16.04.1982
Efri deild: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (3309)

273. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta minni hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, því það er ég sannfærður um, enda hef ég aldrei annað af honum reynt en það, að hann vill fara rétt með.

Ég hef aldrei lýst yfir að ég sé á móti orkufrekum iðnaði. Ég hef lýst yfir, og gerði það einmitt við afgreiðslu lagafrv. tveggja varðandi járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði æ ofan í æ, m.a. í hið fyrra sinnið þar sem mér telst til að ég hafi talað um frv. í samtals röska átta klukkutíma, að ég er á móti stóriðju af því tagi sem þá var knúin í gegnum Alþingi með hæpnum upplýsingum og miklu offorsi og ólýðræðislegum vinnubrögðum og óþingræðislegum vinnubrögðum. Ég vil minna hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson á það og aðra hv. þm. í þessari deild, að hafnar voru verklegar framkvæmdir uppi á Grundartanga áður en lagafrv. það, sem fjallaði um samninginn við Elkem Spigerverket, hafði verið afgreitt úr iðnn. Ed., og átti þó eftir að ræða það í Nd. Ég veit ekki hvort hv. þm. rekur minni til þess, en það hafði meira að segja hross drepist í einni gryfjunni, sem búið var að grafa þar til undirbúnings þessari verksmiðju, áður en búið var að afgreiða málið úr Ed. Ég vil manna hv. þm. á það, að búið var að ráða tæknilegan framkvæmdastjóra áður en búið var að afgreiða málið á þingi. (Gripið fram í: Hver bar ábyrgð á þessu?) M.a. þáv. hv. forseti Ed. Ég er ekki að kvarta undan stjórn hans á Ed. þá, síður en svo, enda fór ég um stjórn hans lofsorðum þá eins og ég gerði og síðar. Þeir hv. þm., sem stóðu að afgreiðslu þessa máls án þess að nenna að hafa fyrir því að kynna sér það, þessir lúkulipru atkvgr.-menn sem stóðu að afgreiðslu þessa frv. í hið fyrra sinnið af því að það var haft eftir starfsmönnum Union Carbide og í hið síðara sinnið af því að það var haft eftir forsprökkum Elkem Spigerverket, að þetta væri allt í lagi.

Nei, ég legg ekki orkufrekan iðnað allan að jöfnu. Ég get hugsað mér þess háttar stjórn, þess háttar eignaraðild, þess háttar eignarhald á orkufrekum iðnaði og þess háttar verslun með orkufreka vöru framleidda á landi hér að ég gæti stutt slík fyrirtæki heils hugar, að því tilskildu að ég teldi að okkur væri hagur að rekstri slíkra fyrirtækja. En ég tel það efalaust mjög þýðingarmikið nú, ekki síst með tilliti til þeirra ræðuhalda sem átt hafa sér stað á hv. Alþingi nú í vetur, og vitna þá helst til ítarlegra ræðuhalda eins aðaltalsmanns Sjálfstfl. um orkufrekan iðnað, Birgis Ísl. Gunnarssonar í Nd., að það komi skýrt fram við afgreiðslu þessa frv. nú, hvern hag íslenska þjóðin hefur af stóriðju af þessu tagi, af því tagi sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson greiddi atkv. með og studdi.

Birgir Ísl. Gunnarsson sagði í merkilegri ræðu í Sþ. nú í haust að við yrðum að halda áfram svo sem horfði samvinnu við útlendinga um stóriðju á Íslandi vegna þess hags, sem við hefðum haft af samstarfinu við Alusuisse og þess hagnaðar, sem við hefðum haft af járnblendiverksmiðjunni í Hvalfirði. Það er nauðsynlegt að fólk geri sér grein fyrir þeim hagnaði sem við höfum haft af rekstri þessarar verksmiðju í samstarfi við norska auðfélagið. Þetta verður að vera lýðum ljóst í sambandi við afgreiðslu þess máls sem við fjöllum um hér nú. Mennirnir, sem að þessu stóðu, axla ekki af sér neina ábyrgð.

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar á því, að það var ég, en ekki hæstv. iðnrh., sem undirstrikaði nauðsyn þess, að fyrrv. iðnrh. Geirs Hallgrímssonar, Gunnar Thoroddsen, sá maður sem Sjálfstfl. fékk til að stýra þeim armi ráðuneytisins, yrði viðstaddur við 2. umr. þessa máls. Ekki er það vegna þess að ég ætli að nudda honum öðrum fremur upp úr einu né neinu, heldur beinlínis vegna þess að af eðlilegum ástæðum verða mjög margar ívitnanir, margar tilvitnanir, sem ég hlýt að lesa þá upp eftir hæstv. þáv. iðnrh. Gunnari Thoroddsen, núv. forsrh. Fúkyrði voru þar engin, en ég geri ráð fyrir að honum eins og ýmsum öðrum hv. þm., sem bera ábyrgð á því, að nú verðum við að ausa fjármunum í þetta gælufyrirtæki þeirra Þorv. Garðars Kristjánssonar & Co. uppi í Hvalfirði, ausa í það fjármunum sem hefðu nægt til að leggja bundið slitlag á rösklega 1100 km af akvegum landsins, — ég geri ráð fyrir að þeim muni svíða ýmislegt af því sem þar verður haft orðrétt eftir þeim sjálfum. Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson má vel trúa því og hann skal reyna það, að mér skal lukkast að lesa tilvitnanir í ræður hans þannig að hann skilji.

Hv. þm. Lárus Jónsson gaf því heldur betur skóna að einkafyrirtæki gætu borið sig þar sem sameignarfyrirtæki fólksins gætu það ekki. Honum hefur sjálfsagt verið hugsað til Slippstöðvarinnar áður en ríkið hljóp þar undir bagga og lagði fram meiri hluta þar á móti. Kannske hefur það verið sama sem hann var að hugsa um, minnst með gleði, — ég sá ekki betur en gleðibjarminn hyrfi undir flibbann hans, — hugsað með gleði til þess, með hvað ágætum árangri og ágóða Sana var rekin á Akureyri. Nei, við þurfum ekki á þessu stigi að eyða tíma í að lesa upp úr umr. sem fram fóru hér þá. Það kom berlega fram í hinum síðari samningum og voru yfirlýsingar frá forstöðumönnum Elkem Spigerverket og þeirra sem stóðu fremst þar í hópi, að ástæðan fyrir því, að þeir gengu til þessa einkennilega samstarfs, sem þeir tryggðu sig býsna vel í, við Íslendinga um rekstur þessarar verksmiðju uppi á Íslandi, var sú, að þeir fengu raforkuna hérna á hálfvirði. Ástæðan fyrir því, að þeir fengu hana á hálfvirði, var sú, að farið var á stað með raforkuverið að þarflausu fyrir innlendar aðstæður þannig að við sátum uppi með raforku á útsöluverði.

Því er haldið fram af forsvarsmönnum járnblendiverksmiðjunnar á sínum tíma að Union Carbide, ameríski auðhringurinn, hinn 9. stærsti í heimi, hefði bakkað út úr þessu máli vegna þess að það hefði verið skipt um persónuleika í stjórn fyrirtækisins, það hefðu komið inn blíðlyndir menn sem vildu ekki framleiða járn. Þeir keyptu sig burt úr samningnum með því að greiða okkur 800 millj. kr. til að losna við að gerast aðilar að fyrirtæki sem þeir sáu fram á að yrði tap á, en þá var búið að koma málunum þannig fyrir af álappahætti að það þurfti að halda uppboð á raforkunni frá raforkuverinu sem verið var að byggja. Þannig stendur á þessu. Það er nauðsynlegt að við fjöllum ítarlega um þetta mál núna, að við rifjum vel upp ummæli forsprakkanna og leyfum þeim og öðrum að heyra þau, rifjum upp með hvaða hætti þeir skutu skollaeyrum við aðvörunarorðum og útreikningum sem sýndu að við vorum að stefna út í fjárglæfra. Það er nauðsynlegt að við rifjum þessi atriði upp þannig að þau megi verða okkur til varnaðar, ekki síst ef mönnum skyldi koma til hugar að reyna enn, ekki í annað, ekki í þriðja, heldur fjórða sinn, snilli sérfræðinganna sem þeir studdust við þegar þeir samþykktu þetta mál í upphafi.