14.04.1982
Neðri deild: 63. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3746 í B-deild Alþingistíðinda. (3244)

279. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það hefur verið vikið að fjölmörgum atriðum í þessari umr., sem ástæða hefði verið til að ræða frekar, en mér er að sjálfsögðu skylt að greiða fyrir því að þetta mál komist til nefndar á þessum fundi. Ég mun því aðeins víkja að mjög fáum atriðum sem til mín hefur verið beint eða ástæða er til að nefna.

Ég treysti því, að í þingnefnd verði færi á því og í þingnefndum að koma á framfæri upplýsingum og veita svör við þeim spurningum sem þar vakna í sambandi við þetta frv. og raunar hefur verið vikið að í þessari umr. Eins og fram hefur verið tekið og ég gat um í framsögu minni er að vænta umsagna frá aðilum eins og Þjóðhagsstofnun, en einnig erlendis frá í sambandi við frekara mat á þeim gögnum sem frv. þetta byggist á.

Það hefur verið komið víða við í þessari umr. og eitt af því, sem nefnt hefur verið af fleiri en einum hv. ræðumanni, er spurningin um að nýta þá þekkingu sem þegar er komin inn í landið í sambandi við stóriðju, þ. á m. hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga. Eins og vikið er að í grg. með þessu frv. er gert ráð fyrir að leita eftir því að hagnýta þá þekkingu eftir föngum.

Sumir hv. ræðumenn hér hafa nefnt að ekki væri óeðlilegt að athugað væri hvort Íslenska járnblendifélagið hefði hug á að gerast eignaraðill í því hlutafélagi sem stofnað verður um þessa kísilmálmverksmiðju. Auðvitað er það atriði sem engin ástæða er til að útiloka fyrir fram. Menn hljóta hins vegar að velta því fyrir sér, hvaða kosti það hefði að fá slíkan samstarfsaðila inn í þetta hlutafélag og þá er ég nú fyrst og fremst með í huga markaðsmálin sem hér hefur borið nokkuð á góma. Ég held að það sé ástæða til þess fyrir menn að íhuga, m.a. í sambandi við afgreiðslu þessa máls hér í þinginu, hvort okkur sé í rauninni einhver sérstakur hagur að því fyrirkomulagi í markaðsmálum, sem járnblendiverksmiðjan á Grundartanga býr við, eða ekki og hvort hugsanlegt samstarf þarna á milli mundi leiða til betri stöðu fyrir kísilmálmverksmiðju markaðslega séð eður ei. Ég minni á að með markaðssamningnum milli Elkem og Íslenska járnblendifélagsins sér Elkem um sölu afurða og hefur nánast einkarétt á þeirri sölu, og það bindur með vissum hætti möguleika þess fyrirtækis í markaðsmálum. Það hefur komið fram að undanförnu í þeim þrengingum, sem Íslenska járnblendifélagið á í, að ýmislegt gæti mælt með því, að það hefði verið meira sjálfstæði í þeim efnum við þær aðstæður, sem nú ríkja, en samningarnir gera ráð fyrir og það gæti verið skynsamlegt og hagstætt að framleiða þar „á lager“ ef svo mætti segja, nýta afkastagetu verksmiðjunnar og framleiða „á lager“ og selja út frá okkar sjónarmiðum meira en sjónarmiðum samstarfsaðilans sem fer með markaðsmálin. Ég vil ekki kveða upp neina dóma í þessum efnum, en vek athygli á að þarna er að mörgu að hyggja og afstaðan til samvinnu eða formlegs samstarfs þarna á milli hlýtur m.a. að skoðast í tengslum við æskilegt fyrirkomulag markaðsmálanna.

Vegna þess að þau hefur borið hér á góma vil ég ítreka það, sem fram kom í minni framsöguræðu, að nú þegar hefur verið gengið frá samkomulagi, rammasamkomulagi, um sölu á hluta af afurðum þessarar verksmiðju, að sjálfsögðu með fyrirvara, en með gildu samkomulagi þó, sem hægt er að byggja á formlega samninga síðar, um sölu á 7 500 tonnum til japanskra aðila, og einnig er kominn á rekspöl samningur við vestur-þýska aðila um enn meira magn, þannig að það hefur þegar mikið áunnist, að ég tel, og verið skotið býsna traustum fótum undir markaðsþáttinn, miðað við aðra þætti þessa máls, sem auðvitað er afar þýðingarmikill í sambandi við rekstur sem þennan.

Hv. 3. þm. Austurl. spurði einmitt um þetta efni og hvað mælti með því að hafa það fyrirkomulag sem verkefnisstjórnin einkum mælir með, þ.e. að hafa umboðsmenn svæðisbundið til þess að annast markaðsmálin. Það væri langt mál að víkja að því ítarlega og ég ætla ekki að gera það hér, en það er mat þeirra, sem hafa litið á þessi mál, að slík svæðisbundin sala með aðilum, sem tækju að sér að sjá um söluna á viðkomandi svæði, gefi meiri sveigjanleika en að binda þetta aðeins einum aðila og það verði um meiri gagnkvæm skipti milli framleiðanda og kaupenda að ræða með slíkum hætti en ef aðeins væri um einn aðila að ræða, sem annaðist söluna, og þarna sé hægt að tryggja betri tengsl við notendur. Þetta atriði sem verður auðvitað til áframhaldandi athugunar eins og fleiri þættir þessa máls.

Varðandi umboðslaun hefur verið reiknað með því í kostnaðarforsendum, að þau gætu numið 3% til slíkra aðila, en í reynd eru taldar líkur á að þau verði mun lægri, jafnvel undir 2%, sem er það sem Elkem tekur fyrir sína markaðsþjónustu varðandi afurðir járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

Ég ætla ekki að fara að ræða hér um eignaraðildarmálin sérstaklega, um þau hefur oft verið rætt hér á hv. Alþingi í sambandi við uppbyggingu orkufreks iðnaðar, aðeins staðfesta það, sem fram hefur komið hér hjá einstökum ræðumönnum, að það er ekkert í lagatextanum sem útilokar einhverja aðild erlendra aðila ef þeir vildu leggja hlutafé í þetta fyrirtæki. Hins vegar er ekkert, sem fram hefur komið, sem mælir að mínu mati sérstaklega með að eftir slíku sé leitað, og það hefur ekki verið við undirbúning málsins við það miðað, að kvaddir verði þar til erlendir samstarfsaðilar.

Hv. 6. þm. Reykv. vék að áhættunni í þessum efnum. Það er sjónarmið út af fyrir sig og ég vil ekki vera að slá neinu striki yfir viðhorf af því tagi. Við þurfum vissulega að hafa gát á áhættuþættinum í sambandi við orkufrekan iðnað og þá ekki síst þannig að beina okkar málum á því sviði inn á ólíkar framleiðslugreinar, en veðja þar ekki á eina framleiðslugrein. Það er einmitt það sem hér er verið að gera. Hér er verið að bæta við nýjum framleiðsluþætti sem dreifir jafnframt áhættunni.

Það var vikið að raforkuþættinum sérstaklega og hv. 12. þm. Reykv. taldi að hér hefðu komið fram mjög óvæntar upplýsingar þar að lútandi. Ég gat um þann fyrirvara sem Landsvirkjun hefur sett fram í sambandi við þau drög sem fyrir liggja að raforkusamningi. Ég las þá upp hér að verulegu leyti. Það hefur alveg nýlega komið fram greinargerð frá Landsvirkjun þar sem hún er að meta sínar áætlanir eða réttara sagt að endurmeta. Slík greinargerð barst iðnrn. í gær frá stjórn Landsvirkjunar. En okkur var kunnugt um ýmsa fyrirvara af hennar hálfu í sambandi við raforkusöluna, og það er tekið með í athugasemdum við frv. þar sem þeir fyrirvarar eru raktir.

Eitt af því, sem nýjast er í þessum efnum, er að Landsvirkjun leggur nú áherslu á að aflaukandi aðgerðir á Þjórsár-Tungnaársvæðinu verði í tengslum við stækkun Búrfellsvirkjunar, en ekki með þeim hætti sem gert var ráð fyrir og raunar lögfest í heimildum í lögum um raforkuver sem sett voru í fyrra, að bætt yrði við fjórðu aflvélinni í Hrauneyjafossvirkjun og Sigölduvirkjun. Landsvirkjun er í nýjustu tillögum sínum að hverfa frá því, að það sé ráðlegt að fara í aukið afl í þeim virkjunum, en í staðinn leggur fyrirtækið og stjórn þess áherslu á að bætt verði við afl í Búrfellsvirkjun. Það er mál sem sjálfsagt er að athuga í fyllstu alvöru, hvort ekki er skynsamlegra að hverfa að því heldur en hinu, sem áður var fyrirhugað. Ég tel engan veginn ástæðu til að vísa því frá að óathuguðu máli. Þvert á móti ber að skoða það með jákvæðum huga. Þarna er ekki um virkjun að ræða í þeim skilningi — ekki um nýja virkjun — heldur viðbótarafl og áreiðanlega hagkvæma viðbót, þar sem er stækkun á Búrfellsvirkjun sem kölluð hefur verið Búrfellsvirkjun II, en jafnframt fæst aukin orkuvinnslugeta inn á kerfið í nokkrum mæli.

Þetta tel ég rétt að fram komi í sambandi við þennan þátt. En auðvitað þarf að athuga vel allt sem lýtur að orkuframleiðslunni og orkuflutningi til verksmiðjunnar á Austurlandi á meðan ekki er komin upp ný virkjun, nýtt afl þar eystra, sem þó er að stefnt að verði innan ekki mjög langs tíma, eins og hv. þm. er kunnugt, þar sem eru tillögur um Fljótsdalsvirkjun og heimildir sem fyrir liggja um hana.

Það var spurt um það af hv. 5. þm. Suðurl., hvort það raforkuverð, sem gert hefur verið ráð fyrir í hagkvæmniathugunum sé miðað við afhendingu frá stöðvarvegg virkjunar eða við viðtökustað í verksmiðju. Hér er um að ræða þá orku, sem afhent yrði verksmiðjunni, sem greidd yrði með þessu verði samkv. þeim útreikningum sem fyrir liggja um þetta, en endanleg ákvörðun um raforkuverð verður að sjálfsögðu ekki ráðin fyrr en með formlegum orkusamningi.

Ég tek alveg undir það sjónarmið, sem hér hefur komið fram, að vissulega þurfum við að athuga vel hvernig við verðleggjum okkar orku og hvernig við tengjum saman orkuverðið og nýjan iðnað. Það er alveg rétt, sem hv. 3. þm. Austurl. benti á, að það getur verið ástæða til að hjálpa nýjum fyrirtækjum á laggirnar með því að létta undir í sambandi við kröfur varðandi orkuverð fyrst í stað, þegar um er að ræða íslensk fyrirtæki, því þá er þetta í rauninni eitt og sama dæmið sem við erum með í höndunum. Raunar er gert ráð fyrir slíkri þrepun í sambandi við þessa kísilmálmverksmiðju, þar sem meðalverðið hefur verið sett 17.5 mills í áættunum, en gert ráð fyrir heldur vægara verði fyrstu 10 árin, en aftur hærra á seinni 10 árunum. Þetta er mál sem þarf nánari athugunar við. En allir erum við væntanlega sammála um að halda þannig á málum að orkufrekur iðnaður í landinu greiði á heildina litið þá orku sem til hans er varið og helst betur og verði ekki íþyngjandi fyrir hinn almenna markað, eins og raunin hefur orðíð á undanförnum árum.

Hv. 5. þm. Vestf. vék að nokkrum þáttum þessara mála, m.a. varðandi opinber gjöld og nauðsyn að samræmi yrði þar á milli varðandi hliðstæð fyrirtæki í landinu. Undir þetta get ég tekið. Það ber að stefna að slíku, að samræma álagningu opinberra gjalda á orkufrekum iðnfyrirtækjum, en það á ekki að hindra að við stígum skref sem réttmæt eru talin í þessum efnum. Ég tel að það sé mjög æskilegt að hverfa að því ráði, sem lagt er til í þessu frv., að í senn sé hægt að veita fjármagni til sveitarfélaga í landinu almennt í gegnum jöfnunarsjóð þeirra, en einnig til svæðisbundinnar uppbyggingar í iðnaði.

Hv. 5. þm. Vestf. nefndi Vestfirði í þessu sambandi og óttaðist að þeir yrðu afskiptir. Ég skil ósköp vel það sjónarmið. Spurning kann að vera hvort ætti að líta á gjaldtöku af þessu tagi eða álagningu sem eins konar auðlindaálagningu. Þá gætu menn kannske farið að horfa til þeirra auðlinda sem Vestfirðingar ausa af, sem betur fer, nokkuð ríkulega, þ.e. auðlinda sjávar. Það væri hugsanlegt að afla tekna til uppbyggingar í öðrum atvinnurekstri af þeirri ríkulegu auðlind, á sama hátt og þeir, sem búa vel að orkulindum, leggja eitthvað á þær til svæðisbundinnar uppbyggingar. Þetta er aðeins sett hér fram til íhugunar og ábendingar í þessu sambandi, en ekki hugsað sem stefnumarkandi framlag á þessu stigi.

Herra forseti. Ég ætta ekki að orðlengja þetta hér og nú. Það verður eflaust tækifæri til þess að ræða þessi mál við síðari umr. ef ástæða þykir til af minni hálfu. Ég mun leitast við að koma upplýsingum á framfæri við þá þingnefnd sem um þetta mál fjallar. Ég tel mjög æskilegt ef iðnn. þingsins gætu unnið a.m.k. að hluta til sameiginlega að athugun þessa máls vegna þess stutta tíma sem við höfum til stefnu miðað við að þetta frv. verði lögfest eins og óskir eru um frá minni hálfu.