16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3823 í B-deild Alþingistíðinda. (3304)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 18 frá 11. maí 1977, um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði. Frv. þetta er fáort en felur í sér umtalsverðar skuldbindingar fyrir íslenska ríkið og að baki býr reynsla sem full ástæða er til að gefa gaum. 1. gr. frv. er þannig:

„1. tölul. 3. gr. laganna breytist svo sem hér segir:

Í stað orðanna „jafnvirði 13.2 millj. bandaríkjadollara í íslenskum krónum“ komi: jafnvirði 19 millj. bandaríkjadollara í íslenskum krónum.“

Grein þessi felur í sér heimild til að hækka hlutafjáreign íslenska ríkisins í Íslenska járnblendifélaginu hf. sem þessu nemur, þ.e. úr jafnvirði 13.2 millj. bandaríkjadollara í allt að 19 millj. dollara. Gert er ráð fyrir hækkun um 2.4 millj. dollara 1983 eða síðar, en rétt þykir að hafa lagaheimildina nokkru rýmri og raunar verulega rýmri í samræmi við eftirgreindar till., ef ráðlegt þætti á næstu árum að fjármagna stærri hluta af fjárþörf félagsins með hlutafé en þeim mun minni með lánum. Gert er ráð fyrir samsvarandi framlagi hins erlenda samstarfsaðila í fyrirtækinu, Elkem AS, þ.e. um 2 millj. dollara.

2. gr. frv. er svohljóðandi:

„Við 3. gr. bætist nýr tölul., 8. tölul., sem hljóði svo: Að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir 55% af láni er félagið tekur og í heild nemur allt að 6 millj. bandaríkjadollara eða jafngildi þess í annarri mynt, ásamt vöxtum.“

Greinin felur í sér heimild til sjálfskuldarábyrgðar ríkisins á láni sem Járnblendifélagið tekur til að fjármagna rekstur sinn og afborganir lána. Lánið, sem yrði víkjandi gagnvart öðrum lánum félagsins, er að upphæð 6 millj. bandaríkjadollara og safnaði upp vöxtum í fimm ár eftir greiðslugetu félagsins á því tímabili. Hlutur ríkisins af ofangreindri upphæð nemur 3.3 millj. bandaríkjadollara en hlutur Elkem AS er 2.7 millj. dollara. Vextir af láninu yrðu 0.5% yfir millibankavöxtum í London eins og þeir eru á hverjum tíma. Fyrir liggur að án þeirrar fyrirgreiðslu, sem frv. gerir ráð fyrir af hálfu hluthafa, stefnir í gjaldþrot hjá járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga.

Um s.l. áramót hafði Járnblendifélagið fengið allt það fjármagn sem félaginu var ætlað í upphaflegum áætlunum um fjármögnun félagsins. Var þar annars vegar um að ræða hlutafé og hluthafalán í samræmi við 1. og 6. tölul. 3. gr. laga nr. 18/1977, en hins vegar og að meiri hluta lán sem félagið tók sjálft án ábyrgðar frá hluthöfum hjá Norræna fjárfestingarbankanum og öðrum. Þessar lántökur nutu óbeins stuðnings hluthafa á byggingartíma verksmiðjunnar samkv. svonefndum lúkningarsamningum sem gerðir voru í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laganna, en þeir samningar eru nú úr gildi.

Vegna áðurgreindra rekstrarþrenginga var greiðslufjárstaða fyrirtækisins hins vegar orðin veik um síðustu áramót og fyrirsjáanleg frekari veiking hennar á yfirstandandi ári.

Járnblendifélagið þarf því á nýju fjármagni að halda til að tryggja greiðslustöðu sína á þessu ári og mæta þeim greiðsluhalla sem vænta má þar til ástand á kísiljárnmarkaði hefur breyst til hins betra.

Frv. felur í sér tillögur um þær lagaheimildir sem nauðsynlegar eru til að unnt sé að tryggja greiðslustöðu Járnblendifélagsins á komandi árum, byggt á þeim upplýsingum sem nánar verður vikið að hér á eftir.

Samtals nema þær heimildir til fjárskuldbindinga, sem í frv. felast gagnvart íslenska ríkinu sem er eignaraðili að 55% hlutafjár, eftirtöldu: Hlutafjáraukning að hámarki 5.8 millj. bandaríkjadala eða 59 millj. ísl. kr. Sjálfskuldarábyrgð að hámarki 3.3 millj. bandaríkjadala eða 34 millj. ísl. kr. Í heild nemur sú fyrirgreiðsla, sem hér er rætt um og skiptir beinu máli fyrir hluthafa félagsins vegna sjálfskuldarábyrgðar og hlutafjárframlaga, 169 millj. ísl. kr. Þar af væri hlutur íslenska ríkisins 93 millj. ísl. kr. Er þetta hærri upphæð en fyrir liggur í tilboði sem viðskiptabankar Járnblendifélagsins, Den norske Creditbank og Bank of America í London, gerðu um lausn á fjárhagsvanda félagsins eins og hann nú horfir við fyrir árin 1982–1985, en tilboð bankanna var lagt fram á stjórnarfundi í félaginu í febrúarmánuði s.l.

Samkv. því er fyrirhugað, að lántaka með sjálfskuldarábyrgð samkv. 2. gr. verði að öðru jöfnu látin ganga fyrir hlutafjáraukningu samkv. 1. gr., og reynir fyrst á aukningu hlutafjár á árinu 1983 eða síðar. Jafnframt er gert ráð fyrir að nota megi þessar aðferðir hvora í annarrar stað, eftir því sem við getur átt, þ.e. hlutafé í stað lánsfjár og öfugt, og er í því efni fylgt tillögum starfshóps sem iðnrn. skipaði með aðild fjmrn. og ríkisendurskoðunar í byrjun mars s.l. Var verkefni hans að yfirfara rekstrar- og greiðslufjáráætlanir Járnblendifélagsins og meta hvort skynsamlegt væri — og þá hvernig — að mæta fjármagnsþörf fyrirtækisins með opinberum ráðstöfunum. M.a. gerði starfshópurinn tillögur um heimild til hlutafjáraukningar umfram það sem tilboð bankanna miðaðist við.

Tilboð bankanna er í megindráttum sem hér segir:

1. Núverandi rekstrarlán 6 millj. bandaríkjadala, sem er hluti af upphaflegu lánsfé, verði endurfjármagnað með öðru láni, sem félagið taki sjálft án ábyrgðar hluthafa, til sjö ára.

2. Veitt verði viðbótarrekstrarlán allt að 4 millj. bandaríkjadala til þriggja ára, sem félagið taki sjálft á sama hátt.

3. Veitt verði víkjandi lán með sjálfskuldarábyrgð hluthafa eftir eignarhlutföllum þeirra að upphæð 6 millj. bandaríkjadala ásamt uppsöfnun áfallandi vaxta í allt að fimm ár.

4. Eigendur leggi fram nýtt hlutafé (eða víkjandi lán) til félagsins eftir þörfum á árinu 1983 eða síðar, sem samkv. fyrirliggjandi áætlun yrði alls 26 millj. norskra króna.

5. Að auki er gert ráð fyrir frestun á afborgunum áranna 1982 og 1983 af fjárfestingarláni félagsins hjá Eksportfinans í Noregi, samtals 35 millj. norskra kr., og lengingu lánstíma sem því svarar.

Vonandi reynist ekki þörf á að nýta umræddar heimildir nema að hluta.

Verður nú vikið nánar að ástæðum fyrir þeim miklu erfiðleikum sem félagið er statt í og hvernig þær spár hafa brugðist sem byggt var á af talsmönnum þessarar verksmiðju er lagaheimilda var aflað vegna fyrirtækisins, en eins og mönnum er væntanlega í fersku minni urðu um það harðar deilur hér á Alþingi.

Sem kunnugt er hóf járnblendiverksmiðjan á Grundartanga framleiðslu snemma vors 1979. Afkoma Járnblendifélagsins fyrstu þrjú rekstrarárin hefur orðið verulega lakari en ráð var fyrir gert. Helstu ástæður eru einkum tvær.

Í fyrsta lagi reyndist markaður fyrir kísiljárn á árinu 1980 og þó einkum 1981 miklu lakari en í meðalári og ráð hafði verið fyrir gert í áætlunum. Var þar bæði um að ræða minna sölumagn og lækkun söluverðs. Þessu olli fyrst og fremst hin djúpa og langvinna alþjóðlega efnahagskreppa sem fylgdi í kjölfar olíuverðshækkana 1979.

Í öðru lagi reyndist fjármagnskostnaður Járnblendifélagsins meiri en búist hafði verið við. Stafaði það annars vegar af lakari rekstrarafkomu, sem fyrr var nefnd, og aukinni lánsfjárþörf af þeim sökum. Hins vegar stafar aukinn fjármagnskostnaður af því, að vextir á erlendum fjármagnsmörkuðum hafa hækkað stórkostlega síðan 1979. Er sú þróun Íslenska járnblendifélaginu, sem hefur nýhafið rekstur og ber því tiltölulega þunga greiðslubyrði, afar kostnaðarsöm. Á móti þessu kemur vissulega að bygging verksmiðjunnar var til muna ódýrari en ráð var fyrir gert og í tæknilegum efnum hefur rekstur verksmiðjunnar gengið mjög.vel frá öndverðu.

Járnblendifélagið hefur kynnt hluthöfum sínum, iðnrn. og Elkem AS, núverandi stöðu félagsins og áætlun framkvæmdastjórnar og þess um rekstur og afkomu árin 1982–1985. Er í þeirri áætlun á því byggt í meginatriðum að á þessu ári hefjist hægfara þróun til batnaðar frá þeirri lægð sem ríkt hefur í kísiljárniðnaðinum síðan á miðju ári 1980. Er miðað við það, að á árinu 1985 hafi kísiljárnmarkaður komist í það horf sem hann var að meðaltali á tímabilinu 1972–1981 og að þá verði sala hjá félaginu væntanlega komin í arðvænlegt horf bæði að magni og verði. Þessi framvinda er einkum talin háð hinni almennu þróun efnahagsástands í heiminum fremur en sérstökum aðstæðum í kísiljárniðnaðinum sjálfum. Ekki er gert ráð fyrir að orkuskortur hái starfseminni á komandi árum.

Eins og áður er getið lét iðnrn, sérstakan starfshóp yfirfara rekstrar- og greiðslufjáráætlanir Járnblendifélagsins. Vann hann mikið starf á stuttum tíma og skilaði grg. til rn. 14. mars 1982. Hefur hún í heild verið send til allra hv. alþm. svo að þeir — og ekki síst viðkomandi þingnefndir er um málið fjalla — geti betur áttað sig á bakgrunni þessa máls og stöðu Járnblendifélagsins. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að hann geti í megindráttum fallist á áætlanir Járnblendifélagsins og það álit þess og sérfræðinga Elkem, að þær áætlanir séu í varkárara lagi. Á hinn bóginn telur starfshópurinn nokkrar líkur á að afkoma Járnblendifélagsins verði á næstu árum lakari en þessi áætlun gefur til kynna og fjármagnsþörfin að sama skapi meiri. Starfshópurinn komst engu að síður að þeirri niðurstöðu, að áframhaldandi rekstur járnblendiverksmiðjunnar með því sem næst fullum afköstum og án nokkurrar tímabundinnar stöðvunar væri eftir sem áður langhagkvæmasti rekstrarkosturinn sem völ væri á, eða réttara væri kannske að segja sá skásti úr því sem komið er. Að áliti starfshópsins helst þessi niðurstaða óbreytt þótt rekstraraðstæður verksmiðjunnar batni ekki frá því sem nú er og jafnvel þótt þær versni enn. Starfshópurinn er jafnframt þeirrar skoðunar, að miðað við allar aðstæður sé rétt að taka fyrrgreindu tilboði bankanna. Hann leggur hins vegar áherslu á að eigendur Íslenska járnblendifélagsins búi sig undir að leggja meira fé til fyrirtækisins á komandi árum, annaðhvort í formi hlutafjár eða ríkjandi lána, til að mæta hugsanlega lakari afkomu, ef til kemur, og eða draga úr greiðslubyrði fyrirtækisins umfram það sem bankarnir gera ráð fyrir. Þess vegna eru heimildirnar í fyrirliggjandi frv. hærri en svarar umræddu tilboði frá bönkum.

Rétt er að geta nokkurra atriða sérstaklega úr skýrslu starfshópsins. Þar segir um afurðaverð: „Söluverð á kísiljárni á heimsmarkaði ræður úrslitum um afkomu verksmiðjunnar á komandi árum. Mikil óvissa er hins vegar um framvindu söluverðsins, og því miður fer því fjarri að tekist hafi að afla nægilegra gagna til að unnt sé að gera eins fullkomnar spár um þetta atriði og ástæða væri til. Vegna kreppunnar í stáliðnaðinum hefur heimsmarkaðsverð á kísiljárni verið með eindæmum lágt s.l. tvö ár. Íslenska járnblendifélagið hefur byggt framtíðaráætlanir sínar á þeirri forsendu, að raunverð kísiljárns þokist á næstu 3–4 árum upp í það sem það var að meðaltali á árunum 1972–1981. Þessa forsendu, sem styðst m.a. við upplýsingar frá markaðsdeild Elkem, telur Járnblendifélagið vera hógværa. Á grundvelli þeirra takmörkuðu upplýsinga sem starfshópurinn hefur undir höndum hallast hann að sömu skoðun.“

Um verð aðfanga segir í sömu skýrslu:

„Hráefni: Nálægt helmingi af breytilegum kostnaði við framleiðslu járnblendiverksmiðjunnar má rekja til innfluttra hráefna, kvarts, kola, koks o.fl. Í áætlunum Íslenska járnblendifélagsins og útreikningum þessarar skýrslu er við það miðað, að raunverð þessara hráefna hækki einungis sáralítið eða um 0.5% á rekstrartímabili verksmiðjunnar.

Raforka: Íslenska járnblendifélagið hefur langtíma raforkusamning við Landsvirkjun. Samkv. þeim samningi á raforkuverð til Járnblendifélagsins að hækka í tæplega 9 mills, nálægt 9 aura á kwst., að meðaltali á miðju þessu ári. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að innan við helmingur þeirrar raforku, sem Járnblendifélagið hefur samið um við Landsvirkjun, er forgangsorka miðað við full afköst verksmiðjunnar. Á hinn bóginn er þess að geta, að raforkuverð til stóriðju er nú til endurskoðunar hér sem erlendis og trúlegt að sú stefna verði ofan á, að raforkuverð það, sem þessir aðilar verði látnir greiða, nemi a.m.k. framleiðslukostnaði frá nýjum virkjunum, en það er reyndar um tvöföld sú upphæð sem hér var nefnd áðan, 9 aura, eða nálægt tvöföld sú upphæð. Hér hefur verið tekinn sá kostur að reikna með tveimur tilvikum um rafmagnsverð: annars vegar að raforkuverð til járnblendiverksmiðjunnar verði samkv. samningi þess við Landsvirkjun á þessu ári en síðan óbreytt að raungildi. Samkv. samningi Íslenska járnblendifélagsins og Landsvirkjunar mundi raunverð raforkunnar stöðugt fara lækkandi eftir 1982.“ Þetta var tilvitnun úr skýrslu starfshópsins varðandi hráefni.

En eru aðrir kostir vænlegri til lausnar fjárhagsvanda Járnblendifélagsins? Um þetta atriði segir svo í skýrslu starfshópsins:

„Tilboð það, sem viðskiptabankar Íslenska járnblendifélagsins hafa gert fyrirtækinu um fjármögnun, er sem vænta má á verulega óhagstæðari kjörum en þau lán sem íslenska ríkið hefur verið að taka að undanförnu. Starfshópurinn hefur framkvæmt samanburð á því, hversu miklu dýrara lánstilboð Den norske Creditbank og Bank of America er en þau lánskjör sem ríkissjóður hefur aðgang að. Niðurstöður útreikninganna benda til þess, að á lánstímabilinu öllu kosti lánskjör þau, sem umræddir bankar bjóða um 428 þús. dollurum meira en þau lánskjör sem íslenska ríkið á kost á. Núvirði þessarar upphæðar miðað við 15% vexti er 1.6 millj. norskra kr.

Á móti þessum kostnaði kemur hins vegar annað atriði. Einn liðurinn í tilboði Den norske Creditbank og Bank of America er framlenging lánstíma á langtímaláni frá Eksportfinans. Þessi framlenging er með þeim hætti að fjórum hálfs árs afborgunum á næstu tveimur árum er skotið aftur fyrir aðrar afborganir. Lán þetta, sem er á mjög hagstæðum kjörum eða 8.85% ársvöxtum, yrði því afborgunarlaust næstu tvö ár og lánstími lengdur sem því samsvarar. Reiknað hefur verið út hvaða sparnaður tapaðist ef Íslenska járnblendifélagið missti af þessari fyrirgreiðslu og yrði að endurfjármagna afborganir Eksportfinans lánsins á þeim kjörum sem íslenska ríkinu standa til boða. Nemur sú upphæð um 14 millj. norskra kr. sem reiknað til núvirðis gerir 7.8 millj. norskra kr. miðað við 14% ársvexti.

Rétt er að geta þess að það er engan veginn loku fyrir það skotið, að unnt yrði að útvega sömu fyrirgreiðslu og Eksportfinans enda þótt tilboði bankanna yrði hafnað. Það er á hinn bóginn ekki sjálfgefið og víst er að beita yrði einhverjum þrýstingi til þess að slíkt næði fram að ganga. Seðlabankinn hefur sett fram það sjónarmið, að lánskjör samkv. tilboði Den norske Creditband og Bank of America séu svo óhagstæð að hætta sé á að lánskjör annarra íslenskra aðila versnuðu ef því væri tekið. Í umsögn Seðlabankans um málið kemur eftirfarandi fram, en bréf til fjmrn. frá Seðlabankanum er dags. 18. febr. 1982:

„Frá sjónarmiði ríkissjóðs er sá megingalli á þessum lánum, að vaxtakjörin eru verulega lakari en ríkissjóður sjálfur, ríkisfyrirtæki eða aðilar, sem fengið hafa ríkisábyrgðir, hafa þurft að sætta sig við. Kjörin eru einnig lakari en stærstu einkafyrirtækin hafa notið. Þetta getur spillt fyrir öðrum lántökum ríkissjóðs og annarra innlendra aðila á markaði, bæði að því er varðar kjörin á því láni, sem ætlað er að beri sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs, og eins því láni fyrirtækisins sjálfs án sérstakrar ríkisábyrgðar, enda mun markaðurinn vafalaust líta á það fyrst og fremst sem íslenskt ríkisfyrirtæki. Markaðurinn fylgist mjög vel með öllum breytingum sem verða á lánskjörum. Auk óhagstæðra vaxtakjara er lánstími skemmri en ríkissjóður hefur stefnt að, a.m.k. að því er síðara lánið snertir.“

Í viðræðum starfshópsins við talsmenn Seðlabanka og innlendra viðskiptabanka hefur þó komið fram að þeir aðilar telja tilboð þetta í sjálfu sér ekki óeðlilegt miðað við þá fjárhagsstöðu sem Íslenska járnblendifélagið er í. Starfshópurinn telur ólíklegt að um afgerandi upphæðir geti verið að ræða hvað þetta atriði snertir. Sé til að mynda gert ráð fyrir að samþykkt tilboðs Den norske Creditbank og Bank of America leiddi til 0.1% rýrnunar lánskjara á öllum nýjum erlendum lánum Íslendinga í eitt ár næmi sú upphæð einungis 1.3 millj. norskra kr.

Þær skuldbindingar eigenda, sem felast í „The comfort letter,“ sem svo er kallað, hljóta einnig að teljast nokkur ókostur í tilboði bankanna. Á hinn bóginn hefur tilboð bankanna þann ótvíræða kost, að í því felst fullgerð heilleg lausn á hinum aðkallandi fjárhagsvanda Íslenska járnblendifélagsins. Allar aðrar lausnir hljóta að kosta talsverða fyrirhöfn, samningaviðræður við Elkem AS, lánastofnanir o.fl., sem gætu reynst ærið tímafrekar. Í þessu sambandi má ítreka að það eru aðeins 17 dagar þar til bráðabirgðafyrirgreiðsla a.m.k. verður að liggja fyrir. Þetta er tilvitnun úr skýrslu starfshópsins: „Að lokum má geta þess, að meðeigandi íslenska ríkisins, Elkem AS, hefur þegar íhugað tilboðið og er reiðubúið til þess að fallast á það fyrir sitt leyti. Það er mat starfshópsins, að hinum ýmsu hliðum þessa máls íhuguðum, að þegar öllu sé á botninn hvolft sé skynsamlegast að ganga í höfuðdráttum að tilboði Den norske Creditbank og Bank of America.“

Í frv. er tekið tillit til sjónarmiða starfshópsins um aukið hlutafé og heimild til hækkunar á hlutafé ríkisins höfð rúm. Jafnframt er gert ráð fyrir að nota megi hvora aðferðina er hagkvæmari þykir til að tryggja greiðslustöðu Járnblendifélagsins, þ.e. hlutafé í stað lánsfjár og öfugt.

Af frv. því, sem hér er flutt, og því, sem rakið hefur verið um horfur fyrirtækisins, er ljóst, að þær forsendur, sem lagðar voru til grundvallar við ákvarðanir um járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, er lagaheimilda var aflað hér á hv. Alþingi á árunum 1975–1977, hafa brugðist hrapallega, því miður hljótum við að segja, hvort sem menn tóku afstöðu með eða móti byggingu verksmiðjunnar á þeim tíma. Það er fyrst og fremst hin efnahagslega hagkvæmni sem mjög var umdeild og reynst hefur allt önnur og lakari en gert var ráð fyrir.

Annar umdeildur þáttur, mengunarmálin, leystist hins vegar mun betur en hinir svartsýnustu óttuðust, en ekki er vafi á að hin mikla umræða um mengunarhættu veitti nauðsynlegt aðhald við undirbúning verksmiðjunnar og kröfur um mengunarvarnir. Alþb. beitti sér eitt flokka óskipt hér á Alþingi gegn byggingu verksmiðjunnar, en frv. um hana var borið fram af ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar. Það voru ekki síst alþm. Stefán Jónsson, Ragnar Arnalds, Magnús Kjartansson og Lúðvík Jósepsson sem vöktu athygli á og vöruðu við öllum þeim efnahagslegu þáttum í tengslum við verksmiðjuna sem síðan hafa farið úrskeiðis. Hinn fyrstnefndi varaði jafnframt mjög eindregið við mengunarhættunni.

Telja verður í ljósi reynslunnar að gagnrýni og efasemdir andstæðinga frv. um Grundartangaverksmiðjuna varðandi efnahagslegar forsendur hennar hafi reynst á rökum reistar. Leiða má sterkar líkur að því, að ákvörðunin um byggingu verksmiðjunnar hafi verið mistök frá efnahagslegu sjónarmiði. Miðað við það, sem nú er komið á daginn varðandi rekstrarafkomu verksmiðjunnar og áætlanir stjórnenda hennar fyrir komandi ár, verður því miður að telja fremur ólíklegt að verksmiðjan í núverandi mynd muni skila til baka þeim fjármunum sem í hana hafa verið lagðir, hvað þá þeim mikla arði sem spáð var.

Á sínum tíma var í grg. með frv. um járnblendiverksmiðjuna talið að arðsemi af fjárfestingunni yrði á bilinu 13–14%, en nú bendir flest til að þessi arðgjöf verði trauðla hærri en 5% og er þá miðað við framtíðaráætlanir stjórnenda fyrirtækisins. Hækki raforkuverð til verksmiðjunnar hins vegar í samræmi við framleiðslukostnað mun arðsemin tæplega reynast yfir 4%. Slíkir innri vextir á bilinu 4–5%, ef þeir þá nást, eru sennilega verulega fyrir neðan þau mörk sem íslenska hagkerfið þyrfti að setja, og má vera að í þessu felist beint fjárhagslegt tap á heildina litið, ekki síst fyrir íslenska ríkið.

Það er því miður óskemmtilegt en þó lærdómsríkt að bera saman spá um arð af fyrirtækinu á fyrstu rekstrarárum verksmiðjunnar, er frv. um það var lagt fram á árinu 1975, og árlegar afkomutölur miðað við meðaltal áranna 1979–1982, eins og þær nú blasa við. Spáð var í norskum kr. talið árlegum hagnaði fyrir skatt 26.6 millj. Raunin hefur orðið 38.9 millj. á þessu árabili. Spáð var tekjuskatti 3.3 millj. norskra kr. en hann hefur að sjálfsögðu enginn orðið. Spáð var arði til íslenska ríkisins 11.7 millj. Reyndin sýnir 10 millj. Fullyrðingar talsmanna frv. um verksmiðjuna varðandi raforkuverð, sem standa ætti undir framleiðslukostnaði, og næga raforku á fyrstu starfsárum verksmiðjunnar hafa því miður ekki heldur staðist dóm reynslunnar.

Það er oft sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Undir það get ég vissulega tekið. En við skulum líka minnast þess hér og nú, að hörð og ströng varnaðarorð féllu hér á hv. Alþingi um þetta fyrirtæki sem nú þarf að leggja til stórar fjárfúlgur til að afstýra gjaldþroti þess. Vert er að hafa í huga að sömu aðilar önnuðust að talsverðu leyti undirbúning vegna járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og önnuðust undirbúning vegna álsamningsins á 6. áratugnum. Hvað sem líður deilum um fortíðina er ljóst að rannsóknum og undirbúningi vegna járnblendiverksmiðjunnar var verulega ábótavant. Og vissulega hefur fyrirtækið lent í efnahagslegum mótbyr á fyrstu starfsárunum. Sú lexía, sem við m.a. þurfum að draga af þeim kostnaði sem þessi og önnur svipuð vinnubrögð varðandi fjárfestingu hafa valdið þjóðinni, er að ítarlegar rannsóknir og vandaður undirbúningur er nauðsynlegur og í raun hagkvæm fjárfesting. Þó að við höfum trú á að orkulindir landsmanna geti skapað batnandi lífskjör og treyst efnahag landsmanna á komandi árum og áratugum, ef rétt er á haldið, sýna mistökin við álverið í Straumsvík og reynslan af járnblendiverksmiðjunni, a.m.k. til þessa, að niðurstaðan getur hæglega orðið þveröfug þegar rasað er um ráð fram og trúss bundið við útlendinga í ríkum mæli og af fyrirhyggjuleysi. Hér sem í öðrum greinum atvinnulífs eigum við fyrst og fremst að treysta á eigið frumkvæði og forræði í framtíðinni og umfram allt að læra af dýrkeyptri reynslu. Í því skyni hef ég rifjað hér upp nokkra þætti varðandi járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, sem þó er á margan hátt merkilegt fyrirtæki og vel að málum staðið af forsvarsmönnum þess, stjórnendum og dugmiklu starfsliði.

Herra forseti. Ég vonast sannarlega til að ekki reyni á að nota þurfi til fullnustu þær heimildir sem felast í frv. þessu og lögfesta þarf á þessu þingi. Að áliti viðkomandi sérfræðinga, sem rýnt hafa í málefni járnblendiverksmiðjunnar að undanförnu, er talið líklegt að ofangreind fjármagnsfyrirgreiðsla nægi til að fleyta Íslenska járnblendifélaginu yfir þá greiðslufjárerfiðleika sem það nú á við að etja og starfa m.a. af óvenjulega óhagstæðum ytri rekstraraðstæðum fyrirtækisins, eins og ég hef getið um áður. Gangi þær rekstrarspár eftir, sem ég hef vitnað til hér á undan, mun fyrirtækið ekki þurfa á frekari framlögum eigenda sinna að halda. Við skulum vona að bjartara reynist fram undan hjá þessu unga fyrirtæki en hingað til og að þeir fjármunir, sem í það hafa verið lagðir og hér er gert ráð fyrir að bætt verði við samkv. þessu frv., skili sér til baka er fram líða stundir.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.