16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3316)

43. mál, brunavarnir og brunamál

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni, að hér sé um óþarflega mikið bákn að ræða, og hef talið og tel að starfsemin eigi að vera deild í Vinnueftirliti ríkisins. Ég fer ekki lengra út í það hér. Ég hef gert það áður, eins og ég tók fram.

Allar breytingar félmn. eru að mínu mati til bóta og mér þykir það því miður að hún skyldi breyta síðustu grein aftur. Brtt. á þskj. 612 tel ég að sé spor í öfuga átt.

Ég tala hér fyrir brtt. hv. þm. Gunnars R. Péturssonar á þskj. 593 þar sem hann leggur til að 18. gr. falli niður. Sú starfsemi, sem gert er ráð fyrir í 18. gr., er nú þegar til. Eftirlitið varðandi allt sem tilheyrir rafmagni er hjá Rafmagnseftirliti ríkisins, og það, sem ekki flokkast undir það, er hjá Vinnueftirliti ríkisins. Þarna er því verið að fá eina nýja stofnun enn til að hafa eftirlit með því sama.

Það er líka óþarfi að veita mönnum sérstök réttindi. Það eru menn með sérstök réttindi nú þegar á þessum sviðum. Það eru pípulagningameistarar og sveinar, vélsmíðameistarar og sveinar og rafvirkjameistarar og sveinar. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að brunamálastofnun fari til viðbótar að löggilda þessa sömu menn sem eru löggiltir fyrir. 18. gr. er því með öllu óþörf.

Frsm. (Alexander Stefánsson): Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því í sambandi við þá brtt. sem hv. 5. þm. Suðurl. var að mæla fyrir við 18. gr., að eins og kemur fram í skýringum við greinina í upprunalega frv. er einmitt gert ráð fyrir þessu í gildandi lögum þegar skipa þarf sérstaka menn til að annast sótun og eftirlit með eldfærum. Vegna breyttrar hitunartækni hafa forsendur fyrir löggildingu á þessum mönnum orðið mikilvægari, og eins og allir vita hefur félmrn. haft með að gera námskeið fyrir slíka menn, sem hafa verið sendir á slík námskeið á vegum sveitarfélaganna. Það er þess vegna talið nauðsynlegt að hafa þetta í lögum, að þessir menn hafi ákveðin réttindi til að gera það sem þar greinir. Ég tel því að þessi brtt. sé á misskilningi byggð.