16.04.1982
Neðri deild: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3850 í B-deild Alþingistíðinda. (3325)

107. mál, almannatryggingar

Frsm. meiri hl. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég fagna því að fá nú að mæla fyrir nál. meiri hl. hv. heilbr.- og trn. en nál. þetta er dags. 16. mars s.l. Þannig að það er orðið nokkuð við aldur þegar talað er fyrir því. Nál. þetta er á þskj. 453, um frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum, sem er 107. mál þingsins.

Eins og menn minnast var með lögum nr. 117/1976 ákveðið að fjármagna rekstur ríkisspítalanna með beinum framlögum úr ríkissjóði. Það frv., sem hér er til afgreiðslu, heimilar að önnur sjúkrahús verði fjármögnuð á sama hátt. Ekki er skilgreint hvaða sjúkrahús það skuli vera, enda hlýtur það að vera samningsatriði í hverju héraði.

Miklar umr. urðu í nefndinni um daggjaldakerfið annars vegar og hins vegar rekstur ríkisspítalanna eftir að hann var færður á fjárlög. M.a. kom Davíð Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri ríkisspítalanna, á fund nefndarinnar. Öllum nm. er ljóst að hvorugt rekstrarformið er gallalaust. Daggjaldanefnd hefur hætt til að vanáætla verðbólguhækkanir og sjúkrahúsin hafa því komist í greiðsluþrot seinni hluta árs. Nefndu menn dæmi að sjúklingar væru beinlínis lagðir inn vegna þarfar á daggjaldi þó að aðgerðin krefðist þess ekki. Komu fram skoðanir í þá veru, að nauðsynlegt væri að endurskoða daggjaldakerfið.

Umsagnir þær, sem greint er frá í nál., voru á ýmsa lund. Helstu andmæli gegn frv. voru þau, að óeðlileg miðstýring yrði frá heilbrmrn. Flestir nm. töldu þó fjárlagaleiðina betri en daggjaldakerfið og mæla með samþykkt frv. Tveir fulltrúar meiri hl. skrifuðu undir með fyrirvara, en tveir skila nál. á sérstöku þskj.