16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3814 í B-deild Alþingistíðinda. (3298)

264. mál, tollheimta og tolleftirlit

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum um tollheimtu og tolleftirlit með síðari breytingum, en þetta frv. fjallar fyrst og fremst um svonefnda tollkrít. Það er megintilgangur frv. að leggja grundvöll að nýju fyrirkomulagi í sambandi við tollmeðferð innflutnings og opna möguleika til þess að veittur sé greiðslufrestur á aðflutningsgjöldum á innfluttum vörum í miklu ríkari mæli en verið hefur fram til þessa. Meginefni frv. kemur fram í 5. gr. þess, sem er breyting á 53. gr. tollalaganna, en í þessari frvgr. segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur með reglugerð eða öðrum fyrirmælum heimilað tollstjórum að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum af innfluttum vörum. Heimild þessa má takmarka við. innflytjendur sem flytja inn vörur í atvinnuskyni, þ. á m. umboðsmenn þeirra og miðlara, svo og innflytjendur sem stunda framleiðslu vara eða viðgerðarþjónustu í atvinnuskyni og flytja inn aðföng til starfsemi sinnar.“

Í 3. mgr. þessarar greinar segir einnig: „Greiðslufrestur af aðflutningsgjöldum skal vera að meðaltali tveir mánuðir frá þeim tíma er far tekur höfn eða talið frá úttektardegi vöru hafi hún verið sett í tollvörugeymslu.“

Loks segir í niðurlagi sömu mgr.:

„Hafi frestur verið veittur til greiðslu aðflutningsgjalda samkv. þessari grein má ákveða með reglugerð að greiða skuli af þeim sömu vexti og gilda hverju sinni um innlán á sparisjóðsbókum samkv. ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 13. gr. laga nr. 10/1961, með síðari breytingum.“

Loks vil ég sérstaklega nefna upphaf næstu mgr., sem er mjög mikilvægt, en þar segir:

„innflytjandi, sem fær greiðslufrest á aðflutningsgjöldum samkv. ákvæðum þessarar greinar, skal tollafgreiða allan innflutning sinn á þeim kjörum. Þó skal heimilt að undanþiggja einstakar vörutegundir þessu skilyrði ef sérstakar ástæður þykja til.“

Þau rök, sem búa að baki því nýja skipulagi sem hér er gerð tillaga um að komið verði á við tollmeðferð á vörum, hafa oft verið rædd hér á Alþingi. Gerð er ítarleg grein fyrir þeim rökum í sérstöku nefndaráliti sem dreift var til hv. alþm. fyrir fjórum árum og fjallaði einmitt um þetta sama málefni. Ég ætla ekki að tíunda þessi rök hér, en nefni þó að þau byggja fyrst og fremst á því, að um aukna hagræðingu og sparnað verði að ræða sem verði báðum til góðs, bæði innflytjendum og þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda, og svo hins vegar ríkinu, sem hefur að sjálfsögðu mikinn kostnað af tollmeðferð á vörum, en talið er að þetta nýja fyrirkomulag gæti gert margt einfaldara og ódýrara í framkvæmd í sambandi við tollmeðferð en nú er.

Gagnrök, sem borin hafa verið fram á móti upptöku tollkrítar, hafa á hinn bóginn verið þau, að fyrst í stað, þegar þessu nýja fyrirkomulagi væri komið á, mundi verða um nokkra aukningu peningamagns í umferð að ræða. Af þeim sökum gæti orðið þensla á peningamarkaði, jafnframt því sem ríkissjóður mundi fá minni tekjur af tollheimtu fyrst í stað vegna þess að innheimtu seinkaði og mundu því tekjur ríkissjóðs verða lægri á því ári þegar tollkrítin væri tekin upp.

Það er alveg ljóst að þetta nýja fyrirkomulag verður ekki tekið upp í einu vetfangi, heldur verður að sýna ýtrustu varkárni í þeim efnum. Fyrirkomulagið verður tekið upp í áföngum og miklar takmarkanir verða á heimildum til upptöku þessa kerfis, þannig að nokkur tími mun líða frá því að lögin koma til framkvæmda og þar til þetta nýja fyrirkomulag verður komið í það horf sem að er stefnt, Einnig verður alllangur undirbúningstími frá því að lög þessi verða samþykkt og þar til málið kemur til framkvæmda. Ef lagafrv. þetta verður samþykkt nú á vormánuðum hér á hv. Alþingi er þess að vænta, að lögin taki gildi í ársbyrjun næsta árs, en verði lögin ekki samþykkt nú á vormánuðum og afgreiðsla frv. frestist til haustsins má búast við að eitthvað seinki að málið komi til framkvæmda.

Ég vil í þessu sambandi engin ákveðin fyrirheit gefa um í hvaða áföngum lögin koma til framkvæmda eða hvenær það verður, þar sem ljóst er að undirbúningur er margþættur og að mörgu er að hyggja áður en þetta fyrirkomulag getur verið komið í fullan gang.

Í umfjöllun um áhrif greiðslufrests á aðflutningsgjöldum á tekjur ríkissjóðs hefur verið reynt að meta hversu mikil hliðrun yrði á innheimtu aðflutningsgjalda. Niðurstöður þeirrar athugunar benda til þess, að tekjuhliðrunin eigi sér mjög fljótt stað og komi jafnvel fram af fullum þunga á fyrstu mánuðunum. Um þetta efni er eðlilegast að vísa til tillagna til fjmrh. um þetta mál frá því í sept, s.l., en þeirri skýrslu hefur verið dreift til alþm. Ljóst er að erfitt er fyrir ríkissjóð að taka á sig slíka tekjuhliðrun nema ráð sé fyrir því gert í fjárlögum, og því verður að stefna að því að þessi heimild til greiðslufrests komi til framkvæmda á nokkrum tíma, 1–2 árum a.m.k.

Verði lagafrv. það, sem hér liggur fyrir, samþykkt á þessu þingi eru tæknilegar forsendur fyrir því, eins og ég hef þegar sagt, að hefja framkvæmd laganna 1. jan. n.k. Er þá gert ráð fyrir að innflytjendum, sem á árinu 1981 fluttu inn vörur fyrir einhverja ákveðna lágmarksupphæð sem síðar verður ákveðin, verði veitt heimild til innflutnings með greiðslufresti. Á árinu 1983 yrðu svo þessi mörk lækkuð í áföngum. Er þá þess að vænta að seinasti hópur innflytjenda, sem hefði flutt inn ákveðið lágmarksmagn innflutnings á árinu 1981, fengi heimild til tollkrítar einhvern tíma á árinu 1984.

Rétt þykir að geta þess hér, að gert er ráð fyrir að reglum um gildistíma tollafgreiðslugengis verði breytt, en sú ráðstöfun getur haft einhver áhrif á fjárhæð innheimtra aðflutningsgjalda, þegar til lengri tíma er litið, og haft einhver áhrif til aukningar ríkissjóðstekna. Verði þessi háttur hafður á má ætla að aðlögun verði auðveldari að því er varðar getu ríkissjóðs til að mæta seinkun á innheimtum tekjum, auk þess sem minni hætta er á örðugleikum í framkvæmd samfara nýrri tilhögun á tollheimtu og tollgæslu. Á það skal þó lögð áhersla, að mikið starf er enn óunnið í sambandi við tæknilega lausn þessa máls, þó að lagatæknileg atriði varðandi upptöku greiðslufrestsins teljist leyst með samþykkt þessa frv. M.a. verður ekki annað séð en framkvæmdina verði að tryggja með stóraukinni tölvuvæðingu hjá tollheimtuembættum.

Þess má geta, að í 53. gr. núgildandi laga um tollheimtu og tolleftirlit er að finna heimild til handa fjmrh. til þess að veita greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Samkv. heimild þessari verður greiðslufrestur aðeins veittur gegn fullgildri bankatryggingu, og jafnframt er það skilyrði sett, að varan sé tollafgreidd og flutt úr vörugeymslu innan frests sem ákveðinn verður í reglugerð og eigi má vera lengri en einn mánuður frá komudegi þar. Þessi heimild hefur ekki verið notuð til þess að veita almennan greiðslufrest á aðflutningsgjöldum. Hins vegar hefur verið höfð hliðsjón af henni í undantekningartilvikum þegar veittur hefur verið greiðslufrestur vegna innflutnings á nokkrum vörutegundum. Þessar heimildir hafa verið mjög takmarkaðar og yfirleitt ekki veittar nema í þeim tilvikum þegar sérstakar ástæður hafa verið taldar geta réttlætt greiðslufrest, t.d. þegar um innkaup á vörum hefur verið að ræða frá löndum sem ekki hafa getað haldið útflutningshöfnum sínum opnum nema hluta úr ári og innflytjendur því orðið að kaupa vörubirgðir sem tekið hefur allt að hálfu ári að selja á innanlandsmarkaði. Þessar aðstæður sköpuðust hér áður fyrr einkum vegna kaupa landsmanna á timbri frá löndum við Eystrasalt.

Þá hefur í framkvæmd gilt sú regla um tollafgreiðslu á vörum til skipasmíða og skipaviðgerða, að skipasmiðjum, viðgerðaraðilum og útgerðarmönnum hefur verið heimilað að greiða aðflutningsgjöld af vörum til þessara nota gegn útgáfu skuldaviðurkenningar og síðan hefur verið skuldajafnað vegna endurgreiðslu aðflutningsgjalda sem heimiluð er samkv. sérstöku ákvæði í tollskrárlögum og reglum sem fjmrh. hefur sett þar að lútandi.

Í þriðja lagi má nefna að fjmrh. hefur gert samkomulag við flest bifreiðainnflutningsfyrirtæki um allt að 20 daga greiðslufrest á aðflutningsgjöldum af innfluttum nýjum bifreiðum og hafa aðflutningsgjöld verið lánuð af bifreiðum frá því 1974. Einnig má minna á í þessu sambandi að sérstakt greiðslufyrirkomulag hefur gilt um innheimtu gjalds af gas- og brennsluolíum svo og bensíngjalds.

Ein af forsendunum, sem búa að baki upptöku greiðslufrests á aðflutningsgjöldum, er stytting geymslutíma á ótollafgreiddum vörum í vörslu farmflytjenda; sem aftur ætti að hafa í för með sér aukinn veltuhraða, minni vörubirgðir og lægri vaxtakostnað af þeim sökum. Þessu markmiði verður ekki náð nema greiðslufrestur verði háður nokkrum skilyrðum. Til þess að ná fram nefndu hagræði og einnig til þess að auðvelda alla framkvæmd er nauðsynlegt að binda heimild til greiðslufrests því skilyrði, að allur innflutningur sama innflytjanda verði tollafgreiddur á þessum greiðslukjörum. Ljóst er að viss vandamál geta komið upp í byrjun hjá innflytjendum þegar þeir verða að leysa til sín allar innfluttar vörur að meðaltali innan 60 daga frá komu til landsins eða koma þeim ella í tollvörugeymslu. Úr þessum vanda má draga ef innflytjendur reyna í framtíðinni að haga innflutningi sínum þannig að sem mestu hagræði verði náð með greiðslufrestinum með tilliti til markaðsaðstæðna hverju sinni.

Þar sem ekki er gert ráð fyrir að frv. þetta, ef að lögum verður, komi til framkvæmda fyrr en að nokkrum tíma liðnum frá gildistöku ætti innflytjendum að gefast nægilegt svigrum til að meta stöðu sína að nýju og gera viðeigandi breytingar á innkaupaháttum sínum telji þeir slíkt nauðsynlegt. Þar sem viss vandamál eru tengd innflutningi, m.a. á bifreiðum, er gert ráð fyrir að heimilt verði að undanþiggja einstakar vörutegundir þessu skilyrði, enda verði sérstakar ástæður taldar þess valdandi, t.d. aðgerðir í efnahagsmálum. Þá er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir sérstökum undanþágum í þeim tilvikum þegar upp koma hindranir í innflutningi, eins og verkföll og þess háttar. Loks er rétt að vekja athygli á því sem kom fram hjá mér í upphafi, að heimilt er að innheimta vexti af tollkrítinni.

Herra forseti. Hér er um viðamikið frv. að ræða. Ég hef ekki getið hér allra atriða frv., sem smærri geta talist mörg hver, en vek athygli, að í 8., 9. og 10. gr. frv. er verið að hækka upphæðir sekta, en það er að sjálfsögðu óhjákvæmilegt með tilliti til þeirra verðbreytinga sem orðið hafa.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu að öðru leyti til að fjölyrða frekar um frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.