16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Frv. til laga um brunavarnir og brunamál er hér til 3. umr. Félmn. kom saman og tók til athugunar sérstakar athugasemdir sem höfðu borist í sambandi við þá breytingu sem gerð var á 2. málsgr. 2. gr. frv. við 2. umr. Það höfðu komið mótmæli frá stjórn brunamálastofnunar og eins frá Arkitektafélagi Íslands og raunar óformleg mótmæli frá Verkfræðingafélagi Íslands um þá ákvörðun félmn. að fella niður úr 2. gr. frv. upptalningu á menntunarskilyrðum í sambandi við ráðningu brunamálastjóra, en eins og hv. þm. hafa séð eru í frv. þau skilyrði, að brunamálastjóri skuli vera arkitekt, verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa sérþekkingu á brunamálum. Félmn. leit svo á samhljóða að þessi upptalning væri óþörf, það væri nægjanlegt að hann hefði sérþekkingu á brunamálum þar sem, eins og tekið var fram í framsögu, nefndin hefði lagt þann skilning í þetta ákvæði, að slík sérþekking, sem brunamálastjóri þarf að hafa, byggðist á víðtækari menntun, svo sem háskólaprófi eða tækniskólaprófi og því til viðbótar sérmenntun vegna brunamála. Þess vegna væri upptalning í lögum óþörf því það mætti alveg eins segja að verkfræðingur þyrfti að vera byggingaverkfræðingur, tæknifræðingur byggingatæknifræðingur o.s.frv. Hins vegar er ljóst í sambandi við þau mótmæli sem komu fram, að m.a. lögfræðingar lita svo á að það mundi verða erfitt að fella úrskurð í svona máli ef þetta væri ekki talið upp í lögum. Eftir athugun féllst nefndin á að taka þessar athugasemdir til greina og leggur það til á þskj. 623. Brtt. gerir ráð fyrir að færa greinina aftur í það form sem hún var í upprunalega frv., þ.e. að 3. málsgr. 2. gr. hljóði þannig: „Að fengnum tillögum stjórnar brunamálastofnunarinnar skipar ráðh. brunamálastjóra, skal hann vera arkitekt, verkfræðingur eða tæknifræðingur og hafa sérþekkingu á brunamálum.“

Nefndin varð öll sammála um að flytja þessa brtt. við 3. umr. málsins.