16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3811 í B-deild Alþingistíðinda. (3294)

191. mál, Blindrabókasafn Íslands

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Menntmn. hefur fjallað um frv. til l. um Blindrabókasafn Íslands. Eins og nafnið ber með sér fjallar frv. um stofnun Blindrabókasafns Íslands sem skal vera undir yfirstjórn menntmrn. Enda þótt hér sé um að ræða fyrstu löggjöf um þetta efni er hér ekki um nýja starfsemi að ræða. Hún hefur átt sér stað hér á landi undanfarin ár og áratugi. Í viðauka I, sem fylgir með frv., er sögulegt yfirlit yfir bókagerð fyrir blinda og sjónskerta. Sú starfsemi hefur einkum farið fram hjá Blindrafélaginu, fyrst með bókagerð með blindraletri og síðan hljóðbókagerð. Hin síðari ár hefur Borgarbókasafn Reykjavíkur einnig verið í samstarfi um þetta málefni við Blindrafélagið og annast útlán úr Hljóðbókasafni.

Menntmn. fór í heimsókn til Blindrafélagsins, þar sem hljóðbókagerðin fer fram, og skoðaði bæði hana og safnið og ræddi þar við fulltrúa frá Blindrafélaginu og Borgarbókasafni Reykjavíkur. Hljóðbókasafnið er byggt upp á tvennan hátt. Í fyrsta lagi og stærsti þátturinn er gerð hljóðbóka, sem fram fer í stúdíói á Blindraheimilinu, og í öðru lagi eru svo hljóðritanir, afritanir af hljóðritunum frá Ríkisútvarpinu þegar sögur eru lesnar upp þar. Hljóðbókagerðin hjá Blindrafélaginu byggist mikið á lestri sjálfboðaliða og aðstaða er þar í tveimur stúdíóum til að hafa upptökur í gangi sem eru þar langan tíma á hverjum degi. Fjögur eintök eru gerð af hverri upptöku, en þrjú af þeim eru til útlána.

Þrátt fyrir þessa hljóðbókagerð fullnægir Hljóðbókasafnið hvergi nærri þeirri eftirspurn sem nú er á slíku efni til útlána. Þörfin hefur vaxið ört síðustu árin og auk þeirra, sem blindir eru, hafa kannske orðið blindir á ungum aldri, er vaxandi fjöldi gamals fólks sem óskar eftir að fá að njóta þessarar þjónustu. En vegna þess að safnið hefur ekki nægan eintakafjölda hefur orðið að takmarka mjög nýja viðskiptavini við Hljóðbókasafnið og er það vitanlega óviðunandi ástand til frambúðar. Það, sem veldur því að ekki er unnt að taka fleiri afrit en þrjú til útlána, er samningur sem nú er í gildi við Rithöfundasamband Íslands um það efni. Formaður menntmn. átti viðræður við fulltrúa frá því sambandi og þeir tjáðu sig fúsa til viðræðna um endurskoðun á þeim samningi, en e.t.v. þyrfti fleira að koma inn í þann samning þá um leið. Það er vitanlega mjög brýnt verkefni að þetta verði gert, þar sem viðskiptavinirnir eru orðnir svo margir að það er hvergi nærri nægjanlegt að hafa aðeins þrjú eintök.

Fulltrúar Blindrafélagsins skýrðu menntmn. frá því, að þeir væru reiðubúnir að veita Blindrabókasafni Íslands aðstöðu í Blindraheimilinu þar sem upptaka og safn er nú. Það stendur fyrir dyrum viðbygging við þetta húsnæði svo að þeir telja að þar muni verða nægilegt húsrými. Og þeir telja að það sé mjög æskilegt að þessi starfsemi haldi þarna áfram til þess að hún verði í tengslum við íbúa heimilisins, en það er mikils virði fyrir þá að hafa tengsl við þá sem að þessari starfsemi vinna. Nm. telja líka mjög mikinn ávinning að því, að það sjálfboðaliðastarf sem hefur haldið uppi hljóðbókagerðinni mikið á síðustu árum, haldi áfram, þar sem það tengi þá margt fólk við þá sem þarna eru til heimilis. En þrátt fyrir það, að þarna sé hægt að byggja á aðstöðu sem þegar er fyrir, er augljóst að á næstu árum muni þurfa auknar fjárveitingar til starfseminnar til þess að hún komist í það viðunandi horf, og þá sérstaklega að sinna ört vaxandi fjölda aldraðs fólks sem óskar eftir þessari þjónustu, og þá ekki eingöngu þeim sem eru blindir, heldur þeim sem eru fatlaðir á annan hátt og eiga erfitt með lestur venjulegra bóka. Þess vegna kom sú skoðun fram í menntmn. og er studd af öllum nm., að æskilegt gæti verið að tengja þessa þjónustu við blint og aldrað fólk annarri þjónustu sem fram fer við aldraða.

Í 8. gr. frv. er kveðið á um að kostnaður við starfsemi Blindrabókasafnsins greiðist úr ríkissjóði eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum. Ekki liggur neitt fyrir um hve miklar fjárveitingar verði að ræða, enda þörfin óljós, eins og ég sagði áðan. Hins vegar er í 8. gr. einnig ákvæði um að það geti verið um aðrar tekjur að ræða fyrir Blindrabókasafnið. Telja nm., eins og getið er um í nál., að nauðsynlegt verði að athuga síðar á þessu ári eða á næsta ári hvort fjármögnun þessarar þjónustu við sjónskert aldrað fólk og blinda geti að hluta tengst ákveðnum sjóðum eða með öðrum hætti verði tryggðar reglubundnar tekjur til starfseminnar. Þessu vildu nm. koma á framfæri við umr. málsins hér. En reynslan mun skera úr um hversu mikil þörfin verður og hvernig hagkvæmast verður að ráða fram úr þessum málum.

Það frv., sem hér liggur fyrir, má segja að sé rammalöggjöf utan um þessa starfsemi. Nefndin leggur einróma til að það verði samþykkt eins og það liggur hér fyrir.