05.11.1981
Sameinað þing: 13. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

325. mál, símaþjónusta opinberra stjórnsýslustofnana

Fyrirspyrjandi (Árni Gunnarsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var samþykkt þál. er ég var 1. flm. að, um könnun á ókeypis símaþjónustu opinberra stofnana eða svonefndum „frínúmerum“. Hún var að vísu samþykkt nokkuð breytt frá því sem hún var þegar ég lagði hana fram hér á þingi. Engu að síður var hún samþykkt. Ég hef leyft mér að beina þeirri fsp. til hæstv. samgrh., hvað liði framgangi þessarar till. eða athugun á þessu máli í heild. Ég hafði upphaflega ætlað að þessi till. gæti komið til móts við þær kröfur fólksins í dreifbýlinu, að símakostnaður þess yrði minni, og hafði þá reiknað með að unnt yrði að koma upp því kerfi hjá opinberum stofnunum margvíslegum hér, einkum á höfuðborgarsvæðinu, að þangað yrði unnt að hringja án þess að það kostaði nokkurn hlut fyrir þann er hringdi. Tilnefndar voru nokkrar stofnanir. Reiknaði ég með að á þennan hátt yrði hægt að jafna símakostnað þeirra er í dreifbýli og þéttbýli búa. Því spyr ég: Hvað hefur verið gert í framhald af samþykkt þál. um að kannaðir verði möguleikar á ókeypis símaþjónustu („frínúmerum“) opinberra stjórnsýslustofnana? Þessari spurningu er beint til hæstv. samgrh.