæri til að taka efnislega afstöðu til hinna ýmsu greina þess. Það er útilokað annað en nefna nokkur atriði.

Það er ekki undantekning hjá hæstv. iðnrh., heldur föst regla, að koma með öll meiri háttar mál fram þegar ekki eru nema örfáar vikur, jafnvel ekki nema dagar, þangað til þing á að ljúka störfum. Svo er þess krafist að málin séu afgreidd. Þetta þýðir auðvitað að þingið hefur enga möguleika á að skoða málin eins og skyldi. Raunverulega er hæstv. ráðh. að taka ákvörðunarvaldið úr höndum Alþingis með þessu móti. Þannig var það í fyrra. Þá var dembt inn þremur frv. þegar örfáar vikur voru eftir: steinull, járnbræðslu og saltverksmiðju.

Hér hefur nokkuð verið talað um hvar hagkvæmast væri að byggja þessa verksmiðju. Staðarvalsnefnd — ranglega kölluð það — samþykkti Reyðarfjörð vegna þess að henni var í byrjun uppálagt að ákveða Reyðarfjörð sem stað fyrir verksmiðjuna. Það kom enginn annar til greina og henni var bannað að bera hagkvæmni verksmiðju á þeim stað saman við aðra staði. Stundum á alfarið að fara eftir arðseminni, byggja þar sem arðsemin er mest. Í öðrum tilvikum skiptir það engu máli. Þá virðist staðarvalið fara eftir því, hvað hæstv. ráðh. dettur í hug í það og það skiptið. Það er síður en svo að ég sé á móti Reyðarfirði. Ég álít, eins og hér hefur komið fram, að það eigi að dreifa slíkum verksmiðjum um landið eftir föngum. Ég get þó ekki komist hjá því að benda á þann tvískinnung sem mér finnst vera í þessu máli.

Hæstv. ráðh. minntist á raforkuverð, og mér finnst ekkert athugavert við það í sjálfu sér. Hins vegar langar mig til að vita um hvort þarna er átt við raforkuverð komið að verksmiðju eða frá stórvirkjun. Þar er geysimikill munur á. Það eru ekki bara línurnar sem kosta mikið, heldur er mikið raforkutap við flutning á svona löngum leiðum. Ég hefði gjarnan viljað fá að vita hvort þarna er miðað við raforkuna við viðtökustað í verksmiðju eða stöðvarvegg virkjunar.

Það var talað hér um aðstöðugjald. Mér finnst sú skipting, sem þarna kemur fram, vera að mörgu leyti skynsamleg miðað við það sem áður hefur verið. Þó finnst mér að sveitarfélög þurfi engin sérstök gjöld að fá í svona tilvikum, engar sérstakar tekjur. Sveitarfélögin fá miklar tekjur af fasteignagjöldum og miklar tekjur af mönnum sem vinna þarna. Mér finnst að allar sértekjur stóriðjufyrirtækja eigi að renna t.d. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og jafnast þannig til allra sveitarfélaganna eða Iðnþróunarsjóð fyrir allt landið sem ynni að því að byggja upp slíkan iðnað annars staðar. Mér fannst t.d. mjög rangt bæði í sambandi við Straumsvík og fleiri staði, þegar ákveðið sveitarfélag fær svo til allar sértekjurnar af svona fyrirtækjum.

Hæstv. ráðh. minntist á arðsemina, 10.4% afkastavexti. Ég minni á að arðsemin af steinullarverksmiðju, sem framleiðir fyrir útflutning, er í öllum tilvikum meiri, hvernig sem málin eru sett upp og hve slæmt sem útlitið er fyrir útflutning á hverjum tíma. En þá má ekki nota raforku og innlend hráefni til að framleiða útflutningsvörur, það er tabú, það er algerlega bannað ef um steinull er að ræða. Það bann er látið ráða því, að verksmiðjan á að rísa á Sauðárkróki en ekki í Þorlákshöfn, eins og hæstv. ríkisstj. virðist ætlast til. M.ö.o.: það má ekki framleiða steinull til útflutnings þó að arðsemin sé meiri en af þeirri verksmiðju sem hér er verið að tala um, en þar á að framleiða allt til útflutnings. Það getur vel verið að það sé hægt að finna einhverja þá reglu, að einhver smáframleiðsla fyrir innanlandsnotkun geti gefið í einhverjum ákveðnum tilvikum eitthvað meiri arðsemi. Ég þykist vita það.

Ég bendi enn og aftur á hve sjónarmið hæstv. ráðh. stangast harkalega á. Stundum skiptir arðsemin öllu, stundum skiptir hún litlu eða engu. En þó að mér finnist það mjög gagnrýnivert, hvernig að þessu er staðið, að koma með þetta þegar ekki eru nema tiltölulega fáir vinnudagar eftir hjá Alþingi, þá mun ég samt gera mitt til að flýta afgreiðslu málsins, hvort sem það tekst á þessu þingi eða ekki.