15.04.1982
Sameinað þing: 76. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3798 í B-deild Alþingistíðinda. (3269)

40. mál, sjúkraflutningar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Það, sem lá til grundvallar flutningi þessarar þáltill. um framkvæmd og skipulag sjúkraflutninga, var fyrst og fremst það ófremdarástand sem ríkir í þessum málum um allt land og viðurkennt hefur verið m.a. í þeim umsögnum sem hv. allshn. hefur fengið og enn fremur, sem er ekki þýðingarminna, það ósamræmi og sá mikli mismunur sem er á aðstöðu fólks um landið í sambandi við þennan þátt í útgjöldum að því er varðar heilbrigðismálm.

Ég verð að segja að ég gerði mér ekki grein fyrir því, þegar ég vann að undirbúningi þessarar þáltill., hvað þetta er raunverulega stórt mál. Hins vegar urðu á síðasta heilbrigðisþingi mjög miklar umræður um þetta mál og komu fram upplýsingar sem staðfestu umfang málsins. Það hefur ýmislegt verið gert síðan, m.a. hefur verið gefin út heilbrigðisskýrsla um sjúkraflutninga á landlæknisembættinu. Í þeirri skýrslu segir á einum stað, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og fram kemur á töflum, sem birtast með í þessari bók um rekstur sjúkraflutninga á hinum ýmsu stöðum á landinu, er það mjög flókið og má segja að sjúkraflutningum sé ekki fyrir komið á neinum tveim stöðum á landinu með sama hætti.“

Víðar í þessari skýrslu er bent á það ósamræmi, sem í þessu er, og hvernig þessi rekstur er.

Í bréfi. sem mér barst frá læknaráði Borgarspítalans um þetta mál. segir m.a. að nauðsynlegt sé að taka þessi mál öll til umfjöllunar og það telur brýnt að sett sé inn í lögin ákvæði um menntunarmál sjúkraflutningsmanna. en menntun þeirra er mjög misjöfn“ Læknaráð Borgarspítalans lýsir yfir fullum stuðningi við endurbætur á málefnum þeim, sem varða sjúkraflutninga í landinu, og vill sér í lagi undirstrika menntunarþörfina og er reiðubúið að tilnefna fulltrúa í nefnd sem geri tillögurum þessi mál.“

Þessar tilvitnanir ásamt mörgum öðrum umsögnum, sem hv. frsm. nefndarinnar kom inn á áðan, sýna nauðsyn þess. að þessi mál séu tekin föstum tökum. Ég ber fyllsta traust til þeirra aðila. sem eru að fjalla um þetta mál, m.a. þeirrar endurskoðunarnefndar um heilbrigðislöggjöfina sem vinnur í málinu. Mér er kunnugt um að nefndin leggur til að sjúkraflutningar greiðist af sjúkratryggingum og að þessi mál séu sett undir skipulag heilsugæslustöðvanna. Það þarf eigi að síður að vera vel á verði um þetta. Ég treysti því. að hæstv. ríkisstj. fylgi þessu máli eftir, því að eins og ég tók fram áðan virðist þetta vera miklu umfangsmeira og þýðingarmeira mál — ekki síst til að jafna aðstöðu í landinu — en menn höfðu gert sér grein fyrir.

Ég þakka hv. nefnd fyrir afgreiðslu þessa máls.