15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3797 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

38. mál, fangelsismál

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur fjallað um till. til þál. um fangelsismál á þskj. 38. Nefndin fékk umsagnir frá allmörgum aðilum um þessa till., en þeir eru: Lögmannafélag Íslands, Fangavarðafélag Íslands, Skilorðseftirlit ríkisins, dómsmrn., Félagasamtökin Vernd, fullnustumatsnefnd og landlæknir. Sumar þessara umsagna voru mjög ítarlegar. Niðurstaða nefndarinnar varð sú, að hún mælir með samþykkt till., en með breytingu þó og er brtt. flutt á sérstöku þskj., 512. Breytingin er aðallega tvíþætt.

Það er í fyrsta lagi, að lagt er til að Alþingi kjósi sjö manna nefnd til að gera heildarúttekt á fangelsismálum, eins og nánar segir í brtt„ í stað þess að ríkisstj. var falið að skipa slíka nefnd í till.

Hin brtt. er að það er reynt að skilgreina nokkru nánar í till. hvert eigi að vera verkefni nefndar þessarar, en það var ætlun allshn. að verkefnið yrði fyrst og fremst að kanna fangelsismál í þrengri skilningi þess orðs, en ekki að fara sérstaklega út í athuganir eða tillögugerð um hvort fangelsisvist væri í sjálfu sér æskileg sem liður í viðurlögum við brotum á hegningarlögum.

Nefndin varð sammála um þessa niðurstöðu.