15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3772 í B-deild Alþingistíðinda. (3259)

180. mál, stefna í flugmálum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég bað um orðið áðan, kannske ekki af miklu tilefni, ætlaði að koma fram fáum athugasemdum við ýmislegt af því sem 1. flm. þessarar till. hafði að segja. En þá lá hæstv. samgrh. svo mikið á að láta ljós sitt skína í þessum efnum að hann hefur eiginlega að mestu leyti tekið af mér lystina til að ræða málið á svipuðum nótum og ég hafði hugsað mér áður. Ég held samt að ég verði að gera örfáar athugasemdir við málflutning hv. þm. Árna Gunnarssonar, vegna þess að mér finnst ekki vera samræmi í hlutunum, og það kemur fram á mörgum sviðum.

Hann deilir t.d. á hæstv. samgrh. fyrir, eins og hann orðaði það, hringavitleysu, stefnuleysi og fásinnu í meðferð íslenskra flugmála, og fleiri stóryrði hrutu af hans vörum án þess að nægilegar skýringar kæmu á móti. Og meira en helminginn af ræðutíma sínum notaði hann til þess að tala um Iscargo. Ég hélt að það mál hefði verið nokkurn veginn útrætt hér og ástæðulaust að vera að fjasa yfir því, þó að Arnarflug, stórríkt fyrirtæki, að því er virðist, kaupi „fallít“ fyrirtæki til þess að fá flugrekstrarleyfi sem enginn annar getur fengið en Arnarflug ef Iscargo hættir. Þetta voru auðvitað algerlega tilgangslaus kaup og um það á ekki að vera að fjasa hér lengi. Við eigum ekkert að vera að skipta okkur af því, þó að ýmsir hlutir gerist í samtryggingu samflokksmanna í Framsfl. Það er auðvitað málið. Ég er ekki að segja að hæstv. samgrh. hafi haft neina milligöngu í því efni, en það liggur auðvitað í augum uppi að Arnarflug getur alls ekki notað þessa hlandbrunnu flugvél sem um var talað, hvorki undir farþega né annað raunar til sinnar starfsemi. Þaðan af síður er nokkrum manni bjóðandi inn í þá kofa sem Iscargo átti á Reykjavíkurflugvelli. Allt málið er óskiljanlegt og ég ætla ekki að heimta á því nemar skýringar. Ég held að þær liggi í augum uppi.

Hv. þm. lagði síðan út af þessu, að hæstv. ráðh. hefði verið að veita Arnarflugi flugleyfi á Amsterdam og aðrar Evrópuhafnir, flughafnir að sjálfsögðu í þessu tilfelli. En hann sagði að með þessu hefði hæstv. ráðh. alls ekki stofnað til samkeppni. En þegar hann hafði talað í 20 mínútur þýddi þetta alveg það gagnstæða. Hann hélt því fram í lok ræðunnar, að það væri greinilegt að hæstv. ráðh. vildi auka samkeppni í flugmálum, og hneykslaðist á hvoru tveggja. Illa upplýstir menn í flugmálum átta sig ekki alveg á hvernig hægt er að hneykslast á því í fyrri hluta ræðunnar, að ekki sé stofnað til samkeppni með þessum flugrekstrarleyfum, og svo í lokin að það sé einmitt verið að stefna í mjög aukna samkeppni í flugmálum. Það er ekki að furða þó að við vankunnáttumenn skiljum ekki í slíkum ræðuhöldum.

Ég gerðist svo djarfur að kalla fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar og bera upp spurningar og fékk ámæli fyrir, þó að ég hafi vanist því að menn mættu skjóta inn orði og orði, ekki síst ef innskotið væri skynsamlegra en ræðan, en ég fékk auðvitað engin svör. Hv. flm. sagði hins vegar hvað eftir annað að hann hefði sínar skoðanir á því. En hann vildi alls ekki segja okkur hér á hv. Alþingi hverjar þær væru. Það á að segja mér yfir kaffibolla hér niðri. Mér finnst það einkennilegur málflutningur, ef á að fá menn til fylgis við eitthvert mál, að ljóstra alls ekki upp sínum skoðunum nema í einkaviðræðum hér niðri í kaffistofu. Það er svo sem eftir öðru.

Hv. flm. var mikið niðri fyrir og hann um það. Það er misjafnt hversu stóran bita þarf til þess að mönnum gangi erfiðlega að kyngja honum. En hann margendurtók, fjórum sinnum taldi ég það, hann orðaði það þannig, að hér væri mjög alvarlegt mál á ferðinni. En engum held ég að hafi tekist að finna út hvaða alvara var þar á bak við, og gerir kannske ekkert til.

Hv. þm. leggur ekki lítið til í þessari tillögu. Ég er að ýmsu leyti sammála honum í mörgum atriðum. Ég vil taka það fram. En ég er ekki viss um að það sé góðum málstað til framdráttar að hringla svona með hlutina í ræðum.

Það hefur lengi verið mín skoðun að eitt flugfélag væri nóg fyrir þann markað sem við höfum í millilandaflugi þar sem um áætlunarflug er að tefla. Það sýndi sig á sínum tíma, að samkeppni í þessum efnum er hæpin vegna þess að markaðurinn er ekki stór. Hitt er svo annað mál, að ég tel ekki skynsamlegt að festa þetta í lögum. Við höfum heyrt á stundum ýmsar athugasemdir og ádeilur á Flugleiðamenn fyrir að þeir hafi ekki staðið sig nægilega vel í þetta og hitt skiptið. Þó held ég að staðreyndin sé sú, að landsmenn séu langflestir í langflestum tilfellum ánægðir með þau viðskipti. Þetta flugfélag hefur verið rekið á margan hátt af miklum myndarbrag. Sannleikurinn er sá, að það hefur einmitt séð mjög vel um viðhaldsmálin og annað þeim tengt og betur en aðrir sem hafa verið að glíma við flug hér á Íslandi, m.a. þeir sem amast við Iscargo og öðrum félögum. En ég tel ekki ástæðu til að festa þetta í lögum, því að ef eitthvað ber út af, ef þjónustan slaknar, þá þarf að vera hægt að grípa til viðeigandi ráðstafana án þess að þurfa að vera að breyta lögum um stefnu í íslenskum flugmálum. Ég get þess vegna ekki fallist á 1. tölul. þó að ég hafi þá skoðun, að millilandaflugsmarkaðurinn sé ekki stærri en það að hann þoli ekki nema eitt flugfélag.

Það er sem sagt skoðun flm., að samkeppni sé óheppileg í þessum efnum vegna smæðar markaðarins, eins og ég hef verið að segja sem mína skoðun. En svo kemur allt í einu allt annað upp á teningnum þegar um leiguflug er að tefla. Þá segir hv. flm. í ræðu áðan og það stendur í till., að öllum sé frjálst að stunda leiguflug eins og þeim sýnist og þar sé rétt að taka upp óhefta samkeppni. Það skyldi nú aldrei vera svo, að sá markaður sé ekki líka nokkuð takmarkaður. Auðvitað er hann það. Það vita allir um þann markað, nokkurn veginn upp á haus, hvað flogið er með marga Íslendinga og hvert á hverju ári. Þess vegna tel ég ekki skynsamlegt að gefið sé fullt frelsi, eins og það er kallað, til þess að hlutaðeigandi aðilar fái leyfi til að drepa hver annan með of litlum flutningum á hvert fyrirtæki. Það þarf að takmarka það líka, en alls ekki við eitt flugfélag. Þar þarf og á að halda öðruvísi á málum.

Ég skildi aldrei og fékk ekki að vita hvað það þýðir, sem stendur í 4. tölul. till., að þess verði þó alltaf gætt, að leiguflug fari ekki í bága við áætlunarflug. Svona setning segir ekki mikið. Maður hefur grun um að flm. hafi þarna ákveðnar meiningar, en alls ekki hverjar. Þýðir þetta t.d. það, að ekki megi veita leiguflugfélagi leyfi til þess að fljúga leiguflug á staði sem eru nálægt eða jafnvel á sömu staði og áætlunarflug fer fram á? Ég tel alls ekki útilokað, síður en svo, að þarna sé möguleiki fyrir fólk að fá ódýrara far á milli landa með því að leyfa leiguflug á þá staði. Það gæti einmitt orðið til þess að veita nokkuð eðlilega samkeppni í þessum efnum þó að sá aðili fái ekki heimild til áætlunarflugs. En þetta yrði auðvitað að vera í hófi. Þegar menn mæla fyrir tillögum af þessu tagi án þess að skýringar fylgi í grg. með einstökum tölul., þá þurfa þeir einmitt að nota tækifærið til þess að skýra út hvað þeir eiga við með tilteknu orðalagi. Það skiptir höfuðmáli. Skal ég ekki eyða fleiri orðum um það.

Mér fellur auðvitað ekki 2. tölul. því að það dæmi gengur ekki upp að fljúga með smáflugvélum á nokkra aðalflugvelli í landinu. Í sumum tilfellum er það hægt og hefur verið gert, en það er alls ekki hægt að hafa það sem aðalreglu. Ég held að það lag, sem hefur verið notað í innanlandsfluginu, að Flugleiðir hafi áætlunarflug á helstu staðina, en síðan komi annað traust flugfélag sem fái möguleika til þess að byggja sig upp og þjóna landsmönnum með minni flugvélum, hafi gengið þokkalega í sumum tilfellum og vel, ekki síst eftir að viðhald á vélum Arnarflugs fór til Flugleiða. En flug utan af smærri stöðunum inn á einhverja aðalflugvelli í hverjum landshluta gengur ekki upp. Sannleikurinn er sá, að það er ákaflega erfitt að reka flugfélag annars staðar en frá Reykjavík eðli málsins samkv., og ætla ég ekki að eyða tíma í að útskýra það. (SighB: Það er nú misjafnt.) Það er alls ekki óskynsamlegt að hafa það sem aðalreglu þó að annað geti gengið í einstaka tilfellum. Þar sem það hefur gengið er það ekki nema fyrir alveg sérstakan dugnað hlutaðeigandi manna. Það er nú einu sinni þannig, að flugferðir manna á milli staða á landinu eru yfirleitt annars vegar utan af landi og hins vegar til Reykjavíkur, en miklu minna um flug á milli annarra staða úti á landi. Langmest flugumferð í landinu er milli Reykjavíkur og annarra staða.

Herra forseti. Ég held að það sé ástæðulaust að hafa þetta miklu lengra. Það er auðvitað hægt að nefna þarna aðra töluliði eins og 5. liðinn um viðgerðirnar og viðhald vélanna inn í landið. Það hefur verið lengi á dagskrá flugvirkjafélaganna í landinu að fá þetta inn í landið og er eðlilegt. Það skapar auðvitað vinnu og æskilegt að það viðhald verði sem mest. En ég tel að hv. flm. taki of stórt upp í sig með því að segja þarna: allar viðgerðir og viðhald. Eðli málsins samkv. er mjög erfitt, ekki síst ef um flug er að ræða eins og t.d. Lúxemborg-Keflavík-New York, að annast viðhald flugvéla á millilendingarstaðnum. Það sér hver maður í hendi sinni. En auðvitað er rétt að stefna að því, að sem mest af þeim, sem hagkvæmt er að flytja inn í landið, verði hér.

Í 6. lið fer hv. flm. ekki fram á litið þar sem hann talar um að hækka framlög til flugmála upp í 1.5% fjárlaga á ári. Ég held að flestir séu sammála um að reyna eftir getu að bæta hér flugleiðsögukerfi og flugvelli og aðbúnað farþega á hinum ýmsu flugvöllum í landinu. En það er ekki við því að búast að við getum búið alla okkar flugvelli í landinu fullkomnustu tækjum. Það er eins og hver önnur fjarstæða. Norðmenn, sem hafa mjög gott flugkerfi í sínu landi, miða við að hafa slíka flugvelli fyrir 100–2110 þús. manns hvern. Það ætti þá ekki að vera nema einn eða tveir flugvellir hér í landinu ef við ættum að hafa sama mælikvarða og þeir. Við verðum auðvitað að sníða okkur stakk eftir vexti.

En hver er þessi hækkun? Það vill svo til að þær upplýsingar eru í plagginu. að hæstar hafa fjárveitingar verið 1974 eða rúmlega 1% af fjárlögum. Þyrfti sú hæsta tala. ef hún ætti að ná þessu marki. 1.5%. að hækka um 42% og það er allvæn fjárhæð. En ef miðað er við lægstu töluna, frá 1978. þá þyrfti fjárveitingin að hækka um 226% til þess að ná þessu 1.5%. Og þessi tala þyrfti næstum að þrefaldast ef miðað er við fjárveitinguna 1981. Það er því mjög vel í lagt að leggja þetta til. Ég er hins vegar sammála hv. flm. þessarar till. um að við þurfum að reyna að gera heldur meira í þessu og reyna þá að gæta þess að fara sem best með peningana á sama tíma.

Það, sem mér hefur fundist vanta í sambandi við peningamál flugsins hjá okkur, er að fá áætlanir og fjárveitingar í fastara form og ákveðnari búning, með svipuðum hætti og gerist með vegáætlun. og tryggja þá ákveðna tekjustofna. Síðan geta menn auðvitað deilt um það. hversu hátt hlutfall þetta á að vera af fjárlögum eða þjóðarframleiðslu eða hvaða viðmiðunartölu sem er. En lykilatriðið er að mínum dómi að koma þessu í fast form. áætlun t.d. til fjögurra ára sem sé síðan endurskoðuð á tveggja ára fresti eins og gert er með vegáætlun. eða jafnvel að stytta þetta um helming og hafa þá ekki áætlun til tveggja ára í senn, því að þarna eru býsna örar breytingar á stundum. og endurskoða jafnvel á hverju ári. Þetta er auðvitað framkvæmdaatriði. ef af þessu yrði, en meginatriðið er að mínum dómi að koma þessu í fastari og ákveðnari búning.

Um 8. tölul. er kannske hægt að segja örfá orð. fyrst ég er kominn svona langt niður eftir listanum. Þar segir flm. að Reykjavíkurflugvöllur skuli verða framtíðarflugvöllur Reykjavíkur vegna innanlandsflugs. Mér finnst hv. flm. taka býsna stórt upp í sig með þessu. jafnvel þó að einhverjir aðrir hati hugsað þetta áður. og skiptir ekki máli og er þá kannske síður frumlegt. En það er staðreynd. eins og segir einhvers staðar í þessu plaggi. að flugvöllurinn okkar í Reykjavík er í hjarta borgarinnar. Það orðalag og sú staðreynd segir kannske það sem þarf að segja. Það er hættulegt að hafa flugvelli inni í miðjum borgum. Það er engin leið að loka augum fyrir því. að oftast verða óhöpp í sambandi við lendingu eða flugtak. þó að við á Íslandi höfum haft svo gott flugfélag — ég vil segja það — að ekki hafi orðið hér umtalsverð slys í áætlunarflugi innanlands í marga áratugi. Það er alveg sérstakt að svo skuli vera.

Það er nú þannig. herra forseti. að flugvélar á styttri flugleiðum eru farnar að taka breytingum. Þá er ég að tala um mjög stuttar flugleiðir eins og eru hér á Íslandi. Það er verið að taka upp flugvélar til þess brúks í útlöndum sem þurfa stuttar flugbrautir. og þess vegna væri kannske hægt að nota Reykjavíkurflugvöll af þeim ástæðum einum áfram. En það er auðvitað sama hættan varðandi flugtak og lendingu eftir sem áður. En vegna þessara breytinga á flugvélunum er hægt að notast við miklu minni flugvöll annars staðar og kostnaðarminni. ef við vildum taka þá ákvörðun að leggja Reykjavíkurflugvöll niður. Reykjavíkurflugvöllur og umhverfi hans er mjög stórt og gott byggingarsvæði og ef Reykjavíkurborg ákvæði að reisa hús bæjarbúa á því svæði á næstu árum yrði auðvitað á allan hátt miklu ódýrara fyrir bæjarbúa að reisa stór og mörg íbúðarhverfi borgarinnar þar en annars staðar. Flugvöll fyrir minni vélar og nýjar STOL-vélar, sem verða sjálfsagt notaðar hér í framtíðinni eins og annars staðar, mætti byggja hér í nágrenninu og þyrfti þá ekki að vera nærri því eins stór um sig eða dýr og flugvöllur hér í Reykjavík. T.d. væri hérna yfir á Álftanesinu rými fyrir slíkan flugvöll. Stærri vélar notuðu þá bara Keflavíkurflugvöll, og ég vorkenni engum að keyra 30 mínútur þarna á milli ef á því þyrfti að halda.

Ég vil ekki slá því fram að Reykjavíkurflugvöllur skuli vera flugvöllur Reykjavíkur til frambúðar. Mér finnst það ekki skynsamlegt. Um þetta er mikið deilt, eins og menn vita, og ég segi fyrir mig: ég treysti mér ekki til að halda slíku fram eða setja það í lög. Ef menn athuga bara hvernig Reykjavíkurflugvöllur er, þá er hann svo sem ekki mjög beysinn flugvöllur. Það er ekki nema ein almennileg braut á vellinum sem liggur í norður og suður, 02–20 eins og þeir kalla það, og svo önnur sem liggur nokkurn veginn í austur og vestur, eða kannske nær því að vera suðaustur og norðvestur, sem stefnir beint á Öskjuhlíðina. Hún er stutt og þegar menn þurfa að taka af í suðaustur þurfa þeir að reisa sig mjög fljótt upp fyrir. því að brautin endar rétt við brekkuna í Öskjuhlíðinni. Um aðrar flugbrautir er varla að tefla nema suðvesturbrautina sem kölluð er, þar sem menn taka aðflug hérna á milli turnanna á Landsspítalanum og grænmetisversluninni eða hvað það nú er, þarna hinum megin við Miklubrautina. Það eru margar byggingar og mikil hindrun fyrir aðflug og flugtak raunar einnig á þeirri braut og auðvitað ekkert vit í að nota slíka braut. Ég held því að það sé ekki í mikið að halda þegar allt kemur til alls.

Þá held ég, herra forseti. að hægt sé að enda á 7. lið þar sem hv. þm. Árni Gunnarsson lýsti því hér í votta viðurvist, að hann skammaðist sín alveg niður fyrir tær að lenda hér og ganga í gegnum ameríska herstöð. ég tala nú ekki um. hann roðnaði eins og óspjölluð mey þegar hann talaði um það að sýna útlendingum NATO-skilti þegar þeir kæmu hingað. Það er gaman að heyra það, að kratarnir, hv. Alþfl.-menn, mestu hermangarar og NATO-sinnar í þessu landi, skuli nú skammast sin ef þeir sýna útlendingum herstöðina.

Hverjum er þetta svo að kenna, að það þurfi að sýna útlendingum þessa stöð? Kommunum, þeim sem vilja losna við þennan ófögnuð úr landinu. Það er þá þeim að kenna. Svona er maðurinn liðugur, hv. þm. Árni Gunnarsson. Reyndar myndarpiltur og sólbrenndur, var mér sagt áðan. Það er kommunum að kenna, einmitt þeim sem vildu hreinsa af andliti Fjallkonunnar þennan ósóma. þátttöku í hernaðarkapphlaupi í veröldinni. Hugsið þið ykkur ógeðið á þessu. Ég held að menn hugsi þetta bara aldrei nógu langt. Menn eru að telja sig með því standa með vestrænum þjóðum. svona í hátíðarræðum. Menn eru bara að taka þátt í hernaðarbandalagi. Meira að segja ganga menn svo langt hér í þingsölum að fara að tala um hvað þessi eigi nú margar morðeldflaugar til þess að geta drepið svona og svona margar milljónir í einu. telja þetta svona milli sín hér í þingsalnum. í staðinn fyrir að skammast sín og hætta þátttöku í þessum viðbjóði, og rekja röksemdir herforingja í austri og vestri fyrir því. hvað sé nauðsynlegt að bæta við helsprengjum til þess að geta sprengt alla íbúa jarðar upp kannske 10 sinnum hvor. Svo kemur þessi hv. þm., Árni Gunnarsson. og segir að það sé kommunum að kenna að við þurfum að horfast í augu við NATO-skilti hér. Hann segir að þetta sé fullvalda þjóð til skammar. Ég hef aldrei verið eins mikið sammála þessum manni og einmitt um þetta. En honum finnst það ekki til skammar að við reisum nýja flugstöð, eins og hann kallar það, en nefnir ekki hver á að borga. Honum finnst það ágætt. Kannske finnst honum það bara til sóma að láta Bandaríkjamenn greiða sér fyrir það eins og eldgamalli atvinnustétt að hafa afnot afvissum hluta landsins með peningum til þess að byggja fyrir okkur flugstöð, til þess að við getum gengið í gegnum nægilega fínt hús þegar við förum á milli landa. Mér ofbýður svona málflutningur satt að segja.

Herra forseti. Margt annað mætti segja um þessa till. Hún vekur kannske áhuga einhverra á flugmálum, og ég virði þann áhuga sem hv. þm. Árni Gunnarsson hefur í þessa áttina. Ég vil aðeins segja það, þó að ég sé ekki vel að mér í þessum efnum, að ég hefði í sporum hv. þm., áður en ég flytti svona tillögu — ég tala nú ekki um greinargerðina, ég minnist ekki á Iscargo-ræðuna — reynt að ræða þetta við menn sem hafa verið að gutla í þessu og eru það sumir enn þá, áður en ég færi að segja saman svona texta.