15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

180. mál, stefna í flugmálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að leggja örfá orð í belg varðandi þessa till., sem hér liggur frammi til þál. um mótun stefnu í íslenskum flugmálum. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir till., en ég hef nokkrar spurningar í huga til hv. flm.

Ég skil það svo á 1. tölul. þessarar þáltill., að flm. og þá væntanlega allir hv. þm. Alþfl. séu með það í huga, að eitt íslenskt flugfélag hafi einokun á áætlunarflugi til og frá landinu og jafnframt því, eins og hér segir, á öllum aðalflugleiðum innanlands. Ég skil það svo, að þeir telji að hér eigi að vera eitt flugfélag með nánast allt áætlunarflug. Það er út af fyrir sig stefna og gott er að hún komi fram og mönnum sé alveg ljóst hvað hv. þm. eru að fara. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst hvað átt er við í þessum tölulið með því, að þetta eina aðalflugfélag, sem þeir hugsa sér, hafi sérleyfi til áætlunarflugs á öllum aðalflugleiðum innanlands. Mér er ekki ljóst, hvað flm. eiga við með „aðalflugleiðum innanlands,“ og mér er spurn: Er þá átt við að taka eigi eitthvað af flugleiðum af þeim félögum sem nú fljúga innanlands? Ég hefði gaman af að heyra hvað flm. telur að sé aðalflugleið innanlands, hvað hann á við með þessu, hvort það sé eitthvað svipað og Flugleiðir hafa nú eða hvort þarf að þrengja að öðrum flugfélögum í þessu sambandi.

Mér virðist sem sagt ljóst, að hv. flm. telji að þarna eigi að vera eitt flugfélag með allt áætlunarflug sem eitthvað er. Þá kemur fyrsta spurningin til hv. flm. Árna Gunnarssonar. Þegar á sínum tíma var fjallað um það hér á hv. Alþingi að aðstoða þyrfti Flugleiðir til að halda uppi Atlantshafsfluginu voru sett ýmis skilyrði fyrir slíkri aðstoð og eitt skilyrðið var að Flugleiðir seldu eignarhlut sinn í Arnarflugi. Ég gat ómögulega skilið það skilyrði öðruvísi en þannig, að verið væri að leggja áherslu á að Arnarflug yrði sjálfstætt flugfélag. Mér virtist að allur meginþorri þm. væri inni á þessu og samþykki þetta. Einn flokkurinn hér á Alþingi gekk þó nokkuð lengra og taldi að þessi skilyrði og þ. á m. sala eignarhluts Flugleiða í Arnarflugi væru það veigamikil að um það dygði ekki einföld samþykkt, heldur væri nauðsynlegt að setja í lög að Flugleiðum yrði gert skylt að selja eignarhlut sinn í Arnarflugi. (Gripið fram í: Þetta er rangt hjá hv. þm.) Er það ekki rétt skilið? (Gripið fram í: Afstaða Alþfl. var sú, að ef ætti að setja skilyrði skyldi það bundið í lögum, en það var ekki tekin afstaða til einstakra skilyrða.) Ég held að menn hafi verið sammála um þau skilyrði sem fyrir lágu, og síðan var afstaða Alþfl. að skilyrðin ætti að setja í lög. Ég hef skilið það þannig að þetta skilyrði væri þar með. Þess vegna er mín spurning: Hvers vegna var það þá svo áríðandi að mati Alþfl. að gera Arnarflug sjálfstætt, að Flugleiðir seldu eignarhlut sinn í Arnarflugi, ef það er svo mikilvægt sem kemur fram í þessari stefnu að um sé að ræða eingöngu eitt flugfélag í áætlunarflugi? Var svo áríðandi að fá sérstakt leiguflugfélag að það væri ástæða til að lögfesta slík skilyrði sem þarna var um að ræða? Ég fæ þetta ekki alveg saman og mig langar til að biðja hv. flm. að gera nánari grein fyrir því, hvað Alþfl. átti við með þessu máli.

Hv. þm. Árni Gunnarsson gerði nokkuð að umræðuefni að það hefðu verið mikil mistök að styrkja Flugleiðir til að halda áfram Atlantshafsfluginu. Hann kvaðst vera á móti því og hafa verið á móti því og þetta mundi aldrei geta gengið. Ég hef reyndar alltaf sett nokkuð stórt spurningarmerki við það, hvort hér væri um að ræða styrk við Flugleiðir. Mér hefur virst að sú aðstoð, sem flugfélagið Flugleiðir fékk, hafi í öllum aðalatriðum verið miðuð við að það fengi frá ríkinu nokkurn veginn þær tekjur sem ríkið hefði af þessu Atlantshafsflugi og mundi glata ef flugið legðist niður. Í stærstum dráttum var miðað við það. Þar af leiðandi tel ég að það sé vafasamt í sjálfu sér að kalla þetta beinan styrk og hefði kannske verið eðlilegra að kalla það eitthvað sem svo að gjöldin væru felld niður af þessu, en tekjurnar hefðu tapast ef flugið hefði fallið niður. Við, sem að þessu stóðum, töldum að það væri rétt þar sem þarna væri um að ræða atvinnugrein sem hafði tekið fjölmörg ár að byggja upp, að kasta henni ekki frá sér þó að þannig syrti í álinn því að fram undan kynni að vera eitthvað bjartari tíð og það væri vafasamt að vera búinn að leggja þessa atvinnugrein niður ef lagaðist, jafnframt því sem menn töldu að ekki væri miklu til kostað ef flugfélaginu væru í aðalatriðum lagðar til þær tekjur sem af fluginu væru og töpuðust ef flugið legðist niður hvort eð væri.

Ég er þeirrar skoðunar, að þetta hafi tekist nokkuð vel. Mér sýnist af þeim skýrslum, sem nú liggja fyrir, að halli Flugleiða hafi minnkað mjög verulega síðasta ár, jafnframt því sem Flugleiðamenn hafa sjálfir upplýst að ef Atlantshafsflugið hefði verið lagt niður væri tap þeirra miklu meira án Atlantshafsflugsins en með því.

Í ljósi þessara atriða fæ ég ekki alveg séð hvert hv. flm. stefnir með þessum orðum sínum. Mér virðist vera ljóst að þarna sé um að ræða fjölmargt þjálfað starfsfólk sem hefur haldið vinnu sinni á sama tíma og atvinnuleysi er landlægt í löndunum í kringum okkur. Reynsla fjölda fólks nýtist áfram. Vonandi er að þarna lagist. Haldið er sem sagt opnum fram í framtíðina ýmsum möguleikum. Og mér er spurn: Hvað hefur tapast í sjálfu sér? Ég tók eftir að flm. talaði um að endurnýja þyrfti flugkostinn á þessum flugleiðum. Það má vel vera. En ef litið er yfir þessi ár, hvað hefur tapast og hvað hefur unnist? Ég fæ ekki séð að það gefi tilefni til stórra orða þó að flugfélaginu hafi í stórum dráttum aðallega verið lagt til það fé sem ríkið hefði ella tapað ef flugið hefði fallið niður. Fjöldi fólks hefur haft þarna vinnu og þegar við það bætist, að tap Flugleiða hefði orðið að líkindum miklu meira ef þetta flug hefði verið lagt niður, er mér ekki ljóst hvert flm. er að fara. En spurningin, sem ég vildi bera fram við hann í þessu sambandi er aðallega þessi: Mér hefur virst að hv. þm. Alþfl. og þó kannske sérstaklega hv. 1. flm. þessarar till., Árni Gunnarsson, hafi verið mjög harðir talsmenn þess, að ný flugstöð yrði byggð í Keflavík, þ.e. sú nýja flugstöð sem þegar liggur fyrir teiknuð, ef ég hef skilið orð þm. rétt. Nú stendur nokkur deila um stærð þessarar flugstöðvar og sumir tel ja að hún sé óþarflega stór. Ég ætla ekki að fara inn á það mál hér, en ég hygg þó að öllum sé ljóst að ef Atlantshafsflug Flugleiða legðist niður væri þó a.m.k. ástæða til að minnka hana og endurskoða þá uppdrætti sem þarna er

um að ræða. Þess vegna spyr ég hv. þm. Árna Gunnarsson: Hvernig fær hann það saman að berjast með öðru orðinu nokkuð vasklega fyrir byggingu þessarar stóru flugstöðvar í Keflavík. en með hinu fyrir því, að Atlantshafsflug Flugleiða verði lagt niður? (ÁG: Þjóðinni fjölgar væntanlega.) Jafnvel þó að svo væri, Árni, hefur það ekki áhrif í þessu sambandi. Þú ætlar þá að fjölga þjóðinni mikið á næstu árum ef það ætti að nást saman. Ég held að þarna skjóti þm, yfir markið. Ég held að hann hafi ekki hugsað þetta til enda frekar en þegar hann var að fást við Arnarflugsmálið hér og skilyrðin sem sett voru fyrir aðstoðinni við Flugleiðir. Ég ætla þó ekki að fara fleiri orðum um það í sjálfu sér, en mig langar til að biðja hv. þm. að svara því, hvað hann á við með þessu, hvert hann er að f`ara, því að mér er það alls ekki ljóst.

Ég vil síðan segja það, að ég tek undir með mörgum sem hér hafa talað varðandi 2. tölul. þessarar þáltill. Mér virðist hann ekki raunhæfur. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, því að ég er sammála því sem kom fram í máli ráðh. varðandi þennan tölulið.

Um Reykjavíkurflugvöll mætti sjálfsagt margt segja. Ég hygg að það sé a.m.k. óopinber stefna að hann verði þarna aðalflugvöllur til aldamóta. Hins vegar er ljóst að sambúð Reykjavíkurborgar við flugvöllinn hefur heldur versnað. Það hefur þrengst að honum og það eru ýmis vandkvæði þarna á ferðinni, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar. Ég hygg að þetta þyrfti að skoða nokkuð vel, og mér mundi finnast heldur óæskilegt að Alþingi mútaði stefnu í þessa átt án þess að hafa um það nokkra samvinnu við borgaryfirvöld í Reykjavík. þar sem búið er að leggja feiknalega vinnu í athugun á hvort það sé ekki í sjálfu sér hagkvæmast fyrir Reykjavíkurborg að flugvöllurinn yrði fluttur og þetta svæði tekið til íbúðabygginga. Ég ætla ekki að fara nánar inn á þær áætlanir. En hér er um mál að ræða sem er engan veginn einfalt og glettilega viðamikið og flókið í mati.

Ég vil síðan segja að æskilegt er að fá fram á Alþingi umr. um stefnu í flugmálum. Það má vel vera að þessi till. geti átt þátt í að örva umr. um slíka stefnumótun, en ég hefði samt kosið að margt af því, sem fram kemur bæði í till. og málflutningi flm., hefði verið rökréttara og hann hefði sett sig betur inn í málið áður en hann lagði till. fram.